Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 742. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1180  —  742. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (lán til starfsmanna).

Flm.: Pétur H. Blöndal.


I. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: starfsmanns félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir hann allt að 1 millj. kr. á ári.
     b.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 1. mgr.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 154. gr. laganna kemur ný málsgrein sem hljóðar svo:
    Það varðar fangelsi allt að fjórum árum að láta fé ganga í hring með því að láta hlutafélag kaupa eða selja hluti í öðrum lögaðila eða láta hlutafélag lána eða fá lán hjá öðrum lögaðila í þeim tilgangi að sýna aukið eigið fé viðkomandi hlutafélags eða lögaðila án þess að um raunverulega eign sé að ræða. Þetta ákvæði á þó ekki við takmarkaða undanþágu skv. 3. málsl. 2. mgr. 104. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 79. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: starfsmanns félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir hann allt að 1 millj. kr. á ári.
     b.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 1. mgr.

4. gr.

    Á eftir 1. mgr. 128. gr. laganna kemur ný málsgrein sem hljóðar svo:
    Það varðar fangelsi allt að fjórum árum að láta fé ganga í hring með því að láta einkahlutafélag kaupa eða selja hluti í öðrum lögaðila eða láta einkahlutafélag lána eða fá lán hjá öðrum lögaðila í þeim tilgangi að sýna aukið eigið fé viðkomandi einkahlutafélags eða lögaðila án þess að um raunverulega eign sé að ræða. Þetta ákvæði á þó ekki við takmarkaða undanþágu skv. 3. málsl. 2. mgr. 79. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    23. apríl 1997 voru með lögum nr. 35/1997 og lögum nr. 31/1997 samþykktar samhljóða breytingar á lögum um hlutafélög annars vegar og einkahlutafélagalögum hins vegar er fólust í lögfestingu svohljóðandi ákvæðis: „Ákvæði 1.–2. málsl. eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá“ Tilvitnað ákvæði er nú að finna í 3. málsl. 2. mgr. 104. gr. hlutafélagalaga og 3. málsl. 2. mgr. 79. gr. einkahlutafélagalaga. Þarna var gefin undanþága frá almennu banni hlutafélaga og einkahlutafélaga til að lána fyrir kaupum á hlutafé þegar um starfsmenn eða tengda aðila væri að ræða.
    Í almennum athugasemdum í viðkomandi frumvörpum kom fram að þau væru lögð fram í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA sem settar voru fram á grundvelli 1. og 2. félagaréttartilskipunar Evrópusambandsins. Í skýringum við einstakar greinar kom enn fremur fram sá skilningur að með þeim yrði hlutafélagi/einkahlutafélagi ekki bannað að veita starfsmönnum félagsins eða tengds félags lán til að fjármagn kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess. Félaginu væri og heimilt að leggja fram fé eða setja tryggingu í tengslum við slík kaup starfsmanna á hlutum. Sama gilti væri þetta gert fyrir þá.
    Fyrsta umræða um málið fólst í þriggja mínútu ræðu þáverandi viðskiptaráðherra, Finns Ingólfssonar, sem sagði um þetta atriði: „Þá eru í 8. gr. hlutafélagafrv. og 4. gr. einkahlutafélagafrv. gerðar undantekningar frá banni við því að hlutafélög veiti lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess eða leggi fram fé eða setji tryggingar í tengslum við slík kaup. Slíkt bann mun samkvæmt frv. ekki eiga við um t.d. kaup starfsmanna félags eða tengds félags á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess nema í sérstökum tilvikum ef fjárhagur viðkomandi félags þykir leyfa slíkt.“
    Ekkert kom fram um þessa undantekningu í nefndaráliti eða þriggja mínútu ræðu framsögumanns um þessa lagabreytingu.
    Afleiðingar þessara breytinga eru eftirfarandi: Hlutafélag eða einkahlutafélag lánar starfsmanni til dæmis 10 millj. kr. til kaupa á hlutafé fyrir 10 millj. kr., sem félagið gefur út í þessu skyni. Féð fer í hring, frá hlutafélaginu til starfsmannsins og þaðan aftur til hlutafélagsins. Starfsmaður ber ábyrgð og mikla áhættu ef verð hlutabréfanna lækkar. Þá kemur að orðunum eða „tengds félags“ í breytingunum. Starfsmaðurinn getur stofnað einkahlutafélag sem hann á einn, lagt fram lágmarkshlutafé, núna 500 þús. kr., og þetta félag hans kaupir hlutinn. Þá tapar hann að hámarki þessum 500 þús. kr. og áhættan hverfur að mestu en hann getur grætt mikið ef hlutabréf vinnuveitanda hans hækka mikið, t.d. tvöfaldast.
    Áhrif þessara viðskipta á hlutafélagið, sem umræddur starfsmaður starfar hjá, eru þau að það telur skuldabréfið, lánið, sem eign en telur hlutafé sem það hefur selt ekki sem skuld. Eign þess hækkar um 10 millj. kr. Hlutur annarra hluthafa rýrnar þar sem starfsmaðurinn eignast hlutdeild í fyrirtækinu. Sýndaraukning á eigin fé kann að þykja nægilegur ágóði fyrir þá fórn, sérstaklega ef illa árar og mikil krafa er um hátt eigið fé. Þetta var staðan hér á landi 2007.
    Þar sem féð fer í hring og hægt er að takmarka áhættu starfsmannsins eru í raun engin mörk á fjárhæðum. Enda voru menn mjög stórtækir fyrir hrun í þessum efnum. Einstakir starfsmenn tóku yfir milljarð króna að láni til kaupa á hlutabréfum. Við það hækkaði eigið fé t.d. bankanna um tugi milljarða og það hafði áhrif á lánshæfismat þeirra og möguleika til að fá erlent lánsfé og hlutafé. Því má færa rök fyrir því að slíkar aðgerðir hafi nýst hlutafélögunum miklu meira en starfsmönnunum sem sumir lentu í miklum skaða í kjölfarið og rétt er að benda á að þetta ferli er löglegt einmitt samkvæmt þessari heimild sem hér er lagt til að verði verulega takmörkuð.
    Markmið þessara breytinga á lögunum var eflaust sú að hagsmunir starfsmanna og hluthafa færu saman. Ef starf starfsmanna eykur hagnað hlutafélagsins njóta þeir þess í hærra verði á hlut sínum. Þessu markmiði má ná með miklu eðlilegri og heilbrigðari hætti með því að gefa starfsmönnum kauprétt að hlutabréfum. Ef bréfin hækka í verði getur starfsmaðurinn keypt bréf á lægra verði en því sem er í gildi gegn beinhörðum peningum og notið þannig hagnaðar hlutafélagsins.
    Þeir hringferlar fjár sem hér er lýst hafa vegna krosseignarhalds og raðeignarhalds ásamt lánveitingum með veði í hlutabréfum orðið til þess að allt í einu var farið að tala um milljarða með sama hætti og milljónir áður og eigið fé hlutafélaga hækkaði stórlega. Á þessa veilu í hlutafélagaforminu var bent á í frumvarpi um gegnsæ hlutafélög á 139. þingi (þskj. 192, 176. mál). Slík eignamyndun upp úr engu er mjög varasöm og breytir bæði valdahlutföllum og eignahlutföllum á mjög vafasaman hátt.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mikil fléttun hlutafélaga eins og bent var á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og hringferlar fjár sem sköpuðu innistæðulaust eigin fé var hugsanlega ein af meginástæðum hrunsins. Meðfylgjandi glæra sem ríkisskattstjóri sýndi á fundi Félags löggiltra endurskoðanda 14. janúar 2011 sýnir kannski gleggst um hvað málið snýst:
    Vert er að hafa í huga að verg landsframleiðsla var 1.482 milljarðar kr. árið 2008. Ofangreint eigið fé fyrirtækja sem skiluðu rafrænum skattframtölum var 7.183 milljarðar kr. það ár eða næstum fimmföld verg landsframleiðsla. Ári seinna var þetta eigið fé horfið og við það vakna spurningar um gæði ársreikninga og hvert þessi eign fór eða hvort hún hafi yfirleitt verið til. Ári seinna, 2010, var þetta eigið fé um það bil ein verg landsframleiðsla í mínus. Til þess að loka þó ekki sé nema einum slíkum hringferli fjár er þetta frumvarp flutt en jafnframt undirstrikað að loka þarf öllum slíkum hringferlum en það er alþjóðlegt vandamál.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að undanþága frá almennu banni við lánveitingar hlutafélaga til kaupa á eigin hlutabréfum, þ.e. heimild hlutafélaga til að lána einstökum starfsmönnum til kaupa á eigin hlutafé, verði takmörkuð verulega. Þeim verður heimilt að lána allt að 1 millj. kr. til hvers starfsmanns á hverju ári. Það er í eðlilegu samræmi við tekjur fólks og venjulegar eignir og nær því markmiði að hagsmunir starfsmanna og fyrirtækis fari saman. Með þessari breytingu er komið í veg fyrir að hlutafélög geti auki eigið fé sitt umtalsvert án þess að fyrir þeirri eignaaukningu séu raunhæfar eignir og einnig komið í veg fyrir hörmulega áhættutöku einstaklinga. Engan veginn er komið í veg fyrir eðlileg kaup starfsmanna á hlutafé með venjubundnum hætti, þ.e. gegn staðgreiðslu.

Um 2. gr.


    Með hringferlum fjár er átt við t.d. að hlutafélög A, B, C eigi í eftirfarandi viðskiptum. Þau gefa öll út nýtt hlutafé að upphæð 1 millj. kr. A kaupir þennan hlut af B og B notar það fé til að kaupa hlut í C sem aftur nota féð til að kaupa hlut af A. Féð er komið aftur á saman stað en eigið fé allra félaganna hefur vaxið um 1 millj. kr. enda sé ekki um skyldu til samstæðureikningsskila að ræða. T.d. á B hlutabréf í C að verðmæti 1 millj. kr. sem telst eign en hlutabréfin sem seld voru til A, sem verður hluthafi, teljast ekki til skuldar. Eigið fé hlutafélagsins B vex um 1 millj. kr. Völd breytast líka því stjórnir A, B og C fá atkvæði hjá B, C og A og upphaflegir hluthafar tapa því atkvæðamagni. Borgi öll félögin sama arð, 10%, fara 100 þús. kr. frá A til B sem arður og eykur tekjur B sem borgar sama arð, 100 þús. kr., til C og eykur tekjur þess félags. Að lokum greiðir C sama arð til A sem fær auknar tekjur. Þessi aðgerð, sem í reynd breytti engu, jók eigið fé allra félaganna, stjórnirnar fengu aukin völd í hinum fyrirtækjunum á kostnað upphaflegra hluthafa og tekjur allra félaga vaxa varanlega um 100 þús. kr. Krosseignarhald er enn styttri hringur en þá kaupir A hlutinn af B og B kaupir hlutinn af A. Sama gerist þar.
    Oft eru þessir hringir miklu flóknari og stundum er lánveitingum blandað inn í keðjuna (gjarnan kúlulán, sem ekki gjaldfalla svo létt fyrsta kastið). Staða fyrirtækjanna virðist blómstra og hún gabbar bæði matsfyrirtæki og lánveitendur sem og aðra hluthafa og birgja.
Gert er ráð fyrir að bannað verði að taka þátt í að mynda slíkan hringferil fjár með því að kaupa hluti í lögaðila eða lána til lögaðila, sem getur verið t.d. hlutafélag, einkahlutafélag, samlagshlutafélag, sameignarfélag og samvinnufélag og sparisjóður.
    Vegna þess hve alvarlegar afleiðingar slíkir hringferlar fjár hafa á stöðu minni hluthafa, birgja, lánveitenda og alls efnahagslífsins og þjóðfélagsins alls eins og kom í ljós í hruninu er lagt til að refsing við slíku athæfi verði allt að 4 ár. Þeir sem taka eða koma að slíkri ákvörðun bera ábyrgð samkvæmt þessu ákvæði en einnig þeir sem vita eða mega vita af ákvörðuninni, svo sem endurskoðendur og leiðandi starfsmenn.

Um 3. og 4. gr.


    Greinarnar eru samhljóða 1. og 2. gr.

Um 5. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.