Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 477. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1193  —  477. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur
um óhreyfða innlánsreikninga.


    Leitað var til Fjármálaeftirlitsins um aðstoð við vinnslu svarsins. Svör við 1. og 2. tölul. lágu ekki fyrir í Fjármálaeftirlitinu sem bauðst til að afla þeirra væri þess óskað. Að beiðni fyrirspyrjanda óskaði ráðuneytið eftir því að Fjármálaeftirlitið aflaði þeirra upplýsinga.

     1.      Er vitað hversu margir innlánsreikningar hafa staðið óhreyfðir í 15 ár eða lengur?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu, dagsettum 20. mars sl., er um að ræða 100.084 reikninga.

     2.      Er vitað hversu háar upphæðir eru á þeim reikningum?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu, dagsettum 20. mars sl., eru samtals 1.530.245.953 kr. á nefndum reikningum.

     3.      Hvað reglur gilda um innlánsreikninga sem eru óhreyfðir í 15 ár eða lengur?
    Samkvæmt 4. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, fyrnast kröfur vegna innlána eða verðmæta sem lögð hafa verið inn hjá fjármálafyrirtæki, opinberum sjóði eða öðrum aðila, sem hefur heimild að lögum til að taka við innlánum frá almenningi, auk vaxta af slíkum kröfum, á 20 árum frá þeim degi er verðmætin voru lögð inn. Nýr fyrningarfrestur byrjar að líða þegar kröfuhafi hefur fengið umráð fjármunanna með því að taka þá út eða setja fjármuni inn á reikninginn. Fyrningu er hins vegar ekki slitið við það eitt að áfallnir vextir séu lagðir við innstæðuna. Slíkar kröfur fyrnast þó því aðeins að viðtakandi fjármunanna veki athygli kröfuhafa eða erfingja hans, tímanlega og á sannanlegan hátt, á að krafan sé að fyrnast.