Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 520. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1200  —  520. mál.
Svarinnanríkisráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar um stöðu mannréttindamála.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við nýútkominni skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi?
    Á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fer fram regluleg skoðun á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjum, svokallað Universal Periodic Review (UPR) og fer skoðunin fram á jafningjagrundvelli ríkja. Ísland skilaði stöðuskýrslu um ástand mannréttindamála hérlendis sl. sumar og sendinefnd undir forustu innanríkisráðherra og skipuð fulltrúum innanríkisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis sat fyrir svörum um framkvæmd þeirra gagnvart öðrum ríkjum heims á vettvangi mannréttindaráðsins í október sl. Fyrirspurnir og tillögur annarra ríkja, sem settar voru fram í fyrirtökunni, hafa verið aðgengilegar á vefsíðu mannréttindaráðsins um nokkurt skeið, auk þess sem gerð var grein fyrir þeim á vef innanríkisráðuneytisins. Hinn 9. desember sl. stóð ráðuneytið jafnframt fyrir opnum fundi í Hörpu þar sem sendinefndin kynnti niðurstöður fyrirtökunnar og sat fyrir svörum. Lokaskýrsla fyrirtektarinnar var tekin til samþykktar á fundi mannréttindaráðsins 15. mars sl. 1
    Tilgangur UPR-ferlisins sem komið var á laggirnar árið 2006 er bæði að varpa ljósi á það sem vel er gert í framkvæmd mannréttindamála og benda á atriði sem ríki telja mega betur fara hvert í framkvæmd annars. Í því skyni beina þau tilmælum hvert til annars sem ríkið sem er til skoðunar hefur tækifæri til þess að taka afstöðu til.
    Íslensk stjórnvöld fengu fjölmargar jákvæðar athugasemdir og er litið til Íslands sem fyrirmyndar á sumum sviðum. Fulltrúar í mannréttindaráðinu veittu meðal annars athygli aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að vinna að jafnrétti kynjanna, aðgerðum gegn mansali og vændi, bættri löggjöf um hælisleitendur, auk þess sem Barnahúsinu var hrósað sérstaklega og stjórnvöld hvött til þess að vinna að útbreiðslu þess alþjóðlega, svo eitthvað sé nefnt.
    Samtals fékk Ísland 84 athugasemdir í ferlinu. Eftir skoðun sérfræðinga var niðurstaðan sú að að Ísland samþykkti 41 athugasemd og eina til viðbótar að hluta til. 27 athugasemdir voru samþykktar og taldar vera komnar til framkvæmda nú þegar, en tvær athugasemdir og hluta úr einni til viðbótar samþykkti Ísland ekki. Ekki var tekin bein afstaða til 12 athugasemda og hluta af tveimur til viðbótar heldur hétu stjórnvöld því að taka efni þeirra til skoðunar og kanna hvort ástæða væri til að ráðast í framkvæmd þeirra hérlendis og þá eftir atvikum með hvaða hætti. Athugasemdir sem Ísland hét að taka til efnislegrar skoðunar vörðuðu allar hvatningu til þess að undirgangast alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar, sbr. svar 2. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Flestar athugasemdanna lutu að áhyggjum af stöðu útlendinga, kynbundnu ofbeldi og meðferð kynferðisbrota og heimilisofbeldismála, kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, jafnrétti kynjanna og fangelsismálum. Einnig voru íslensk stjórnvöld hvött til að koma á laggirnar innlendri mannréttindastofnun í samræmi við alþjóðleg viðmið 2 og undirgangast ýmsar mannréttindaskuldbindingar.
    Ráðuneytið undirbýr nú stefnumótun á sviði mannréttindamála í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem meðal annars verður tekið mið af þeim athugasemdum sem komu fram í UPR-ferlinu. Tveir hópar móta stefnuna: Nefnd skipuð fulltrúum allra ráðuneyta sem annast úrvinnslu ábendinga í tengslum við fyrirtöku á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og samráðshópur sem er vettvangur fulltrúa félagasamtaka, fræðasamfélagsins og stjórnvalda. Rík áhersla er lögð á víðtækt og markvisst samráð.
    Athugasemdum af alþjóðlegum vettvangi, þ.m.t. athugasemdum í UPR-ferlinu, verður komið í skipulegan farveg á grundvelli áætlunarinnar til þess að stuðla enn frekar að því að mannréttindi séu í öndvegi í sem flestum verkum stjórnvalda og að ábendingar komist til framkvæmda og stuðli þannig með uppbyggilegum hætti að framþróun mannréttindaverndar á Íslandi. Þetta styður einnig markmiðið með landsáætluninni um að mannréttindasjónarmið séu undirstaða allrar stefnumörkunar í samfélaginu og í verkum stjórnvalda.
    Í tengslum við mótun landsáætlunarinnar hefur ráðuneytið efnt til mánaðarlegra morgunverðafunda þar sem fjallað er um mannréttindi í víðum skilningi. Fundaröðin er skipulögð í samvinnu við hagsmunaaðila og fulltrúa fræðasamfélagsins. Efni fundanna verður bæði nýtt sem innlegg í mótun mannréttindastefnu hér á landi og til að varpa ljósi á það hvernig best verður brugðist við ábendingum varðandi framkvæmd og stöðu alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að og þróun mannréttindamála almennt hér á landi.
    Efni fundanna hefur kallast á við ábendingar sem Ísland fékk í UPR-ferlinu og niðurstöður frá öðrum alþjóðlegum eftirlitsaðilum með stöðu mannréttinda á Íslandi. Fjallað hefur verið um samning Evrópuráðsins um baráttu gegn og bann við ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi sem Ísland hefur ekki fullgilt, um stöðu tjáningarfrelsisins í lýðræðislegu tilliti, um trúfrelsi á Íslandi og um mannréttindi geðsjúkra. Í framhaldinu er stefnt að því að halda fundi til þess að fá fram sjónarmið um íslenska mannréttindastofnun, um lögfestingu mannréttindasamninga, tjáningarfrelsi á netinu og fordóma svo eitthvað sé nefnt.

     2.      Hvaða sáttmála og viðauka Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi sem fjallað er um í skýrslu mannréttindaráðsins hefur Ísland ekki staðfest?
     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Ísland staðfesti þá sáttmála sem um getur í 2. tölul. og þá hverja og hvenær? Óskað er eftir rökstuðningi í þeim tilvikum þar sem ekki verður lögð til staðfesting Íslands.

    Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið unnið að gerð margvíslegra mannréttindasamninga, en níu þeirra hafa verið skilgreindir sem kjarni mannréttinda. Ísland hefur fullgilt eftirfarandi sjö samninga af níu. Valkvæðir viðaukar við samningana hafa ekki verið greindir sem kjarnaréttindi.
     *      Alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
     *      Alþjóðasamningurinn um afnám allrar kynþáttamismununar.
     *      Alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
     *      Samningurinn um réttindi barnsins.
     *      Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum.
     *      Alþjóðasamningur gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
    Þeir samningar sem greindir hafa verið kjarnasamningar og Ísland er ekki aðili að eru:
     *      Samningurinn um réttindi farandverkafólks og fjölskyldna þeirra. 3
     *      Samningurinn um bann við þvinguðum mannshvörfum. 4
     *      Samningurinn um réttindi fatlaðs fólks. 5

    Samningsskuldbindingar sem Ísland var hvatt til þess að fullgilda í UPR-ferlinu og afstaða stjórnvalda til þeirra eru eftirfarandi:

Samningurinn um réttindi farandverkafólks og fjölskyldna þeirra.
    Ekkert Norðurlandanna hefur fullgilt samninginn og heldur engin ríki sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu. Hafa þau borið því við að ákvæði samningsins feli í sér að mögulegt verði að færa lágmarksvernd farandverkamanna niður fyrir það sem almennt er viðurkennt í Evrópu. Norðmenn og Danir höfnuðu hvatningum um að fullgilda samninginn í UPR- ferlum sínum. Íslensk stjórnvöld hyggjast engu að síður skoða samninginn efnislega og ákveða hvort hann verður fullgiltur fyrir Íslands hönd áður en næst kemur að Íslandi í UPR- ferlinu, árið 2016.

Valkvæður viðauki við samninginn um bann við pyntingum og ómannúðlegri meðferð og refsingum. 6
    Viðaukinn kveður á um að eftirlitsnefnd á grundvelli samningsins verði hemilað að heimsækja og ræða einslega við vistmenn á stofnunum þar sem frelsissviptir eða einstaklingar með takmarkað ferðafrelsi dveljast. Jafnframt er kveðið á um að ríkjum beri að setja á stofn sjálfstæða stofnun sem skal hafa það lögbundna hlutverk að vinna að forvörnum varðandi pyndingar og illa meðferð í viðkomandi ríki.
    Norðmenn settu þetta verkefni í forgang við úrvinnsu UPR-athugasemda sinna og hafa nú falið umboðsmanni þingsins að sinna verkefninu. Allur gangur er á hvort mannréttindastofnanir, 7 stofnanir sambærilegar umboðsmanni Alþingis eða sérstökum einingum með þennan tilgang einan hefur verið falið verkefnið í öðrum Evrópuríkjum.
    Kostnaður við fullgildingu fælist í breytingum á stofnanaumhverfi og þýðingakostnaði.
    Íslensk stjórnvöld hafa heitið því að skoða bókunina efnislega með hugsalega fullgildingu í huga og upplýsa um niðurstöðu þessa ferlis áður en næst kemur að Íslandi í UPR-ferlinu, árið 2016.

Samningur UNCESCO um bann við mismunun í menntun. 8
    Samningurinn er nokkuð kominn til ára sinna og sérfræðingar mennta- og menningarmálaráðuneytis telja að íslensk skólalöggjöf tryggi þau réttindi sem fjallað er um í samningnum mun betur en samningurinn kveður á um.
    Engu að síður hafa íslensk stjórnvöld heitið því að skoða samninginn efnislega með hliðsjón af mögulegri fullgildingu hansog upplýsa um niðurstöður þeirrar vinnu áður en næst kemur að Íslandi í UPR-ferlinu, árið 2016.

Afnám fyrirvara Íslands við samninginn um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi.
    Fyrirvarar Íslands lúta að:
     *      B-lið 2. mgr. og annarri setningu 3. mgr. 10. gr samningsins hvað varðar fangelsisvistun ungra fanga. Fyrirvarinn er efnislega sambærilegur þeim sem Ísland hefur sett við 37. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
     *      7. mgr. 14. gr. varðandi endurupptöku dómsmála,
     *      1. mgr. 20. gr. hvað varðar bann við stríðsáróðri.
    Í síðustu skýrslu til mannréttindanefndarinnar á grundvelli samningsins, sem er frá 2010 og verður tekin fyrir á fundi nefndarinnar í júlí 2012, var ekki fallist á hvatningar nefndarinnar til þess að fella úr gildi eftirgreinda fyrirvara við ákvæði samningsins og talið að ákvæði hans séu að fullu tryggð í framkvæmd. Norðmenn, Danir, Finnar og Svíar hafa einnig lýst því yfir að þeir muni standa við þessa fyrirvara.

Samningurinn um vernd gegn þvinguðum mannshvörfum.
    Samningurinn kveður á um bann við ólögmætri frelsissviptingu með stuðningi, í skjóli eða í þágu ríkis, sem og því að veita ekki upplýsingar um hvar frelsissviptan mann er að finna eða að veita honum ekki frelsi sitt aftur.
    Sérfræðingar telja að fullgilding samningsins fæli ekki í sér umfangsmiklar efnisbreytingar á íslenskri löggjöf, aðallega muni reyna á lögsögureglur og framsalsákvæði. Fullgilding fæli einnig í sér skyldu til þess að lúta eftirliti sérfræðinganefndar um framkvæmd samningsins.
    Áætlaður þýðingarkostnaður vegna samningsins er um 500 þúsund krónur, en þar að auki verður að gera ráð fyrir kostnaði í tengslum við reglulegar skýrslugjafir til sérfræðinganefndar.
    Íslensk stjórnvöld hafa heitið því að skoða samninginn efnislega með hliðsjón af hugsanlegi fullgildingu samningsins og taka afstöðu til þessa áður en næst kemur að Íslandi í UPR- ferlinu, árið 2016.

Valkvæður viðauki við samninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. 9
    Bókunin kveður á um kæruleið fyrir einstaklinga til eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd samningsins.
    Á alþjóðavettvangi hefur Ísland stutt við verkefnið og í skýrslu um mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands frá árinu 2007 er aðild að bókuninni skilgreind sem forgangsverkefni.
    Mikilvægt er að íhuga vandlega aðild Íslands að skuldbindingum sem kveða á um kæruheimildir fyrir einstaklinga til sérfræðinganefnda á borð við þessa svo tryggja megi að ákvarðanir nefndarinnar hafi raunverulega þýðingu fyrir viðkomandi einstaklinga.
    Íslensk stjórnvöld hafa heitið því að skoða bókunina efnislega með hliðsjón af hugsanlegri fullgildingu og upplýsa um niðurstöður þessarar vinnu áður en næst kemur að Íslandi í UPR- ferlinu, árið 2016.

Samningar Sameinuðu þjóðanna um ríkisfangsleysi (1954 og 1961). 10
    Samkvæmt samningnum frá 1954 eru þeir ríkisfangslausir sem ekki eru taldir með ríkisfang neins ríkis samkvæmt lögum. Með samningnum taka aðildarríki á sig þær skyldur að veita ríkisfangslausum tiltekin réttindi. Ákvörðun um hvort tiltekinn einstaklingur fellur undir skilgreiningu ríkisfangsleysis samkvæmt samningnum er tekin af hálfu hvers aðildarríkis fyrir sig.
    Með samningnum frá 1961 taka aðildarríki á sig þær skyldur að breyta löggjöf heimaríkis til samræmis við þær skuldbindingar sem fram koma í samningnum en með samningnum eru útfærðar leiðir til þess að draga úr fjölgun ríkisfangslausra í heiminum. Samningurinn kemur ekki í veg fyrir að ríkisfang verði afturkallað í undantekningartilvikum né heldur veitir hann öllum þeim sem fæðst hafa án ríkisfangs ríkisborgararétt með afturvirkum hætti. Samningurinn kveður á um stofnun sjálfstæðrar og óháðrar nefndar sem taka skuli afstöðu til kærenda sem telja sig eiga réttindi samkvæmt samningnum. Nágrannaþjóðirnar, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa öll fullgilt báða samningana.
    Á ríkjaráðstefnu Alþjóðlega Rauða krossins á síðasta ári strengdi Ísland þess heit að fullgilda báða samningana fyrir árið 2015. Undirbúningsvinna vegna þessa er á frumstigum í innanríkisráðuneytinu.
    Kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir en gróft mat sem gerir ráð fyrir þýðingarkostnaði og vinnu sérfræðinga gerir ráð fyrir að kostnaður við lagabreytingar vegna fullgildingar verði að minnsta kosti um ein milljón króna.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 11
    Vinna er þegar hafin við breytingar á íslenskum lögum svo fullgilda megi samninginn sem Ísland hefur undirritað.
    Íslensk stjórnvöld samþykktu tilmæli um að halda áfram vinnu við fullgildingu samningsins.

Valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 12
    Viðaukinn kveður á um kæruleið fyrir einstaklinga til eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd samningsins.
    Ísland hefur undirritað viðaukann, en ekki fullgilt.
    Íslensk stjórnvöld hétu því að skoða bókunina efnislega með tilliti til hugsanlegrar fullgildingar og upplýsa um niðurstöðurnar áður en næst kemur að Íslandi í UPR-ferlinu, árið 2016.
Neðanmálsgrein: 1
1     Á meðfylgjandi slóð á heimasíðu mannréttindaráðsins má finna skýrslu Íslands, athugasemdir annarra ríkja og svör Íslands við þeim athugasemdum. Á slóðinni má einnig finna skuggaskýrslu íslenskra mannréttindasamtaka og samantekt úr skýrslum eftirlitsnefnda Sameinuðu þjóðanna: www.ohchr.org/ EN/HRBodies/UPR/PAGES/ISSession12.aspx.
Neðanmálsgrein: 2
2     Hin svokölluðu Parísarviðmið um mannréttindastofnanir eru aðgengileg á þessari slóð: www2.ohchr.org/english/law/parisprinciples.htm. Stofnunina þarf að setja á laggirnar með lögum þar sem fjárveitingar til hennar og sjálfstæði hennar er tryggt.
Neðanmálsgrein: 3
3     The International Convention on the Protection of the Rights of All Migrant Workers and Members of Their Families.
Neðanmálsgrein: 4
4     Convention for the Protection of All Persons from Enforced Disappearance.
Neðanmálsgrein: 5
5     Convention on the Rights of Disabled People.
Neðanmálsgrein: 6
6     Optional Protocol to the Convention against Torture and other Cruel, Inhuman or Degrading Treatment or Punishment.
Neðanmálsgrein: 7
7     Stofnanir sem uppfylla Parísarreglurnar svokölluðu, alþjóðleg viðmið um umhverfi mannréttindastofnana. Ísland hefur ekki á að skipa slíkri stofnun.
Neðanmálsgrein: 8
8     UNESCO Convention against Discrimination in Education.
Neðanmálsgrein: 9
9     Optional Protocol to the Covenant on, Economic, Social and Cultural Rights.
Neðanmálsgrein: 10
10     Convention relating to the Status of Stateless Persons og 1961 Convention on the Reduction of Statelessness.
Neðanmálsgrein: 11
11     The Convention on the Rights of Persons with Disabilities.
Neðanmálsgrein: 12
12     Optional Protocol on the Convention on the Rights of Persons with Disabilities.