Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1205  —  620. mál.
Svarvelferðarráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur um heilsustefnu.


     1.      Hvernig gekk að framfylgja heilsustefnu heilbrigðisráðherra árin 2008–2011?
    Í nóvember árið 2008 kynnti þáverandi heilbrigðisráðherra fyrsta hluta heilsustefnu heilbrigðisráðherra, Heilsa er allra hagur, eða réttara sagt fyrsta hluta aðgerðaáætlunar stefnunnar. Heilsustefnan sjálf var aldrei gefin út heldur aðeins inngangur hennar og fyrsti hluti aðgerðaáætlunar. Aðgerðaáætlunin innihélt 11 markmið sem náðu flest til ársloka 2009 en nokkur til ársloka 2010.
    Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 var staða ríkissjóðs erfið og forgangsraða þurfti verkefnum upp á nýtt. Aðgerðaáætluninni var því ekki framfylgt að fullu en þar sem hún byggðist meðal annars á verkefnum sem þegar voru í gangi var unnið með ýmsa þætti hennar áfram og nýjum verkefnum einnig ýtt úr vör.

     2.      Liggja fyrir árangursmælingar á einstökum markmiðum stefnunnar?
    Aðgerðaáætlunin innihélt 11 markmið með 30 aðgerðum. Markmiðin sjálf voru ekki mælanleg heldur voru flestar aðgerðirnar sem féllu undir markmiðin mælanlegar. Eins og áður hefur komið fram í svörum velferðarráðherra á Alþingi hafa ýmsar af aðgerðunum gengið eftir þótt árangursmælingarnar hafi ekki verið framkvæmdar.

Markmið 1: Stuðla að heilbrigðum lífsháttum einstaklinga, barna og fjölskyldna.
Aðgerð:

1:1 Að funda með 50% heilsugæslustöðva og sveitarfélaga á landinu til að efla forvarnir og heilsueflingu í heilsugæslu og í sveitarfélögum landsins.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um hve margir fundir voru haldnir með heilsugæslustöðvum og sveitarfélögum til ársloka 2009 þar sem þetta var meginefni fundanna. Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) hefur veitt ráðgjöf í tengslum við heilsueflandi skóla og heilsueflandi vinnustaði eins og lýsing á markmiðinu kveður á um og hefur ásamt Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins unnið fjölmörg verkefni er miða að forvörnum og heilsueflingu í heilsugæslu og sveitarfélögum landsins.

Markmið 2: Stuðla að andlegu heilbrigði og vellíðan með því að styrkja geðrækt innan heilsugæslunnar og fræða almenning um geðheilbrigði.
Aðgerðir:

2:1 Að fræða 25% heilsugæslustöðva um geðheilbrigði og geðrækt til að efla þekkingu á meðal heilbrigðisstarfsmanna í heilsugæslunni.
    Þessi mæling hefur ekki verið framkvæmd en fjöldi námskeiða hefur verið haldinn á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir heilbrigðisstarfsmenn um geðvernd og tengslamyndun, innleiðingu forvarna gegn kynferðislegu ofbeldi og fræðslu um geðheilbrigði svo að fátt eitt sé nefnt. Hundruð heilbrigðisstarfsmanna hafa sótt þessi námskeið. Þá hefur samstarfsverkefnið Þjóð gegn þunglyndi á vegum embættis landlæknis unnið mikið fræðslustarf með heilsugæslustöðvum á landsvísu.

2:2 Að auka færni fagfólks á fyrstu stigum heilbrigðisþjónustu til að styðja foreldra í uppeldishlutverkinu með því að tryggja að allar heilsugæslustöðvar hafi fengið námskeið og ráðgjöf varðandi jákvætt uppeldi.
    Fjöldi leiðbeinendanámskeiða hefur verið haldinn fyrir fagfólk innan heilsugæslunnar til að halda uppeldisnámskeið og námskeið fyrir börn með ADHD.

2:3 Að tryggja að uppeldisfræðsla verði orðin hluti af almennri heilsuvernd barna.
    Ekki hefur verið kannað hvort þetta sé að fullu tryggt en í nýrri handbók í ung- og smábarnavernd er aukin áhersla lögð á leiðbeiningar um hegðun og uppeldi barna. Fjöldi færniþjálfunarnámskeiða hefur verið haldinn innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir foreldra og börn, svo sem uppeldisnámskeið og námskeið um ADHD.

2:4 Að styðja við félagasamtök sem aðstoða þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.
    Ekki hefur tekist að fá upplýsingar um heildarsölu bókarinnar Velgengni og vellíðan – um geðorðin 10 eins og gert var ráð fyrir í heilsustefnunni. Lýðheilsustöð gaf vinnu og prentun á 5.000 eintökum bókarinnar og rann öll innkoma óskipt til Jólahjálparinnar. Velferðarráðuneytið hefur veitt fjölda styrkja til félagasamtaka sem vinna með ýmsum hætti að því að aðstoða þá sem minnst mega sín í samfélaginu.

Markmið 3: Auka framboð á heilsueflandi meðferð.
Aðgerð:

3:1 Að innleiða ávísun á hreyfingu hjá heilsugæslustöðvum.
    Þótt aðgerðin hafi ekki gengið eftir innan tímamarka þá er nú í gangi tilraunaverkefni um ávísun á hreyfingu í samvinnu við sjúkraþjálfunarstöðvar og fimm heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Markmið 4: Auka aðgengi að heilsutengdum upplýsingum á netinu.
Aðgerð:

4:1 Að opna vefsíðu með fróðleik um heilsu frá fagfólki.
    Þessi aðgerð gekk eftir með opnun heimasíðunnar 6h.is árið 2009 um forvarnir þar sem helstu markhópar eru foreldrar, unglingar og börn. Í byrjun árs 2010 var opnuð vefsíðan Frjáls.is fyrir fagfólk um leiðir til að aðstoða skjólstæðinga við lífsstílsbreytingar.

Markmið 5: Leggja mat á bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana á lýðheilsu.
Aðgerð:

5:1 Að taka upp lýðheilsumat þannig að gert verði lýðheilsumat á öllum málum sem heilbrigðisráðherra leggur fram á Alþingi.
    Ekki hefur verið tekið upp lýðheilsumat en æskilegt væri við stjórnvaldsákvarðanir að leggja mat á hvort þær hefðu áhrif á lýðheilsu til góðs eða ills, rétt eins og að leggja mat á áhrif stjórnvaldsákvarðana á jafnréttismál.

Markmið 6: Stuðla að aukinni þekkingu almennings á næringarinnihaldi matvæla ásamt því að auka neyslu og aðgengi að hollum matvælum.
Aðgerðir:
6:1 Að leita leiða í samvinnu við verslanir og framleiðendur matvæla til að draga úr salti, sykri, mettaðri fitu og transfitusýrum í matvælum og tryggja að dregið hafi úr salti í brauðmeti í lok árs 2009.
    Á árinu 2007 var unnið með Landssambandi bakarameistara við að kortleggja saltmagn í brauðum og leita leiða til að fá bakara til að draga úr saltnotkun. Ekki voru gerðar mælingar í lok árs 2009 eins og kveðið var á um en mælingar frá apríl 2008 leiddu í ljós lækkun frá fyrri mælingum eða svipuð gildi og er þróunin til lækkunar á salti. Þess má geta að Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) hefur lengi talað fyrir því að framleiðendur minnki salt, sykur, mettaða fitu og transfitusýrur í matvælum sínum, t.d. salt í unnum kjötvörum, og hefur hvatt kaupendur, t.d. skólamötuneyti, til að setja gæðakröfur varðandi þessi næringarefni. Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) hefur einnig unnið með Ríkiskaupum varðandi gæðaviðmið í innkaupum á matvælum. Í janúar 2012 voru birtar niðurstöður landskönnunar á mataræði landsmanna 2010–2012 sem sýna að mataræði Íslendinga hefur þokast nær ráðleggingum um heilsusamlegt mataræði frá árinu 2002 þegar hliðstæð rannsókn fór síðast fram. Má þar m.a. nefna að markmiðum um takmörkun á neyslu transfitusýra er náð, neysla á viðbættum sykri hefur minnkað og er að meðaltali innan ráðlegginga og saltneysla landsmanna hefur að meðaltali minnkað um 5% frá árinu 2002 en er enn yfir ráðlögðum dagskammti. Að landskönnuninni stóðu embætti landlæknis, Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala.

6:2 Að setja reglur um hámarksmagn transfitusýra í matvælum fyrir lok árs 2010.
    Bæði velferðarráðuneytið og Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) hvöttu mjög til að settar yrðu reglur um hámarksmagn transfitusýra og tók reglugerð sem kveður á um þetta gildi 1. ágúst 2011.

6:3 Að vinna að því að hollari vörur verði staðsettar á áberandi stöðum í verslunum og að tryggja að 100% þátttaka matvöruverslana hafi náðst í lok árs 2009.
    Ekki hefur verið könnuð hver þátttakan var en Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) hefur vakið athygli verslunareigenda á að þeir geti haft áhrif á neyslu landsmanna til góðs eða ills og hvatt þá til að nota þau áhrif til góðs. Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) hefur líka hvatt verslunareigendur, sem selja matvæli og sætindi og bjóða afsláttarkjör á sætindum einu sinni eða oftar í viku, að bjóða sömu afsláttarkjör á ávöxtum og grænmeti.

6:4 Að vinna að því að grænmeti, ávextir og aðrar hollustuvörur verði til sölu í þeim íþróttamannvirkjum og sundstöðum sem selja matvæli og að þátttaka rekstraraðila íþróttamannvirkja og sundstaða verði 100% í lok árs 2009.
    Ekki hefur verið könnuð hver þátttakan var en Lýðheilsustöð vann leiðbeiningar fyrri hluta árs 2008 fyrir íþróttafélög og forsvarsmenn íþróttamannvirkja um matarframboð og sendi öllum rekstraraðilum íþróttamannvirkja þær upplýsingar.

6:5 Að heilsusamleg skilaboð fyrirmynda hangi upp í skólum og íþróttamannvirkjum í lok árs 2009.
    Gerð voru veggspjöld með silfurhetjunum frá Ólympíuleikunum í Peking og fleiri aðilum með skilaboðum um heilsusamlegt líferni. Fjölda veggspjalda var dreift en ekki var gerð könnun á því hve víða þau héngu í skólum eða íþróttamannvirkjum í lok árs 2009.

Markmið 7: Stuðla að heilbrigðum lífsháttum meðal barna á leikskólaaldri.
Aðgerðir:

7:1 Að allir leikskólar hafi fengið hvatningu og eða aðstoð í lok árs 2009 við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barna og starfsmanna þar sem komið verði á samstarfi við foreldra.
    Unnið hefur verið með leikskólum í tengslum við verkefnið Allt hefur áhrif, einkum við sjálf! að því að stuðla að bættu mataræði og aukinni hreyfingu. Verkefnið er þróunarverkefni Lýðheilsustöðvar unnið í samvinnu við sveitarfélögin í landinu og hófst raunar strax árið 2004 og hefur það að markmiði að bæta lífshætti barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á hreyfingu og góða næringu.

7:2 Að gefa út DVD-disk fyrir leikskóla með leikjum og æfingum til að auka hreyfingu meðal barna og að hann verði kominn í alla leikskóla landsins í lok árs 2009.
    Þetta hefur ekki verið framkvæmt.

7:3 Að 30% leikskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs 2009 um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni sem útfærðar eru í handbók fyrir skólamötuneyti.
    Ekki hefur verið ráðist í þetta verkefni því skiptar skoðanir eru um ágæti slíkra viðurkenninga þar sem setja þyrfti upp einhvers konar eftirlit með tilheyrandi kostnaði til að tryggja að farið væri í öllu eftir ráðleggingunum.

Markmið 8: Stuðla að heilbrigðum lífsháttum meðal barna á grunnskólaaldri.
Aðgerðir:

8:1 Að allir grunnskólar hafi fengið hvatningu og/eða aðstoð í lok árs 2009 við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni, þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda og starfsmanna þar sem komið verði á samstarfi við foreldra- og nemendaráð.
    Þessi mæling hefur ekki verið framkvæmd en unnið hefur verið með grunnskólum í tengslum við verkefnið Allt hefur áhrif, einkum við sjálf! að því að stuðla að bættu mataræði og aukinni hreyfingu. Einnig hefur verið unnið að frekari útfærslu á þessu markmiði í verkefninu heilsueflandi grunnskóli sem Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) hefur unnið í samstarfi m.a. við mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóla og Samband íslenskra sveitarfélaga. Handbók til að styðja við heilsueflingu og forvarnir í grunnskólum var gefin út árið 2010 og hafa grunnskólar tekið verkefninu afar vel.

8:2 Að 30% grunnskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs 2009 um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni sem útfærðar eru í handbók fyrir skólamötuneyti.
    Í tengslum við verkefnið Allt hefur áhrif, einkum við sjálf! hefur verið veitt endurgjöf úr niðurstöðum kannana um framboð á næringu samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar (nú embættis landlæknis) til sveitarfélaga en ekki er um að ræða að skólar sæki sérstaklega um viðurkenningu. Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) vinnur einnig að hvatningu og ráðgjöf í tengslum við verkefnið heilsueflandi grunnskólar.

8:3 Að öll frístundaheimili hafi fengið hvatningu til að bjóða upp á næringu í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar í lok árs 2009.
    Þetta markmið náðist þar sem öll frístundaheimili fengu tölvupóst þar sem þau voru hvött til að bjóða upp á næringu í samræmi við ráðleggingarnar. Þá var hringt í hvert sveitarfélag og í kjölfarið var þeim sent erindi þar sem leiðbeiningarnar voru kynntar og þau hvött til að fylgja þeim á frístundaheimilum sínum. Að auki hefur Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) fylgt eftir ráðleggingunum til frístundaheimila með fyrirlestrum.

8:4 Að allir grunnskólar og foreldrar hafi verið hvattir til að auka hreyfingu barna í lok árs 2009.
    Ekki hafa allir grunnskólar og foreldrar tekið þátt í átakinu en stór hluti þó. Verkefnið Allt hefur áhrif, einkum við sjálf! miðar meðal annars að þessu. Árið 2010 gaf Lýðheilsustöð út ítarlega handbók um hreyfingu fyrir grunnskóla. Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) hefur einnig verið samstarfsaðili um verkefnin Göngum í skólann og Lífshlaupið sem hvetja grunnskólabörn til daglegrar hreyfingar.

8:5 Að grunnskólar séu án tóbaks og vímuefna í lok árs 2010.
    Því miður voru grunnskólar ekki tóbaks- og vímuefnalausir í lok árs 2010 eins og markmiðið kvað á um. En kannanir sýna að enn dregur úr tóbaksnotkun og notkun vímuefna í grunnskólum. Verkefnið Tóbakslausir grunnskólar hóf göngu sína árið 2010. Ráðleggingar Lýðheilsustöðvar (nú embættis landlæknis) um tóbaksvarnir í grunnskólum landsins hafa verið afhentar öllum grunnskólum landsins og hægt er að fá frekari kynningu. Þá hefur Evrópuverkefnið Reyklaus bekkur staðið í 12 ár og allt að 70% nemenda í 7. og 8. bekk hafa verið þátttakendur í því.

Markmið 9: Stuðla að heilbrigðum lífsháttum meðal ungmenna á framhaldsskólaaldri.
Aðgerðir:

9:1 Að allir framhaldsskólar hafi fengið hvatningu og/eða aðstoð við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda og starfsmanna með áherslu á heilsueflingu og forvarnir þar sem komið verði á samstarfi við foreldra- og nemendafélög.
    Öllum framhaldsskólum hefur verið boðið að taka þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskólar á vegum Lýðheilsustöðvar (nú embættis landlæknis) og taka 25 framhaldsskólar nú þátt í verkefninu. Helstu viðfangsefni eru næring, hreyfing, geðrækt og lífsstíll og eru viðurkenningar veittar fyrir árangur í hverjum flokki.
    Í október 2010 var endurnýjaður samningur um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum til þriggja ára, svokallað HOFF-verkefni.

9:2 Að í lok 2009 verði búið að hvetja alla framhaldsskóla til aukins aðgengis að hollum mat í skólunum og veita starfsmönnum mötuneyta ráðleggingar um hollt mataræði.
    Lýðheilsustöð gaf út árið 2010 handbók um mataræði í framhaldsskólum sem var fylgt eftir í öllum framhaldsskólum með fyrirlestrum fyrir starfsfólk mötuneyta, starfsfólk skólanna og nemendur.

9:3 Að 30% framhaldsskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni sem útfærðar eru í handbók fyrir skólamötuneyti?
    Handbók um mataræði í framhaldsskólum var gefin út í tengslum við verkefnið Heilsueflandi framhaldsskólar og fylgir henni gátlisti. Þeim skólum sem uppfylla ákveðnar kröfur í samræmi við gátlista um næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl er svo veitt viðurkenning sem heilsueflandi framhaldsskóli. Skólar geta síðan öðlast brons-, silfur- og gullviðurkenningar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

9:4 Að koma á fót íþróttamótum í framhaldsskólum í samvinnu við félög framhaldsskólanema, menntamálaráðuneyti og Íþróttasamband Íslands þannig að 100% þátttaka verði meðal framhaldsskóla í lok árs 2009.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur haft umsjón með Íþróttavakningu framhaldsskólanna sem haldin hefur verið tvisvar en ekki náðist 100% þátttaka meðal framhaldsskóla í lok árs 2009. Verkefnið er unnið í tengslum við HOFF-verkefnið. Haldin hafa verið íþróttamót og ýmislegt gert til að hvetja til hreyfingar.

9:5 Að í lok árs 2010 hafi þeim fækkað sem nota vímuefni og reykja.
    Þeim sem reykja hefur fækkað miðað við árslok 2010. Tóbakslausir framhaldsskólar er verkefni sem unnið hefur verið að frá árinu 2007. Ráðleggingar Lýðheilsustöðvar (nú embættis landlæknis) um tóbakslausa framhaldsskóla hafa verið afhentar og kynntar skólameisturum og forvarnafulltrúum í öllum framhaldsskólum landsins. Kannanir Lýðheilsustöðvar (nú embættis landlæknis) á tóbaksvörnum í skólum benda til að nú þegar fari um helmingur skólanna eftir þessum ráðleggingum. Þá eru tóbaksvarnir einnig tengdar verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli þar sem reynt er að nálgast forvarnir á heildstæðan hátt með áherslu á næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl.

Markmið 10: Stuðla að heilbrigðum lífsháttum fólks á vinnumarkaði.
Aðgerðir:

10:1 Að 50 opinberar stofnanir hafi gert áætlun um öryggi og heilbrigði í lok árs 2009, þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan starfsmanna.
    Árið 2008 kom út bæklingurinn Ráðleggingar um heilsueflingu á vinnustöðum sem var samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og Vinnueftirlitsins og hluti af verkefninu Heil og sæl í vinnunni. Lýðheilsustöð (nú embætti landlæknis) er einn af samstarfsaðilum ÍSÍ um Hjólað í vinnuna. Verkefnið hvetur starfsfólk og vinnustaði ekki aðeins til að nota virkan ferðamáta heldur einnig til að huga almennt að heilsueflingu á vinnustöðum.

10:2 Að allar stofnanir heilbrigðisráðuneytis hafi mótað sér heilsustefnu fyrir árslok 2009 og ríkisfyrirtæki almennt fyrir árslok 2010.
    Ekki hafa verið teknar saman upplýsingar um þennan þátt og verkefninu hefur ekki verið fylgt eftir af velferðarráðuneytinu.

10:3 Að í lok árs 2009 hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið boðið upp á námskeið í öllum landshlutum til að fylgja eftir ráðleggingum um heilsueflingu á vinnustöðum.
    Slík námskeið hafa ekki verið haldin.


Markmið 11: Stuðla að heilbrigðum lífsháttum fólks utan vinnumarkaðarins.
Aðgerð:

11:1 Að í lok árs hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið boðið upp á námskeið fyrir atvinnulausa í öllum landshlutum.
    Sérfræðingar Lýðheilsustöðvar hafa verið með fræðsluerindi fyrir atvinnulausa hjá Rauðakrosshúsinu. Vinnueftirlitið vinnur fyrst og fremst að heilsueflingu og öryggi á vinnustöðum. Vinnumálastofnun er að sjálfsögðu mjög virk í námskeiðahaldi fyrir atvinnulausa og sérstakt átak hefur verið í gangi til að virkja ungt atvinnulaust fólk til þátttöku með verkefninu Ungt fólk til athafna. Þá hleypti Vinnumálastofnun af stað sérstöku átaki gegn afleiðingum langtímaatvinnuleysis undir yfirskriftinni ÞOR – þekking og reynsla. Nýverið var svo sett af stað átakið Vinnandi vegur sem er átak gegn langtímaatvinnuleysi og er sameiginlegt átak samtaka atvinnurekenda, sveitarfélaga, stéttarfélaga og ríkisins.

     3.      Er einhver heilsustefna í gildi nú? Ef svo er ekki, stendur til að setja nýja heilsustefnu?
    Nú er hvorki í gildi heilsustefna né er fyrirhugað að setja nýja heilsustefnu.
    Hugmyndafræði heilsustefnunnar hefur hins vegar nýst við gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar sem nú er unnið að í velferðarráðuneytinu og er stefnt að því að hún verði lögð fyrir Alþingi næsta haust.