Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 629. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1212  —  629. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Magnúsar Orra Schram um sóknaráætlunina Ísland 2020
og stöðu verkefna á ábyrgðarsviði ráðuneyta.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er staða þeirra fjölþættu verkefna sem sett eru fram í sóknaráætluninni Ísland 2020 og eru á ábyrgðarsviði einstakra ráðuneyta? Í þeim tilvikum þar sem verkefnum er ólokið er óskað eftir útskýringum og tímaáætlun um áætluð verklok.

    Stefnumörkunin Ísland 2020 er framtíðarsýn um öflugra atvinnulíf og samfélag en með stefnunni voru settar fram 30 aðgerðir og verkefni sem ætlað er að vera fyrstu skref í átt að Íslandi 2020. Verkefnin eru á ábyrgð mismunandi ráðuneyta, eins eða fleiri, og upplýsingar um stöðu þeirra eru fengnar þaðan. Ekki kemur fram í öllum tilvikum hvenær verklok eru áætluð en um það má nálgast upplýsingar hjá viðkomandi ráðuneyti.

Verkefni á ábyrgð tveggja eða fleiri ráðuneyta.


1. Atvinnustefna.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Vinna við atvinnustefnu hófst af fullum krafti í janúar 2012 en nokkur undirbúningsvinna var unnin á síðari mánuðum 2011. Tilnefnd var verkefnisstjórn fyrir verkefnið, en hana skipa Arndís Ármann Steinþórsdóttir, Berglind Hallgrímsdóttir, Elvar Knútur Valsson, Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, Sveinn Margeirsson og Sveinn Þorgrímsson. Verkefnisstjórn hefur kynnt sér og styðst í afmörkun sinni við niðurstöður sóknaráætlunar eins og þær birtast í stefnumörkuninni Ísland 2020. Afmörkun verkefnisins felur í sér að í atvinnustefnunni verði að finna áherslur stjórnvalda til eflingar fjölbreytts atvinnulífs og atvinnuþróunar í landinu þar sem m.a. verði byggt á samkeppnishæfni, sérstöðu og styrkleikum Íslands. Útgangspunktar vinnunnar hafa verið ákveðnir eftirfarandi:
     *      Hlutverk stjórnvalda er að skapa atvinnulífinu samkeppnishæft rekstrarumhverfi og tryggja áreiðanlega og skilvirka stoðþjónustu.
     *      Horft verður til styrkleika starfandi atvinnugreina.
     *      Horft verður til tækifæra í nýsköpun og þróun.
     *      Menntun sem forsenda öflugs atvinnulífs.
     *      Skilgreindar verða leiðir og hvatar til þess að markmið stefnunnar náist.
    Skilgreindir hafa verið allnokkrir málaflokkar fyrir hvern útgangspunkt. Hver málaflokkur og/eða ólík atriði hans verða tekin til sérstakrar skoðunar í verkefnahópum sem kallaðir verða saman. Hópunum er ætlað að vera litlum og skila stuttum tillögum að efnistökum hvers málaflokks í atvinnustefnunni. Stefnt er að því að í verkefnahópunum verði að mestu fólk úr atvinnulífinu eða frá hagsmunasamtökum. Með því sé best hægt að nálgast þau gögn og greiningar sem þegar liggja fyrir og hafa verið unnin af ólíkum aðilum undanfarin ár. Undanfarnar vikur hafa fulltrúar verkefnisstjórnar kynnt vinnuna fyrir þessum aðilum auk stjórnsýslunnar og reynt að leggja mat á hvaða gögn eru til á ólíkum stöðum og um leið kortlagt hvert er best að leita eftir þátttöku í ólíkum verkefnahópum. Þannig er vonast til að vilji og væntingar heildarinnar speglist sem best í endanlegri atvinnustefnu. Á öllum stigum vinnunnar er vonast til að samráð og samtal milli og innan stjórnsýslunnar og atvinnulífsins sjálfs verði sem mest. Ákveðið hefur verið að hafa opin vettvang, t.d. vefsíðu, þar sem hægt verði að fylgjast með gangi vinnunnar og gögn verða birt.
    Verkáætlun gerir ráð fyrir að verkefnahópar taki til starfa frá mars og þar til í maí og að þeir hafi allir skilað niðurstöðum fyrir miðjan júní. Sumarmánuðir verða nýttir til úrvinnslu og frekari skoðunar á tillögum verkefnahópana. Í september er gert ráð fyrir að niðurstöður verkefnahópa hafi að fullu verið unnar og frumdrög að uppsetningu stefnunnar liggi fyrir til frekari kynningar og samráðs sem gert er ráð fyrir að taki haustmánuðina. Stefnt er að því að fyrir árslok liggi fyrir heildstæð drög að atvinnustefnu til kynningar með tillögu að tímasettri aðgerðaáætlun fyrir stjórnvöld.

2. Efling þjóðgarða og umhverfismál ferðaþjónustu.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Verkefnið er skref í átt að því að tryggja grundvöll og grunngerð ferðaþjónustu og auka þannig möguleika á vistvænni nýsköpun. Verkefnið snýst um að tryggja að umhverfi friðlýstra svæða sé varðveitt með vandaðri uppbyggingu á innviðum fyrir ferðamenn þannig að vöxtur í ferðaþjónustu og heimsóknir í þjóðgarða og friðlýst svæði valdi ekki röskun eða spjöllum.
    Stærsta verkefnið til að tryggja þetta markmið er að framkvæmdasjóður ferðaþjónustu, þjóðgarða og friðlýstra svæða verði stofnaður með innheimtu ferðamannagjalds sem renni til fjárfestinga í innviðum.
    Gera þarf áætlun um hvernig hægt verði að ljúka við lagfæringar sem þörf er á nú þegar samkvæmt úttekt Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða frá nóvember 2010.
    Verkefninu er skipt upp í verkþætti og verkhluta. Fyrir hvern áfanga eru áfanganiðurstöður og/eða ákvarðanir tilgreindar. Sett er upp tímaáætlun fyrir verkefnið og verkþáttum raðað þannig að úr þeim verði unnið á sem hagkvæmastan hátt.
     1.      Frumvarp til laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða var lagt fram á Alþingi á vorþingi 2011 og samþykkt.
     2.      Sjóðurinn tók til starfa 1. september 2011 og var fyrsta úthlutun í febrúar 2012. Sjóðurinn mun auglýsta styrki aftur haustið 2012.
     3.      Umhverfisráðuneytið mótar reglur um notkun þess hluta gistináttaskatts sem rennur til umhverfisráðuneytis. Þetta verkefni er í vinnslu.
     4.      Ferðamálastofa og Umhverfisstofnun móti sameiginlega þarfagreiningu og kortlagningu á þörf fyrir uppbyggingu á friðlýstum svæðum. Þetta verkefni er einnig í vinnslu.
    Verkefnið nær til uppbyggingar á öllum friðlýstum svæðum á Íslandi. Friðlýst svæði á Íslandi eru 102 og eru ýmist í umsjón Umhverfisstofnunar, sveitarfélaga eða lögaðila. Efling svæðanna lýtur m.a að því að bæta aðgengi og umhverfi friðlýstra svæða, og að uppbyggingu mannvirkja til þjónustu, fræðslu og varðveislu svæðanna.

3. Einföldun, fækkun og samþætting stefna og áætlana.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti og öll önnur ráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Samkvæmt Íslandi 2020: „Einföldun, fækkun og samþætting lögbundinna stefna og áætlana: Samhliða vinnu við gerð fjárfestingaráætlunar til langs tíma og sóknaráætlanir landshluta er lagt er til að unnar verði heildstæðar tillögur að breyttu skipulagi og aðferðafræði við stefnumótun og áætlanagerð innan stjórnsýslunnar. Markmiðið er að bæta yfirsýn og bæta vinnubrögð m.a. með því að fækka lögbundnum stefnum og áætlunum, tengja stefnumótun og áætlanagerð ráðuneyta betur við undirbúning fjárlaga og tryggja að árangursmat og eftirlit sé alltaf fyrir hendi. Ábyrgð: Hlutaðeigandi ráðuneyti. Á vegum forsætisráðuneytisins verði myndaður samráðsvettvangur vegna samþættingar.“
    Markmið verkefnisins er að bæta heildarsýn yfir stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda til að stuðla að betri nýtingu og samhæfingu þeirrar þekkingar og reynslu sem starfsfólk stjórnvalda býr yfir. Leiðir að því markmiði eru að fá heildaryfirlit yfir stefnur og áætlanir ríkisins. Leggja í kjölfarið fram tillögur að fækkun þeirra, nýju verklagi við gerð þeirra og hvernig tengja megi stefnur og áætlanir við fjárlagagerðina með markvissari hætti en nú er gert og leggja þar til tilraunaverkefni. Einnig stendur til að gera tillögu að miðlægu teymi innan Stjórnarráðsins um stefnumótun og áætlanagerð.
    Þegar liggur fyrir greining á ellefu stórum stefnum og áætlun. Sú greining leiðir í ljós þörfina fyrir að ná yfirsýn svo skipulag, vinnulag og aukið samræmi við fjárlagagerð náist. Þannig haldast fjármunir og framkvæmd betur í hendur. Í fyrirliggjandi vinnu verður byggt á þeirri greiningu (sjá mynd).
    Búið er að skipa í starfshóp með fulltrúum frá öllum ráðuneytum. Afurðir hópsins verða eftirfarandi:
    1.    Yfirlit yfir allar stefnur og áætlanir ríkisins (lögbundnar og ólögbundnar).
    2.    Tillaga að samræmdu skipulagi og vinnulagi við ytri stefnumótun og áætlanagerð innan Stjórnarráðsins. Lögð fyrir ríkisstjórn.
    3.    Tillaga að skipun miðlægs teymis (af forsætisráðherra) um stefnumótun og áætlanagerð innan Stjórnarráðsins.
    4.    Tillaga að tilraunaverkefni sem ætlað er að reyna nýtt vinnulag og skipulag.

















Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



4. Klasasamstarf í sjávarútvegi og matvælaiðnaði.
    Ábyrgð: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Samkvæmt Íslandi 2020: Ætlunin er að greina tækifæri til klasasamstarfs á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar þar sem horft verður til þróunar og nýsköpunar í iðnaði, markaðssetningu og fullvinnslu afurða. Einnig verður horft til sóknarfæra á sviði alþjóðlegrar umhverfisvottunar. Auk þess er stefnt að því að svigrúm bænda til heimaframleiðslu, vöruþróunar og heimasölu verði markvisst aukið sem liður í ferðaþjónustu, stutt verði við upprunamerkingar og lífræna framleiðslu sem og ræktun í matvælaframleiðslu.
    Stefnt er að því að fella áherslur um klasasamstarf í sjávarútvegi og matvælaiðnaði undir atvinnustefnu. Við gerð atvinnustefnu verður horft sérstaklega til uppbyggingar og stuðnings við klasa, þá sérstaklega á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar auk annarra atvinnugreina. Áhersla verður lögð á markvissan stuðning stoðkerfis atvinnulífs og áherslur á nýsköpun og þróun. Þess skal þó getið að nú þegar er í gangi verkefni sem ber nafnið „Íslenski sjávarklasinn“ þar sem búið er að vinna mikla undirbúnings- og greiningarvinnu. Vinnan hefur fyrst og fremst verið á ábyrgð hagsmunaaðila greinarinnar. Markmið og tillögur á þessu sviði verður að finna í atvinnustefnu en áætlað er að drög hennar muni liggja fyrir í lok árs 2012.

5. Lífsgæðabókhald og kynslóðareikningar.
    Ábyrgð: Efnahags- og viðskiptaráðuneyti og fjármálaráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Verkefnið er mjög umfangsmikið og snertir ótal aðgerðasvið. Að verulegu leyti er verkefnið þegar í gangi innan stjórnsýslunnar. Framgangur Íslands til efstu sæta á alþjóðlegum viðmiðunarlistum byggist á mjög ólíkum og fjölbreytilegum aðgerðum sem kappsamlega er unnið að í öllum ráðuneytum og stjórnarstofnunum. Framgangur þeirra mála er að verulegu leyti kominn undir auknum lífsgæðum og hagsæld.

6. Miðstöð norðurslóðamála.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Um er að ræða samstarfsnet fjölmargra aðila, samtaka og stofnana, sem eiga það sameiginlegt að búa yfir reynslu og þekkingu í margvíslegum verkefnum og rannsóknum sem tengjast málefnum norðurslóða. Markmið verkefnisins felst fyrst og fremst í kynningar- og upplýsingamiðlun; að auka sýnileika, samvinnu og tengsl stofnana og annarra aðila á Íslandi sem fjalla um málefni norðurslóða með rannsóknum, menntun og vöktun og gera upplýsingar um norðurslóðir aðgengilegar. Jafnframt kynningarstarfi verður unnið að því að byggja upp tengslanet, bæði innanlands og erlendis, sem getur nýst í auknu samstarfi og verkefnum.
    Frá samþykkt tillögu um „miðstöð norðurslóðamála“, sem er eitt af þeim verkefnum sem unnið er að í tengslum við stefnuna Ísland 2020, hefur undirbúningsnefnd sem samanstendur af fulltrúum frá utanríkisráðuneyti, umhverfisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Eyþingi og hagsmunaaðilum fyrir norðan, unnið að framvindu verkefnisins, með markmið þess að leiðarljósi. Undirbúningsnefnd hefur haldið gagnlega fundi um útfærslu verkefnisins, m.a. um rekstrar- og stjórnarfyrirkomulag, heiti og staðsetningu verkefnisins og stefnir í að verkefnið hefjist í upphafi sumars 2012.
    Áætlað var að staða verkefnisstjóra yrði auglýst um mánaðarmótin mars/apríl og að ráðningu lyki í maí og starfsemi gæti hafist í framhaldi af því. Ráðgert er að aðsetur verkefnisins verði að Borgum, Akureyri og í undirbúningi er að gera samning á milli verkefnisins og utanríkisráðuneytisins sem mun sjá um greiðslu og eftirlit með fjármunum til verkefnisins. Fulltrúar verkefnisins fyrir norðan munu gera tillögu að skipun stjórnar, skipulagsskrá, samþykktum og nánari framkvæmdaáætlun. Áætlað er að undirbúningsnefnd starfi áfram og fylgi verkefninu eftir.

7. Sameining rannsókna og atvinnuvegasjóða.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Eitt af markmiðum stefnunnar Ísland 2020 er að 4% af landsframleiðslu sé varið til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og að hlutfall framlags fyrirtækja verði 70% á móti 30% framlagi ríkisins í samkeppnissjóði og markáætlanir.
    Forsætisráðherra lagði tillögu fyrir fund Vísinda- og tækniráðs 1. apríl 2011 þess efnis að unnin yrði áætlun í samvinnu við þau ráðuneyti sem hlut eiga að máli í þrepum til 2020 um þróun og eflingu þeirra sjóða sem veita fjármuni til rannsókna, nýsköpunar og þróunar.
    Unnin hefur verið áætlun um þróun og eflingu samkeppnissjóða þar sem lögð er til einföldun á opinberu stuðningskerfi til rannsókna og að því verði skipt í fjórar meginstoðir, sem allar vinni þó saman. Lagt er til að stoðirnar verði: 1. vísindi og rannsóknir, 2. innviðir til rannsókna, 3. markáætlanir á sviði vísinda og tækni, og 4. nýsköpun og þróun. Tillagan var lögð fram á fundi ráðsins 23. mars sl. og samþykkt að hugmyndirnar yrðu útfærðar nánar og endanleg útfærsla skyldi liggja fyrir á vorfundi ráðsins í byrjun júní.

8. Samstarfsvettvangur við aðila vinnumarkaðarins.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneytið og fleiri ráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Í febrúar 2011 var stofnuð ráðherranefnd um atvinnumál og setti hún á laggirnar samstarfsvettvang um atvinnumál annnars vegar og um vinnumarkaðsmál hins vegar. Tilnefndir voru fulltrúar þingflokka, aðila vinnumarkaðar, sveitarfélaga og ráðuneyta. Báðir þessir vettvangar hafa skilað tillögum til ráðherranefndarinnar. Samstarfsvettvangi um vinnumarkaðsmál hefur jafnframt verið falið að vinna heildstæða vinnumarkaðsáætlun og gera áætlun um átak í menntun með markmið Íslands 2020 um framhaldsmenntun að leiðarljósi.

9. Skapandi greinar.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Meta á hvernig hægt sé að bæta starfsumhverfi skapandi greina og nýta þau tækifæri sem til staðar eru, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun og styðja við útflutningsstarfsemi.
    Þrjú verkefni eru í vinnslu á sviði skapandi greina
    *     Starfsumhverfi skapandi greina.
        Starfshópurinn er að ljúka störfum og skýrsla er væntanleg í apríl. Í skýrslunni er starfsumhverfinu lýst og hvaða breytingar séu æskilegar til að styðja nánar við greinarnar. Verkefnið er á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    *     Mótun hönnunarstefnu.
        Stýrihópur um mótun Hönnunarstefnu Íslands er að störfum og stefnt er að opnu samráði um drög að stefnu í apríl. Verkefnið er á ábyrgð iðnaðarráðuneytis.
    *     Rannsókn á stuðningsumhverfi skapandi greina.
        Greining á viðtölum hefur farið fram og vinna við skýrsluskrif er langt komin. Áætlað er að skýrslan verði fyrst kynnt Nýsköpunarmiðstöð og iðnaðaráðuneyti í apríl. Verkefnið er á ábyrgð iðnaðarráðuneytis og er rannsóknin unnin af rannsóknastofnun skapandi greina í Háskóla Íslands.
    Haldin var TAIEX-ráðstefna um uppbyggingarsjóði ESB og skapandi greinar þar sem fulltrúar þriggja landa, Eistlands, Finnlands og Skotlands, greindu frá því hvernig þau hafa nýtt sér þessa sjóði á sviði skapandi greina. Einnig greindi fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar frá sjóðakerfinu í ESB og hvaða breytingar eru á döfinni þar.

10. Sóknaráætlanir landshluta.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og forsætisráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Vinna við verkefnið hófst í byrjun árs 2011 en í þeim áfanga, sem grundvallaður var á ríkisstjórnarsamþykkt frá 31. maí 2011, var opnað fyrir ákveðinn samskiptaás (mynd til hliðar) milli Stjórnarráðsins og átta landshlutasamtaka sveitarfélaga þar sem allir gengu í gegnum lærdóms- og samstarfsferli sem áframhaldandi vinna þarf að byggjast á. Þannig bárust 57 verkefni frá landshlutasamtökum árið 2011 sem fóru í gegnum greiningu stýrinets níu ráðuneyta og voru flokkuð í þrjá flokka eftir ákveðnum viðmiðum. Af þessum 57 var ákveðið að setja fjárveitingar í ellefu verkefni, bæði fjárfestingar- og rekstrarverkefni í öllum landshlutum. Flest verkefnin eru til fjögurra ára og er áætlað að þau muni kosta á tímabilinu um 460 millj. kr. Af þessum ellefu verkefnum munu níu þurfa viðbótarfjárveitingar sem nema um 330 millj. kr. Tvö verkefni verða fjármögnuð með afgangsheimildum á tímabilinu sem nema um 132 millj. kr og koma þau til framkvæmda á árinu 2012. Verkefnunum þarf að fylgja eftir en við samþykkt þeirra inn á fjárlög setti ráðherranefnd ríkisfjármála þrjá fyrirvara:
     *      Í fyrsta lagi að verkefnin séu unnin í samvinnu ábyrgðarráðuneyta verkefnanna og viðkomandi landshlutasamtaka.
     *      Í öðru lagi að þær verkefnalýsingar sem bárust frá landshlutasamtökum séu lagðar til grundvallar en opið sé fyrir breytingar á þeim varðandi útfærslu verkefnanna.
     *      Í þriðja lagi að fjárveitingar fari ekki í önnur verkefni heldur einungis þau sem tilgreind voru í innsendum verkefnaáætlunum.
    Sóknaráætlanirnar hafa verið og munu áfram verða unnar í samvinnu annars vegar stýrinets ráðuneyta og stofnana, hins vegar landshlutasamtaka sveitarfélaga ásamt þátttöku Sambands íslenskra sveitarfélaga og hagsmunaaðila á svæðunum.
    Stefnt er að því að tengja sóknaráætlanir landshluta tveimur öðrum verkefnum, annars vegar einföldun, fækkun og samhæfingu opinberra stefna og áætlana og hins vegar fjármögnun verkefna innan sóknaráætlana með endurskipulagningu og sameiningu á flæði fjármagns frá ríkissjóði til landshluta, svokallaðri fjárfestingaráætlun.
    Með þeirri valddreifingu sem sóknaráætlanir landshluta hafa í för með sér er verið að gefa hagsmunaaðilum í landshlutum aukið vægi í aðkomu að ákvarðanatöku um forgangsröðun almannafjár í hverjum landshluta. Til þess að svo megi verða þurfa sóknaráætlanirnar til lengri tíma að tengjast helstu stefnum og áætlunum ríkisins. Forgangsröðun landshlutanna þarf að byggjast á áætlanagerð og þarfagreiningu á opinberri þjónustu og verkefnum í hverjum landshluta.
    Sóknaráætlanir landshluta munu skerpa og skýra samskiptaferlið milli ríkis og sveitarfélaga. Með slíkum samskiptaás ættu sveitarfélög landsins í gegnum landshlutasamtökin að hafa aukin áhrif á úthlutun almannafjár og geta þannig haft áhrif á forgangsröðun opinberra verkefna í eigin landshlutum hvort sem þau snúa að fjárfestingum eða rekstri. Fyrst í stað gerist það í gegnum verkefnaval en samkvæmt stefnumótunarskjalinu Ísland 2020 eiga sveitarfélögin að geta haft áhrif á stefnumótun og áætlanagerð ríkisvaldsins til lengri tíma. Regluleg og hlutlæg samskipti um verkefni og áherslur í gegnum sóknaráætlanir landshluta geta með því móti aukið jafnvægi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, aukið gagnsæi, lýðræði og samhæfingu. Framtíðarsýnin er sú að sóknaráætlanir landshluta feli í sér mótun byggðastefnu sem samhæfist við heildarstefnumótun og áætlanagerð ríkisins.

11. Stofnun auðlindasjóðs.
    Ábyrgð:    Umhverfisráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Nefnd um stefnumörkun ríkisins í auðlindamálum sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2011 hefur skilað af sér minnisblaði um stöðu verkefnisins. Þar er farið yfir forsendur í erindisbréfi, skilgreiningu helstu hugtaka, afmörkun þeirra auðlinda sem falla undir verksvið nefndarinnar, mikilvægi sjálfbærrar þróunar, markmið heildstæðrar auðlindastefnu, auðlindasjóð, umsýslu með auðlindum og sett fram áætlun um vinnu nefndarinnar á næstu mánuðum.
    Varðandi það markmið með starfi nefndarinnar að tryggja að þjóðin njóti arðs af sjálfbærri nýtingu auðlinda sinna segir að mikilvægt sé að svokölluð auðlindarenta og ráðstöfun hennar í þágu samfélagsins verði sýnileg. Stofnun auðlindasjóðs sé mikilvæg í þessu sambandi.
    Til skemmri tíma sé ekki áformað að auðlindasjóður lúti sjálfstæðri stjórn hvað ráðstöfun tekna varðar. Fremur verði um það að ræða að draga skýrt fram í ríkisbókhaldinu hvaða tekjur ríkisins stafi af auðlindum og hvert þær renni. Um eiginlega sjóðssöfnun geti hins vegar verið að ræða þegar tekjur stafa af auðlindum sem augljóslega eru ekki endurnýjanlegar. Þannig yrði búið í haginn fyrir komandi kynslóðir sem ekki nytu góðs af sömu auðlindum.
    Gert er ráð fyrir að nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. júní 2012.

12. Umbótaáætlun.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Umbótamál innan Stjórnarráðsins hafa tekið nokkrum breytingum á undanförnum misserum. Í skýrslu starfshóps um hagræðingarmál á vegum forsætisráðherra sem kom út í febrúar 2010 1 voru lagðar til nokkrar breytingar á fyrirkomulagi umbótamála innan Stjórnarráðsins. Lagði hópurinn til að fjármálaráðuneytið hefði áfram yfirumsjón með almennum umbótum í ríkisrekstri en forsætisráðuneytið hefði með höndum stefnumörkun og eftirfylgni á sviði stjórnsýsluumbóta og einföldun laga- og regluverks. Skrifstofa stjórnsýsluþróunar í forsætisráðuneytinu vinnur nú að stjórnkerfisbreytingum sem varða starfsemi og verksvið ráðuneyta og mun umbótastefnan styðja við markmið forsætisráðuneytisins um stjórnsýsluumbætur og einföldun regluverks.
    Hlutverk fjármálaráðuneytisins er að vera í fararbroddi innan Stjórnarráðsins þegar kemur að umbótum í ríkisrekstri (rekstri ráðuneyta og stofnana). Við það starf hefur fjármálaráðuneytið sett sér þau markmið að:
    a.    ríkisrekstur sé skilvirkur og þjónustumiðaður,
    b.    ríkisrekstur standist samanburð við það besta sem gerist hjá öðrum þjóðum,
    c.    þeir fjármunir sem til skiptanna eru á hverjum tíma séu nýttir með sem arðbærustum hætti fyrir samfélagið.
    Fjármálaráðuneytið hefur unnið ötullega að umbótamálum í ríkisrekstri síðastliðna áratugi. Önnur ráðuneyti hafa kallað eftir forustu af hálfu fjármálaráðuneytisins til að styðja við almennt umbótastarf og veita leiðbeiningar við framkvæmd og eftirfylgni innleiðingar umbótamála. Mikilvægt er að samhæfa betur það umbótastarf sem unnið er í ráðuneytum til að efla opinberan rekstur. Til þess að svo megi verða þarf að setja fram heildstæða stefnu og tryggja skilvirkt vinnulag og virkt eftirlit af hálfu ráðuneytisins á þessu sviði.
    Haustið 2009 var skipaður samráðshópur um útfærslu aðhalds- og sparnaðaraðgerða og var hann skipaður fulltrúum fjármálaráðuneytis, fagráðuneyta og Félags forstöðumanna ríkisstofnanna. Meðal verkefna hópsins var stefnumörkun varðandi útfærslu þeirra leiða sem mögulegar eru til hagræðingar í ríkisrekstri. Frá stofnun hópsins hafa ótal tillögur um umbætur í ríkisrekstri verið mótaðar og settar fram, sumar hafa þegar komist í framkvæmd en aðrar eru enn í þróun. Þessar tillögur geta m.a. orðið grunnur að nýrri stefnu um umbætur í ríkisrekstri og samræmast í raun vel því hlutverki hópsins að vinna að almennri stefnumótun til að ná fram hagræðingu í ríkisrekstri.
    Heildstæð stefna ráðuneyta og forstöðumanna stofnanna í umbóta- og hagræðingarmálum er forsenda þess að unnið sé markvisst að því ná fram hagræðingu í ríkisrekstri. Veturinn 2007–2008 gaf fjármálaráðuneytið út stefnu um árangursríkan ríkisrekstur undir kjörorðunum „skilvirk þjónusta á einfaldan og hagkvæman hátt“. Margt úr þeirri stefnu, svo sem tillögur og aðgerðir, geta nýst við gerð nýrrar stefnu í þessum málum. Jafnframt ber að hafa að leiðarljósi þær tillögur og áherslur sem settar hafa verið fram í samráðshópnum. Mikilvægt er að stefnumörkuninni fylgi raunhæf aðgerðaáætlun og hún gæti falið í sér allt frá endurskoðun laga og reglna yfir í útgáfu leiðbeininga og viðmiða. Ný aðgerðaáætlun hafi þannig beina skírskotun til stefnunnar og tengsl verði milli hennar og stærstu málefna sem ráðuneyti vinna að á hverjum tíma.
    Fjármálaráðuneytinu hefur verið falið að setja fram heildstæða stefnu um umbætur í ríkisrekstri í samstarfi við samráðshóp um aðhalds- og sparnaðaraðgerðir. Við mótun hennar verður m.a. byggt á starfi samráðshópsins og stefnu um árangursríkan ríkisrekstur. Samhliða endurskoðun stefnunnar verður sett fram aðgerðaáætlun þar sem fram komi skilgreind markmið um aðgerðir, tímamörk, ábyrgð verkefna o.s.frv. Stefnt er að því að ljúka við gerð stefnu og aðgerðaáætlunar fyrir mitt ár 2012.

Verkefni á ábyrgð eins ráðuneytis.


13. Aukinn jöfnuður og virkari velferð.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Starf velferðarráðuneytisins byggist á hugmyndafræði um aukinn jöfnuð og virka þátttöku allra í samfélaginu. Ráðuneytið skilgreinir því hlutverk sitt m.a. með þeim hætti að því sé ætlað að stuðla að því að börnum sé tryggður góður og öruggur aðbúnaður. Ráðuneytið leggur áherslu á endurskoðun á heildarkerfi bóta og örorku þar sem grunnhugsunin er að styrkja getu einstaklinga og snúa við þeirri þróun að öryrkjum fjölgi stöðugt. Jafnframt þarf að tryggja með markvissum hætti afkomu tekjulægstu hópa samfélagsins, auka jöfnuð og útrýma langtímafátækt. Loks leggur ráðuneytið áherslu á það í starfi sínu að þeim sem vegna sjúkdóma, fötlunar, aldurs eða félagslegra aðstæðna geta ekki tekið virkan þátt í samfélaginu sé veitt viðeigandi þjónusta og hjálp til sjálfshjálpar.
    Árið 2010 voru félags- og tryggingamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið sameinuð í eitt ráðuneyti, velferðarráðuneytið. Í framhaldi af sameiningunni var mótuð stefna um starfshætti og verklag ráðuneytisins. Sú vinna er grunnur að þeim megináherslum sem ráðuneytið leggur um vinnubrögð á árinu 2012 og er eitt af fimmtán markmiðum ráðuneytisins um að styrkja hlutverk þess á sviði stefnumótunar og áætlanagerðar.
    Í anda opins samráðs stóð ráðuneytið nýlega fyrir fjölmennum vinnufundi þar sem rætt var um mótun nýrrar stefnu og aðgerðaáætlunar í heilbrigðismálum til ársins 2015. Fundurinn var með þjóðfundarsniði þar sem saman kom breiður hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn til að fá fram sem víðasta sýn á viðfangsefnið. Á fundinum voru einnig kynntar áherslur ráðuneytisins gagnvart stefnumótun í málaflokkum sem snúa að skipulagi hennar, samráði við notendur og veitendur þjónustu, skýrum hlutverkum og ábyrgð við framkvæmd stefnu, tengingu stefna við fjármagn og mat og eftirfylgni þeirra. Loks var áhersla lögð á að byggt yrði á fyrirliggjandi stefnum í málaflokkum, alþjóðlegri þróun heilbrigðismála og nýrri þekkingu.
    Í beinu framhaldi af fyrrgreindri stefnuvinnu ráðuneytisins verður hafist handa við eiginlega velferðarstefnu til ársins 2020. Slík velferðarstefna mun einnig eiga sér traustar rætur í stefnu ríkisstjórnarinnar um Ísland 2020.
    Í vinnu við heilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun og síðar velferðarstefnu er þess gætt að markmiðin verði samþætt markmiðum 2020.
    Þau markmið 2020 sem snúa að velferðarmálum eru fimm:
     1.      Að lækka hlutfall íbúa með 75% örorkumat á aldrinum 18–66 ára úr 7,3% í 5,7% árið 2020.
     2.      Að lækka hlutfall atvinnulausra úr 7% 2010 í a.m.k. 3% af heildarvinnuafli árið 2020.
     3.      Að auka jöfnuð á Íslandi með lækkun Gini-stuðuls fyrir ráðstöfunartekjur í um 23 árið 2020.
     4.      Að bæta stöðu jafnréttismála þannig að gildi jafnréttisvísitölunnar „global gender gap index“ verði nálægt 0,9 árið 2020.
     5.      Að auka vellíðan og góða andlega heilsu þannig að meðaltal mælinga samkvæmt vellíðunarkvarðanum hækki úr 26,6 árið 2009 í 28 árið 2020.
    Til þess að ná þessum yfirmarkmiðum var leitað samráðs við þátttakendur á fyrrnefndum vinnufundi. Þar var skilgreindur fjöldi mælanlegra markmiða og aðgerða sem nú eru til skoðunar í ráðuneytinu og verða hluti af stefnu og aðgerðaáætlun í heilbrigðismálum sem lögð verður fyrir þingið næsta haust.
    Þessum mælanlegu markmiðum munu fylgja aðgerðaáætlanir sem verða rýndar og endurskoðaðar eigi sjaldnar en á tólf mánaða fresti. Stofnanir ráðuneytisins munu upplýsa um framvindu þeirra verkefna sem að þeim snúa við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2013.

14. Áætlun í mannréttindamálum.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Innanríkisráðuneytið hefur hafið undirbúning að mótun landsáætlunar í mannréttindamálum í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og markmið Íslands 2020.
    Greiningarvinna um efni og form slíkrar áætlunar liggur nú fyrir í tengslum við fyrirtöku Íslands í Universal Periodic Review (UPR) ferlinu hjá mannréttindaráði SÞ í október sl. auk þess sem ráðuneytið fól Mannréttindastofnun Háskóla Íslands að vinna skýrslu um gerð landsáætlunar í mannréttindamálum á Íslandi. Á þessum vetri fara einnig fram fyrirtökur hjá sérfræðinganefndum SÞ á grundvelli þriggja stórra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að, auk fyrirtöku í fyrrgreindu UPR-ferli og skýrslugerðar vegna aðilar Íslands að pyntingasáttmála SÞ.
    Í verkefnaáætlun um verkefnið kemur fram að ráðuneytið leggur áherslu á að viðhaft verði víðtækt og markvisst samráð við aðila innan Stjórnarráðsins og undirstofnana þess, sem og við hagsmunaaðila, fræðasamfélagið og frjáls félagasamtök. Áhersla verður lögð á nýja sýn á mannréttindamál í samfélaginu, þ.e. ekki aðeins mannréttindavinnu á grundvelli alþjóðasamninga og stjórnarskrár heldur einnig á þá áherslu að mannréttindasjónarmið séu undirstaða allrar stefnumörkunar í samfélaginu og vinnu stjórnvalda. Þá gefst einnig tækifæri til þess að greina möguleika á samlegðaráhrifum verkefna og áherslna í aðgerðaáætlunum á vegum stjórnvalda.
    Tveir hópar hafa verið skipaðir og hafist handa við mótun mannréttindastefnu stjórnvalda, annars vegar nefnd skipuð fulltrúum ráðuneytanna sem annast m.a. úrvinnslu ábendinga í tengslum við fyrirtöku á alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, vinnur úr fyrirliggjandi gögnum og mótar stefnuna og hins vegar samráðshópur sem er skipaður fulltrúum félagasamtaka, fræðasamfélagsins og sveitarfélaga.
    Í tengslum við mótun landsáætlunarinnar stendur ráðuneytið fyrir mánaðarlegum morgunverðarfundum þar sem fjallað er um mannréttindi á Íslandi í víðum skilningi. Efni þeirra funda verður bæði nýtt sem innlegg í mótun landsáætlunarinnar og til að varpa ljósi á það hvernig best verður brugðist við ábendingum varðandi framkvæmd og stöðu alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að og þróun mannréttindamála almennt hér á landi.
    Stefnt er að því að landsáætlunin verði lögð fram sem þingmál á Alþingi í október 2012.

15. Efling sveitarstjórnarstigsins.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Samkvæmt Íslandi 2020 er efling sveitarstjórnarstigsins eitt af þeim verkefnum sem eiga að fylgja eftir atvinnustefnu og stefnumörkun sem þar er lýst og er á ábyrgð innanríkisráðuneytisins og segir þar:
    „Stefnt verði að stóreflingu sveitarstjórnarstigsins með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga og sameiningu og auknu samstarfi sveitarfélaga til að auka samfélagsþrótt í hverri byggð. Drög að áætlun um eflingu sveitarstjórnarstigsins liggja fyrir.“
    14. mars 2011 skipaði innanríkisráðherra nefnd sem hafði því hlutverki að gegna að vinna að frekari eflingu sveitarstjórnarstigsins. Nefndin hefur þegar skilað ráðherra greinargerð og tillögum sem miða að því að efla sveitarstjórnarstigið. Þó svo að þessi nefnd hafi ekki verið hluti af verkefninu Ísland 2020 með beinum hætti lagði formaður hennar mikla áherslu á tengingu við verkefnið um sóknaráætlanir landshluta og að ferðast víða um land til að kynna sér sjónarmið sveitarstjórnarfólks og til að fylgjast með því.
    Nefndin stóð fyrir umfangsmikilli könnun meðal sveitarstjórnarfulltrúa og alþingismanna um afstöðu þeirra til ýmissa mála er varða lýðræðismál, sameiningarmál og samvinnu sveitarfélaga og er hún aðgengileg á heimasíðu innanríkisráðuneytisins.
    Í vinnuskjali hefur nefndin safnað saman og gert aðgengilegt mikið magn upplýsinga um sveitarstjórnarmál. Vinnuskjalið nýtist sveitarstjórnarfólki og öðru áhugafólki vel um málefni sveitarfélaga – það er vísir að handbók og lifandi umræðuskjal. Vinnuskjalið og önnur gögn eru aðgengileg á heimasíðu innanríkisráðuneytisins.
    Fljótlega eftir að nefndin hóf störf komst hún að þeirri niðurstöðu að efla bæri starfsemi landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í því skyni lagði hún til, og fékk samþykki hjá ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, að sjóðurinn fengi heimild til að styrkja verkefni sem landshlutasamtök taka að sér með samningum við ríkið þótt verkin tengist ekki beinlínis sameiningum sveitarfélaga.
    Þá vill nefndin leggja áherslu á að auka þurfi vægi og virðingu sveitarstjórnarstigsins í skipulagi Alþingis og í stjórnsýslu ríkisins. Heiti málaflokksins þyrfti að vera sýnilegt, t.d. í nefndaskipan Alþingis en í nýrri skipan þess eru sveitarstjórnarmál sett undir umhverfis- og samgöngunefnd. Þá telur nefndin einnig mikilvægt að tryggt verði að kjör og starfsumhverfi sveitarstjórnarfólks verði í samræmi við ábyrgð og skyldur.
    Tillögur nefndarinnar fara hér á eftir en þegar er hafin vinna að framgangi þeirra:

Lýðræðismál, þátttaka borgaranna og rafræn stjórnsýsla.
    Nefndin fagnar þeirri þróun sem á sér stað á þessu sviði, nýjum ákvæðum í sveitarstjórnarlögum sem tryggja betri upplýsingar til íbúa um málefni sveitarfélags og aðkomu þeirra að ákvarðanatöku. Nokkur sveitarfélög hafa tekið frumkvæði að aukinni þátttöku íbúa í ákvarðanatöku með beinum kosningum og auknu samráði. Þessi þróun mun halda áfram og er mikilvægt að ríkisvaldið, Samband íslenskra sveitarfélaga og einstakar sveitarstjórnir styðji þessa þróun eins og kostur er.
    Þó svo að Íslendingar séu tæknivæddir og flest heimili séu tölvuvædd og nettengd stendur Ísland nágrannalöndunum að baki hvað varðar framboð á rafrænni þjónustu. Danmörk er talin vera til fyrirmyndar á þessu sviði. Þar hefur verið þróuð ein gátt (www.borger.dk) fyrir alla rafræna þjónustu í landinu en í hagræðingarátaki þar er eitt helsta sóknarfærið talið vera á þessu sviði. Það er því eftir miklu að slægjast; hagræðingu, bættri þjónustu við íbúana, betra aðgengi að upplýsingum og auknu lýðræði.

Tillögur og áherslur nefndarinnar:
Rafræn stjórnsýsla.
    Til að auðvelda almenningi notkun rafrænnar stjórnsýslu hafi innanríkisráðuneytið, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, forgöngu um að rekin sé ein þjónustugátt, Ísland.is, fyrir rafræna þjónustu hins opinbera. Ísland.is er rekið af Þjóðskrá Íslands en í þriggja manna stjórn stofnunarinnar er fulltrúi innanríkisráðuneytis og fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Bæði stjórnsýslustigin, ríki og sveitarfélög, hafi þannig vettvang til þróunar og daglegs rekstrar þjónustugáttarinnar.
    Opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, hafi samstarf um og samnýti lausnir á sviði rafrænnar stjórnsýslu eins og kostur er. Dæmi um slíkar lausnir er rafræn þjónusta með áherslu á sjálfsafgreiðslu og samræmd umsóknareyðublöð í málaflokkum sem undir sveitarfélög heyra, t.d. húsaleigubætur.
    Annað dæmi um lausn sem eðlilegt er að samnýta er sameiginleg, miðlæg auðkenning (með rafrænum skilríkum eða veflykli ríkisskattstjóra) sem þegar er til staðar á Ísland.is og sveitarfélög geta nýtt sér.

Lýðræðisleg þátttaka.
    Innanríkisráðuneytið hafi forgöngu um gerð einna laga um kosningar í stað aðskildra laga eftir mismunandi tegundum kosninga. Í slíkum lögum verði regluverk um rafrænar kosningar, þ.m.t. gerð og notkun rafrænnar kjörskrár. Einnig hvetur nefndin til þess að úttekt verði gerð á kostum og göllum mismunandi aðferða við persónukjör.
    Innanríkisráðuneytið hafi forgöngu um, í samvinnu við sveitarstjórnarstigið, að greiða fyrir rafrænni framkvæmd undirskriftasafnana, skoðanakannana, íbúakosninga og annarra rafrænna þátttökumöguleika almennings.
    Sveitarfélög vinni með ráðuneytum, undir forystu innanríkisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, að því að prófa og finna bestu leiðir til að auka möguleika almennings til lýðræðislegrar þátttöku á netinu.
    Hafist verði handa við tilraunaverkefni í framkvæmd undirskriftasafnana, skoðanakannana og fleiri þátta í þeim tilgangi að byggja upp þekkingu opinberra aðila og efla traust almennings á slíkri framkvæmd.

Forsendur.
    Öllum íbúum landsins óháð búsetu verði tryggður aðgangur að öruggri háhraðatengingu án tillits til þess hver veitir þjónustuna.
    Flýta þarf dreifingu og almennri notkun á öruggum rafrænum skilríkjum því þau eru forsenda þess að hægt sé að gera rafrænar kosningar mögulegar, auk þess sem þau eru mikilvægur þáttur í opinni, rafrænni stjórnsýslu.

Mannréttindamál.
    Á vegum innanríkisráðuneytisins er nú unnið að landsáætlun í mannréttindamálum þar sem stefnt er að því að ríki, sveitarfélög, fræðasamfélagið og hagsmunahópar hafi samvinnu um að móta framtíðarsýn í málaflokknum. Ljóst er að sveitarfélaganna bíða stór verkefni sem tengjast skuldbindingum í mannréttindamálum sem Ísland hefur gengist undir. Má þar m.a. nefna nýjar áherslur í jafnréttismálum kynjanna, málefnum innflytjenda, aldraðra, fatlaðra og loks jafnrétti til búsetu. Öll þessi viðfangsefni og fleiri varða að stórum hluta mannréttindi þegnanna og jafnræði íbúanna.
    Nefndin leggur áherslu á að:
     *      í framhaldi af landsáætlun í mannréttindamálum verði gerð lausnarmiðuð framkvæmdaáætlun,
     *      ríki og sveitarfélög sameinist um aðgerðir til að efla mannréttindi innflytjenda í íslensku samfélagi með sérstakri áherslu á velferð barna af erlendum uppruna,
     *      unnið verði að gerð samræmdrar aðgerðaáætlunar um jafnrétti kynjanna, útrýmingu kynbundins ofbeldis og ofbeldis gagnvart minnihlutahópum,
     *      sveitarfélögunum verði gert kleift að efla þjónustu við fatlað fólk og vinna í anda alþjóðlegra samþykkta og sáttmála í málefnum fatlaðra. Þá standi ríkið við sín verkefni sem snúa að velferð fatlaðra,
     *      fatlað fólk fái þjónustu í vinnumarkaðsúrræðum á sama hátt og aðrir íbúar.

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga.
    Einn veigamesti þátturinn í eflingu sveitarstjórnarstigsins er að sveitarfélög taki að sér ábyrgð og framkvæmd fleiri verkefna er varða íbúa þeirra. Tilfærsla öldrunarmála frá ríki til sveitarfélaga hefur nokkra sérstöðu miðað við aðra málaflokka sem hafa verið færðir eða er fyrirhugað að færa til sveitarfélaga. Skýringin er sú að þau annast nú þegar veigamikinn hluta þjónustunnar enda almennt mikill stuðningur meðal sveitarstjórnarmanna við þetta mikilvæga verkefni.
    Nefndin telur að tilfærsla á málefnum fatlaðra hafi tekist vel og verið mikilvægur áfangi á þeirri leið að auka þjónustu í nærumhverfi og efla sveitarstjórnarstjórnarstigið í heild.
    Áfram þarf að halda á þeirri braut og því leggur nefndin áherslu á eftirfarandi:
     *      Málefni aldraðra, heilsugæsla og heimahjúkrun verði flutt samhliða til sveitarfélaga. Góð reynsla hefur fengist hjá tveimur sveitarfélögum af því að annast þessi verkefni. Undirbúa þarf verkefnaflutninginn vel og vinna nákvæma tímasetta áætlun, enda liggi fyrir mat á árangri af flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaganna eins og kveðið er á um í samningi þar að lútandi. Sér nefndin fyrir sér að yfirfærsla þessara verkefna geti farið fram á árunum 2014–2015.
     *      Ekki sé skynsamlegt að vinna að fleiri stórum verkefnatilfærslum á meðan að þessu er unnið en nefndin leggur til að gert verði mögulegt í tilraunaverkefnum að einstök sveitarfélög taki að sér önnur verkefni sem ríkið annast nú. Landshlutasamtök sveitarfélaga eru um þessar mundir að taka við rekstri almenningssamgangna á sínum svæðum en til viðbótar má nefna framhaldsskóla, vegagerð, ýmis eftirlitsverkefni og fleira. Nefndin mælir með því að settur verði á fót starfshópur sem sinni þessu verkefni með hliðsjón af þeirri vinnu sem unnin var undir merkjum reynslusveitarfélaga. Auk þess sinni hópurinn tilraunaverkefnum á sviði lýðræðismála.
     *      Boðið verði upp á þjónustusamninga milli stofnana ríkisins, einstakra sveitarfélaga og landshlutsamtaka vegna ýmissa þjónustuþátta sem geti leitt til þess að hægt verði að bjóða upp á eina þjónustumiðstöð á svæði, í sveitarfélagi eða hverfi (e. one stop shop), t.d. á sviði vinnumála og almannatrygginga.

Samvinna og sameiningar.
    Stefna núverandi ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið að efla sveitarstjórnarstigið með sameiningum og auknu samstarfi sveitarfélaga en á frjálsan og lýðræðislegan hátt (ekki með þvingunum). Nefndin telur þetta farsæla áherslu og sjá má árangur hvað þetta varðar á mörgum sviðum. M.a. hafa landshlutasamtök sveitarfélaga tekið að sér ýmis samræmingarverkefni fyrir sveitarstjórnarstigið, svo sem sóknaráætlanir landshluta, almenningssamgöngur og fjölþætta aðkomu að þjónustu sveitarfélaga (málefni fatlaðra, grunnskóla o.fl.). Fyrir tilstuðlan nefndarinnar rennur nú aukið fjármagn til landshlutasamtaka úr Jöfnunarsjóði vegna þessa nýja hlutverks þeirra.
    Nefndin leggur áherslu á að:
     *      áfram verði fylgt þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið um frjálsa sameiningu sveitarfélaga og aukna samvinnu þeirra,
     *      landshlutasamtökin verði efld sem samræmingar-, framkvæmda- og stefnumótunaraðili hvert á sínu svæði. Samhliða verði hugað að eflingu atvinnuþróunarfélaga og þátttöku þróunarsviðs Byggðastofnunar í svæðasamvinnu,
     *      sveitarstjórnir nýti sér ákvæði í nýjum sveitarstjórnarlögum sem heimilar þeim að reyna nýjar leiðir í stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Nefndin hvetur til umræðu og tillagna þar að lútandi.

Fjármál sveitarfélaga og tillögur tekjustofnanefndar.
    Nefndin hefur kynnt sér fjármál sveitarfélaga og áhrif nýrra fjármálareglna á starfsemi þeirra. Tíu ára aðlögun er í nýjum sveitarstjórnarlögum og mikilvægt er að skuldsett sveitarfélög nýti þann tíma vel til að laga sig að nýjum reglum og vinni eftir vönduðum áætlunum. Nefndinni er ljóst að allnokkurt álag verður á þeim sveitarfélögum sem þurfa á næstu árum að laga skuldir og rekstur að nýjum viðmiðunum í fjármálareglum. Nauðsynlegt er að tekið verði mið af þeirri aðlögunarþörf og að ríki og sveitarfélög hafi náið samráð þar um.
    Nefndin leggur áherslu á að:
     *      samráð ríkis og sveitarfélaga um fjármál og rekstur hins opinbera verði eflt,
     *      aukin áhersla verði lögð á vandaða vinnu við langtímaáætlanir sveitarfélaga og stuðlað verði að samstarfi sveitarfélaga við áætlanagerð,
     *      ákvæðum nýrra sveitarstjórnarlaga um skyldubundið kostnaðarmat vegna stjórnvaldsfyrirmæla verði fylgt til hins ýtrasta.
    Nefndin hefur fjallað um tillögur tekjustofnanefndar frá október 2010 en þær voru kynntar í lokaskýrslu hennar sem er aðgengileg á slóðinni: www.innanrikisraduneyti.is/verkefni- raduneytis/sveitastjornarmal/utgefid/nr/24307. Það er mat nefndarinnar að mikilvægt sé að unnin verði áætlun um hvernig koma megi í framkvæmd þeim tillögum sem tekjustofnanefnd lagði fram. Hún gerði ákveðnar tillögur er snúa að fasteignasköttum, jöfnun og millifærslum, útsvari, fjármagnstekjuskatti, endurgreiðslu virðisaukaskatts, umhverfis- og samgöngusköttum, frekari hagræðingu hjá sveitarfélögum og fjármálalegum ráðstöfunum í kjölfar efnahagshrunsins og lagði mat á áhrif af upptöku nýrra fjármálareglna. Nefndin leggur því til að unnið verði markvisst að því að framfylgja tillögum tekjustofnanefndar.

16. Fjárfestingaráætlun.
    Ábyrgð: Fjármálaráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Verkefnið felur í sér að gerð er samantekt um forgangsröðun og fjármögnun verkefna sem ríkið beitir sér fyrir á tilteknu tímabili á því landsvæði sem um ræðir hverju sinni. Fjárfestingaráætlun er ætlað að draga upp mynd af fyrirhuguðum fjárfestingarverkefnum til lengri tíma og kostnaði við þau í samræmi við langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Með fjárfestingum er átt við fjármagn sem veitt er í framkvæmdir og stofnkostnaðarverkefni, ýmist til lengri tíma eða styttri, en t.d. fellur almennur rekstrarkostnaður stofnana ríkisins ekki undir áætlunina.
    Með áætluninni verða áætlanir um fjárfestingar ríkisins gagnsærri með aukinni upplýsingagjöf og betri greiningu á verkefnum. Fyrirhugað er að uppfæra fjárfestingaráætlun á hverju ári. Megingrundvöllur í fjárfestingaráætlun eru ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára og fjárlög hvers árs og verður áætlunin unnin í samræmi við verkefna- og tímaáætlun fjárlagagerðar frá og með 2012. Með fjárfestingaráætlun afmarka stjórnvöld fyrirfram það svigrúm til fjárfestinga sem felst í ríkisfjármálaáætlun og setja fram skýrari forgangsröð um ráðstöfun takmarkaðra fjármuna til uppbyggingar í helstu málaflokkum og verkefnum.
    Umfang verkefnisins felst í meginatriðum í nánari greiningu á fjárfestingum ríkisins út frá fjárlagatillögum ráðuneyta. Ýmsar leiðir verða farnar til að afla frekari upplýsinga um framtíðarfjárfestingar ráðuneyta. Til að mynda verður hverju ráðuneyti gert að gera mannvirkjaáætlun til fimm ára í samræmi við menningarstefnu í mannvirkjagerð. Jafnframt verður kallað eftir frekari upplýsingum frá ráðuneytum um aðrar fjárfestingar, svo sem fyrirhugaðar viðhaldsframkvæmdir á næstu árum, kaup á tækjum og búnaði og fleira.
    Fjármálaráðuneytið mun óska eftir því við ráðuneytin að þau hefji vinnu við gerð mannvirkjaáætlana á næstu vikum.

17. Græna hagkerfið.
    Ábyrgð: Færð frá iðnaðarráðuneyti til forsætisráðuneytis.
    Staða: Í vinnslu.

    Samkvæmt verklýsingu í Ísland 2020 er vísað í heildstæðar tillögur þverpólitískrar nefndar samkvæmt ákvörðun Alþingis. Nefndin hefur skilað af sér og Alþingi samþykkti 20. mars þingsályktunartillögu um að forsætisráðherra verði falið að stýra mótun aðgerðaáætlunar um grænt hagkerfi á grundvelli tillagna nefndarinnar um eflingu græna hagkerfisins (þskj. 1020 í 7. máli). Aðgerðirnar skulu miða að því að Ísland skipi sér í fremstu röð á alþjóðavettvangi, sem grænt hagkerfi, með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun til sjálfbærni.
    Forsætisráðuneytið er að hefja vinnu við undirbúning aðgerðaáætlunar og stefnt er að því að flestum verkefnum verði lokið árið 2015.

18. Landsskipulag.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Verkefnið er unnið samkvæmt ákvæðum nýrra skipulagslaga. Reglugerð um landsskipulagsstefnu var sett í október 2011. Umhverfisráðherra skipaði í desember 2011 ráðgjafarnefnd um gerð landsskipulagsstefnu sem á að vera ráðherra og Skipulagsstofnun til ráðgjafar og samráðs við undirbúning og gerð stefnunnar. Umhverfisráðherra leggur landsskipulagsstefnuna fram sem sem þingsályktunartillögu á Alþingi.
    Markmið landsskipulagsstefnu er að setja fram leiðarljós um landnotkun, nýtingu lands og landgæða sem tryggir öryggi og heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana og stuðlar að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð. Þá er landsskipulagsstefnu ætlað að stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um landnotkun og nýtingu lands.
    Nú liggur fyrir í almennri kynningu (sjá heimasíðu ráðuneytisins og Skipulagsstofnunar) svokölluð lýsing landsskipulagsstefnu þar sem gerð er grein fyrir helstu forsendum, áherslum, verklagi og fleiri atriðum vegna vinnu við gerð landsskipulagsstefnu. Í lýsingunni er m.a. að finna verk- og tímaáætlun vegna landsskipulagsstefnu en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun sendi umhverfisráðherra tillögu að landsskipulagsstefnu í desember 2012. Gert er ráð fyrir að ráðherra leggi svo tillögu til þingsályktunar að fyrstu landsskipulagsstefnunni fram á þingi í byrjun árs 2013 (líklega í febrúar) og stefnan verði frá 2013–2024.

19. Svæðaskipulag Hvítá-Hvítá.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneytið.
    Staða: Ekki hafið.

    Samkvæmt Íslandi 2020: Unnið verði svæðisskipulag fyrir suðvesturhorn landsins, frá Reykjanesbæ í vestur, Borgarnesi í norður og Árborgar til austurs.
    Gerð var skýrsla um verkefnið en það hefur ekki farið af stað.

20. Langtímaáætlun í efnahagsmálum og fjármálum hins opinbera.
    Ábyrgð: Efnahags- og viðskiptaráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Efnahagsmál og fjármál hins opinbera eru meðal helstu verkefna opinberrar stjórnsýslu hverju sinni. Markmið til framtíðar er að auka fjárfestingu og nýta betur þau tækifæri sem hafa skapast fyrir fjölbreyttara atvinnulíf, nýsköpun og aukna framleiðni. Brjótast þarf út úr vítahring ofþenslu og samdráttar til að ná efnahagslegu jafnvægi og stöðugleika til lengri tíma. Þótt almenn markmið séu skýr hefur nokkuð skort á samhæfða hagstjórn.
    Hagstjórn tekur til allra stærstu útgjalda- og tekjuþátta hins opinbera og krefst því mikillar samhæfingar á efstu stigum stjórnsýslunnar sem er forsenda verkefnaáætlunar og góðrar verkefnastjórnunar á neðri stigum, þar sem einstökum verkefnum er skipt upp í verkþætti og mælanlegar tímasettar aðgerðir.
    Vegna umfangs þessara mála, svo og skyldleika við önnur mál, svo sem atvinnumál, samkeppnishæfni, húsnæðismál og fjármálamarkað svo að dæmi séu tekin er lagt til að sérstakar ráðstafanir verði gerðar til að tryggja enn frekar samhæfða hagstjórn.
    Fyrir dyrum standa breytingar á skipan ráðuneyta sem miða að því að efnahagsmál og opinber fjármál verði sameinuð í ráðuneyti fjármála og efnahagsmála. Unnið verður að þessu verkefni þar.

21. Menntaáætlun.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.


I. Útgáfa nýrrar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
    – Grunnþættir í menntun.

    Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla (nr. 90/2008), grunnskóla (nr. 91/2008) og framhaldsskóla (nr. 92/2008) hefur verið unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstöðuatriði í þeirri vinnu er gerð nýrrar aðalnámskrár fyrir skólastigin þrjú.
    Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum, skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra, opinberum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífsins og almenningi upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla. Nýjar aðalnámskrár voru gefnar út 16. maí 2011 og tóku gildi skólaárið 2011–2012.
    Í vinnu við aðalnámskrá voru skilgreindar sérstakar áherslur, svokallaðir grunnþættir menntunar, þar sem lögð er áhersla á persónuleg og samfélagsmiðuð gildi almennrar menntunar á skólastigunum þremur.
     Grunnþættirnir eru: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.
    Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Einnig er sótt til annarrar löggjafar þar sem finna má ákvæði um menntun og fræðslu í skólakerfinu. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það.

II. Efling starfsmenntunar.
    Á árinu 2011 var unnið að stefnumótun um starfsmenntun á vettvangi starfsgreinanefndar, með víðtæku samráði við hagsmunaaðila á fundum um starfsmenntun og greiningarverkefni í samstarfi við OECD.
    Ráðuneytið hratt af stað fundaröð um verkefnið undir heitinu „Starfsmenntun, hvert skal stefna?“ (Natlog). Tilgangurinn með fundunum var að fá fram sjónarmið ýmissa þeirra, sem koma að mótun starfsmenntunar, heyra um stöðu mála og fá fram upplýsingar um það sem brennur á fólki í hinum ýmsu geirum starfsnáms. Haldnir voru níu fundir fyrir mismunandi svið starfsmenntunar þar sem fulltrúar skóla, fyrirtækja, starfsgreinaráða, nemenda og náms- og starfsráðgjafa komu saman til þess að ræða málefni starfsmenntunar á sínu sviði. Tæplega 500 manns hafa tekið þátt í fundunum. Fundaherferðinni verður fram haldið fyrri hluta árs 2012. Stefnt er að samantekt niðurstaðna á ráðstefnu 23. apríl 2012.
    Um mótun starfsmenntunar á 4. þrepi (fagháskólastig) var unnið að greiningarskýrslu þar sem nám sem tekur við að loknum framhaldsskóla er kortlagt. Í ágúst 2012 munu sérfræðingar á vegum OECD koma í heimsókn, rýna stöðu mála hér, bera hana saman við önnur lönd og veita ráðgjöf um framtíðaruppbyggingu. Verkefnið er unnið í samstarfi við sérfræðinga frá OECD.
    Í framhaldi af þessari greiningarvinnu mun ráðuneytið vinna áfram stefnu um starfsmenntun sem byggist á nýrri námskrá og þeim áherslum sem fram hafa komið í greiningu og samráði við hagsmunaaðila. Á þessu ári hefur ríkisstjórnin ráðstafað samtals 600 millj. kr. á árunum 2012 og 2013 til eflingar starfsmenntunar og verður því fé varið í samræmi við áherslur sem lagðar voru í vinnuhópi ríkisstjórnarinnar um menntamál til þess að byggja upp starfsmenntun. Einnig verður sem hluta af sama átaki varið 200 millj. kr. til eflingar náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimati.

III. Aukið aðgengi að námi. – Nám er vinnandi vegur.
    Ríkisstjórnin kynnti í apríl 2011 átaksverkefnið Nám er vinnandi vegur. Markmið með átakinu var að tryggja öllum umsækjendum yngri en 25 ára svo og atvinnuleitendum skólavist í framhaldsskólum haustið 2011.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hóf í kjölfarið í samstarf við framhaldsskólana um að skipuleggja ný námstækifæri fyrir markhópa átaksins. Jafnframt var komið á ráðgjafarþjónustu við umsækjendur. Náms- og starfsráðgjafar ráðuneytisins höfðu samband símleiðis við um 700 nemendur um sumarið. Í framhaldi þeirra samtala var þeim, sem þess óskuðu og uppfylltu skilyrði, fundin skólavist í samráði við starfsmenn framhaldsskólanna.
    Alls innrituðust 1.479 nemendur í nám á vegum átaksins í nítján framhaldsskólum á haustönn 2011. Nemendahópurinn var tvískiptur, annars vegar nemendur á skrá hjá Vinnumálastofnun sem gert höfðu samning um námið á haustönn og hins vegar nemendur 18–24 ára. Í hópnum voru umsækjendur með mjög fjölbreytilegan bakgrunn og margir þeirra höfðu glímt við erfiðleika í námi á fyrri skólagöngu. Ráðuneytið skipulagði sérstaka eftirfylgni með nemendum í átakinu í samráði við ráðgjafa og stjórnendur framhaldsskólanna til að stemma stigu við brotthvarfi. Söfnun tölulegra gagna, svo sem upplýsinga um brotthvarf og mætingu nemenda, var mikilvægur liður í eftirfylgninni. Reglulegir fundir voru haldnir með náms- og starfsráðgjöfum þeirra framhaldsskóla sem innrituðu flesta nemendur í átakinu. Markmið fundanna hefur verið að efla samstarf og skapa vettvang til að miðla því sem vel hefur gengið og draga lærdóm af því sem betur hefur mátt fara. Skólarnir fengu sérstakar fjárveitingar til að ráða fleiri náms- og starfsráðgjafa. Sex og hálft stöðugildi í ráðgjöf hafa þannig alls bæst við í framhaldsskólum vegna átaksins í samræmi við nemendafjölda í hverjum og einum skóla.

IV. Aðgerðir gegn brotthvarfi.
    Á árinu 2011 efndi mennta- og menningarmálaráðuneyti til samstarfs við OECD um innleiðingu menntastefnu og mótun aðgerða til að draga úr brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum. Unnin var bakgrunnsskýrsla á vegum ráðuneytisins sem sérfræðingar OECD nýttu ásamt gögnum stofnunarinnar til að vinna greiningu á stöðu íslensks menntakerfis með tilliti til brotthvarfs.
    Haldið varð málþing um brotthvarf þann 22. nóvember 2011 þar sem ráðuneytið kynnti áherslur Íslands við innleiðingu menntastefnu og mótun aðgerða til að draga úr brotthvarfi. Sérfræðingar á vegum OECD frá Noregi, Finnlandi og Bandaríkjunum, auk starfsmanna stofnunarinnar, fjölluðu um brotthvarf frá alþjóðlegu sjónarhorni og í ljósi niðurstöðu greiningar þeirra á styrkleikum og veikleikum íslensks menntakerfis.
    Til málþingsins var boðið fulltrúum Alþingis og sveitarfélaga, samtökum skólastjórnenda, kennara, nemenda, foreldra, háskóla og öðrum sem áhrif hafa á stefnumótun í menntamálum. Ræddu þeir þær áskoranir sem Íslendingar standa frammi fyrir og hvaða aðgerðir munu vera árangursríkastar við að draga úr brotthvarfi og efla menntun hér á landi.
    Í framhaldinu vann OECD skýrslu um niðurstöður málþingsins sem birt var á vef stofnunarinnar: www.oecd.org/dataoecd/26/63/49451462.pdf.
    Einnig hóf mennta- og menningarmálaráðuneyti þátttöku í verkefni á vegum ESB um aðgerðir gegn brotthvarfi og mun nýta það verkefni ásamt niðurstöðum OECD-greiningarinnar til að móta aðgerðir til að draga úr brotthvarfi.

V. Samantekt – aðgerðir 2012.
1.    Innleiðing nýrrar aðalnámskrár:
    *    Sex grunnþættir menntunar fléttaðir inn í nám á öllum skólastigum.
    *    Hæfniviðmið innleidd í uppbyggingu alls náms.
    *    Framhaldsskólar fá frjálsari hendur við skipulag námsbrauta.
    *    Jafngilding bók- og verknáms til stúdentsprófs.
2.    Hlutfall Íslendinga á aldrinum 25–64 ára sem ekki hafa formlega framhaldsmenntun fari úr 30% niður í 10% árið 2020.
    *    Átak gegn brotthvarfi úr framhaldsskóla m.a. í samstarfi við OECD.
    *    Efling starfsmenntunar í framhaldsskólum, m.a. í samstarfi við OECD.
    *    Efling framhaldsfræðslu, m.a. verkefni á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
3.    Árið 2020 verði færni íslenskra grunnskólanemenda sambærileg við tíu efstu þjóðir samkvæmt OECD-PISA-rannsókninni á lesskilningi og læsi, stærðfræði og raungreinum.
    *    Innleiðing grunnþáttar um læsi í námskrá.
    *    Átak í læsi í grunnskólum.
    *    Aðgerðir til að draga úr kynjamun í læsi.
    *    Samstarf við fagfélög kennara í stærðfræði og raungreinum.
4.    Sérstakar aðgerðir til að efla starfsmenntun – viðurkenning fræðsluaðila og námskráa í framhaldsfræðslu.
    *    Hæfnikröfur starfa skilgreindar í tengslum við námskrár.
    *    Námslok í starfsmenntun flokkuð á hæfniþrep.
    *    Samningar við fræðsluaðila um gerð handbóka og námsferilsbóka fyrir vinnustaðanám.
    *    Lög um vinnustaðanámssjóð verða sett.
    *    Opið samráð um starfsmenntun 2011–12 (Natlogue).
    *    Úttekt á íslensku starfsmenntakerfi í samstarfi við OECD, með áherslu á nám á 4. þrepi, viðbótarstigi milli framhalds- og háskóla 2011–12 (Skills beyond school).
    *    Starfshópur um samþættingu menntunar og atvinnu (Viðspyrna).
5.    Stefnumótun á ýmsum sviðum:
    *    Stefnumótun um námsgögn.
    *    Stefnumótun um kvikmyndamenntun.
    *    Stefnumótun um fjar- og dreifnám.
    *    Stefnumótun um kennaramenntun og námsráðgjöf.
6.    Nám er vinnandi vegur.
    *    Opna framhaldsskólann fyrir öllum yngri en 25 ára.
    *    Aukin náms- og starfsráðgjöf til að draga úr brotthvarfi.
    *    Þróunarsjóður til að efla framboð á starfsmenntun.
    *    Aukið samstarf framhaldsskóla og framhaldsfræðsluaðila.
    *    Fleiri tækifæri í raunfærnimati.
    *    Átak í kynningu á starfsmenntun meðal grunnskólanema.
7.    Nýtt upplýsingakerfi (Menntagátt) og námskrárgrunnur.

22. Mótun höfuðborgarstefnu.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneytið.
    Staða: Ekki hafið.

    Mótun höfuðborgarstefnu er eitt af þeim verkefnum sem tengist atvinnu og stefnumótun Íslands 2020 og er þannig skilgreint:
    „Í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu verði mótuð borgarstefna sem nái til hlutverks Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins sem heildar, tækifæra sem þar felast, umgjörðar atvinnulífs og mannlífs, umhverfismála, þróunar og innviða, íbúalýðræðis og stjórnkerfis, veikleika sem vinna þarf gegn og styrkleika sem byggja má á auk þess að skilgreina skyldur höfuðborgarinnar við landið í heild.“
    Vinna við þetta verkefni er ekki hafin og tengist sú ákvörðun stöðu mála er varðar vinnu við gerð sóknaráætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið og þeirri stefnumótunarvinnu og mótun framtíðarsýnar sem Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinnur að um þessar mundir.

23. Orkuskipti í samgöngum.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Verkefnishópnum um orkuskipti í samgöngum, Grænu orkunni, er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um hagræna hvata til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum hér á landi. Verkefnishópurinn skilaði skýrslu til iðnaðarráðherra ásamt aðgerðaáætlun í nóvember 2011. Í kjölfarið lagði iðnaðarráðherra skýrsluna og aðgerðaáætlun fyrir Alþingi í samræmi við þingsályktun um orkuskipti í samgöngum sem samþykkt var í júní 2011. Iðnaðarráðherra mælti fyrir skýrslunni á Alþingi í byrjun febrúar 2012. Starfsemi Grænu orkunnar heldur áfram í breyttri mynd þar sem framkvæmd aðgerðaáætlunar verður nú í höndum Íslenskrar nýorku. Eftirlit með framkvæmdinni verður í höndum stýrihóps sem iðnaðarráðherra ákveður.

24. Sameining háskóla.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Samstarf opinberu háskólanna hófst formlega í ágúst 2010, með stefnuyfirlýsingu stjórnvalda.
    Markmiðið með stefnu stjórnvalda um samstarf opinberu háskólanna er þríþætt:
     *      Í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags.
     *      Í öðru lagi að hagræða í rekstri háskólanna þannig að fjármunir nýtist sem allra best.
     *      Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu.
    Sjö manna verkefnisstjórn stýrir samstarfinu en þar sitja meðal annarra allir fjórir rektorarnir.
    Meðal verkefna sem ráðist hefur verið í eru:
     *      Samstarf í upplýsingatækni: Samræmt upplýsingakerfi fyrir nemendaskráningu og samskipti nemenda og kennara verður notað við háskólana fjóra frá júlí 2012. Kerfið ber heitið Ugla og hefur verið endurbætt verulega af þessu tilefni. Einnig verður notað Moodle-kennslukerfið.
     *      Samstarf um akademískt mat: Aukið samræmi er nú í mati á árangri starfa akademískra starfsmanna. Mat á árangri starfsmanna hefur m.a. áhrif á nýráðningar, framgang í starfi og árangurstengdar launagreiðslur.
     *      Hvata- og þróunarstyrkir: Sérstakir styrkir til að standa straum af þróun samstarfs á sviði kennslu hafa verið veittir og geta akademískir starfsmenn skólanna sem taka sig saman um verkefni fengið styrk til þeirra.
     *      Tæknilegir innviðir samstarfs: Fjarfundabúnaður, þráðlaus net og aðrir mikilvægir innviðir sem mynda grundvöll samstarfs milli landshluta hafa verið efldir vegna samstarfsins.
    Frá janúar 2012 hafa nemendur opinberu háskólanna haft aukin tækifæri til að velja námskeið þvert á skóla. Undirritaður hefur verið samningur sem gefur nemendum háskólanna möguleika á því að nýta sér námskeið við aðra háskóla án sérstaks endurgjalds og án takmarkana annarra en þeirra sem hver námsleið felur í sér. Nemendum opinberu háskólanna gefast þannig tækifæri til að auka fjölbreytni í námsvali sínu, forðast tafir eða jafnvel að flýta fyrir sér í námi með því að nýta sér námsframboð fleiri skóla.

25. Samkeppnishæfni.
    Ábyrgð: Efnahags- og viðskiptaráðuneyti.
    Staða: Í vinnslu.

    Samkeppnishæfni þjóðarbúsins er eitt af mörgum skilyrðum fyrir fjölbreyttara atvinnulífi og lífsgæðum. Því má líta á verkefnið sem eitt af undirverkefnum í langtímaáætlun efnahagsmála en einnig nátengt fjárfestingum og uppbyggingu atvinnulífs. Verkefnið skiptist í aðgerðir á fjölmörgum sviðum sem þegar eru í gangi innan stjórnsýslunnar, en framkvæmd þeirra kæmi til með að styrkjast mikið með samhæfðari hagstjórn.

26. Sanngjarnt og samkeppnishæft skattkerfi.
    Ábyrgð: Fjármálaráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Nefnd er að störfum sem skilað hefur bráðabirgðaskýrslu. Markmið eru annars vegar styrk fjáröflun hins opinbera til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næstu árum og hins vegar að móta skattkerfið að markmiðum stjórnvalda í samfélagslegum málefnum, umhverfismálum og efnahagsmálum almennt. Málið er áfram í vinnslu.

27. Stefna um erlenda fjárfestingu.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    8. desember 2011 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu (þskj. 498 í 385. máli).
    Þingsályktunartillagan var undirbúin á síðasta ári af iðnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra í sameiningu. Grundvöllur hennar er greiningar- og undirbúningsvinna sem iðnaðarráðuneytið og stofnanir þess hófu þegar árið 2009 og greining efnahags- og viðskiptaráðuneytis á mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar. Þar sem efni tillögunnar snertir málaflokka beggja ráðuneyta og tengist bæði atvinnustefnu og efnahagsáætlun næstu ára er mikilvægt er að hún komi til umfjöllunar í bæði atvinnuveganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Í febrúar 2012 var hún kynnt fyrir umræddum þingnefndum og er nú til meðferðar hjá þeim.
    Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er vísað til Íslands 2020, sbr.:
    „Í stefnumörkuninni Ísland 2020 er sett fram það markmið að „stuðla að fjölbreyttri erlendri fjárfestingu“ og svo segir: „Marka þarf skýra stefnu um erlenda fjárfestingu og vinna markvisst að því að greiða fyrir fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Sérstaklega þarf að huga að möguleikum til að afla þolinmóðs fjármagns fyrir innviði og áhættufjárfestingar á þekkingar- og nýsköpunarsviðinu.““
    Markmið þingsályktunartillögunnar (og þá verkefnisins „stefna um erlenda fjárfestingu“) er að finna í texta tillögunnar, þ.e.:
    „Alþingi ályktar að mikilvægt sé að efla fjárfestingu í íslensku atvinnulífi.
    Alþingi ályktar að bætt samkeppnishæfni Íslands gagnvart erlendri fjárfestingu og markaðssetning byggð á skýrum markmiðum sé sérstakt viðfangsefni sem leggja beri aukna áherslu á.
    Alþingi ályktar að íslensk stjórnvöld skuli í því skyni tryggja gagnsæja meðferð mála er varða erlenda fjárfestingu og að gildandi reglur séu jafnan skýrar og ótvíræðar.
    Alþingi áréttar að enginn vafi leiki á að stjórnarskrá, lög og reglur verji eignarréttindi erlendra fjárfesta á Íslandi með sama hætti og eignir íslenskra ríkisborgara.
    Alþingi felur stjórnvöldum að sækjast sérstaklega eftir fjárfestingu sem:
    1.    stuðlar að fjölbreytni atvinnulífs,
    2.    styður við verndun og nýtingu umhverfis á sjálfbærum grunni,
    3.    nýtir nýjustu tækni,
    4.    skapar í gegnum framleiðsluferli sem mestan virðisauka innan lands,
    5.    skapar hlutfallslega mörg störf og hátt hlutfall verðmætra starfa,
    6.    stuðlar að eflingu rannsókna og þróunar og öflun nýrrar þekkingar,
    7.    er arðsöm og skilar hlutfallslega miklum skatttekjum,
    8.    skapar ný tækifæri eða tækifæri sem talin eru æskileg til að styrkja innlenda starfsemi sem fyrir er.“
    Í þingsályktunartillögunni kemur fram að efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra leggi fyrir vorþing 2012 tímasetta áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands og efla markaðs- og kynningarstarf í því skyni. Þá verði mótaðar tillögur um samhæfða stjórnsýslu til að styðja við framangreind markmið. Þessi atriði eru í vinnslu innan iðnaðarráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis.

28. Uppbygging klasa.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Í umfjöllun um verkefnið í Ísland 2020 kemur eftirfarandi fram: Stutt verði við myndun klasa þar sem tækifæri eru fyrir hendi til ábyrgs vaxtar og áhersla lögð á fjárfestingu í menntun, vísindum og nýsköpun. Lýsing verkefnis fellur vel að þeim markmiðum sem höfð verða til hliðsjónar við gerð atvinnustefnu og mun iðnaðarráðuneytið fella verkefnið inn í gerð stefnunnar og meðfylgjandi aðgerðaáætlunar. Þar verður m.a. lögð áhersla á hlutverk hins opinbera og þá sérstaklega hlutverk stoðkerfis atvinnulífsins til stuðnings við myndun og eflingu klasa. Atvinnustefnan mun fela í sér markmið og leiðir til eflingar klasa, auk aðgerðaáætlunar eftir tillögum og ábyrgðaraðilum.
    Í atvinnustefnu verður m.a. fjallað um:
     *      hlutverk hins opinbera og stoðkerfi atvinnulífs þegar kemur að stuðningi við klasa, og
     *      styrkleika í atvinnulífi og tækifæri til myndunar og eflingar klasa.
    Um sérstakan kafla í atvinnustefnu er að ræða. Samkvæmt verkáætlun við gerð atvinnustefnu er áætlað að frumdrög liggi fyrir í lok árs 2012.

29. Vaxtarsamningur um ferðaþjónustu.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneytið.
    Staða: Í vinnslu.

    Framtíðarstefna í ferðaþjónustu þarf að vera í samhengi við stefnu í öðrum atvinnugreinum enda skarast greinin t.d. við sjávarútveg, landbúnað, hönnun og skapandi greinar. Verkefnið er því unnið sem hluti af atvinnustefnu í stað þess að vera sérafmarkað og skilgreint sem verkefni innan 2020. Ferðamálaáætlun 2011–2020 er höfð til hliðsjónar við gerð atvinnustefnunnar ásamt m.a. áherslum ríkisstjórnarinnar í verkefninu Ísland, allt árið um fjölgun heilsársstarfa í ferðaþjónustu. Fjallað verður sérstaklega um eflingu ferðaþjónustunnar í væntanlegri atvinnustefnu.

30. Vísindaþorp í Vatnsmýri.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Staða: Ekki hafið.

    Vísindaþorp er vettvangur háskóla, rannsóknastarfsemi og þekkingarfyrirtækja sem hefur að markmiði að skapa öflugt nýsköpunarumhverfi sem styður við svæðisbundna þróun (e. regional development by high-tech clustering) og er mikilvægt fyrir samkeppnisstöðu háskólanna og landsins alls. Vísindaþorp eru frábrugðin venjulegu fyrirtækjaumhverfi og sérhönnuðu fyrirtækjaumhverfi (e. business parks) að því leyti að í vísindaþorpum er skapað samfélag háskóla, þekkingarfyrirtækja og rannsóknastofnana sem leggja hvert öðru lið með sambúðinni og ná að byggja upp styrkleika heildarumhverfisins sem er meiri en samanlagður styrkleiki þeirra einstöku þátta sem mynda heildina. Alls staðar í þróuðum vestrænum þjóðfélögum er nú litið til slíkra þekkingarþyrpinga sem öflugustu aðferðarinnar til að hraða og efla nýsköpun.
    Markmið með vísindaþorpi er að gefa fleiri fyrirtækjum og stofnunum kost á að staðsetja sig í háskólaumhverfi þar sem samlegðaráhrif atvinnulífs og rannsóknastofnana fá að njóta sín. Með vísindaþorpi er stuðlað að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, byggð brú milli háskólasamfélagsins og atvinnulífsins og þannig stuðlað að aukinni verðmætasköpun.
    Fyrirmynd að vísindaþorpi er sótt til Evrópu og Bandaríkjanna þar sem uppbygging slíkra garða hefur verið mikil. Rannsóknir sýna að samstarf atvinnulífs og háskóla á sviði tækni og vísinda með nýsköpun markaðsafurða að markmiði skilar góðum árangri ef slík miðstöð nýsköpunar er staðsett í sterkum tengslum við öflugt háskóla- og vísindastarf.
    Vísinda- og tækniráð hefur um árabil lagt áherslu á þá möguleika til nýrrar sóknar sem felast í sameiningu opinberra rannsóknastofnana og nábýli þeirra við háskóla og þekkingarfyrirtæki. Vísinda- og tækniráð hefur lagt til að hafið verði markvisst starf í þessum efnum til að nýta betur fjármagn og mannafla og búa til þekkingarumhverfi á svæði háskólanna í Vatnsmýri sem staðið getur jafnfætis alþjóðlegri þróun í þeim efnum.

Neðanmálsgrein: 1
1     Skýrsla starfshóps forsætisráðuneytisins, feb. 2010: Endurskipulagning þróunar-, umbóta og hagræðingarmála hjá ríkinu.