Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 590. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1213  —  590. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um áhrif dóma
um gengistryggð lán.


     1.      Kemur til greina að mati ráðherra að láta leggja fram lagafrumvarp til að tryggja flýtimeðferð á dómsmálum tengdum helstu álitaefnum er varða dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána?
    Í XIX. kafla laga um meðferð einkamála er fjallað um flýtimeðferð einkamála. Er í 123. gr. laganna kveðið á um að hyggist aðili höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu sem færi eftir almennum reglum laganna geti hann óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð ef brýn þörf er á skjótri úrlausn enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans. Sá sem æskir flýtimeðferðar skal afhenda dómstjóra dómstóls stefnu ásamt skriflegri beiðni um útgáfu hennar og þeim málsgögnum sem geta stutt beiðnina. Dómstjórinn tekur svo ákvörðun um hvort orðið verði við beiðninni. Sæti mál flýtimeðferð eftir ákvæðum þessa kafla eru, auk þess að dómari gefi út stefnu, ýmsir frestir í allri málsmeðferðinni styttri.
    Hinn 9. mars sl. gaf Samkeppniseftirlitið með ákvörðun sinni fjármálafyrirtækjum heimild til að hafa samstarf í tilefni af dómi Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. Tekur samstarfið m.a. til vals á málum sem hentugust eru til þess að bera undir dómstóla með álitaefni sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi og vals á málsástæðum sem reyna þarf á í dómsmálum í því skyni að eyða sem fyrst allri óvissu. Fulltrúi umboðsmanns skuldara skal hafa aðgang að öllum gögnum sem verða til vegna samstarfsins og skal sitja alla fundi. Þá skal leitast við að stefna eftir því sem við verður komið þeim skuldurum sem að mati umboðsmanns skuldara eru hvað best til þess fallnir að halda uppi vörnum í slíku dómsmáli. Ráðherra telur að ef gera eigi lagabreytingar sem heimili flýtimeðferð skv. XIX. kafla laga um meðferð einkamála í ótilgreindum málum, er varða ágreining sem tengist gengistryggðum lánum og uppgjöri þeim tengdum, verði vel að vanda til þeirrar lagabreytingar. Ljóst þarf að vera hvaða málum er ætlaður flýtifarvegur svo ekki skapist álag á dómstólana og stjórnsýslu þeirra við að velja úr þau mál sem eigi að fara í flýtimeðferð. Þá ítrekar ráðherra þá afstöðu sína, sem áður hefur komið fram, að ekkert standi í vegi þess að aðilar mála ásamt dómara málsins og eftir atvikum umboðsmanni skuldara komi sér saman um að ákveðin mál, sem sannanlega eru fordæmisgefandi fyrir mörg mál, verði rekin hratt í gegnum dómskerfið án þess að sérstök lagabreyting verði gerð.

     2.      Kemur að mati ráðherra til greina að stöðva innheimtu gengistryggðra lána þar til fenginn er úrskurður dómstóla um helstu álitaefni er varða uppgjör þessara lána?
    Vísað er til fyrrgreindrar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins sem heimilar samráð fjármálastofnana við greiningu á málum í framhaldi af dómi Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. Eitt af skilyrðum þess að umrætt samstarf megi eiga sér stað er að lánveitendur sem aðild eiga að samstarfinu fresti öllum fullnustuaðgerðum sem byggjast á lánum sem ljóst er að falli undir fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. Lítur ráðherra svo á að fjármálafyrirtæki muni fresta nauðungarsöluaðgerðum og aðfarargerðum í þeim tilvikum sem falla undir framangreinda lýsingu Samkeppniseftirlitsins.

     3.      Kemur til greina að mati ráðherra að leggja fram lagafrumvarp til að tryggja gjafsókn vegna fordæmisgefandi mála fyrir dómstólum?
    Reglur um gjafsókn byggjast á því að úr ríkissjóði greiðist málskostnaður fyrir þann sem ekki hefur ráð á að kosta málsókn sína sjálfur. Þannig er lögð áhersla á þann einstakling sem um ræðir og þarf að gæta réttar síns. Þeir einstaklingar sem standa í málarekstri vegna mála sem um er getið í fyrirspurninni eiga þannig sömu möguleika og aðrir til að sækja um gjafsókn í máli sínu hafi þeir ekki fjárhagslega getu til að standa straum af málarekstri. Ekki verður séð að sérstök þörf sé fyrir almenna gjafsókn fyrir alla þá sem eiga í málarekstri og tengjast tilgreindum málum óháð getu þeirra til að kosta málssókn sína sjálfir. Þá má benda á að í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem getið er um hér að framan er sérstaklega tekið fram að fjármálafyrirtækin megi ekki krefjast málskostnaðar í kröfugerð sinni á hendur skuldurum í þeim dómsmálum sem höfðuð verða í kjölfar samstarfs þess sem heimilað var með ákvörðuninni.