Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 492. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1214  —  492. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um verklagsreglur
við vörslusviptingar.


     1.      Hvernig rökstyður ráðherra þá afstöðu sína sem fram kom í svari við fyrirspurn (þskj. 719, 311. mál) að dómsúrskurður sé nauðsynlegur vegna vörslusviptingar? Óskað er eftir að í rökstuðningi ráðherra sé vísað til þeirra gagna sem afstaðan byggist á.
    Í svari við fyrirspurn (þskj. 719, 311. mál) kom fram að í júní sl. hefði ráðherra varað við lögbrotum vegna vörslusviptinga og bent á að í lögum um aðför væri kveðið á um að ef einhver teldi sig eiga eign í vörslum annarra sem hann vildi fá í sínar hendur og ágreiningur væri með aðilum þyrfti að afla dómsúrskurðar um að taka mætti eignina úr vörslum umráðamanns. Í tilvitnaðri ábendingu ráðuneytisins frá í sumar er bent á að í lögum um aðför er fjallað um hvernig að skuli farið þegar þeim sem telur sig eiga eign í vörslum annars er með ólögmætum hætti aftrað frá því að fá vörslur eignarinnar. Var þar bent á að í 78. gr. aðfararlaga komi fram að þeim sem telur sér með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann telur sig eiga (kallaður gerðarbeiðandi) og getur fært sönnur á rétt sinn með skriflegum sönnunargögnum er heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að hlutur sé tekinn úr vörslu þess sem hlutinn hefur (gerðarþola) og afhentur þeim er réttinn á. Dómari tekur afstöðu til þess hvort réttur gerðarbeiðanda sé svo ótvíræður að heimila megi honum umráð hlutarins. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að láta gerðina ná fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla. Það þýðir að leiki vafi á réttmæti kröfu gerðarbeiðanda skal hafna því að aðför fari fram. Sé slíkri aðfararbeiðni hafnað er gerðarbeiðanda óheimilt að taka eign í sína vörslu þar til leyst hefur verið úr ágreiningi aðila.

     2.      Af hverju hafa sýslumenn og lögreglan ekki unnið í samræmi við þessa afstöðu ráðherra á undanförnum mánuðum?
    Eins og fram kom í áðurnefndu svari við fyrirspurn (þskj. 719, 311. mál) hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu vísað frá embættinu kærum um þjófnað, nytjastuld eða gertæki þar sem ljóst er að fjármögnunaraðilar hafa tekið í vörslur sínar bifreiðar sem þeir telja sig eigendur að. Kemur í svarinu jafnframt fram að rökin fyrir þeirri afgreiðslu eru að í þessum málum standi deilan um einkaréttarlegan samning sem leysa beri úr í einkamáli en ekki sakamáli. Þannig sé það ekki í valdi lögreglu að leysa úr málinu. Sé staðan hins vegar sú að við vörslusviptingu sé beitt ofbeldi eða haft í hótunum við menn getur verið um brot á hegningarlögum að ræða en slík brot er á verksviði lögreglu að rannsaka.

     3.      Hvernig fer fram sú vinna ríkislögreglustjóra að setningu verklagsreglna um vörslusviptingar sem minnst er á í áðurgreindu svari og hvenær má gera ráð fyrir að vinnunni ljúki?
    Ríkislögreglustjóri hefur skoðað setningu verklagsreglna vegna þessara mála eins og fram kom í svari við fyrirspurn (þskj. 719, 311. mál) og er niðurstaða hans sú að ekki sé þörf á sérstökum verklagsreglum fyrir lögreglu í þessum málum.