Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 525. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1224  —  525. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur
um nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa hefur ráðuneytið sett á stofn frá alþingiskosningum 2009?
     2.      Hvað sitja margir í framangreindum nefndum? Hvert er hlutverk þeirra, er skipun þeirra samkvæmt heimild eða fyrirmælum í lögum, hver er skipunartíminn og hverjar þeirra hafa lokið störfum? Hver er launakostnaðurinn, sundurliðaður eftir nefndum?
     3.      Hvað hefur hver nefnd marga starfsmenn, hver er launakostnaður þeirra og eru einhverjir starfsmenn þeirra verktakar og ef svo er, hvað heita þeir og hvað hafa þeir fengið greitt úr ríkissjóði?
    Óskað er eftir upplýsingum um það hvaða einstaklingar hafa verið skipaðir, tilnefndir eða valdir með öðrum hætti til setu í þessum nefndum, ráðum, verkefnisstjórnum og starfshópum, hver hafi skipað eða eftir atvikum tilnefnt þá og hvort störfin séu launuð eða ólaunuð.


    Í þingskjali 254, 91. máli á 139. löggjafarþingi, er svar forsætisráðherra við fyrirspurn Birgis Ármannssonar við samhljóða spurningum að hluta til og hefur það m.a. að geyma upplýsingar frá utanríkisráðuneyti.
    Frá alþingiskosningum árið 2009 hefur ráðuneytið skipað eftirtaldar nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa:
     Samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Í því sitja 17 einstaklingar. Hlutverk þess er að sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Það er skipað skv. 4. gr. laga nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, til fjögurra ára frá 2. mars 2009. Í ráðinu eiga sæti Valgerður Sverrisdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar; Hjálmar Jónsson, Haukur Már Haraldsson, Sigfús Ólafsson, Drífa Hjartardóttir, Katrín Ásgrímsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir og Ásgerður Jóna Flosadóttir sem eru kosin af Alþingi (og mynda jafnframt þróunarsamvinnunefnd, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands); Þorbjörn Guðmundsson sem er tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands; Guðrún Eyjólfsdóttir sem er tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins; Jónas Þ. Þórisson, Ragnar Gunnarsson, Steinunn Gyðu Guðjónsdóttir, Ulla Magnússon og Þórir Guðmundsson sem eru tilnefnd af samstarfshópi íslenskra mannúðarsamtaka í alþjóðlegu hjálparstarfi og þróunarsamvinnu; Jónína Einarsdóttir sem er tilnefnd af Háskóla Íslands og Geir Gunnlaugsson sem er tilnefndur af Háskólanum í Reykjavík. Samstarfsráðið hefur ekki sérstaklega tilnefndan starfsmann. Ekki er greidd sérstök þóknun fyrir setu í samstarfsráðinu.
     Verkefnisstjórn Íslandsstofu. Í henni sátu átta einstaklingar. Hlutverk hennar var að fjalla um og gera tillögur að verkaskiptingu aðila, samstarfi og samræmingu verkefna, fyrirhuguðum flutningi verkefna og fjármuna sem þeim tengdust til Íslandsstofu, og aðgerðum til að efla ímynd lands og þjóðar á erlendum vettvangi. Hún var skipuð samkvæmt ákvörðun utanríkisráðherra og starfaði frá 22. september 2009 til 22. febrúar 2010. Í verkefnisstjórninni sátu Einar Karl Haraldsson, formaður, tilnefndur af forsætisráðherra, Auður Edda Jökulsdóttir, tilnefnd af utanríkisráðuneyti, Jón Ásbergsson, tilnefndur af Útflutningsráði, Pétur Reimarsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Árni Gunnarsson, tilnefndur af Samtökum ferðaþjónustunnar, Arnar Guðmundsson tilnefndur af iðnaðarráðuneyti og Karítas H. Gunnarsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti. Anna Kristín Ólafsdóttir, þáverandi sérfræðingur í forsætisráðuneyti, var verkefnisstjóri og fékk hún greitt fyrir störf sín samkvæmt framlögðum tímaskýrslum, 926.500 kr. að frátöldum virðisaukaskatti. Starfsmaður verkefnisstjórnar var Unnur Orradóttir Ramette, sérfræðingur í utanríkisráðuneyti. Ekki var greidd sérstök þóknun fyrir setu í verkefnisstjórninni né til starfsmanns hennar.
     Starfshópur um öryggismál og endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Í honum sátu fimm einstaklingar. Hlutverk hans var að undirbúa breytingar er leiddi af niðurlagningu Varnarmálastofnunar. Hann var skipaður samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar 4. desember 2009 og starfaði frá þeim tíma til loka marsmánaðar 2010. Í honum áttu sæti Guðmundur B. Helgason, formaður, skipaður án tilnefningar, Ágúst Geir Ágústsson, tilnefndur af forsætisráðherra, Angantýr Einarsson, tilnefndur af fjármálaráðherra, Haukur Guðmundsson, tilnefndur af dómsmálaráðherra, og Karl Alvarsson, tilnefndur af samgönguráðherra. Starfshópurinn hafði einn starfsmann, Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur, sérfræðing í utanríkisráðuneyti. Þeir meðlimir hópsins, sem voru þá opinberir starfsmenn, og starfsmaður hópsins nutu ekki sérstakra greiðslna fyrir störf sín í honum. Kostnaður vegna starfa formanns starfshópsins, sem er sjálfstætt starfandi sérfræðingur, var 4.500.000 kr. að frátöldum virðisaukaskatti.
     Stjórn Íslandsstofu. Í henni sitja sjö einstaklingar. Hlutverk hennar er að skipuleggja og ákveða verkefni Íslandsstofu, samþykkja árlega starfs- og fjárhagsáætlun stofunnar og hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Þá sér stjórnin til þess í samstarfi við fagráðuneyti að starfrækt séu fagráð um áherslur í markaðs- og kynningarmálum erlendis, m.a. á sviði ferðaþjónustu, matvælagreina, umhverfismála, menningarmála og fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Stjórnin er skipuð skv. 3. gr. laga nr. 38/2010, um Íslandsstofu, til þriggja ára frá 2. júní 2010. Í henni sitja Friðrik Pálsson, formaður, Sigsteinn Páll Grétarsson, Eggert Benedikt Guðmundsson, Vilborg Einarsdóttir, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins, Ólöf Ýrr Atladóttir, tilnefnd af iðnaðarráðuneyti, Einar Karl Haraldsson, tilnefndur af utanríkisráðuneyti, og Kolbrún Halldórsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þá situr Júlíus Hafstein, forstöðumaður viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins, fundi stjórnar sem áheyrnarfulltrúi. Stjórnin hefur ekki sérstaklega tilnefndan starfsmann, en fundir hennar eru undirbúnir af Íslandsstofu. Íslandsstofa greiðir stjórnarmönnum sínum og áheyrnarfulltrúa laun samkvæmt eigin ákvörðun, sem eru 75.000 kr. á mánuði til formanns og 50.000 kr. á mánuði til annarra stjórnarmanna.
     Starfshópur um samstarf við Færeyjar. Í honum sátu fjórir einstaklingar. Hlutverk hans var að gera tillögur um að treysta samstarf Íslands og Færeyja á ýmsum sviðum. Hann var skipaður samkvæmt ákvörðun utanríkisráðherra frá 10. ágúst 2010 og lauk störfum í september sama ár. Í honum áttu sæti Martin Eyjólfsson, tilnefndur af utanríkisráðuneyti, Ólafur Friðriksson, tilnefndur af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Sverrir Jónsson, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, og Anna Jóhannsdóttir, tilnefnd af forsætisráðuneyti. Starfsmaður hópsins var Bergþór Magnússon, sérfræðingur í utanríkisráðuneyti. Ekki var greidd sérstök þóknun fyrir setu í starfshópnum né vegna starfa fyrir hann.
     Verkefnisstjórn vegna niðurlagningar á Varnarmálastofnun Íslands. Í henni sátu fimm einstaklingar. Hlutverk hennar var að yfirtaka starfsskyldur forstjóra Varnarmálastofnunar, bera ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar og lögbundnum verkefnum þar til hún var lögð niður. Nefndin var skipuð samkvæmt bráðabirgðaákvæði varnarmálalaga, nr. 34/ 2008, sbr. lög nr. 98/2010, frá 1. september til 31. desember 2010. Í verkefnisstjórninni áttu sæti Guðmundur B. Helgason, formaður, skipaður af utanríkisráðherra, Anna Jóhannsdóttir, tilnefnd af forsætisráðherra, Valur Ingimundarson, tilnefndur af dómsmálaráðherra, Halla Gunnarsdóttir, tilnefnd af fjármálaráðherra, og Margrét S. Björnsdóttir, tilnefnd af samgönguráðherra. Verkefnisstjórnin hafði ekki sérstaklega tilnefndan starfsmann. Formaður hennar gegndi störfum forstjóra Varnarmálastofnunar á þessu tímabili og fékk hann greiddar 3.255.184 kr. frá Varnarmálastofnun fyrir störf sín með vísan til ákvörðunar kjararáðs um starfskjör forstjóra stofnunarinnar. Þóknanir til annarra meðlima verkefnisstjórnarinnar voru ákveðnar af þóknananefnd, 43 þóknanaeiningar á mánuði fyrir hvert þeirra og nam heildargreiðsla Varnarmálastofnunar til hvers þeirra fyrir allt tímabilið 287.928 kr., samtals 1.151.712 kr.
     Nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Í henni sitja tíu einstaklingar. Hlutverk hennar er að fjalla um og gera tillögur um stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli her- og vopnleysis og að kanna grundvöll þess að setja á stofn sjálfstætt rannsóknarsetur á Íslandi á sviði utanríkis- og öryggismála. Nefndin er skipuð samkvæmt þingsályktun, sem samþykkt var á Alþingi 16. september 2011 (þskj. 1945, 723. mál, 139. löggjafarþing). Nefndin hefur ekki lokið störfum, en gert er ráð fyrir að hún skili tillögum sínum eigi síðar en 1. nóvember nk. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka kosnir af Alþingi en formaður, sem skipaður er af utanríkisráðherra, er Valgerður Bjarnadóttir. Aðrir nefndarmenn eru alþingismennirnir Mörður Árnason, Magnús Orri Schram, Einar K. Guðfinnsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Birgitta Jónsdóttir. Nefndin hefur einn starfsmann, Jörund Valtýsson, sendifulltrúa. Nefndarmenn og starfsmenn nefndar eru ólaunaðir.
     Samráðshópur ráðuneyta vegna undirbúnings að ráðstefnunni Ríó +20. Í honum sitja átta einstaklingar. Hlutverk hans er að undirbúa þátttöku Íslands í ráðstefnu um sjálfbæra þróun, sem haldin verður í Brasilíu í júní nk., undir yfirskriftinni Ríó +20. Hann er skipaður samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar 22. október 2010 og mun starfa fram að ráðstefnunni. Í honum sitja Ágúst Geir Ágústsson, tilnefndur af forsætisráðuneyti, Björg Fenger, tilnefnd af velferðarráðuneyti, Brynhildur Benediktsdóttir, tilnefnd af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Danfríður Skarphéðinsdóttir, tilnefnd af umhverfisráðuneyti, Ingvi Már Pálsson, tilnefndur af iðnaðarráðuneyti, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, tilnefnd af utanríkisráðuneyti, Sigurður Guðmundsson, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, og Steindór Grétar Jónsson, tilnefndur af efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Hópurinn hefur ekki sérstaklega tilnefndan starfsmann, en þeir starfsmenn ráðuneytisins sem fara með málefni er ráðstefnunni tengjast taka þátt í starfi hans. Ekki er greidd sérstök þóknun fyrir setu í samráðshópnum né vegna annarra starfa fyrir hann.
     Samráðshópur í tengslum við samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í honum sitja 24 einstaklingar. Samráðshópurinn mun eiga reglulega fundi með aðalsamningamanni og fulltrúum í samninganefnd Íslands og fá upplýsingar um framvindu viðræðnanna og samningsafstöðu í einstökum samningsköflum. Eitt meginhlutverk samráðshópsins er jafnframt að miðla upplýsingum um viðræðurnar til landsmanna og stuðla þannig að málefnalegri umræðu um hagsmuni Íslands í viðræðunum og áhrif mögulegrar aðildar Íslands. Samráðshópurinn getur kallað til frekara samráðs fulltrúa stjórnmálaflokka, félagasamtaka, hagsmunasamtaka og einstaklinga um efnisatriði er tengjast samningaviðræðunum. Hann er skipaður samkvæmt þingsályktun nr. 1/137 (137. löggjafarþingi). Hópurinn, sem hóf formlega störf 24. febrúar sl. að undanskildum formanni og varaformönnum sem tóku til starfa 7. nóvember 2011, mun starfa þar til samningaviðræðum við Evrópusambandið er lokið. Formaður hans er Salvör Nordal, heimspekingur og forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, og varaformenn eru Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forseti Sögufélags, og Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, öll skipuð án tilnefninga. Auk þeirra sitja eftirtaldir í samráðshópnum, skipuð frá 24. febrúar sl. að fengnum tilnefningum formanns og varaformanna: Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, Ari Teitsson, bóndi og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, Björn Snæbjörnsson, formaður verkalýðsfélagsins Einingar Iðju, Guðrún Lárusdóttir, útgerðarmaður og framkvæmdastjóri Stálskipa, Hanna Katrín Friðriksson, forstöðumaður viðskiptaþróunar Icepharma, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, Kári Jónasson, fyrrverandi fréttastjóri RÚV, Knútur Rafn Ármann, ferðaþjónustu- og garðyrkjubóndi, Friðheimum, Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri og forseti Bandalags íslenskra listamanna, Kristján Björnsson, sóknarprestur í Vestmannaeyjum, Lilja Dögg Jónsdóttir, hagfræðingur og fyrrverandi formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands, Margrét Pála Ólafsdóttir, leikskólakennari og forstöðumaður Hjallastefnunnar, Marta Mirjam Kristinsdóttir, háskólanemi og formaður AUS, alþjóðlegra ungmennaskipta, Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, Ragnar Arnalds, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, Sigríður Halldórsdóttir, prófessor á heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, Stefán Þór Helgason, háskólanemi og fyrrverandi varaformaður stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Stefán Bogi Sveinsson, lögfræðingur og forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs. Hópurinn hefur ekki sérstaklega tilnefndan starfsmann. Formaður og varaformenn fá þóknun fyrir störf sín í samráðshópnum samkvæmt ákvörðun þóknananefndar, formaður fær greiddar 150.000 kr. á mánuði og varaformenn 100.000 kr. Aðrir fulltrúar í samráðshópnum fá ekki greidda sérstaka þóknun.
     Málflutningsteymi til að starfa með Tim Ward QC að undirbúningi varnar í Icesave-málinu. Í því sitja sex einstaklingar. Það er skipað samkvæmt ákvörðun utanríkisráðherra en áform hans um skipan þess voru áður kynnt í ríkisstjórn og utanríkismálanefnd. Teymið var skipað í byrjun þessa árs og mun starfa þar til málflutningi fyrir EFTA-dómstólnum er lokið. Það er skipað sérfræðingum sem unnið hafa að málinu frá upphafi, hafa sérþekkingu á Evrópurétti og störfum EFTA-dómstólsins og lögmönnum sem hafa mikla reynslu af hagsmunagæslu fyrir ríkið eða beitt sér opinberlega gegn þeim samningum sem gerðir voru um lyktir málsins. Í teyminu eru Kristján Andri Stefánsson sendiherra, Þóra M. Hjaltested skrifstofustjóri, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, Einar Karl Hallvarðsson hrl., ríkislögmaður, Jóhannes Karl Sveinsson hrl., Kristín Haraldsdóttir, forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, og Reimar Pétursson hrl. Teymið hefur ekki sérstaklega tilnefndan starfsmann, en nýtur aðstoðar starfsmanns ráðuneytisins á fundum og fær hann ekki greidda sérstaka þóknun vegna þess. Þeir meðlimir hópsins sem ekki eru starfsmenn hins opinbera fá greitt samkvæmt reikningi fyrir vinnu sína miðað við framlagðar tímaskýrslur. Reikningsfærður kostnaður vegna þessa nemur nú 4.127.227 kr. að frátöldum virðisaukaskatti.
     Samninganefnd vegna aðildarviðræðna við ESB og samningahópar. Á grundvelli þingsályktunar nr. 1/137 (137. löggjafarþing) skipaði utanríkisráðherra haustið 2009 aðalsamninganefnd vegna aðildarviðræðna við ESB og tíu samningahópa, sem skipaðir eru starfsmönnum stofnana og ráðuneyta, fulltrúum hagsmunaaðila og sérfræðinga. Starfsmenn stofnana og ráðuneyta og fulltrúar sem tilnefndir eru af hagsmunaaðilum fá ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín í samninganefndinni eða hópunum en sjálfstætt starfandi sérfræðingar og sérfræðingar frá háskólasamfélaginu fá greitt fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun þóknananefndar. Slíkt á við um sex meðlimi í aðalsamninganefnd sem njóta samkvæmt úrskurði þóknananefndar mánaðargreiðslu á bilinu 150.000–300.000 kr. Þá hefur þóknananefnd ákveðið þremur meðlimum samningahóps um utanríkismál, þremur meðlimum samningahóps um gjaldmiðilsmál og einum meðlimi samningahóps um lagamál 15.000 kr. í þóknun fyrir hvern fund. Að auki er eitt erindi óafgreitt hjá þóknananefnd vegna varaformanns eins samningahópsins.
    Frá því að aðalsamninganefndin og samningahóparnir hófu störf hafa nokkrar breytingar orðið á skipan þeirra, en hér á eftir fer listi yfir nöfn meðlima og starfsmanna þeirra nú og upplýsingar um tilnefningaraðila:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ekki er í svari þessu fjallað um nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópa, sem settir hafa verið á laggirnar fyrir þann tíma sem fyrirspurn þessi lýtur að, né innri vinnuteymi sem mynduð hafa verið í ráðuneytinu, eftir atvikum með aðkomu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.