Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 136. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1231  —  136. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum (skýrara bann við auglýsingum).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Almar Guðmundsson, Jón Erling Ragnarsson og Pál Rúnar Mikael Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Líneyju Rut Halldórsdóttur frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Orra Hauksson frá Samtökum iðnaðarins, Gunnar Smára Egilsson frá Samtökum áhugafólks um áfengisvandann og Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 139. löggjafarþingi (705. mál) en varð ekki útrætt. Frumvarpið var lagt fram að nýju á þessu þingi að teknu tilliti til þeirra breytinga sem allsherjarnefnd lagði til við fyrra frumvarp (þskj. 1707).
    Lengi hefur verið bannað samkvæmt íslenskum lögum að auglýsa áfengi og áfengistegundir. Í 1. mgr. 20. gr. áfengislaga er kveðið á um að hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum séu bannaðar og enn fremur að bannað sé að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu. Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögunum sem miða að því að koma í veg fyrir að farið sé í kringum bannið, en slíkt hefur viðgengist þegar óáfeng vara er auglýst með ríkri tilvísun til hinnar áfengu. Því er mælt fyrir um það í frumvarpinu að bannið nái til þess þegar vökvi sem er undir 2,25% af hreinum vínanda er auglýstur ef um er að ræða markaðssetningu í umbúðum sem getur skapað hættu á ruglingi milli áfengu vörunnar og hinnar óáfengu. Markmiðið með þessari breytingu er að girða fyrir að hægt sé að auglýsa óáfenga framleiðslu með svo sterkri skírskotun til hinnar áfengu framleiðslu að í raun verði ekki dregin önnur ályktun en sú að verið sé að auglýsa hina áfengu vöru. Lagt er til að bannið muni einnig ná til annarra viðskiptaboða en auglýsinga og verður gildissvið bannsins því víðtækara en áður verði frumvarpið að lögum. Með hugtakinu viðskiptaboð, sem var lögfest með fjölmiðlalögum, nr. 38/2011, er átt við texta, myndir og/eða hljóð sem er ætlað að vekja, beint eða óbeint, athygli á vörum, þjónustu eða ímynd lögaðila eða einstaklings sem stundar atvinnustarfsemi og er miðlað gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eða til kynningar í eigin þágu. Til viðskiptaboða teljast m.a. auglýsingar, kostun og vöruinnsetning.
    Einnig er lagt til í frumvarpinu að eftirlit með banni gegn brotum við auglýsingum á áfengi skv. 20. gr. laganna verði hjá Neytendastofu en ekki hjá lögreglu líkt og nú tíðkast. Því er kveðið á um að Neytendastofa geti lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn 20. gr. laganna og geta þær numið allt að 20 millj. kr. Neytendastofa hefur nú þegar eftirlit með villandi og óréttmætum auglýsingum samkvæmt lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, og hefur því yfir að ráða sérþekkingu og reynslu á þessu sviði. Gert er ráð fyrir því að um málsmeðferð fari samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
    Auglýsingum er ætlað að byggja upp eftirspurn. Aukin eftirspurn eftir áfengi eykur neyslu þess og aukin neysla eykur samfélagslegan skaða af neyslunni. Dauðsföllum fjölgar, sem og slysum og sjúkdómum sem rekja má til neyslunnar. Þá eykst kostnaður í heilbrigðis-, félags- og dómskerfi og veldur einstaklingum óþarfa þjáningum og fjölskyldum sárum harmi. Vert er að hafa í huga að þær auglýsingar sem frumvarpið fjallar um er sérstaklega beint að ungu fólki.
    Bæði við umfjöllun nefndarinnar nú og við umfjöllun um málið í allsherjarnefnd á síðasta þingi komu fram athugasemdir þess efnis að með frumvarpinu væri of langt gengið, m.a. væri þrengt að tjáningarfrelsinu auk þess sem meðalhófs væri ekki gætt. Meiri hlutinn bendir á að um langa tíð hefur verið bannað að auglýsa áfengi hér á landi. Með frumvarpinu eru ákvæði greinarinnar styrkt í þá veru að kveðið verði á um að bannið nái einnig til óáfengs vökva þegar hann er settur á markað í umbúðum sem eru svo líkar umbúðum hins áfenga vökva að hætta sé á ruglingi milli áfengu vörunnar og hinnar óáfengu. Bann við auglýsingum á áfengi hefur verið í gildi frá árinu 1928 en markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir að farið sé á svig við gildandi lög eins og viðgengist hefur undanfarin ár.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    4. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2012.

    Jónína Rós Guðmundsdóttir og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. apríl 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Birgitta Jónsdóttir,


frsm.


Skúli Helgason.



Þráinn Bertelsson.


Siv Friðleifsdóttir.