Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 650. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1235  —  650. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Einars Daðasonar um áhrif ESB
á umræður um ESB-aðild.


     1.      Hver er skoðun ráðherra á því að ESB, með fjármunum og þátttöku sendiherra og sendiráðs, blandar sér með beinum hætti í umræður um áhrif ESB-aðildar á þá málaflokka sem heyra undir ráðuneytið?
    Sendiherra og sendinefnd Evrópusambandsins hafa ekki að mati ráðuneytisins blandað sér með beinum eða óbeinum hætti í umræður um áhrif ESB-aðildar á þá málaflokka sem heyra undir það. Umhverfiráðuneytið og tilteknar stofnanir þess hafa tekið þátt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, m.a. með aðkomu fulltrúa ráðuneytisins og stofnanna í samningahópi EES II. Umhverfisráðuneytið á samskipti við sendinefnd Evrópusambandsins, eftir því sem þörf er á, vegna framangreindra verkefna.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja að starfsemi Evrópustofu og þeir fjármunir sem ESB ver til hennar, ásamt beinni þáttöku sendiherra og sendiráðs ESB, skekki ekki lýðræðislega umræðu um þá málaflokka sem heyra undir ráðuneytið?
    Hluti af því að efla umræðu og upplýsingamiðlun um Evrópusambandið á meðan á aðildarferlinu stendur er að fjármunir hafa verið veittir, af Alþingi, til þeirra hreyfinga og samtaka sem halda uppi mismunandi sjónarmiðum í umræðunni.
    Umhverfisráðuneytið telur mikilvægt að halda uppi öflugri og upplýstri umræðu um áhrif ESB á þá málaflokka sem heyra undir ráðuneytið. Tryggja þarf að öllum sé gefinn kostur á að taka þátt í slíkri umræðu og er það í anda Árósasamningsins, sem fullgiltur hefur verið hér á landi. Endanleg niðurstaða um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að vera byggð á upplýstri ákvörðun kjósenda. Ráðuneytið leggur því áherslu á að upplýsa almenning um þá löggjöf Evrópusambandsins sem er í gildi á sviði umhverfismála, einkum á sviði náttúruverndar sem ekki er hluti af EES-samningnum. Í því skyni stóðu utanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið, í samstarfi við framkvæmdastjórn ESB, að málþingi um Evrópusambandið og umhverfismál 25. október sl. Á þinginu, sem var vel sótt, mátti m.a. fræðast um umhverfislöggjöf ESB, sem EES-samningurinn nær ekki yfir, reynslu Eistlands af inngöngu í sambandið og áhrif þess á umhverfismál, starf náttúruverndarsamtaka í Brussel og um muninn á aðild að EES og ESB.