Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 676. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1238  —  676. mál.
Svarmennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Magnúsar M. Norðdahls
um verkefni Fornleifaverndar ríkisins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða verkefni hefur Fornleifavernd ríkisins unnið fyrir einkaaðila (bændur, landeigendur, rekstraraðila o.s.frv.) og opinberar stofnanir (Vegagerðina, Landsvirkjun, sveitarfélög o.s.frv.) árin 2010 og 2011?
     2.      Hverjir eru verkbeiðendur/kaupendur?
     3.      Hver hefur verið tilgangur og umfang umræddra verkefna?
     4.      Hefur skýrslum verið skilað um verkefnin? Ef svo er ekki, er það fyrirhugað?
     5.      Hver hefur gjaldtaka vegna þessara verkefna verið?


    Leitað var til Fornleifaverndar ríkisins vegna fyrirspurnarinnar og byggist svar ráðherra á upplýsingum frá stofnuninni.
    Fornleifavernd ríkisins er ekki þjónustustofnun sem tekur að sér verkefni fyrir einkaaðila eða opinberar stofnanir gegn greiðslu. Fornleifavernd ríkisins er stjórnsýslustofnun fornleifamála á Íslandi og er gerð grein fyrir hlutverki stofnunarinnar í þjóðminjalögum, nr. 107/2001. Þar kemur m.a. fram að Fornleifavernd ríkisins hefur engar lagaheimildir til að krefjast greiðslu fyrir vinnu starfsfólksins. Í 14. gr. laga nr. 107/2001 er kveðið á um að allur kostnaður Fornleifaverndar ríkisins vegna athugunar á fornleifafundi, sem gerður er í því augnamiði að staðfesta eðli og umfang fundarins, skuli greiddur af stofnuninni. Í 14. gr. er einnig kveðið á um að Fornleifavernd ríkisins sé heimilt að leiðbeina framkvæmdaraðilum um kostnaðaráætlun, útboð og framkvæmd rannsóknarverkefna. Fornleifavernd ríkisins var t.d. ráðgjafi Framkvæmdasýslu ríkisins og Alþingis vegna fornleifarannsókna á Alþingisreit árið 2010 en í samræmi við lagaákvæðin var ekki krafist greiðslu fyrir þá vinnu.
    Fornleifarannsóknir vegna framkvæmda og í raun einnig fornleifaskráning vegna framkvæmda, voru að mestu settar á samkeppnismarkað með lögum nr. 107/2001. Fornleifavernd ríkisins sinnir ekki þeim verkefnum, heldur eru það fyrirtæki sjálfstætt starfandi fornleifafræðinga eða söfn landsins, þ.m.t. Þjóðminjasafn Íslands, sem geta tekið slík verkefni að sér samkvæmt lögum.
    Fornleifavernd ríkisins er umsagnaraðili vegna skipulagsmála og umhverfismatsmála og það sama gildir þar að stofnunin hefur engar lagaheimildir til að taka við greiðslu fyrir þá vinnu. Möguleiki Fornleifaverndar ríkisins til að afla sértekna er fyrst og fremst í gegnum norræn eða evrópsk samvinnuverkefni á sviði stjórnsýslu minjamála sem stofnunin tekur þátt í. Þá hefur stofnunin skráð minningarmök í kirkjugörðum landsins í samvinnu við Kirkjugarðaráð og hefur stofnunin greitt þá vinnu að hluta á móti Kirkjugarðaráði og viðkomandi prófastsdæmi.
    Einu rannsóknirnar sem Fornleifavernd ríkisins sinnir, og þá yfirleitt að mjög takmörkuðu leyti, eru neyðarrannsóknir vegna þess að fornleifar liggja undir skemmdum eða neyðarrannsóknir tengdar framkvæmdum bænda. Oftast er um að ræða óvænta fornleifafundi sem koma í ljós við byggingaframkvæmdir eða breytingar á húsnæði. Fornleifavernd ríkisins vísar verkefnunum yfirleitt til sjálfstætt starfandi fornleifafræðinga eða safna, svo fremi sem fjármagn fæst frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þess að greiða þessum aðilum fyrir vinnu þeirra. Á meðan Fornleifavernd ríkisins kemur ein að málinu tekur hún enga greiðslu fyrir. Einstaka sinnum hefur ekki fengist fjármagn frá ríkinu til að greiða sjálfstætt starfandi fornleifafræðingum eða söfnum þegar slík verkefni hafa komið upp. Í þeim tilfellum hefur starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins lokið verkefnunum án þess að krafist sé greiðslu vegna vinnunnar. Fornleifavernd vann að neyðarrannsókn, í samræmi við það sem lýst er hér að framan, í Vík Í Skagafirði árið 2010 í samvinnu við Byggðasafn Skagfirðinga í Glaumbæ. Ekki var um að ræða rannsókn á markaði þar sem framkvæmdaraðili greiddi ekki fyrir rannsóknina heldur var hún í raun unnin á kostnað Fornleifaverndar ríkisins með styrk sem mennta- og menningarmálaráðuneytið tryggði á fjáraukalögum. Fornleifavernd ríkisins tók ekkert fyrir vinnu sína heldur fór styrkurinn í að greiða fyrir vinnu starfsfólks Byggðasafnsins í Glaumbæ. Ástæða rannsóknarinnar var að bóndinn þurfti að stækka fjós og var ekki hægt að hliðra byggingunni til. Í samræmi við 14. gr. laga nr. 107/2001 krafðist Fornleifavernd ríkisins að fram færi fornleifarannsókn áður en fjósið yrði byggt. Verkið var því ekki unnið að beiðni bóndans heldur að kröfu Fornleifaverndar ríkisins. Skýrsluskrifum um rannsóknina er lokið, próförk er tilbúin og útgáfa væntanleg á næstu vikum.
    Fornleifavernd ríkisins er ekki ætlað neitt verkefnafjármagn á fjárlögum, andstætt því sem tíðkast hjá stofnunum sem sjá um náttúruvernd landsins. Fjármagn til Fornleifaverndar ríkisins er auk þess mjög naumt skorið. Af þeim sökum getur stofnunin ekki greitt öðrum aðilum fyrir uppgraftarvinnu eða aðra nauðsynlega vinnu við fornleifavernd heldur verður stofnunin að leita til mennta- og menningarmálaráðuneytis um fjárstuðning þegar slík verkefni koma upp. Vakin er athygli á að það fjármagn sem fer til Fornleifaverndar ríkisins er að jafnaði um 20% af því sem samsvarandi stofnunum náttúrugeirans er úthlutað í fjárlögum.
    Fornleifavernd ríkisins hefur umsjón með öllum fornleifum landsins. Þeir sem óska eftir að nýta minjar á einhvern hátt og hafa beinar tekjur af, svo sem í ferðaþjónustu, við auglýsingagerð eða annað, eða merkja minjarnar, þurfa leyfi stofnunarinnar. Þá þurfa sjálfstætt starfandi fornleifafræðingar og söfn að sækja um leyfi til Fornleifaverndar ríkisins til að rannsaka fornleifar með greftri.
    Til fróðleiks fylgja hér með nokkur línurit sem sýna þróun leyfisveitinga og umsagna 2002–2011. Á þessu tímabili hefur Fornleifavernd ríkisins veitt 410 leyfi til fornleifauppgraftar. Þar af 294 til vísindarannsókna og 116 til framkvæmdarannsókna.
    Stofnunin hefur einnig veitt 1.309 umsagnir vegna skipulagsmála til ársins 2010 og 427 vegna umhverfismats.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd. 1. Leyfisveitingar vegna fornleifarannsókna 2002–2011.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2. Umsagnir vegna skipulagsmála 2002-2010.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3. Umsagnir vegna umhverfismats