Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 675. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1241  —  675. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar
um brunavarnir á Keflavíkurflugvelli.


     1.      Var nýlegur samningur Isavia ohf. við sveitarfélagið Sandgerði um brunavarnir á Keflavíkurflugvelli gerður í samráði við ráðherra?
    
Samkvæmt brunavarnalögum, nr. 75/2000, er það Sandgerðisbæjar að sinna brunavörnum í sveitarfélaginu öllu, þar með talið á Keflavíkurflugvelli, en þau lög heyra undir umhverfisráðuneyti. Ráðuneytinu var kunnugt um að viðræður stóðu yfir milli Isavia og Sandgerðisbæjar um brunavarnamál og að Sandgerðisbær hygðist taka yfir brunavarnir á starfssvæði Isavia.

     2.      Hvað starfa margir í slökkviliðinu í Sandgerði, annars vegar fastráðnir starfsmenn og hins vegar lausráðnir?
    
Samkvæmt upplýsingum frá Sandgerði eru um 20 slökkviliðsmenn í slökkviliði Sandgerðis. Flestir þeirra halda áfram starfi sem slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Suðurnesja í kjölfar samkomulags milli Sandgerðisbæjar og BS um samrekstur slökkviliðanna. Í þeim samningi er gert ráð fyrir að Brunavarnir Suðurnesja fari með stjórn brunavarna á svæði Sandgerðisbæjar. Samningur þar um hefur verið afgreiddur í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar, í stjórn BS og bíður staðfestingar hinna þriggja sveitarfélaganna sem standa að BS, þ.e. Reykjanesbæjar, Voga og Garðs.

     3.      Í hvaða starfshlutfalli eru fastráðnu starfsmennirnir og hvert er árlegt meðalframlag hinna lausráðnu?
    
Þessi spurning á ekki við þar sem komið hefur verið á samrekstri Slökkviliðs Sandgerðisbæjar og Brunavarna Suðurnesja.

     4.      Hvernig hefur slökkviliðið í Sandgerði sinnt skyldum sínum samkvæmt samningnum frá 1. mars sl.?
    Við staðfestingu samningsins, sbr. svar við 2. tölul., stóreykur Sandgerðisbær getu sína til þess að takast á við bruna á sínu svæði.

     5.      Hver ber kostnað af viðbúnaði slökkviliðsins í Sandgerði, eða undirverktaka þess, vegna starfsemi á Keflavíkurflugvelli?
    
Við gerð samnings Sandgerðisbæjar við Isavia greiðir Isavia 10 millj. kr. á ári í fimm ár frá árinu 2011 til 2015. Að öðru leyti kosta sveitarfélagið og BS brunavarnir á flugvallarsvæðinu.

     6.      Hvaða lög gilda um brunavarnir á flugvellinum?
    Samkvæmt 2. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000, gilda lögin um eldvarnir og slökkvistörf vegna eldsvoða og viðbúnað við mengunaróhöpp á landi, nema kveðið sé á um annað í lögunum. Samkvæmt þessu gilda lög um brunavarnir um húsbyggingar á flugvöllum. Í síðasta málslið sömu greinar er tekið fram að m.a. taki lögin ekki til eldvarna í loftförum.
    Í 11. gr. laganna er síðan kveðið skýrt á um lögbundnar skyldur slökkviliða sveitarfélaga. Þannig bera sveitarstjórnir hver í sínu umdæmi ábyrgð á starfsemi slökkviliðs og er sveitarfélagi skylt að sjá um að starfsemi slökkviliðs fullnægi kröfum samkvæmt lögum um brunavarnir og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Sveitarfélagið ber kostnað af þessari starfsemi. Rétt er að benda á að landsvæði Keflavíkurflugvallar er í þremur sveitarfélögum, en flugstöðin er á landsvæði Sandgerðisbæjar.
    Lögin leggja þó ekki bann við að gengið sé lengra en þau kveða á um, né að settar séu sértækar viðbótarkröfur. Þannig er í lögum um loftferðir og reglugerðum settum samkvæmt þeim sérákvæði um viðbúnað vegna loftfara á flugvöllum, þ.m.t. um björgunar- og slökkviþjónustu með tilliti til flugöryggis. Með þeim reglum eru með skýrum hætti afmarkaðar alþjóðlegar, sértækar kröfur flugsins til björgunar- og slökkviþjónustu vegna fyrsta viðbragðs við óhappi í loftfari.
    Reglur þessar hafa nýlega verið endurskoðaðar með breytingum á reglugerð nr. 464/2007, sbr. reglugerð nr. 1258/2011.