Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1245  —  256. mál.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði).

Frá meiri hluta velferðarnefndar (ÁI, JRG, LGeir, BjörgvS, MSch).


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
                      Orðin „2. tölul. 1. mgr. 29. gr.“ í 1. mgr. 18. gr. laganna falla brott.
     2.      1. gr. orðist svo:
                      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 29. gr. laganna:
                  a.      1.–4. málsl. 2. tölul. falla brott.
                  b.      Í stað orðanna „Enn fremur almenna“ í 5. málsl. 2. tölul. kemur: Almenna.
                  c.      6. tölul. orðast svo: Lyf, sbr. 25. gr. Gjald fyrir lyf verður hlutfallsgjald og þrepaskipt eftir uppsöfnuðum lyfjakostnaði sjúkratryggðs á tilteknu tímabili og skal tiltaka hlutfall, tímabil og þrep í reglugerð. Fjárhæðir þrepa skulu endurskoðaðar árlega með það að markmiði að heildarhlutfall þess kostnaðar sem sjúkratryggðir þurfa að greiða sjálfir af lyfjakostnaði haldist að mestu óbreytt á milli ára. Þó er heimilt að hækka hlutfallið þegar nýjum lyfjaflokkum er bætt inn í kerfið til hagsbóta fyrir sjúkratryggða. Tímabil skal vera 12 mánuðir frá fyrstu afgreiðslu lyfja. Þegar greiðsluþátttaka sjúkratryggðs nær tiltekinni fjárhæð sem ákveðin er í reglugerð skal heimilt gegn skilyrðum sem ákveðin eru í reglugerð að gefa út lyfjaskírteini sem veitir honum fulla greiðsluþátttöku sjúkratrygginga það sem eftir er af 12 mánaða tímabili. Nái uppsafnaður lyfjakostnaður sjúkratryggðs ekki tilteknu lágmarki á tímabili greiðir sjúkratryggður hann að fullu. Gjald fyrir lyf skal vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum, börnum og ungmennum á aldrinum 18–21 árs og skal ekki vera hærra en 2/ 3 af fjárhæð þrepa annarra sjúkratryggðra. Um atvinnuleitendur sem fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun skulu gilda sömu reglur um greiðsluþátttöku og um elli- og örorkulífeyrisþega, börn og ungmenni á aldrinum 18–21 árs. Heimilt er að veita fulla greiðsluþátttöku sjúkratrygginga fyrir lyf sem lyfjagreiðslunefnd í samráði við sérfræðinga Landspítala og sjúkratryggingastofnunar, sbr. XV. kafla lyfjalaga, hefur ákveðið að séu leyfisskyld og háð sérstöku gæðaeftirliti. Heimilt er að skilyrða fulla greiðsluþátttöku vegna leyfisskyldra lyfja við nánar tilgreind skilyrði, svo sem sérstakt ástand sjúkratryggðs, eða við einstaka læknisfræðilega sérgrein. Í reglugerð er m.a. heimilt að tiltaka hámark eininga í lyfjaávísunum og greiðsluþátttökuverð, þ.e. það verð sem sjúkratryggingar skulu miða greiðsluþátttöku sína við, sbr. lyfjalög. Þá er heimilt að takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í ákveðnum lyfjaflokkum við hagkvæmustu pakkningar samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerð. Heimilt er í reglugerð að binda útgáfu lyfjaskírteina við tiltekinn fjölda lyfja.
     3.      Við 2. gr.
                  a.      Orðin „svo sem heiti og tegund lyfja“ í 1. efnismgr. falli brott.
                  b.      Á eftir 2. efnismgr. komi ný málsgrein er orðist svo:
                      Lyfjabúðum er skylt að tengjast gagnagrunninum, nýta upplýsingar gagnagrunnsins við útreikninga á greiðsluþátttöku og veita upplýsingar í hann.
     4.      Við 3. gr.
                  a.      1. efnismgr. orðist svo:
                      Landlæknir starfrækir lyfjagagnagrunn um lyfjaávísanir og afgreiðslu lyfja í þeim tilgangi að tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar og öryggi sjúklinga, hafa almennt eftirlit með ávísunum lækna á lyf og vegna eftirlits með ávana- og fíknilyfjum, sem og til að miðla upplýsingum um lyfjaávísanir einstaklinga, m.a. til að auka öryggi í lyfjaávísunum lækna og vegna eftirlits sjúkratryggingastofnunar með lyfjakostnaði, ásamt því að nota upplýsingar úr grunninum við gerð áætlana um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum.
                  b.      Á eftir 4. efnismgr. komi ný málsgrein er orðist svo:
                      Persónuauðkenni einstakra sjúklinga skulu ekki koma fram nema það sé ótvírætt nauðsynlegt vegna einstakra eftirlitsaðgerða.
                  c.      1. málsl. 7. efnismgr. orðist svo: Læknar sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á lyfjasögu hans að halda vegna meðferðarinnar skulu hafa aðgang að lyfjaupplýsingum sjúklingsins síðastliðin þrjú ár í lyfjagagnagrunninum.
                  d.      Á eftir 7. efnismgr. komi ný málsgrein er orðist svo:
                      Heimilt er að nota upplýsingar úr lyfjagagnagrunni við gerð áætlana um gæðaþróun og til vísindarannsókna. Um aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum úr lyfjagagnagrunni vegna vísindarannsókna fer samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga, reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
     5.      Á eftir 3. gr. komi ný grein er orðist svo:
                      Við 2. mgr. 43. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Hvaða lyf eru leyfisskyld í samráði við sérfræðinga frá Landspítala og sjúkratryggingastofnun. Með leyfisskyldum lyfjum er átt við þau lyf sem eingöngu eru notuð í samræmi við klínískar leiðbeiningar og eru jafnan kostnaðarsöm og vandmeðfarin.
     6.      4. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. október 2012.