Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1251  —  348. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985
(um tryggingar skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín Sigurberg Björnsson og Björn Frey Björnsson frá innanríkisráðuneytinu. Umsagnir bárust frá Hafnasambandi Íslands, Hagstofu Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fjármálafyrirtækja og Siglingamálastofnun Íslands.
    Með frumvarpi þessu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009, um tryggingar skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum. Markmið frumvarpsins er að skylda útgerðarmenn til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila með skipum sínum. Er það til fyllingar alþjóðlegri siglingalöggjöf þar sem að þjóðarétti hvílir ekki almenn skylda á útgerðarmönnum til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila.
    Fram kemur í 1. mgr. 1. gr. að útgerðarmenn íslenskra skipa sem eru 300 brúttótonn og stærri og útgerðarmenn allra erlendra skipa af sömu stærð sem koma í íslenskar hafnir skuli tryggja skip sín tryggingu vegna tjóns sem þeir valda þriðja aðila með skipum sínum. Við meðferð málsins komu fram þær athugasemdir að 1. mgr. 1. gr. væri ekki fyllilega lýsandi um þá tjónþola sem ábyrgðartryggingunni er ætlað að vernda. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi taka fram að með þriðja aðila er ekki átt við hina venjubundnu þýðingu þriðja aðila í skilningi skaðabótaréttar heldur er með þriðja aðila átt við hvern þann sem telst eiga lagalega eða samningsbundna kröfu á hendur útgerðarmanni. Rökin fyrir því að kveðið er á um tjónþola en ekki þriðja aðila eru þau að litið er á útgerðarmann sem fyrsta aðila og vátryggingafyrirtækið sem annan aðila.
    Fram kemur í 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins að tryggingar skuli taka til sjóréttarkrafna sem háðar eru takmörkunum samkvæmt HNS-samningnum frá 1996. Meiri hlutinn bendir á að hér er um ranga tilvísun að ræða. Ákvæðið byggist ekki á HNS-samningum heldur bókun frá árinu 1996 við samninginn um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum frá 1976, sbr. 3. mgr. 4. gr. tilskipunar nr. 2009/20/EB. Leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæðinu þessu að lútandi.
    Hjá umsagnaraðilum kom fram að afar mikilvægt væri að hafið væri yfir vafa hvert bótasvið trygginganna væri. Meiri hlutinn tekur heils hugar undir þau sjónarmið og bendir á að þær kröfur sem samningurinn mælir fyrir um, sbr. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins, eru í fyrsta lagi kröfur að því er varðar manntjón eða líkamstjón eða eignamissi eða eignatjón, þ.m.t. tjón á hafnarmannvirkjum, höfnum, vatnaleiðum og leiðsögutækjum sem verður um borð í skipinu eða í beinu sambandi við rekstur þess eða björgunarstörf og tjón sem hlýst þar af. Í öðru lagi kröfur að því er varðar tjón sem hlýst sökum tafa á sjóflutningum farms, farþega eða farangurs þess. Í þriðja lagi kröfur að því varðar annað tjón sem hlýst af broti á öðrum rétti en samningsrétti og verður í beinu sambandi við rekstur skipsins eða björgunarstörf. Í fjórða lagi kröfur um að bjarga, flytja á brott, eyða eða gera skaðlaust skip sem hefur sokkið, brotnað, strandað eða er yfirgefið, þ.m.t. allt sem er eða hefur verið um borð í slíku skipi. Í fimmta lagi kröfur um að flytja á brott, eyða eða gera skaðlausan farm skipsins. Og í sjötta lagi kröfur aðila annars en þess sem ber ábyrgð á ráðstöfunum í því skyni að afstýra eða draga úr tjóni, sem ábyrgur aðili getur takmarkað ábyrgð sína á samkvæmt þessum samningi, og frekara tjón sem hlýst af þessum ráðstöfunum.
    Meiri hlutinn leggur jafnframt til breytingar á 172. gr. siglingalaga. Í 4. mgr. 172. gr. siglingalaga er kveðið á um að viðmiðunarfjárhæð slysatryggingabóta skv. 2. mgr. sömu greinar vegna dauða eða örorku skuli breytast í samræmi við breytingar á næstlægsta launaflokki Dagsbrúnar. Taxti sá, sem greinin vísar til, var hluti af kjarasamningum þegar lögin tóku gildi en í samningum sem gerðir voru í lok ársins 1986 var hann felldur niður. Frá þeim tíma hefur verið í gildi samkomulag um að breyta grunnfjárhæðum slysatryggingabóta eftir launavísitölu eins og hún er reiknuð á hverjum tíma. Með þessari breytingu á 172. gr. sem meiri hlutinn leggur til er verið að uppfæra lagaákvæðið og færa það til samræmis við núgildandi framkvæmd.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar orðalagsbreytingar til nánari skýringa og breytingu á gildistöku.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 1. gr.
              a.      Í stað orðanna „Þessi skylda“ í 2. efnismgr. komi: Skylda skv. 1. mgr.
              b.      Á eftir orðunum „sem notað er“ í 5. efnismgr. komi: á skírteini skv. 4. mgr.
              c.      Í stað orðsins „HNS-samningnum“ í 7. efnismgr. komi: LLMC-samningnum.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
              Eftirfarandi breytingar verða á 172. gr. laganna:
              a.      Síðari málsliður a-liðar 1. tölul. 2. mgr. orðast svo: Með maka er hér einnig átt við einstakling í óvígðri sambúð, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi viðkomandi barn saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár.
              b.      Í stað orðanna „næstlægsta launaflokki Dagsbrúnar (efsta starfsaldursþrepi)“ í 4. mgr. kemur: launavísitölu.
     3.      3. gr. orðist svo:
              Lög þessi öðlast þegar gildi.

Alþingi, 30. apríl 2012.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Þuríður Backman.



Róbert Marshall.


Mörður Árnason.