Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 763. máls.

Þingskjal 1254  —  763. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum (innheimta iðgjalds).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    2. málsl. 2. gr. laganna orðast svo: Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun.

2. gr.

    Í upphafi II. kafla laganna koma tvær nýjar greinar, 5. gr. a og 5. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (5. gr. a.)

Starfsemi sjóðsins.

    Sjóðurinn starfar í þremur sjálfstæðum deildum. Innstæðudeildirnar eru tvær, A-deild og B-deild. Jafnframt starfar við sjóðinn verðbréfadeild. Deildirnar hafa aðskilinn fjárhag og reikningshald og bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hver annarrar.

    b. (5. gr. b.)

A-deild.


    Innlánsstofnanir skulu greiða iðgjald til A-deildar sjóðsins frá því að þær hefja starfsemi.
    Iðgjöld skulu vera samtala almenns iðgjalds skv. 3. mgr. og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls skv. 4. mgr. og renna í A-deild sjóðsins. Um ráðstöfun fjár úr deildinni skal fara samkvæmt lögum.
    Almennt iðgjald skal nema sem svarar 0,235% á ári af öllum innstæðum, eins og þær eru skilgreindar í lögum þessum, hjá viðkomandi innlánsstofnun öðrum en þeim sem eru undanþegnar tryggingavernd samkvæmt lögum þessum eða 0,05875% á ársfjórðungslegum gjalddaga.
    Auk iðgjalds skv. 3. mgr. greiðir innlánsstofnun breytilegt iðgjald í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri innlánsstofnun. Áhættustuðull skal lægst hafa gildið 0 og hæst gildið 1 og skal iðgjald skv. 3. mgr. margfaldað með áhættustuðlinum eins og hann er í lok þess ársfjórðungs sem iðgjald er greitt fyrir.
    Gjalddagar almenns og áhættuvegins iðgjalds eru sem hér segir:
     a.      Gjalddagi vegna 1. ársfjórðungs er 1. júní.
     b.      Gjalddagi vegna 2. ársfjórðungs er 1. september.
     c.      Gjalddagi vegna 3. ársfjórðungs er 1. desember.
     d.      Gjalddagi vegna 4. ársfjórðungs er 1. mars næsta árs.
    Iðgjöld eru óendurkræf. Þó getur stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ákveðið að endurgreiða iðgjöld sem hafa verið ofgreidd vegna mistaka við útreikning.
    Eigi síðar en 30 dögum eftir lok hvers ársfjórðungs skulu innlánsstofnanir hafa veitt sjóðnum upplýsingar um samtölu þeirra eigna og atriða sem álagning skv. 3.–4. mgr. byggist á. Skulu upplýsingarnar veittar í því formi sem sjóðurinn ákveður. Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands er skylt að afhenda sjóðnum upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að sannreyna upplýsingar sem fjármálafyrirtæki hafa afhent samkvæmt grein þessari. Sjóðurinn tilkynnir innlánsstofnunum upphæð iðgjalds a.m.k. sjö dögum fyrir gjalddaga.
    Standi innlánsstofnun ekki skil á upplýsingum sem henni ber að veita skv. 7. mgr. er sjóðnum heimilt að áætla iðgjald innlánsstofnunar skv. 3.–4. mgr. Slíkt iðgjald skal að lágmarki nema tvöfaldri síðustu álagningu ársfjórðungslegs iðgjalds viðkomandi innlánsstofnunar og er óheimilt að endurgreiða það þótt full skil verði gerð á öllum nauðsynlegum upplýsingum síðar.
    Iðgjöld skulu greidd í krónum og sama á við um greiðslur úr deildinni.
    Greiði innlánsstofnun sem er skylt að greiða iðgjald til sjóðsins ekki ársfjórðungslegt iðgjald á gjalddögum sem tilgreindir eru í 3.–5. mgr. leggst á iðgjaldið 5% álag fyrir hvern liðinn dag umfram gjalddaga, í fimm daga. Hafi fyrirtæki ekki staðið skil á iðgjaldi og álagi að þeim tíma liðnum tilkynnir stjórn sjóðsins um vanskil fyrirtækisins til Fjármálaeftirlitsins.
    Þrátt fyrir ákvæði 10. mgr. er stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta heimilt í undantekningartilfellum að veita frest til greiðslu iðgjalds ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
    Verði vanskil á greiðslu iðgjalds innlánsstofnunar er stjórn sjóðsins heimilt að láta færa fjármuni sem nema þeim innlánum sem orðið hafa til hjá hlutaðeigandi innlánsstofnun frá gjalddaga á reikning hennar hjá Seðlabanka Íslands þar til iðgjald hefur verið greitt.
    Sé innlánsstofnun svipt heimild til að taka við innlánum eða starfsleyfi í heild raskast ekki hagsmunir þeirra sem njóta tryggingaverndar.

3. gr.

    6. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

B-deild.


    Eignir innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og skuldbindingar eins og þær voru við gildistöku laga nr. 55/2011 og þær skuldbindingar sem á sjóðnum hvíldu samkvæmt lögum nr. 98/1999 á sama tímamarki tilheyra sérstakri deild, B-deild.

4. gr.

    Í stað orðsins „sjóðnum“ í 1. og 4. málsl. 1. mgr., 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: verðbréfadeild sjóðsins.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     1.      Í stað orðsins „innstæðudeild“ í 2. og 4. málsl. 1. mgr. kemur: A- eða B-deild.
     2.      3. mgr. orðast svo:
                  Með innstæðu er átt við innstæðu sem er til komin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi á veltu- eða sparifjárreikning og innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum eða umsömdum skilmálum. Skuldabréf, víxlar og aðrar kröfur sem eru útgefnar af fjármálafyrirtæki í formi verðbréfa teljast ekki innstæður. Ekki teljast heldur til innstæðna millifærslur eða lán sem eru til komin vegna viðskipta á peningamarkaði eða fyrir milligöngu miðlara.
     3.      6. mgr. orðast svo:
                  Eftirfarandi innstæður eru undanskildar tryggingu skv. 1. mgr.:
              1.      innstæður í eigu fjármálafyrirtækja,
              2.      innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
              3.      innstæður fyrirtækis þar sem fjármálafyrirtæki er meirihlutaeigandi,
              4.      innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
              5.      innstæður rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði,
              6.      innstæður félaga í sömu samsteypu og þau sem falla undir 1. tölul.,
              7.      innstæður sem eru ekki skráðar á nafn,
              8.      innstæður lífeyrissjóða aðrar en hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun.

6. gr.

    Í stað orðanna „innstæðudeildar og verðbréfadeildar“ í 11. gr. laganna kemur: deilda sjóðsins.

7. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:
    Þær greiðslur sem inntar voru af hendi á árinu 2011 og verða inntar af hendi á árinu 2012 á grundvelli eldri ákvæða til bráðabirgða I og II í lögunum, sbr. lög nr. 15/2011 og nr. 55/ 2011, til sjálfstæðrar deildar sjóðsins, skulu renna til A-deildar sjóðsins.

8. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. b skal gjalddagi vegna 1. og 2. ársfjórðungs 2012 vera 1. september 2012.

9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    B-deild sjóðsins skal lögð niður þegar staðið hefur verið að fullu við skuldbindingar sem á deildinni hvíla við gildistöku laga þessara. Þeir fjármunir sem þá eru í B-deildinni skulu renna til A-deildar sjóðsins.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til nýrra heildarlaga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta var lagt fram á Alþingi 2009, en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið var lagt fram að nýju á árinu 2010 með nokkrum breytingum. Það frumvarp hlaut heldur ekki afgreiðslu, en í stað þess voru tvívegis gerðar breytingar á lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, annars vegar með lögum nr. 15/2011 og hins vegar með lögum nr. 55/ 2011.
    Með lögum nr. 15/2011 var bætt við lögin bráðabirgðaákvæði I, en með því var inngreiðslum aðildarfyrirtækja til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frestað til 1. júní á árinu 2011, en samkvæmt lögum átti greiðslur í sjóðinn að greiðast fyrir 1. mars.
    Með lögum nr. 55/2011 var öðru bráðabirgðaákvæði bætt við lögin. Þar var mælt fyrir um að vegna ársins 2011 skyldu innlánsstofnanir greiða gjald til sjálfstæðrar deildar sjóðsins. Frumvarpið var flutt af meiri hluta viðskiptanefndar og byggðust ákvæði frumvarpsins að stórum hluta á 10., 11. og 14. gr. frumvarps efnahags- og viðskiptaráðherra til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem nefndin hafði haft til meðferðar. Í ákvæðinu var í fyrsta lagi kveðið á um að iðgjöld sem greidd væru á árinu 2011 skyldu renna til sjálfstæðrar deildar sjóðsins. Í öðru lagi var kveðið á um nýja aðferð við útreikning iðgjalds, þannig að það skyldi vera samtala almenns iðgjalds sem svaraði 0,3% á ári af öllum innstæðum og iðgjalds sem reiknað skyldi út á grundvelli sérstaks áhættustuðuls. Í þriðja lagi var kveðið á um að iðgjald í Tryggingarsjóð skyldi greitt ársfjórðungslega og er því í raun um samtímagreiðslur að ræða, en fram að því höfðu greiðslur í sjóðinn verið greiddar eftir á, þannig að greiðslur vegna ársins 2008 voru greiddar á einum gjalddaga 2009. Í fjórða lagi var kveðið á um framkvæmd innheimtu og greiðslu iðgjaldsins og viðurlög við vanskilum á iðgjaldi. Þá var í lögunum að finna nýja skilgreiningu á hugtakinu innstæða auk þess sem að lögfest var ákvæði um að ákveðnir aðilar nytu ekki verndar Tryggingarsjóðs. Loks var í lögunum kveðið á um það að takmarkanir á tryggingavernd ákveðinna aðila leiddu ekki til röskunar á rétthæð innstæðna í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð innlánsstofnunar skv. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki.
    Nú liggur fyrir að ekki verður lagt fram frumvarp til heildarendurskoðunar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta á yfirstandandi þingi. Því er nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvernig fara á með greiðslu iðgjalda vegna ársins 2012, en framangreint bráðabirgðaákvæði gildir aðeins um greiðslur vegna ársins 2011.
    Í ljósi framangreinds er frumvarp þetta lagt fram. Í því er lagt til að þau ákvæði sem lögfest voru til bráðabirgða fyrir árið 2011 verði felld á varanlegan hátt inn í meginmál laganna um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Rétt er að vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall verði lækkað frá því sem er í gildandi bráðabirgðaákvæði.
    Eins og fyrr segir er með frumvarpinu verið að fella efni bráðabirgðaákvæðis inn í meginmál laganna. Af þeirri orsök var ekki talið tilefni til að hafa samráð við hagsmunaaðila við samningu frumvarpsins. Þó var Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta gefinn kostur á því að koma að athugasemdum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. eru lagðar til breytingar sem nauðsynlegar eru í ljósi þess að lagt er til að sjóðurinn muni starfa í þremur deildum.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að í upphafi II. kafla bætist tvær nýjar greinar við lögin, 5. gr. a og 5. gr. b.
    Um a-lið (5. gr. a).
    Hér er lagt til að lögfest verði að sjóðurinn starfi í þremur sjálfstæðum deildum; tveimur innstæðudeildum, A- og B-deild, annars vegar og verðbréfadeild hins vegar. Nú er kveðið á um það í lögunum að sjóðurinn skuli starfa í tveimur deildum; innstæðudeild og verðbréfadeild. Með lögum nr. 55/2011 var kveðið á um það að greiðslur vegna ársins 2011 skyldu renna til sjálfstæðrar deildar sjóðsins. Því má segja að nú þegar séu þrjár deildir við sjóðinn, en ákvæðinu er ætlað að binda það fyrirkomulag með fastari hætti í lög.
    Þá er kveðið á um það í ákvæðinu að deildirnar skuli hafa aðskilinn fjárhag og reikningshald og beri ekki ábyrgð á skuldbindingum hver annarrar.
     Um b-lið (5. gr. b).
    Lagt er til að í 5. gr. b verði kveðið á um inngreiðslur í A-deild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Í ákvæðinu er að finna reglur um iðgjald til deildarinnar, sem verður aðalinnstæðudeild sjóðsins. Gert er ráð fyrir, líkt og í gildandi bráðabirgðaákvæði II, að iðgjöld séu samtala almenns iðgjalds og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls. Lagt er til að almennt iðgjald skuli nema sem svarar 0,235% á ári af öllum innstæðum. Er þetta aðeins lægra hlutfall en í ákvæði til bráðabirgða II þar sem kveðið er á um að iðgjald fyrir árið 2011 skuli nema 0,3% á ári af öllum innstæðum. Gert er ráð fyrir að iðgjald sem reiknað skal í samræmi við áhættustuðul sé breytilegt í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri innlánsstofnun. Áhættustuðull skal lægst hafa gildið 0 og hæst gildið 1 og skal almennt iðgjald margfaldað með áhættustuðlinum eins og hann er í lok þess ársfjórðungs sem iðgjald er greitt fyrir.
    Í greininni er lagt til að gjalddagar iðgjaldsins séu fjórir á ári hverju, tveimur mánuðum eftir lok hvers ársfjórðungs.
    Eins og í gildandi ákvæði til bráðabirgða II er lagt til að iðgjöld séu óendurkræf. Þó er lagt til það nýmæli að kveðið verði skýrlega á um það að stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta geti ákveðið að endurgreiða iðgjöld sem hafa verið ofgreidd vegna mistaka við útreikning. Er þetta lagt til í ljósi reynslu af beitingu bráðabirgðaákvæðis II.
    Þá eru í ákvæðinu reglur um upplýsingagjöf til sjóðsins og afleiðingar þess ef upplýsingagjöf er ekki sinnt.
    Í 9. mgr. er kveðið á um það að iðgjöld í deildina skuli greidd í krónum. Þá kemur einnig fram að greiðslur úr deildinni skuli inntar af hendi í krónum.
    Í 10. mgr. er kveðið á um afleiðingar þess ef innlánsstofnun, sem er skylt að greiða iðgjald til sjóðsins, greiðir ekki ársfjórðungslegt iðgjald á gjalddögum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Lagt er til að ef iðgjöld eru ekki greidd leggist 5% álag á iðgjaldið fyrir hvern liðinn dag umfram gjalddaga, í fimm daga. Hafi fyrirtæki ekki staðið skil á iðgjaldi og álagi að þeim tíma liðnum tilkynnir stjórn sjóðsins um vanskil fyrirtækisins til Fjármálaeftirlitsins. Í næstu málsgrein er lagt til það nýmæli að stjórn sjóðsins sé, þrátt fyrir ákvæði 10. mgr., heimilt, og þá eingöngu í algjörum undantekningartilvikum, að veita frest til greiðslu iðgjalds ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Er breytingin lögð til í ljósi reynslu af beitingu bráðabirgðaákvæðis II.
    Í 12. mgr. er kveðið á um það að ef vanskil verði á greiðslu iðgjalds innlánsstofnunar sé stjórn sjóðsins heimilt að láta færa fjármuni sem nema þeim innlánum sem orðið hafa til hjá hlutaðeigandi innlánsstofnun frá gjalddaga á reikning hennar hjá Seðlabanka Íslands þar til iðgjald hefur verið greitt.
    Loks er kveðið á um það að ef innlánsstofnun er svipt heimild til að taka við innlánum eða starfsleyfi í heild raskist ekki hagsmunir þeirra sem njóta tryggingaverndar.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 6. gr. laganna, en þar er nú kveðið á um inngreiðslur í innstæðudeild sjóðsins. Lagt er til að í ákvæðinu verði nú aðeins kveðið á um B-deild sjóðsins, en í henni eiga að vera eignir innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og skuldbindingar eins og þær voru við gildistöku laga nr. 55/2011 og þær skuldbindingar sem á sjóðnum hvíldu samkvæmt lögum nr. 98/1999 á sama tímamarki. Í ákvæði til bráðabirgða III eru gerðar tillögur um að B-deild sjóðsins verði lögð niður þegar staðið hefur verið að fullu við skuldbindingar sem á deildinni hvíla við gildistöku laga þessara. Þá er lagt til að þeir fjármunir sem þá eru í B-deildinni skuli renna til A-deildar sjóðsins.

Um 4. gr.


    Í greininni eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á 8. gr. laganna vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins. Miða breytingarnar að því að ákvæði 8. gr. um afturköllun leyfis gildi aðeins framvegis um verðbréfadeild sjóðsins.

Um 5. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 9. gr. laganna í þremur liðum.
    Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting á 1. mgr. í samræmi við fjölgun innstæðudeilda.
    Í öðru lagi er lagt til að í 3. mgr. verði lögfest ný skilgreining á innstæðu og er hin nýja skilgreining nokkuð frábrugðin þeirri skilgreiningu á innstæðu sem nú er að finna í bráðabirgðaákvæði II í lögunum.
    Í þriðja lagi er lagt til að í 6. mgr. verði lögfest hvaða innstæður eru undanskildar tryggingu samkvæmt lögunum. Er ákvæðið í samræmi við þær undantekningar frá tryggingavernd sem nú er kveðið á um í bráðabirgðaákvæði II í lögunum.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. frumvarpsins er að finna tillögu að orðalagsbreytingu í 11. gr. laganna í samræmi við tillögur um fjölgun deilda sjóðsins.

Um 7. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um að þær greiðslur sem inntar voru af hendi á árinu 2011 og verða inntar af hendi á árinu 2012 á grundvelli ákvæða til bráðabirgða I og II í lögunum, sbr. lög nr. 15/2011 og nr. 55/2011, og runnu til sjálfstæðrar deildar sjóðsins, skuli renna til A-deildar sjóðsins sem lagt er til að stofnuð verði á grundvelli laga þessara.

Um 8. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 5. gr. b um fjóra árlega gjalddaga til A-deildar sjóðsins skuli gjalddagar vegna 1. og 2. ársfjórðungs 2012 vera 1. september 2012. Er þetta talið nauðsynlegt í ljósi þess hvaða tíma tekur að undirbúa innheimtu til sjóðsins.

Um 9. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að B-deild sjóðsins verði lögð niður þegar staðið hefur verið að fullu við skuldbindingar sem á deildinni hvíla. Þá er lagt til að þeir fjármunir sem eru í B-deildinni þegar hún er lögð niður skuli renna til A-deildar sjóðsins.

Um 10. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar
og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarps þessa er að tryggja áframhaldandi iðgjaldagreiðslur í Tryggingarsjóð innstæðueigenda Með frumvarpinu er fest í sessi bráðabirgðaákvæði gildandi laga en þau varða greiðslur innlánsstofnana á iðgjaldi til sérstakrar deildar sjóðsins og voru lögfest annars vegar með lögum nr. 15/2011 og hins vegar með lögum nr. 55/2011. Árið 2011 hafði Alþingi til meðferðar frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra að nýjum heildarlögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu á sínum tíma og því kom til lögfestingar framangreindra bráðabirgðaákvæða en þau gilda aðeins um árið 2011.
    Innleiðing bráðabirgðaákvæða í meginmál laganna felur m.a. í sér að þrískipting sjóðsins verði fest í sessi. Í þessu felst að sérdeildin sem stofnuð var með bráðabirgðaákvæði II mun eftirleiðis kallast A-deild og í hana munu renna allar greiðslur innlánsstofnana auk þeirra iðgjalda sem sjóðnum berast vegna áranna 2011–2012. Einnig er lagt til að notast verði við sömu aðferð við útreikning iðgjalds og kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði II þannig að það verði samtala almenns og breytilegs iðgjalds. Í frumvarpinu er lagt til að almennt iðgjald verði 0,235% á ári af öllum innstæðum og að það lækki þar með úr 0,3% frá gildandi bráðabirgðaákvæði. Breytilega iðgjaldið verði hins vegar margfeldi almenns iðgjalds og sérstaks áhættustuðuls. Stuðullinn mun liggja á bilinu 0–1 og er gert ráð fyrir að hann verði gefinn út af Fjármálaeftirlitinu fyrir hverja innlánsstofnun fyrir sig. Bæði iðgjöldin eiga að renna til A-deildar sjóðsins. Þá verði iðgjaldið í Tryggingarsjóð greitt ársfjórðungslega og því verði um samtímagreiðslur að ræða, en áður en breytingarnar voru gerðar árið 2011 höfðu greiðslur í sjóðinn verið greiddar eftir á á einum gjalddaga. Er þessi fjölgun á gjalddögum gerð til að minnka möguleikann á því að innlánssöfnun einstakra innlánsstofnana leiði til þess að innstæður séu á einhverjum tíma tryggðar af sjóðnum án þess þó að búið sé að greiða iðgjald. Innstæðudeildirnar eiga að starfa sjálfstætt og bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hvor annarrar. Í frumvarpinu er kveðið á um að B-deild skuli lokað þegar endanlegt uppgjör hefur farið fram á þeim skuldbindingum sem á henni hvíla og að eigur sjóðsins, ef einhverjar verða, skuli þá renna til A-deildar. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að greiðslur úr sjóðnum vegna taps innstæðueigenda skuli vera í krónum. Loks má nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að fjölgað verði umtalsvert þeim innstæðum sem ekki njóta verndar og er m.a. ekki gert ráð fyrir því að innstæður opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra, njóti verndar.
    Áætlað er að tryggðar innstæður í innlánsstofnunum nemi nú um 1.000 mia. kr. Eignir sérdeildarinnar eru um 10 mia. kr. en vafamál hvort nokkuð af 22 mia. kr. eignum B-deildar muni koma til með að renna til nýju deildarinnar. Þá má gera ráð fyrir að árlegar tekjur sjóðsins af iðgjöldum verði að hámarki rúmir 4 mia. kr. á næstu árum. Því er ljóst að sjóðurinn getur á næstu árum eingöngu bætt minni háttar tjón komi til þess að innlánsstofnun verði ófær um að inna af hendi greiðslur af andvirði innstæðna. Ekkert ákvæði er um lágmarksstærð sjóðsins og því verður að gera ráð fyrir að áfram verði unnið að heildarendurskoðun á fyrirkomulagi innstæðutrygginga. Telja verður eðlilegt að slíkt haldist í hendur við sambærilega endurskoðun innan Evrópusambandsríkja en lögin um innstæðutryggingar og tryggingakerfi voru sett til að innleiða tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins með það að markmiði að mynda sameiginlegan markað fyrir banka- og verðbréfaþjónustu innan Evrópusambandsins með því að koma á samræmdum reglum og eftirlitskerfi. Innan Evrópusambandsins er tekist á um framtíðarfyrirkomulag kerfisins og þá hversu stórir tryggingarsjóðir þurfa að vera en reynslan af þeim virðist almennt vera sú að þeir hafa eingöngu getað bætt minni háttar áföll í fjármálakerfum.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins muni hafa í för með sér bein aukin útgjöld eða auknar ábyrgðar- eða útgjaldaskuldbindingar fyrir ríkissjóð frá því sem verið hefur. Í þessu sambandi er þó ástæða til að vekja athygli á því að samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda ábyrgist ríkissjóður innstæður í fjármálastofnunum að fullu og má því segja að ákvæði laganna um 20.000 evra hámarksgreiðslu í þeim tilvikum þegar eigur sjóðsins hrökkva ekki fyrir skuldbindingum sé í raun óvirkt þar til annað verður ákveðið.