Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 764. máls.

Þingskjal 1255  —  764. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla
í greiðslukerfum (greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Markmið þessara laga er að tryggja öryggi í uppgjöri viðskipta í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.
    Lög þessi gilda um greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi sem rekin eru hér á landi og tilkynnt hafa verið í samræmi við ákvæði 3. gr.
    

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. tölul. orðast svo: Kerfi: Formlegt fyrirkomulag sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
              a.      Þátttakendur eru þrír eða fleiri, að undanskildum kerfisstjóra þess kerfis, mögulegum uppgjörsaðila, milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöð og óbeinum þátttakanda.
              b.      Í gildi eru sameiginlegar reglur og staðlað fyrirkomulag við úrvinnslu og framkvæmd fyrirmæla, hvort sem er fyrir tilstilli milligönguaðila eða milli þátttakenda.
              c.      Þátttakendur hafa komið sér saman um að íslensk lög skuli gilda um kerfið, enda hafi a.m.k. einn þátttakendanna aðalskrifstofu sína hér á landi.    
              d.      Kerfið fullnægir lagaskilyrðum og hefur verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sbr. 2. mgr. 3. gr.
     b.      2. tölul. orðast svo: Stofnun: Eftirtaldir aðilar, sem taka þátt í kerfi og bera ábyrgð á framkvæmd fyrirmæla innan þess:
              a.      Fjármálafyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi skv. 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
              b.      Rafeyrisfyrirtæki með starfsleyfi samkvæmt lögum um rafeyrisfyrirtæki.               
              c.      Verðbréfamiðstöðvar.
              d.      Seðlabanki Íslands, Íbúðalánasjóður eða stofnun með ríkisábyrgð.
              e.      Fyrirtæki með höfuðstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins er annast sams konar starfsemi og fjármálafyrirtæki skv. a- og c-lið.
     c.      Í stað orðsins „greiðslukerfi“ í 3. tölul. og sama orðs hvarvetna í 3., 5., 7., 10. og 12. gr. kemur: kerfi.
     d.      Í stað orðsins „greiðslufyrirmæla“ í 3. og 5. tölul. kemur: fyrirmæla; og í stað orðsins „greiðslufyrirmælum“ í 4. og 8. tölul. kemur: fyrirmælum.
     e.      Í stað orðanna „innstæður og verðbréf“ í 6. tölul. kemur: innstæður eða fjármálagerninga.
     f.      7. tölul. orðast svo: Fyrirmæli:
              a.      Sérhver fyrirmæli þátttakanda um að móttakanda sem þar er vísað til séu afhentir fjármunir með því að leggja með reikningsfærslu tiltekna fjárhæð inn á reikning lánastofnunar, seðlabanka eða uppgjörsaðila, eða sérhver fyrirmæli sem skuldbinda hann eða leysa hann undan skyldu til að inna af hendi greiðslu eins og hún er nánar skilgreind í reglum kerfisins.
              b.      Fyrirmæli þátttakanda um að framselja bein eða óbein eignarréttindi í fjármálagerningum með rafrænni eignarskráningu, eða önnur sambærileg fyrirmæli.
     g.      9. tölul. orðast svo: Þátttakandi: Stofnun, milligönguaðili, greiðslujöfnunarstöð, uppgjörsaðili eða kerfisstjóri. Sami þátttakandi getur gegnt hlutverki milligönguaðila, uppgjörsaðila eða greiðslujöfnunarstöðvar, öllum fyrrgreindum hlutverkum í einu eða hluta þeirra.
     h.      10. tölul. orðast svo: Óbeinn þátttakandi: Stofnun, milligönguaðili, greiðslujöfnunarstöð, uppgjörsaðili eða kerfisstjóri með samningssamband við þátttakanda í kerfi sem gerir óbeinum þátttakanda kleift að senda fyrirmæli í gegnum kerfið, að því tilskildu að kerfisstjóri þekki til hans.
     i.      Í stað orðsins „verðbréf“ í 11. tölul. kemur: fjármálagerningar, fjárhagsleg trygging samkvæmt lögum nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.
     j.      Við bætast fjórir nýir töluliðir, svohljóðandi:
              13.      Fjármálagerningur: Fjármálagerningar sem taldir eru upp í 2. tölul. 2. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.
              14.      Kerfisstjóri: Sú eining eða einingar sem bera lagalega ábyrgð á rekstri kerfis. Kerfisstjóri getur jafnframt verið milligönguaðili, greiðslujöfnunarstöð eða uppgjörsaðili.
              15.      Rekstrarsamhæfð kerfi: Tvö eða fleiri kerfi þar sem kerfisstjórarnir hafa komið á fyrirkomulagi sín á milli sem felur í sér fullnustu fyrirmæla milli kerfa.
              16.      Viðskiptadagur: Nær yfir uppgjör að nóttu jafnt sem degi og tekur til allra atburða innan viðskiptalotu kerfis.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „ákvæði þessara laga“ í 2. mgr. kemur: og um hlutaðeigandi kerfisstjóra.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Kerfisstjórum er skylt að upplýsa Seðlabanka Íslands um það hvaða lög gilda um þátttakendur í kerfum þeirra, þ.m.t. óbeina þátttakendur, svo og um allar breytingar þar á.
                  Að fenginni beiðni ber stofnun að upplýsa hvern þann sem lögmætra hagsmuna hefur að gæta um það í hvaða kerfum hún er þátttakandi og um helstu reglur um starfsemi kerfanna.

4. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 3. gr. a og 3. gr. b, svohljóðandi:

    a. (3. gr. a.)
    Heimilt er að viðurkenna kerfi, sbr. 2. mgr. 3. gr., sem uppfylla skilyrði a- og b-liðar 1. tölul. 2. gr. og framkvæma fyrirmæli í verðbréfauppgjörskerfi og fyrirmæli sem tengjast öðrum fjármálagerningum, enda sé slík viðurkenning talin æskileg með tilliti til kerfisáhættu.
    Þrátt fyrir a-lið 1. tölul. 2. gr. er í sérstökum tilvikum heimilt að viðurkenna formlegt fyrirkomulag þar sem þátttakendur eru tveir, að undanskildum mögulegum uppgjörsaðila, milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöð og óbeinum þátttakanda, enda sé slík viðurkenning talin æskileg með tilliti til kerfisáhættu.

    b. (3. gr. b.)
    Heimilt er að líta á óbeinan þátttakanda sem þátttakanda ef það er æskilegt með tilliti til kerfisáhættu, en það takmarkar ekki ábyrgð þátttakanda sem gerir óbeinum þátttakanda kleift að senda fyrirmæli í gegnum kerfi.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „greiðslufyrirmæli“ í 1. og 3. mgr. kemur: fyrirmæli.
     b.      Í stað orðsins „greiðslukerfisins“ í 1. mgr. kemur: kerfisins; og í stað orðsins „greiðslukerfum“ í 3. mgr. kemur: kerfum.
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta gildir með sama hætti um gjaldþrotaskiptameðferð þátttakanda, hvort heldur í hlutaðeigandi kerfi eða rekstrarsamhæfðu kerfi, og um gjaldþrotaskiptameðferð kerfisstjóra rekstrarsamhæfðs kerfis sem ekki er þátttakandi.
     d.      2. mgr. orðast svo:
                  Fyrirmæli sem koma til kerfisins eftir að gjaldþrotaskiptameðferð hefst og framkvæmd eru innan viðskiptadagsins þegar gjaldþrotaskiptameðferð hefst eru aðeins bindandi gagnvart þriðja manni ef kerfisstjóri getur sannað að honum var ekki og mátti ekki vera kunnugt um að slík meðferð var hafin á þeirri stundu sem fyrirmælin urðu óafturkallanleg.
     e.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Þegar rekstrarsamhæfð kerfi eiga í hlut skal hvert kerfi ákvarða í eigin reglum hvenær fyrirmæli teljast vera komin til þess kerfis, með þeim hætti að tryggt sé sem best samræmi meðal allra kerfanna sem eru rekstrarsamhæfð. Reglur einstakra kerfa um það hvenær fyrirmæli teljast vera komin til þeirra gilda óháð reglum kerfanna sem þau eru rekstrarsamhæfð, nema skýrt sé kveðið á um annað í reglum allra kerfanna sem eru rekstrarsamhæfð.
                  Þegar rekstrarsamhæfð kerfi eiga í hlut skal hvert kerfi ákvarða í eigin reglum hvenær fyrirmæli verða óafturkallanleg, með þeim hætti að tryggt sé sem best samræmi meðal allra kerfanna sem eru rekstrarsamhæfð. Reglur einstakra kerfa um það hvenær fyrirmæli verða óafturkallanleg gilda óháð reglum kerfanna sem þau eru rekstrarsamhæfð, nema skýrt sé kveðið á um annað í reglum allra kerfanna sem eru rekstrarsamhæfð.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „geiðslufyrirmæla“ í 1. málsl. kemur: fyrirmæla.
     b.      Í stað orðsins „verðbréf“ í 2. málsl. kemur: fjármálagerninga.

7. gr.

    1. málsl. 8. gr. laganna orðast svo: Gjaldþrotaskipti á búi þátttakanda, kerfisstjóra rekstrarsamhæfðs kerfis sem ekki er þátttakandi, milligönguaðila gagnvart seðlabanka eða sérhvers þriðja aðila sem leggur fram veðtryggingu skulu á engan hátt skerða rétt annarra þátttakenda, seðlabanka eða kerfisstjóra til veðtrygginga.

8. gr.

    Í stað orðanna „verðbréfum sem eru rafrænt skráð“ í 9. gr. laganna kemur: fjármálagerningum sem eru rafrænt skráðir; og í stað orðsins „verðbréfanna“ í sömu grein kemur: fjármálagerninganna.

9. gr.

    2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Með lögum þessum eru tekin upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf eins og henni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB. Tilskipun 98/26/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 53/1999 og tilskipun 2009/44/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010.

10. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt þau ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 sem lúta að breytingum á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB frá 19. maí 1998 um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf. Tilskipun 98/26/EB var innleidd með lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum.
    Eftir standa þó ákvæði 7. og 9. mgr. og 1. undirgrein 11. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/ EB. Þau ákvæði mæla fyrir um breytingu á 4. og 7. gr. tilskipunar 98/26/EB en þau ákvæði voru ekki innleidd með lögum nr. 90/1999 og ekki var talin ástæða til að innleiða þau í þessu frumvarpi.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar.
    Á Íslandi eru starfrækt tvö greiðslukerfi sem falla undir gildissvið laga nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, nánar tiltekið stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar ehf. (áður Fjölgreiðslumiðlun hf.). Þátttakendur í kerfunum eru fjármálafyrirtæki sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ásamt síðari breytingum. Seðlabanki Íslands hefur sett reglur sem útfæra nánar reglur laga nr. 90/1999, reglur nr. 703/2009 um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og reglur nr. 704/2009 um starfsemi jöfnunarkerfa. Meginmarkmið reglnanna er að stuðla að fjármálastöðugleika og auka gagnsæi og réttaröryggi í starfsemi slíkra kerfa.
    Meginmarkmið laga nr. 90/1999 er að vernda afmarkaðan en mikilvægan hluta fjármálamarkaðarins gegn því að unnt verði að beita riftunarreglum laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um uppgjör í greiðslukerfi þar sem það átti sér stað, enda hafi greiðslufyrirmælin verið komin í greiðslukerfi áður en úrskurður um gjaldþrot var kveðinn upp. Með þessum hætti er leitast við að koma í veg fyrir að vanefnd eins þátttakanda í uppgjörinu hafi keðjuverkandi áhrif út í fjármálakerfið með því að hægt verði að ógilda uppgjör sem átt hefur sér stað í greiðslukerfi fyrir upphaf gjaldþrotaskipta þátttakandans og vanefnd er rakin til.
    Evrópusambandið setti fyrst reglur um greiðslukerfi og uppgjörskerfi fyrir verðbréfaviðskipti með tilskipun 98/26/EB. Sú tilskipun var innleidd með lögum nr. 90/1999. Frá gildistöku tilskipunar 98/26/EB hefur umhverfi á fjármálamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins breyst talsvert. Kerfi sem áður voru nær eingöngu landsbundin eru nú í ríkari mæli tengd yfir landamæri. Mikilvægt er því að fyrirmæli sem eru framkvæmd í kerfum njóti verndar til að liðka fyrir færslum, auka traust á kerfum og stuðla að fjármálastöðugleika.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út skýrslu 27. mars 2006 (Evaluation Report on the Settlement Finality Directive 98/26/EC COM(2005) 657 final/2) um hvernig tilskipun 98/26/EB virkaði í framkvæmd í aðildarríkjunum. Í þeirri skýrslu kom fram það mat að tilskipunin tryggði heildstæða réttarvernd fyrir notendur kerfa gegn kerfisáhættu og yki fyrirsjáanleika þar sem meginmarkmiðið var að vernda þær greiðslur gegn því að hægt væri að beita reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir að greiðslurnar voru komnar inn í kerfin. Ekki væru neinir marktækir erfiðleikar við framkvæmd tilskipunarinnar en þó væri rétt að útskýra og skilgreina betur ýmis atriði sem þóttu óljós, skerpa á lagaskilareglum og laga tilskipunina að breyttum aðstæðum á fjármálamarkaði.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í núgildandi lögum er einungis fjallað um greiðslukerfi. Í frumvarpi þessu er lagt til að lögin taki einnig til verðbréfauppgjörskerfa. Er þetta í samræmi við efni tilskipunar 98/26/ EB. Öll kerfi sem eru viðurkennd skulu tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, einnig þau sem eru viðurkennd í samræmi við 4. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að skilgreiningu á nokkrum hugtökum verði breytt og ný hugtök skilgreind. Skilgreiningu á hugtakinu „stofnun“ hefur verið breytt á þann hátt að rafeyrisfyrirtæki og verðbréfamiðstöðvar falla nú þar undir. Þá er einnig lögð til breyting á skilgreiningu á hugtakinu „óbeinn þátttakandi“. Núgildandi lög heimila einungis þeim aðilum sem falla undir hugtakið „stofnun“ að vera „óbeinir þátttakendur“. Ekki teljast vera haldbær rök til þess og er því lagt til að skilgreining á hugtakinu „óbeinir þátttakendur“ verði víkkuð út þannig að nú geta allir þeir sem falla undir hugtakið „þátttakendur“ í lögunum einnig verið „óbeinir þátttakendur“. „Kerfisstjóri“ og „rekstrarsamhæfð kerfi“ eru meðal þeirra nýju hugtaka sem lagt er til að skilgreind verði í lögunum. Algengast er að kerfi tengist hvert öðru með almennum aðgangi, sérstökum aðgangi eða séu rekstrarsamhæfð kerfi. Lagt er til það nýmæli í þessu frumvarpi að kerfisstjóri geti verið þátttakandi í öðru kerfi. Þetta er í samræmi við þróun á sviði evrópska fjármálamarkaðarins sem mælir fyrir um meira aðgengi að kerfum. Kerfisstjóri kemur þá fram sem þátttakandi fyrir hönd kerfanna.
    Lagt er til að heimilt verði að viðurkenna fleiri kerfi en einungis þau sem falla undir skilgreiningu á kerfi í 2. gr. frumvarpsins. Lagt er til að fyrirmæli séu vernduð nótt og dag með því að skilgreina viðskiptadag sem 24 klukkustundir.
    Lögð er til breyting á 4. gr. laganna sem miðar að því að aðlaga greinina að rekstrarsamhæfðum kerfum og skýra ábyrgð kerfisstjóra. Lagt er til að það verði reglur kerfisins sem kveði á um það hvenær fyrirmæli teljast vera komin inn í kerfið. Kerfi skulu leitast við að hafa samræmdar reglur en ekki var gengið svo langt að skylda rekstrarsamhæfð kerfi til að vera með samræmdar reglur.

IV. Samráð.
    Til aðstoðar við frumvarpssmíðina skipaði efnahags- og viðskiptaráðherra nefnd með fulltrúum helstu hagsmunaaðila, þ.e. Samtaka fjármálafyrirtækja, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Frumvarpið var að mestu unnið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu en var sent nefndarmönnum til umsagnar þegar drög lágu fyrir.

V. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins kallaði ekki á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá. Frumvarp þetta er lagt fram til að uppfylla skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Tilskipun 2009/44/EB var birt í stjórnartíðindum EB þann 10. júní 2010 og var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 frá 30. apríl 2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn. Innleiðingu átti að vera lokið 30. desember 2011. Þar sem talið var að innleiðing á ákvæðum tilskipunarinnar kallaði á lagabreytingu var stjórnskipulegur fyrirvari gerður við nefnda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við 103. gr. EES-samningsins. Með þingsályktun samþykkti Alþingi að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna ákvörðunarinnar (þskj. 1960 á 139. löggjafarþingi). Verði frumvarpið að lögum mun íslenska ríkið hafa staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt framangreindu.

VI. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar afmarkaðan en mikilvægan hluta fjármálamarkaðarins og verði það að lögum munu áhrif þess einkum vera að víkka út og treysta vernd fyrirmæla í kerfum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er nýtt ákvæði um markmið laganna sem er að tryggja öryggi í uppgjöri viðskipta í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum. Ákvæði 2. mgr. kveður á um gildissvið líkt og 1. gr. gerði áður. Lagt er til að lögin gildi um greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi. Meginmarkmið laganna er að vernda fyrirmæli sem send hafa verið inn í kerfin. Öryggi fyrirmæla er tryggt með því að ekki er hægt að beita XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um fyrirmæli sem hafa verið send í kerfi. Þannig má ekki beita lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. um þau fyrirmæli sem komin voru inn í kerfin enda þótt bú eins þátttakanda sé tekið til gjaldþrotaskiptameðferðar. Þetta á við um öll þau úrræði sem lög um gjaldþrotaskipti kveða á um, svo sem greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrotaskipti.

Um 2. gr.


    Í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins um að láta lögin taka bæði til greiðslukerfa og verðbréfauppgjörskerfa er lagt til að hugtakanotkun í lögunum sé færð til samræmis við það og lagt til að hugtakið „kerfi“ komi í stað „greiðslukerfis“ þar sem við á. Verði frumvarpið að lögum mun ráðherra verða heimilt að viðurkenna greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi. Sömu reglur muni því gilda um greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi sem hafa verið viðurkennd skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1999. Greiðslukerfi eru þau kerfi sem sjá um uppgjör í peningum en verðbréfauppgjörskerfi sjá um uppgjör með fjármálagerninga.
    Þar sem fyrirmæli varða ekki eingöngu fyrirmæli um peningafærslur heldur einnig fyrirmæli um verðbréfafærslur er lagt til að hugtakinu „greiðslufyrirmæli“ verði skipt út fyrir hugtakið „fyrirmæli“ í þeim ákvæðum laganna sem það á við. Hugtakið „fyrirmæli“ er skilgreint í 7. tölul. Samkvæmt þeirri skilgreiningu tekur hugtakið bæði yfir fyrirmæli sem varða peningagreiðslur eða aðra fjármálagerninga.
    Í frumvarpinu er lagt til að hugtakið „fjármálagerningur“ sé notað í stað hugtaksins „verðbréf“ til þess að samræma hugtakanotkun í lögunum við aðra löggjöf á fjármálamarkaði. Hugtakið fjármálagerningur vísar til mismunandi tegunda sem taldar eru upp í 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
    Í greininni eru skilgreind hugtök sem fyrir koma í lögunum og er ætlað að innleiða 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB sem breytir 2. gr. tilskipunar 98/26/EB.
     Um a-lið:
    Í 1. tölul. er innleidd skilgreining á hugtakinu „kerfi“ (system), sbr. 1. undirgrein a-liðar 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB. Lagt er til að skilgreiningin á kerfi sé sett fram í fjórum stafliðum til einföldunar og samræmis við tilskipunina. Kerfi geta bæði verið greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi. Greiðslukerfi eru þau kerfi sem annast fjármagn og verðbréfauppgjörskerfi þau kerfi sem sjá um flutning á fjármálagerningum.
     Um b-lið:
    Í 2. tölul. er lagt til að innleidd verði skilgreining á hugtakinu „stofnun“ (institution), sbr. 1. undirgrein b-liðar 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB. Þær breytingar sem eru gerðar á skilgreiningunni miða að samræmi við aðra löggjöf á fjármálamarkaði með því að vísa til 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og þá er einnig það nýmæli að rafeyrisfyrirtæki og verðbréfamiðstöðvar falli undir skilgreiningu á hugtakinu stofnun.
     Um e-lið:
    Í 6. tölul. er lagt til að innleiddur verði g-liður 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB þar sem gerðar eru smávægilegar breytingar á skilgreiningu á hugtakinu „uppgjörsreikningur“ (settlement account). Verði frumvarpið að lögum verður gerður greinarmunur á að það séu annars vegar peningainnstæður eða hins vegar fjármálagerningar sem geta verið á uppgjörsreikningi.
     Um f-lið:
    Í 7. tölul. er lagt til að innleiddur verði f-liður 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB þar sem smávægilegar breytingar eru gerðar á skilgreiningu á hugtakinu „greiðslufyrirmæli“ (transfer order). Í samræmi við aðrar breytingar á lögunum er núna talað um „fyrirmæli“ í stað „greiðslufyrirmæla“. Þá er skilgreiningunni einnig skipt upp í a- og b-lið þar sem a-liður á við fyrirmæli í greiðslukerfum og b-liður á við fyrirmæli sem send eru í verðbréfauppgjörskerfum.
     Um g-lið:
    Í 9. tölul. er lagt til að innleidd verði 1. undirgrein c-liðar 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/ 44/EB þar sem gerðar eru smávægilegar breytingar á skilgreiningu hugtaksins „þátttakandi“ (participant). Þau nýmæli eru lögð til að nú sé skýrt tekið fram að sami þátttakandi geti komið fram sem mismunandi aðili þegar færsla um kerfi á sér stað.
     Um h-lið:
    Í 10. tölul. er lagt til að innleiddur verði d-liður 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB þar sem hugtakið „óbeinn þátttakandi“ (indirect participant) er skilgreint. Lagt er til að allir aðilar sem talist geta verið þátttakendur geti einnig verið óbeinir þátttakendur. Áður voru það einungis lánastofnanir en ekki þóttu sterk rök liggja að baki því að einskorða það við þær.
     Um i-lið:
    Í 11. tölul. er lagt til að innleiddur verði h-liður 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB þar sem hugtakið „veðtryggingar“ (collateral security) er skilgreint. Lagt er til að heimilt verði að nota skuldakröfur sem tryggingu fyrir skuldbindingum í kerfum.
     Um j-lið:
    Lagt er til að nýr 13. tölul. bætist við greinina til innleiðingar á e-lið 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB þar sem hugtakið „fjármálagerningur“ (securities) er skilgreint. Vísað er til laga um verðbréfaviðskipti um skilgreiningu á hugtakinu.
    Lagt er til að nýr 14. tölul. bætist við greinina til innleiðingar á 1. undirgrein i-liðar 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB þar sem hugtakið „kerfisstjóri“ (system operator) er skilgreint. Kerfisstjóri er sá aðili sem rekur kerfið og ber lagalega ábyrgð á rekstri þess.
    Lagt er til að nýr 15. tölul. bætist við greinina til innleiðingar á 2. undirgrein 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB þar sem hugtakið „rekstrarsamhæfð kerfi“ (interoperability systems) er skilgreint en búist er við að greiðslukerfi verði rekstrarsamhæfð í ríkari mæli en áður.
    Lagt er til að nýr 16. tölul. bætist við greinina til innleiðingar á 3. undirgrein 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB þar sem hugtakið „viðskiptadagur“ (business day) er skilgreint. Þar sem millilandagreiðslur eru orðnar algengari þykir nauðsynlegt að kveða á um skýrari reglur varðandi það hvenær greiðslur njóta verndar og skal vera skýrt að næturuppgjör falla undir lögin.

Um 3. gr.


    Lagt er til að 11. mgr. 5. gr. tilskipunar 2009/44/EB sé innleidd í 3. gr. laganna. Eitt af skilyrðum þess að kerfi falli undir lögin og greiðslur sem fara í gegnum það njóti réttarverndar laganna er að kerfið hafi verið viðurkennt og tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA. Með greininni er lagt til að einnig skuli tilkynna hver sé kerfisstjóri hlutaðeigandi kerfis. Á Íslandi hafa tvö kerfi verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar og því eru þau kerfi viðurkennd sem lögmæt kerfi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í því felst réttarvernd fyrirmæla sem komin eru í kerfin. Þá er einnig lagt til að aukin verði upplýsingaskylda þeirra sem reka kerfin.

Um 4. gr.


    Lagt er til að innleidd verði ákvæði 2. og 3. mgr. a-liðar 2. gr. tilskipunar 98/26/EB. Innleiðingin á ákvæðunum er valkvæð en þau voru ekki innleidd með lögum nr. 90/1999. Á undanförnum árum hafa greiðslukerfi og verðbréfauppgjörskerfi þróast mikið og var talið æskilegt að setja þessa heimild í frumvarpið. Enda þótt ekki sé þörf fyrir slíka heimild núna getur það gerst í nánustu framtíð. Ráðherra viðurkennir þá kerfin líkt og þau kerfi sem falla undir 2. gr. laga nr. 90/1999. Gerð er sú krafa að viðurkenning sé æskileg vegna kerfisáhættu. Það er ráðherra sem viðurkennir kerfi að fenginni tillögu Seðlabanka Íslands og mun það verða metið hverju sinni hvort kerfi hljóti viðurkenningu. Kerfi sem hljóta viðurkenningu samkvæmt þessari grein skal tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA. Það ætti að þykja eftirsóknarvert að hljóta viðurkenningu fyrir kerfi þar sem þau fyrirmæli sem þar fara í gegn njóta meiri verndar þar sem ekki er hægt að beita riftunarreglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um þau eftir að fyrirmælin teljast vera komin inn í kerfið.
    Lagt er til að innleitt verði ákvæði 2. undirgreinar c-liðar 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/ 44/EB. Innleiðing á ákvæðinu er valkvæð og var sambærilegt ákvæði í tilskipun 98/26/EB sem ekki var innleitt í lögum nr. 90/1999. Þá er lagt til að heimilt verði að líta á óbeinan þátttakanda sem þátttakanda, sé það æskilegt með tilliti til kerfisáhættu. Ábyrgðin hvílir þó enn á beina þátttakandanum.

Um 5. gr.


    Lagt er til að 6. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB sé innleidd í 4. gr. laganna. Meginregla núgildandi laga er í 4. gr. þar sem kemur fram að greiðslur eru óafturkallanlegar eftir að þær eru komnar inn í kerfið. Mikilvægt er við beitingu laganna að skýrt sé hvenær fyrirmæli teljast vera komin til kerfisins. Hvert kerfi skal því skilgreina hvenær greiðslur teljast vera komnar inn í kerfið. Þegar um rekstrarsamhæfð kerfi er að ræða er mikilvægt að reglur slíkra kerfa séu samræmdar. Í ákvæðinu er þó ekki lögð sú skylda á kerfi að hafa samhæfðar reglur en lagt er til að rekstrarsamhæfð kerfi skuli þó leitast við að samræma kerfi sín.
    Í stórgreiðslukerfi Seðlabankans telst greiðsla vera komin í kerfið þegar staðfest er með sannanlegum hætti frá kerfinu að endanlegt uppgjör hafi farið fram á viðkomandi fyrirmælum. Fyrirmæli teljast hins vegar vera komin í jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar þegar það hefur staðfest móttöku þeirra gagnvart þeim þátttakanda sem gaf fyrirmælin.

Um 6. gr.


    Sjá athugasemdir við 2. gr.

Um 7. gr.


    Lagt er til að 10. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/44/EB sé innleidd í 8. gr. laganna. Í núgildandi lögum njóta veðtryggingar verndar ef til gjaldþrotaskipta kemur hjá þátttakanda, sbr. 8. gr. laganna. Lagt er til að sú vernd verði látin ná til veðréttinda annarra aðila en eingöngu þátttakenda. Ekki var talin þörf á að innleiða 2. undirgrein 10. mgr. 1. gr. sem kveður á um að veðréttindi í fjármálagerningum skuli fara eftir lögum þess lands sem þeir eru skráðir í þar sem það er hin almenna regla sem gildir.

Um 8. gr.


    Sjá athugasemdir við 2. gr.

Um 9. gr.


    Með frumvarpinu er lagt til að þau ákvæði tilskipunar 2009/44/EB sem breyta ákvæðum tilskipunar 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf séu tekin upp í íslenskan rétt. Önnur ákvæði tilskipunarinnar varða efni sem lagt er til að innleitt verði í lög nr. 46/2005, um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, og mun sú innleiðing verða unnin í innanríkisráðuneytinu.

Um 10. gr.


    Verði frumvarpið samþykkt munu lögin taka bæði til greiðslukerfa og verðbréfauppgjörskerfa. Lagt er til að heiti laganna verði breytt í samræmi við framangreint.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/1999,
um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslensk lög þau ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB sem lúta að breytingum á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB, um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða að því að skilgreina betur en gert er í gildandi lögum hvaða kerfi falla undir lögin og hverjir geta verið þátttakendur í greiðslukerfum. Lagt er til að skýrt komi fram í lögunum að þau taki bæði til greiðslukerfa og verðbréfauppgjörskerfa. Einnig er þeim ætlað að skýra lagaskilareglur nánar og gera betur grein fyrir því hver ber lagalega ábyrgð á því að vita hvort þátttakandi í greiðslukerfi hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Þá er gerð sú krafa að greiðslur séu verndaðar nótt og dag með þeim hætti að viðskiptadagur er skilgreindur sem 24 klukkustundir.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.