Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 627. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1258  —  627. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar
um útgjaldaáhrif reglugerða á sviði almannatrygginga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða áhrif hafa reglugerðir nr. 29/2009, 420/2009, 503/2009, 524/2009, 833/2009, 994/2009 og 1056/2009 haft á útgjöld ríkissjóðs frá því þær tóku gildi, skipt eftir einstökum tekjuhópum lífeyristrygginga og atvinnuleysistrygginga og fæðingarorlofsgreiðslum?
     2.      Hvaða áhrif hefur reglugerð nr. 29/2009 haft á útgjöld ríkissjóðs frá því hún tók gildi, skipt eftir einstökum tekjuhópum ellilífeyris, örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar, örorkustyrks og barnalífeyris?
    Óskað er eftir að útgjöldin verði greind á hópa eftir hverri grein reglugerðanna og umbeðnar upplýsingar verði settar fram með 50.000 króna bili.


Reglugerðir nr. 524/2009, um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) (XIV), og reglugerð nr. 994/2009, um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) (XVI).
    Með þessum reglugerðum er auglýst gildistaka ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2008 og nr. 82/2009, um breytingu á VI. viðauka (félagslegt öryggi) við EES-samninginn hvað varðar málaflokka þáverandi félags- og tryggingamálaráðuneytis. Í reglugerðunum er viðaukum við framkvæmdareglugerð með Evrópureglugerð nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launafólki og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, breytt aðallega vegna ákvarðana aðildarríkjanna um tilnefningar á stjórnvöldum sem eru ábyrg fyrir framkvæmdinni, framkvæmdaákvæðum tvíhliða samninga, aðferðum við útborgun bóta o.fl.

Reglugerðir nr. 29/2009, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) (XII) og reglugerð nr. 833/2009, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) (XV).
    Með þessum reglugerðum er auglýst gildistaka ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2007 og nr. 9/2009 um breytingu á VI. viðauka (félagslegt öryggi) við EES-samninginn hvað varðar málaflokka þáverandi félags- og tryggingamálaráðuneytis. Í reglugerðunum er viðaukum við Evrópureglugerð nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launafólki og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, breytt til samræmis við lagabreytingar aðildarríkjanna og skilgreiningar hugtaka, tilgreind sérstök bótakerfi, útreikningsreglur o.fl. og sérreglur varðandi beitingu löggjafar tiltekinna ríkja. Ákvörðun nr. 159/2007 breytir einnig viðaukum við framkvæmdareglugerð með reglugerðinni, aðallega vegna ákvarðana ríkjanna um tilnefningar á stjórnvöldum sem eru ábyrg fyrir framkvæmdinni.

Reglugerð nr. 420/2009, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (lífeyristryggingar, atvinnuleysistryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi) (XIII) og reglugerð nr. 503/2009, um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar (sjúkra- og slysatryggingar) (XIII).
    Með þessum reglugerðum er auglýst gildistaka ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2008 um breytingu á VI. viðauka (félagslegt öryggi) við EES-samninginn hvað varðar málaflokka fyrrum félags- og tryggingamálaráðuneytis annars vegar og fyrrum heilbrigðisráðuneytis hins vegar. Ákvæðum Evrópureglugerðar nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launafólki og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, var breytt þar sem vísað var til dómaframkvæmdar sem þá var nýleg ásamt því að auðvelda notkun reglugerðarinnar, færslur vegna tvíhliða samninga voru endurskoðaðar o.fl. Þar á meðal var ákvæðum sem fjalla um jafnræði milli borgaranna breytt, iðgjaldafrjálsar bætur settar á og viðmiðunartímabil framlengt. Einnig var framkvæmdareglugerðinni breytt til samræmis við breytingar á löggjöf einstakra ríkja.

Reglugerð nr. 1056/2009, um (1.) breytingu á reglugerð nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
    Reglugerð þessi fjallar um breytingar á innheimtu ofgreiddra lífeyrisgreiðslna og var meðal annars sett í samræmi við efni 7. gr. laga nr. 120/2009, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum. Ákvæði 10. gr. var breytt en ákvæðið fjallar um tilhögun frádráttar frá lífeyrisgreiðslum. Þar segir í 2. mgr. að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að halda að hámarki eftir 20% af þeim tekjutengdu bótum sem lífeyrisþegi á rétt á í hverjum mánuði upp í ofgreiðslu. Með umræddri reglugerð var því bætt við að sá sem í hlut ætti bæri þó ávallt að greiða að lágmarki 3.000 kr. í hverjum mánuði. Gildir þetta uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu nema samið hafi verið um annað. Jafnframt var í sömu reglugerð bætt við 12. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um innheimtu ofgreiðslna. Þar er kveðið á um þá ársvexti sem leggja skuli á eftirstöðvar kröfu hafi endurkrafa vegna ofgreidds lífeyris ekki verið endurgreidd á tólf mánuðum frá því að krafa stofnaðist.

Áhrif reglugerðanna á útgjöld ríkissjóðs.
    Verður ekki séð að umræddar reglugerðir hafi haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs sem nokkru nemi. Jafnframt ber að taka fram að reglugerð nr. 1056/2009, um (1.) breytingu á reglugerð nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, leiddi til þess að útgjöld lækkuðu á árinu 2011 um 7 millj. kr. og á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2012 lækkuðu útgjöldin um 1. millj. kr.