Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 771. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1268  —  771. mál.
Tillaga til þingsályktunarum breytingar á skattkerfi til að styrkja íslenskan hugverkaiðnað.

Flm.: Magnús Orri Schram, Valgerður Bjarnadóttir, Lúðvík Geirsson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Skúli Helgason, Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Magnús M. Norðdahl, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Þór Saari, Guðmundur Steingrímsson,
Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Björn Valur Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að skipaður verði starfshópur sem leggi drög að nauðsynlegum breytingum á skattkerfi sem miði að því að styrkja íslenskan hugverkaiðnað. Starfshópurinn kanni þá skattahvata sem erlend ríki hafa innleitt til að styrkja vaxandi fyrirtæki innan hugverkageirans og skoði hvort taka megi þá hvata upp hér á landi í samræmi við reglur EES um ríkisaðstoð. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúa iðnaðarráðuneytis, fulltrúa fjármálaráðuneytis og fulltrúa Hátækni- og sprotavettvangs. Starfshópurinn skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. janúar 2013.

Greinargerð.


    Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur beitt sér fyrir breytingum á skattkerfinu til að efla innlenda atvinnustarfsemi og má þar nefna átakið „Allir vinna“ sem bæði hefur haft umtalsverð áhrif til eflingar atvinnulífinu sem og til að draga úr svartri atvinnustarfsemi. Nýleg löggjöf um endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði til nýsköpunar fyrirtækja, nr. 152/2009, er annað dæmi.
    Smátt og smátt hefur tekist að styrkja grunnforsendur ríkissjóðs og auknir möguleikar eru til þess að innleiða hvetjandi þætti í skattkerfið til að efla og styrkja atvinnulíf á Íslandi. Mikilvægt er að slíkar breytingar rími við áherslur stjórnvalda um uppbyggingu í anda 20/20 áætlunar og skýrslu um eflingu græns hagkerfis.
    Einn helsti vaxtarsproti íslensks atvinnulífs er hugverkaiðnaðurinn en innan hans starfa fyrirtæki sem byggja sína samkeppnishæfni á hugviti starfsmanna sem þar starfa. Þau byggja viðskiptalíkan sitt á nýsköpun, þróun, tækni, hönnun, sérstöðu eða tengslum en lykilatriði er í raun að verðmætasköpun fyrirtækisins byggist á þekkingarauðlindum frekar en nýtingu náttúruauðlinda. Nýsköpun, menntun og tækniþekking starfsfólksins hefur lagt grunn að viðskiptamódelum þessara fyrirtækja og gert þeim kleift að skapa virði sem stenst samanburð á erlendum mörkuðum.
    Þessi fyrirtæki hafa næstum ótakmarkaða vaxtarmöguleika enda byggja þau tilvist sína á hugviti starfsmanna öfugt við aðrar útflutningsgreinar sem byggja samkeppnishæfni sína beint eða óbeint á takmörkuðum auðlindum. Fyrirtæki sem stunda óefnislega, alþjóðlega nýsköpun hafa mikla vaxtarmöguleika við núverandi aðstæður. Þau þurfa minna fjármagn til fjárfestinga í upphafi, launakostnaður er samkeppnishæfur og fjarlægðir skipta minna máli. Ísland hefur mikla möguleika á þessu sviði til að skapa útflutningsverðmæti og vel launuð áhugaverð störf en frá árinu 1998 hefur hugverkaiðnaður á Íslandi vaxið um 36% á ári.
    Mikilvægt er að stjórnvöld freisti þess að styðja við bakið á þessum þætti atvinnulífsins og beiti til þess skattkerfinu á hvetjandi hátt.
    Búist er við að útflutningstekjur hugverkaiðnaðarins verði í heild sinni orðnar 180–200 milljarðar kr. árið 2013 en þær voru 150 milljarðar kr. árið 2009. Þá gera áætlanir nokkurra fyrirtækja ráð fyrir að ríflega 40 þúsund manns starfi hjá þeim sem er ríflega tvöföldun frá árinu 2011. Á tímabilinu 2002–2008 byggði hugverkaiðnaðurinn upp erlenda starfsemi, m.a. vegna ruðningsáhrifa, sem veltir nú tæpum 200 milljörðum kr. á ári. Með réttum aðstæðum hér á landi má hugsa sér að eitthvað af þessari starfsemi verði flutt aftur hingað.
    Gott dæmi um vaxtarmöguleika hugverkaiðnaðarins er þróunin hjá íslenskum útflytjendum tískufatnaðar. Árið 1999 var verðmæti útflutnings á fatnaði um 300 millj. kr. en að uppistöðu voru það ullarflíkur og tengdar vörur. Í dag er verðmæti útflutnings fyrirtækja eins og KronKron, 66°Norður, Cintamani, Farmers Market, ZO-ON og fleiri fyrirtækja um 3,1 milljarður kr. eða tífalt meira. Danir flytja út tískufatnað fyrir 527 milljarða kr. á ári en um er að ræða fjórða stærsta útflutningsiðnað Dana. Ef við Íslendingar viljum vera jafnokar Dana miðað við höfðatölu ættum við að flytja út tíu sinnum meira eða nær 30 milljörðum kr. Þannig má ljóst vera að umtalsverð sóknarfæri eru innan þessa geira til útflutnings.
    Annar vaxtarsproti hugverkaiðnaðar er leikjaiðnaðurinn á Íslandi. Fyrir tíu árum var sá geiri varla starfandi hér á landi en í dag teljast til þessa iðnaðar um tíu fyrirtæki á mismunandi vaxtarstigum. Þessi fyrirtæki velta um 8–9 milljörðum kr. og skapa nærri 500 störf. Tvö stór öflug fyrirtæki starfa innan þessa geira, Betware og CCP, og svo er til staðar fjöldi minni og yngri fyrirtækja. Þarna njóta fyrirtækin styrks hvert af öðru, enda einungis í óbeinni samkeppni hvert við annað.
    Fjölmörg ríki hafa breytt skattaumhverfi sínu til að laða að erlend fyrirtæki eða styrkja þau fyrirtæki sem þegar hafa skotið rótum í viðkomandi landi. Sem dæmi má nefna að í Quebec-fylki í Kanada er sérstakur skattfrádráttur (e. multimedia tax credit) sem er ætlaður til að styrkja tölvuleikjaiðnaðinn þar. Sérstaklega er lagt mikið upp úr því að auðvelt sé að sækja um frádráttinn og auðvelt sé að fá hann. Þá er Quebec-ríki einnig með skattfrádrætti fyrir erlenda starfsmenn innlendra fyrirtækja. Sérstaklega er horft til starfsmanna sem vinna á sviði rannsókna og þróunar og geta þeir fengið 100% afslátt af tekjuskatti fyrstu tvö árin í starfi en skattafslátturinn lækkar svo smátt og smátt. Í Nova Scotia fylki í Kanada er í boði endurgreiðsla á hluta launakostnaðar fyrirtækja sem setjast að eða stækka í fylkinu. Endurgreiðslan er reiknuð út frá efnahagslegu framlagi fyrirtækisins til svæðisins og greidd út árlega fyrstu fimm árin. Kröfur eru gerðar til fyrirtækjanna um fjölda starfa og hlutfall launa. Þá fæst í Nova Scotia fylki einnig „digital media tax credit“ sem felur í sér endurgreiðslu á allt að 25% af kostnaði fyrirtækja við ákveðin skilgreind verkefni.
    Mörg Evrópuríki hafa tekið upp skattfríðindi sem sérstaklega eru ætluð til að styrkja við ákveðnar atvinnugreinar. Í Frakklandi geta til dæmis fyrirtæki sem hanna tölvuleiki með sérstaka skírskotun til menningararfsins fengið allt að 20% skattafslátt af þróunarkostnaði. Þá hafa fjölmörg ríki innleitt reglur um skattafslætti til erlendra starfsmanna sem hafa til að bera sérstaka hæfni eða menntun sem erfitt er að öðlast í heimaríki fyrirtækisins.
    Það er mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir aðgerðum til að gera íslenskum fyrirtækjum í hugverkaiðnaði kleift að vaxa hér á landi en með þeim er hægt að skapa sjálfbæran hagvöxt framtíðarinnar. Ísland á í harðri samkeppni um þessi fyrirtæki en fjölmörg þeirra hafa fengið tilboð um að flytjast til útlanda.
    Áríðandi er að stjórnvöld kanni til fulls hvaða möguleikar felist í skattalegum hvötum til að styðja við íslenskan hugverkaiðnað. Tvö markmið liggja þar til grundvallar, annars vegar að skapa fyrirtækjunum hagfelldan grundvöll til frekari uppbyggingar og hins vegar að freista þess að þau flytji ekki úr landi vegna hagstæðari skattaumhverfis erlendis.