Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 774. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1284  —  774. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



á skýrslum Ríkisendurskoðunar 1–8 um skuldbindandi samninga ráðuneyta.


    Með bréfum, dags. 13. desember 2011, 10. janúar, 12. janúar, 7. febrúar, 15. febrúar, 16. febrúar og 12. mars sl., sendi forseti Alþingis skýrslur og ábendingar Ríkisendurskoðunar um skuldbindandi samninga átta ráðuneyta til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa. Framsögumaður er formaður nefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir. Á fund nefndarinnar komu Sveinn Arason, Kristín Kalmansdóttir, Þórir Óskarsson og Bjarkey Rut Gunnlaugsdóttir frá Ríkisendurskoðun og Þórhallur Arason og Hafsteinn S. Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti.
    Ríkisendurskoðun hefur skilað samtals átta skýrslum eða ábendingum um gerð og eftirlit ráðuneyta og stofnana þeirra með samningum sem skilgreindir eru skuldbindandi í frumvarpi til fjárlaga. Úttektirnar ná til allra ráðuneyta nema fjármálaráðuneytis en samningar þess ráðuneytis eru annars eðlis og verður sérstök úttekt gerð á þeim. Engir samningar af þessu tagi hafa verið gerðir í efnahags- og viðskiptaráðuneyti.
    Árið 2011 var greitt samkvæmt 179 slíkum samningum og er áætlað að greiðslurnar hafi numið 39,6 milljörðum kr. Flestir samningar voru gerðir af menntamálaráðuneyti, 79, eða tæp 40%. Þrjú ráðuneytanna: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti standa undir 82% útgjaldanna, þ.e. 32,4 milljörðum kr. Þar af eru 11 milljarðar kr. á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis vegna fjögurra samninga á sviði landbúnaðar, sem sýnir að samningarnir eru ýmissar gerðar og misjafnir að vexti.
    Fram kom fyrir nefndinni að handbók um þjónustusamninga sem fjármálaráðuneytið gaf út í janúar 2005 sé yfirleitt ekki fylgt við gerð samninga og allnokkur misbrestur á að eftirlit með samningum sé eins og æskilegt væri. Helstu ábendingar Ríkisendurskoðunar til ráðuneyta voru þessar (fjöldi ráðuneyta):
          Tengja þarf greiðslur við markmið, frammistöðu og framvindu (6).
          Tryggja þarf að eftirlit sé í samræmi við ákvæði (5).
          Samræma þarf ákvæði skuldbindandi samninga (5).
          Gera á úttektir á samningum undir lok samningstíma (5).
          Ljúka þarf gerð verklagsreglna vegna samningamála/skjalfesta þarf reglurnar (5).
          Móta þarf reglur um úttektir og endurskoðun á samningstíma (4).
    Í máli fulltrúa fjármálaráðuneytis kom fram að ráðuneytið fylgir reglugerð nr. 343/2006 um samninga um rekstrarverkefni sem ráðuneyti og ríkisstofnanir gera til lengri tíma en eins árs, þ.e. þjónustusamninga, sbr. 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og að innkaupaþáttur rekstrarverkefna fellur samkvæmt reglugerðinni undir lög nr. 94/2001, um opinber innkaup. Fulltrúar ráðuneytisins telja að úttekt Ríkisendurskoðunar sýni að ráðuneytin hafi ekki sinnt skyldum sínum sem kaupandi sem skyldi, sbr. einnig dreifibréf ráðuneytisins frá 2006.
    Þá kom og fram fyrir nefndinni að nokkuð er um að ekki séu til samningar um verkefni sem ríkið hefur greitt fyrir í áraraðir, t.d. vegna öldrunarþjónustu, og jafnframt að unnið sé áfram eftir samningum sem eru útrunnir.
    Nefndin fagnar því að ráðuneyti hafa tekið ábendingum Ríkisendurskoðunar vel og sum þegar hafið endurbætur í þessum efnum. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að nauðsynlegt er að taka þessi mál föstum tökum. Á það ekki síst við að litið verði til hlutverks fjármálaráðuneytis hvað þessi mál varðar, sérstaklega þegar litið er til eftirfylgni með samningum. Upplýst var fyrir nefndinni að fjárreiðulög væru í endurskoðun og hvetur nefndin til þess að þeirri vinnu verði flýtt.

Alþingi, 8. maí 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Lúðvík Geirsson.




Magnús M. Norðdahl.


Ólöf Nordal.


Birgir Ármannsson.



Margrét Tryggvadóttir.