Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 779. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1292  —  779. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008, með síðari breytingum
(vörslusviptingar innheimtuaðila).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Við lokamálslið 2. mgr. 1. gr. laganna bætist: þ.m.t. vörslusviptingu.

2. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, er orðast svo:
    Innheimtuaðili skal, hvort sem er við frum- eða milliinnheimtu, afla skriflegs samþykkis skuldara áður en lausafé er tekið úr vörslum skuldara, enda sé skuldari í vanskilum með afborganir eða lánskostnað. Skal innheimtuaðili jafnframt láta skuldara í té afrit skriflegs samþykkis í síðasta lagi samtímis afhendingu lausafjármunar. Liggi slíkt samþykki ekki fyrir verður innheimtuaðili að leita aðfarar eftir reglum aðfararlaga, nr. 90/1989.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram af efnahags- og viðskiptanefnd í samstarfi við innanríkisráðuneyti og réttarfarsnefnd.
    Nokkuð hefur færst í vöxt í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 að kröfuhafar hafi við innheimtu krafna tekið aftur vörslur þeirra muna sem skuldarar hafa gert samning um leigu á. Hefur það verið gert á grundvelli þeirra samninga sem gerðir hafa verið milli kröfuhafa og skuldara við upphaf afnota þeirra lausafjármuna sem um ræðir, en í mörgum tilvika er um að ræða stöðluð samningsákvæði í lánaskilmálum lánveitenda. Í sumum tilvikum hefur afhending muna verið framkvæmd með samþykki skuldara en í öðrum tilvikum án slíks samþykkis og þá jafnvel með þeim hætti að skuldari hefur ekki fengið vitneskju um vörslusviptinguna fyrr en eftir að hún hefur farið fram. Á það hefur verið bent að vafi getur verið um réttmæti þeirra lánssamninga sem um teflir og að í sumum tilvikum kunni fjármögnunarleigufyrirtæki að hafa svipt umráðamenn lausafjár vörslu þeirra þegar slíkur vafi var fyrir hendi. Sé vörslusvipting við slíkar aðstæður varasöm.
    Almenna reglan er sú að telji einhver sig eiga skýlausan rétt á að fá umráð eignar sem er í vörslu annars þarf hinn fyrrnefndi almennt að fá atbeina handhafa ríkisvalds til að fá þessa heimild sína staðfesta og lausafé tekið úr umráðum vörslumanns. Slík er unnt að gera með skjótum hætti á grundvelli 78. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Skv. 78. gr. aðfararlaga er þeim sem telur sér með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann telur sig eiga og getur fært sönnur á rétt sinn með skriflegum sönnunargögnum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að hlutur sé tekinn úr vörslu þess sem hlutinn hefur og afhentur þeim er réttinn á. Dómari tekur afstöðu til þess hvort réttur gerðarbeiðanda sé svo ótvíræður að heimila megi honum umráð hlutarins. Skv. 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga skal að jafnaði hafna aðfararbeiðni ef varhugavert verður talið að láta gerðina ná fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt er að afla. Það þýðir að leiki vafi á réttmæti kröfu gerðarbeiðanda skal hafna því að aðför fari fram. Ef slíkri aðfararbeiðni er hafnað er gerðarbeiðanda óheimilt að taka eign í sína vörslu þar til leyst hefur verið úr ágreiningi aðila, eftir atvikum fyrir dómi.
    Dómstólar fjalla um beiðnir um beina aðför á grundvelli 78. gr. laga um aðför, nr. 90/ 1989, og hafa í sumum tilvikum fallist á slíkar beiðnir en í öðrum tilvikum hafnað þeim. Brýnt er að bæði kröfuhafar og ekki síst skuldarar geti leitað til dómstóla þegar svo háttar til að ágreiningur stendur um réttmæti lánssamnings og uppgjör hans. Er því í frumvarpinu tekið skýrt fram að slík vörslusvipting geti ekki farið fram gegn mótmælum skuldara. Með frumvarpinu er því lagt til að skýrt verði kveðið á um þá meginreglu að einstaklingar geti almennt ekki tekið rétt sinn sjálfir, heldur þurfi þeir að fá atbeina handhafa ríkisvalds til þess að fá samning sinn efndan. Vörslusvipting lausafjármuna og endurheimta þeirra, gegn mótmælum umráðamanns, er verkefni framkvæmdarvalds og dómstóla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með fyrirhugaðri breytingu eru tekinn af allur vafi um að vörslusviptingar falla undir gildissvið laganna, þannig að innheimtuaðili sé einstaklingur eða lögaðili sem stundi innheimtu, þ.m.t. vörslusviptingu.

Um 2. gr.


    Hér er áréttuð sú regla að vörslusvipting fari ekki fram nema með skriflegu samþykki umráðamanns eignar, enda byggi hann umráð sín á gildum löggerningi eða heimild. Er lagt til að reglan gildi um þær innheimtur og vörslusviptingar sem fram fara eftir gildistöku laganna. Á þá ekki að skipta máli hvort um er að ræða vörslusviptingu kröfuhafa sem annast innheimtu fyrir aðra eða innheimtir eigin kröfu. Auk þess á hin fyrirhugaða regla við á öllum stigum innheimtu, hvort sem um er að ræða fruminnheimtu eða milliinnheimtu í skilningi 1. gr. laganna. Um ófrávíkjanleg ákvæði er að ræða, og er ekki hægt að víkja frá þeim í samningum kröfuhafa og skuldara. Auk þess er áskilið að um skriflegt samþykki sé að ræða.
    Ekki verður talið að með reglunni sé gengið á rétt kröfuhafa þar sem þeim stendur enn sem fyrr til boða að leita innsetningar með beinni aðför í hinu leigða neiti skuldari að láta af hendi vörslur lausafjár. Er hér lagt til að með almennum lögum verði kveðið nánar á um það hvernig fara á um þau tilvik þegar samið hefur verið um vörslusviptingu fyrir fram, en telja verður að með almennum lögum sé ríkisvaldinu heimilt að kveða nánar á um framkvæmd aðgerða á borð við það þegar samið er um vörslusviptingu. Verður auk þess almennt ekki talið að hægt sé með almennum hætti og fyrir fram að afsala sér rétti til þess að leita til dómstóla með ágreining, auk þess sem almennt er ekki heimilt að semja um slíkar þvingunaraðgerðir fyrir fram.
    Er þá einnig höfð í huga sú meginregla sem fram kemur í 19. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán, þegar söluhlutur hefur verið seldur með eignarréttarfyrirvara. Getur lánveitandi í slíkum tilvikum endurheimt hlutinn á grundvelli skriflegs kaupsamnings þar sem skýrt er kveðið á um eignarréttarfyrirvarann, en skilyrði slíkrar endurheimtu er ætíð sú að neytandi sé í vanskilum með afborganir eða lánskostnað. Auk þess þyrfti lánveitandi í slíkum tilvikum jafnframt að afla ótvíræðs samþykkis umráðamanns hlutar til samræmis við ákvæði frumvarpsins, en að öðrum kosti krefjast aðfarar eftir 78. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar, en gert er ráð fyrir því að lögin taki til þeirra tilvika þar sem lánveitandi krefst afhendingar söluhlutar eftir gildistöku laganna, jafnvel þótt innheimta og vanskil stafi frá fyrri tíma.