Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 362. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1309  —  362. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun (CERT, tíðniréttindi, rekstrargjald o.fl.).


Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurberg Björnsson og Veru Sveinbjörnsdóttur frá innanríkisráðuneytinu, Björn Geirsson og Hrafnkel Gíslason frá Póst- og fjarskiptastofnun, Viktor Ólason og Jóhönnu H. Halldórsdóttur frá Tali, Dóru Siv Tynes og Guðjón Bjarna Hálfdánarson frá Vodafone, Jóakim Reynisson frá Nova, Pál Ásgrímsson frá Skiptum hf., Jón F. Bjartmarz frá ríkislögreglustjóra, Smára McCarthy og Björn Davíðsson frá Inter, Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Hörð Helga Helgason hdl. Umsagnir bárust frá Fjarskiptum ehf., Inter, IP-fjarskiptum ehf., Neyðarlínunni ohf., Nova ehf., Persónuvernd, Póst- og fjarskiptastofnun, ríkislögreglustjóra, Símanum hf., Skiptum hf. og Vodafone.
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknum fjárfestingum í fjarskiptainnviðum sem leiða eiga til bættra fjarskipta um land allt og bæta öryggi í fjarskiptum og netsamskiptum. Einnig er gert ráð fyrir því að stofnað verði öryggis- og viðbragðsteymi vegna netöryggismála með það að markmiði að draga úr hættu af völdum netárása og annarra öryggisatvika sem og lágmarka útbreiðslu þeirra og það tjón sem kann að verða af þeim sökum.

Fagráð á sviði fjarskipta.
    Með ákvæði 1. gr. frumvarpsins er lögð fram breyting á ákvæði gildandi laga um fjarskiptaráð. Lögð er til sú breyting að ráðherra sé heimilt að skipa fagráð á sviði fjarskipta með fulltrúum Póst- og fjarskiptastofnunar, hagsmunaaðilum og öðrum aðilum. Einnig er lagt til að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um starfsemi fagráðs á sviði fjarskipta. Með þessum breytingum er lagt til að fyrirkomulag um samráð sé fært í sambærilegt form og kveðið er á um í frumvarpi til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála, sem lagt var fram fyrr á þessu þingi (þskj. 300). Fyrir nefndinni kom fram að fjarskiptaráð hefur verið óvirkt frá haustinu 2010 og leggur meiri hlutinn á það áherslu að virkt fagráð á sviði fjarskipta verði þegar sett á stofn við gildistöku laganna. Það er mat meiri hlutans að mikilvægt sé að slíkt fagráð hafi traust samráð og samvinnu við viðeigandi stofnanir, hagsmunaaðila og aðra aðila á sviði fjarskipta.

Orðskýringar.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að við bætist orðskýringar á nokkrum nýjum hugtökum.
Hugtakið CERT er skilgreint í 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins en með því er átt við öryggis- og viðbragðshóp til verndar ómissandi upplýsingainnviðum gegn netárásum. Meiri hlutinn telur eðlilegt að opinberar íslenskar stofnanir og deildir innan þeirra beri íslensk heiti og leggur til að öryggis- og viðbragðshópi þeim sem samkvæmt frumvarpinu skal starfa á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar til verndar ómissandi upplýsingainnviðum gegn netárásum verði valið heitið Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar eða Netöryggissveitin. Meiri hlutinn telur ekkert því til fyrirstöðu að í erlendum samskiptum og alþjóðlegri samvinnu noti Póst- og fjarskiptastofnun erlent heiti til samræmis við alþjóðleg eða ensk nöfn sveita í öðrum ríkjum („CERT“). Meiri hlutinn telur einnig að hugtakið þjónusta falli ágætlega að sambandi netöryggissveitarinnar við fyrirtækjahópinn sem vikið er að í 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins og leggur því til að í stað orðsins notendahópur komi þjónustuhópur. Meiri hlutinn áréttar að hér er ekki um efnisbreytingu að ræða. Meiri hlutinn gerir einnig tillögur um nokkrar aðrar minni háttar orðalagsbreytingar þessu að lútandi.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins sem nánar er vikið að hér á eftir. Þar leggur meiri hlutinn til að netöryggissveit sé heimilt að óska eftir nafnlausum rauntímagögnum frá fjarskiptafyrirtækjum. Þykir meiri hlutanum rétt að skilgreina hugtakið nánar. Með nafnlausum rauntímagögnum er átt við tölulegar upplýsingar og kóða sem bjóða upp á rekjanleika fjarskiptaumferðar í IP-fjarskiptanetum, t.d. þegar um ræðir skyndilega aukningu umferðar sem bent getur til netárásar. Um er að ræða gögn sem byggjast á upplýsingum sem fram koma í utanáskrift á haus IP-fjarskiptapakka, en hvergi koma fram upplýsingar um nafn sendanda eða móttakanda. Upplýsingarnar segja til um IP-vistföng, hvers eðlis pakkasendingin er með tilliti til tæknilegra eiginleika, svo sem magns og fjölda gagnapakka, tegund þeirra, þá flutningsaðferð sem notuð er, um hvaða tengihlið umferðin fer o.s.frv.
    Fjallað er um þjónustuhóp netöryggissveitarinnar í 4. tölul. 2. gr. frumvarpsins. Fram kemur að hópurinn samanstandi annars vegar af fjarskiptafyrirtækjum sem reka almenn fjarskiptanet og/eða veita aðgang að alnetinu og netþjónustu og hins vegar rekstraraðilum ómissandi upplýsingainnviða sem samkvæmt sérstökum samningi gerast meðlimir þjónustuhópsins. Nokkuð hefur borið á því við meðferð málsins að misskilnings hafi gætt varðandi það hverjir falla í þjónustuhópinn og vill meiri hlutinn því árétta skilin á milli þessara hópa. Gert er ráð fyrir skyldubundinni þátttöku fjarskiptafyrirtækja án þess að gerður sé sérstakur þjónustusamningur þar um en rekstraraðilum annarra ómissandi upplýsingainnviða er hins vegar frjálst að gerast aðilar að þjónustuhópi og netumdæmi netöryggissveitarinnar.
    Hugtakið ómissandi upplýsingainnviðir er skilgreint í 5. tölul. 2. gr. frumvarpsins en með því er átt við upplýsingakerfi sem eru grundvöllur að þjóðaröryggi og almannaheill og eru undirstaða öflunar aðfanga í þróuðu og tæknivæddu þjóðfélagi. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að ekki sé hægt með tæmandi hætti að telja upp þá aðila sem bera ábyrgð á upplýsingakerfum er hafa samfélagslega mikilvæga þýðingu fyrir velferð og öryggi þjóðarinnar. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið en engu síður er það mat meiri hlutans að mikilvægt sé að kortleggja þessa ómissandi upplýsingainnviði á einhvern hátt. Meiri hlutanum var gert kunnugt að ríkislögreglustjóri væri að vinna að skýrslu um netöryggismál og það er mat meiri hlutans að rétt sé að ríkislögreglustjóri skilgreini þar hvað fellur undir ómissandi upplýsingainnviði. Gerð er tillaga að breytingu þar að lútandi.

Skipulag númera og vistfanga.
    Kveðið er á um eftirlitsskyldu Póst- og fjarskiptastofnunar með sameiginlegum númeragrunni til uppflettingar á númerum og framkvæmdar á númeraflutningum í 4. gr. frumvarpsins. Jafnframt segir að högun grunnsins og gerð sameiginlegra verkferla um númeraflutninga skuli vera háð samþykki stofnunarinnar. Í framkvæmd heldur Hið íslenska númerafélag (HÍN) utan um skráningu á númerum í tal- og farsímaþjónustu í miðlægum og rafrænum gagnagrunni. Félag þetta er í sameiginlegri og jafnri eigu allra starfandi fjarskiptafyrirtækja á sviði tal- og farsímaþjónustu. Fram komu athugasemdir varðandi þetta fyrirkomulag út frá samkeppnislegum sjónarmiðum, þ.e. að ekki sé heppilegt að aðilar sem eiga í samkeppni á markaði verði að eiga með sér slíkt samstarf og betur færi á því að Póst- og fjarskiptastofnun mundi starfrækja slíkan gagnagrunn. Meiri hlutinn áréttar í þessu samhengi að ákvæðið er í samræmi við þá framkvæmd sem ríkir í dag á þessu sviði en hún hefur verið borin undir og samþykkt af Samkeppniseftirlitinu. Meiri hlutinn bendir á að markmið 10. gr. rammatilskipunar 2002/21/EB um skipulag númera, heita og vistfanga er að öllum þáttum innlends númeraskipulags skuli stjórnað af innlendu stjórnvaldi. Tekur það einnig til úthlutunar og skráningar á kóðum og merkingum í gagnagrunni HÍN. Það er mat meiri hlutans að rétt sé að fella skráningu og úthlutun á númerum, kóðum eða sérstökum merkingum innan gagnagrunns HÍN undir eftirlitsvald Póst- og fjarskiptastofnunar Til lengri tíma litið telur meiri hlutinn vert að kanna grundvöll þess að Póst- og fjarskiptastofnun starfræki sjálf sameiginlegan númeragrunn. Það er hins vegar ljóst að ekki standa efni til að gera slíkar breytingar að svo stöddu og er því ekki lögð fram tillaga um slíkt.

Fjarskipti á strjálbýlum svæðum.
    Markmið 6. gr. frumvarpsins er að skapa forsendur fyrir því að fjárfesting í innviðum fjarskipta á strjálbýlum svæðum geti notið góðs af samlegðaráhrifum þess að hún fari fram samtímis eða samhliða framkvæmdum í veitustarfsemi. Sett er fram sérstök kostnaðarskiptiregla sem gerir ráð fyrir því að ljósleiðarastrengurinn greiði einungis jaðarkostnaðinn við framkvæmdina. Það er mat meiri hlutans að það sé mjög mikilvægt og þjóðhagslega hagkvæmt að jarðvegsframkvæmdir verði nýttar til uppbyggingar á fjarskiptainnviðum og að ýtrustu hagkvæmni sé gætt. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi þess að aðgangur almennings að fjarskiptum verði til framtíðar sem jafnastur á landinu öllu.

Öryggi og þagnarskylda.
    Kveðið er á um í 7. gr. frumvarpsins að fjarskiptafyrirtæki skuli setja sér verklagsreglur um viðbrögð við beiðnum um aðgang lögreglu að persónuupplýsingum notenda. Hér eru gerðar auknar kröfur til fjarskiptafyrirtækjanna og starfsmanna þeirra varðandi verklag við símhlustun auk þess sem kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um gagnaöflun lögreglu og verklagsreglur vegna símhlustunar. Það er mat meiri hlutans að slíkar verklagsreglur séu afar mikilvægar og þær stuðli að auknu réttaröryggi en það hefur sýnt sig á undanförnum árum að þörfin fyrir slíkar reglur og aukið öryggi fer vaxandi. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að nauðsynlegt væri að skýrara væri kveðið á um það hvað lögregla megi skoða og leggja til grundvallar í öryggisvottunum sínum. Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar og leggur til breytingar á b-lið 7. gr. frumvarpsins þessu að lútandi. Með vísan í skrár lögreglu eða aðrar opinberar skrár vill meiri hlutinn benda á að gengið er að því vísu að lögregla hafi heimild til að afla sér upplýsinga úr öllum þeim skrám sem hún hefur aðgang að, innlendum sem erlendum. Sem dæmi má nefna upplýsingakerfi Interpol, SIS-upplýsingakerfið, þjóðskrá, fyrirspurnir til erlendra yfirvalda, skoðun hjá tollyfirvöldum, héraðsdómi eða í öðrum opinberum skrám.

Öryggis- og viðbragðssveit til verndar ómissandi upplýsingainnviðum.
    Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um stofnun netöryggissveitar sem á að gegna hlutverki öryggis- og viðbragðshóps til verndar ómissandi upplýsingainnviðum gegn netárásum. Með ákvæðinu er ætlunin að skjóta styrkari stoðum undir starfsemi öryggis- og viðbragðshópsins og draga úr hættu af völdum netárása og annarra öryggisatvika og lágmarka útbreiðslu þeirra. Netöryggissveitin skal vera starfrækt hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Meiri hlutanum þykir rétt að árétta að starfsemi netöryggissveitarinnar nær ekki til upplýsingakerfa einkarekinna fyrirtækja né tölva almennings. Einvörðungu er um að ræða þá sem falla undir skilgreininguna „þjónustuhópur“.
    Við umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið komu fram athugasemdir um að þess væri hvergi getið hvernig netöryggissveitin ætti að vera skipuð. Meiri hlutinn leggur til þær breytingar að ráðherra setji nánari fyrirmæli í reglugerð um skipun og hæfi starfsmanna netöryggissveitarinnar, þ.m.t. um öryggisvottun þeirra. Þessu tengt telur meiri hlutinn mikilvægt að tryggja gagnsæi með starfsemi netöryggissveitarinnar og leggur því til að ráðherra setji nánari fyrirmæli um skýrslugjöf um starfsemi netöryggissveitarinnar.
    Nokkuð var um það rætt í nefndinni hvort ákvæði 8. gr. frumvarpsins færi gegn ákvæðum laga um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins er fjallað um heimildir netöryggissveitarinnar til að rannsaka flæði umferðar á netinu en slíkt eftirlit getur verið gagnlegt við að greina netárásir eða spilliumferð sem getur ógnað öryggi og heildstæði almennra fjarskiptaneta. Meiri hlutinn leggur til þær breytingar að netöryggissveitinni sé heimilt að óska eftir nafnlausum rauntímagögnum í þessu skyni. Með þessari breytingu áréttar meiri hlutinn að hér er ekki um persónulegar upplýsingar að ræða. Einnig kemur fram í ákvæði 3. mgr. 8. gr. að ef grunur leikur á að um stórfellda netárás sé að ræða sé netöryggissveitinni heimilt að skima rafrænt hugsanlegar öryggisógnir. Til nánari skýringar leggur meiri hlutinn til þær breytingar að netöryggissveitinni verði heimilt að skima stýrigögn fjarskiptapakka sem tengjast hugsanlegum öryggisógnum en með stýrigögnum fjarskiptapakka er átt við upplýsingar sem eru í haus fjarskiptapakka og þær segja til um hvert hann er að fara og stærð hans. Ekki er um að ræða upplýsingar um efni sjálfs fjarskiptapakkans. Með þessari breytingu er meiri hlutinn einnig að koma til móts við þær ábendingar sem henni bárust um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Meiri hlutinn bendir á að það er sérstaklega áréttað í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins að óheimilt sé að persónugreina upplýsingar sem aflað er samkvæmt þessari grein. Það er mat meiri hlutans að í þessu felist aukin vernd frá því sem gerist á almennum markaði á grundvelli einkaréttarlegs samningssambands milli tveggja fyrirtækja. Þá komu einnig fram athugasemdir við að upplýsingar sem netöryggissveitin aflar á grundvelli ákvæðisins skuli varðveittar í sex mánuði, þá sér í lagi með tilliti til þeirrar íhlutunar í friðhelgi einkalífs sem varðveislan felur í sér. Í þessu samhengi bendir meiri hlutinn á að í 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga segir að fjarskiptafyrirtæki skuli í þágu rannsókna sakamála og almannaöryggis varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Um er því að ræða sambærilegar heimildir. Meiri hlutinn leggur þó til þá breytingu að gögnunum skuli eytt eins fljótt og auðið er og eigi síðar en sex mánuðum frá því þeirra var aflað. Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að breyta ætti núgildandi 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga er lýtur að gagnageymd og fella ákvæðið brott. Með tilskipun 2006/24/EC var gagnageymd tekin upp í Evrópusambandinu en hún hefur verið umdeild á margvíslegum forsendum. Meiri hlutinn telur ekki efni til að leggja til breytingar á fjarskiptalögum er lúta að gagnageymd að svo stöddu en telur ástæðu til að mál þessu að lútandi verði skoðuð til hlítar á komandi haustþingi.
    Þá var vikið að því að í 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins væri netöryggishópnum fengin heimild til að skoða samskipti á netinu án dómsúrskurðar. Því var hreyft fyrir nefndinni að eðlilegt væri að gera þá kröfu að netöryggishópurinn mundi afla dómsúrskurðar til þess að skoða innihald netsamskipta, rétt eins og þegar lögregla hefur slíka skoðun, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Meiri hlutinn bendir á að gert er ráð fyrir því í 4. mgr. 7. gr. frumvarpsins að rökstuddur grunur þurfi að vera fyrir hendi um að einstakar sendingar innihaldi spillikóða og að samþykki rekstraraðila viðkomandi upplýsingainnviða þurfi að koma til. Hér er byggt á þeim reglum sem gilt hafa um heimild fyrirtækja til þess að tryggja öryggi upplýsingakerfa sinna og það svigrúm sem þau hafa til að rannsaka slík atvik og bregðast við þeim. Þetta endurspeglast m.a. í vinnureglum Persónuverndar um meðferð tölvupósts og netnotkun starfsmanna Persónuverndar, sbr. 2. mgr. 5.1. greinar reglnanna, um einkatölvupóst. Þar er ekki gert ráð fyrir því að afla skuli dómsúrskurðar, né heldur þykir nauðsynlegt að styðjast við samþykki starfsmanns eða mögulegs sendanda. Þetta leiðir af umráðarétti yfir viðkomandi upplýsingakerfi, en hann er hjá eiganda eða rekstraraðila netsins. Hins vegar kemur fram að í tilvikum sem þessum er gert ráð fyrir því að sendanda sendingarinnar, þ.e. þeim sem ber ábyrgð á innihaldi hennar, gefist kostur á því að vera viðstaddur slíka skoðun, en hið sama gildir um vöktun netöryggissveitarinnar. Meiri hlutinn leggur til að við bætist sú heimild að gefa einnig móttakanda sendingarinnar færi á því að vera viðstaddur slíka skoðun. Meiri hlutinn vill jafnframt árétta mikilvægi þessi að heimild netöryggissveitarinnar tekur ekki til skoðunar sendingar í almennum fjarskiptanetum fjarskiptafyrirtækja. Það er því mat meiri hlutans að 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins fari ekki gegn ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs.
    Það er mat meiri hlutans að nauðsynlegt sé að tryggja öryggi fjarskiptainnviða um leið og stuðlað er að áframhaldandi uppbyggingu á fjarskiptamarkaði. Óumdeilt er að þessi markaður einkennist af hraðri tækniþróun og örum breytingum og nauðsynlegt er að lagaumhverfið fylgi þeirri þróun eftir. Meiri hlutinn telur einsýnt að með því að tryggja rekstrargrundvöll netöryggissveitarinnar verði öryggi fjarskiptainnviða eflt og betri yfirsýn fáist til að bregðast við aðsteðjandi hættum, en ítrekað hefur komið fram brýn nauðsyn þess að efla netöryggi landsins.

Notendabúnaður og tæki fyrir þráðlaus fjarskipti.
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til bann við allri meðhöndlun búnaðar sem ætlaður er til þess að sniðganga skilyrtar aðgangsstýringar í þeim tilgangi að veita notanda aðgang að þjónustu án þess að hann greiði tilskilið gjald fyrir aðganginn. Greininni er ætlað að innleiða hluta tilskipunar 98/84/EB um lögvernd þjónustu sem byggist á eða hefur í sér fólginn skilyrtan aðgang, að því leyti sem hún hefur ekki þegar verið innleidd í íslensk lög. Vakin var athygli nefndarinnar á því að nýlega gekk dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-403/08 og C- 429/08 þar sem fjallað er um tilskipun 98/84/EB. Fram kemur í dómnum að það gangi gegn meginmarkmiðum sáttmálans um Evrópusambandið um frelsi til að veita þjónustu að banna innflutning, sölu og notkun slíks búnaðar í löggjöf aðildarríkjanna og slík löggjöf sé andstæð 56. gr. sáttmálans sem er hliðstæð 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Dómstóllinn túlkaði einnig hugtakið „ólöglegur búnaður“ í skilningi tilskipunarinnar. Af túlkun hans má halda því fram að ákvæði 9. gr. frumvarpsins sé víðtækara en svo að það samræmist þeirri túlkun. Einnig kom fram athugasemd frá umsagnaraðila um að umrædd grein gangi of langt og geti haft þær afleiðingar að bönnuð séu ýmis verkfæri sem notuð eru við forvarnarstarf á sviði tölvuöryggis. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á greininni þessu til samræmis.

Viðurlög og stjórnvaldssektir.
    Í 10. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 74. gr. laganna um viðurlög. Lagt er til að skerpt verði á ákvæðinu og kveðið verði nánar á um tilhögun í þeim tilvikum þegar eftirlitsstofnun er heimilt eða skylt að vísa málum til frekari málsmeðferðar á vegum lögreglu eða ákæruvalds. Þessar breytingar eru lagðar til í ljósi kröfu dómstóla um skýrleika refsiheimilda. Í 11. gr. frumvarpsins er jafnframt lagt til það nýmæli að Póst- og fjarskiptastofnun fái heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki vegna brota á fjarskiptalögum. Skv. 2. mgr. 11. gr. geta stjórnvaldssektir numið allt að 100 millj. kr. en ef brot er stórfellt geta sektir numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs fjarskiptafyrirtækis. Nokkrar umræður urðu um þetta í nefndinni. Fram kom hjá nokkrum umsagnaraðilum að vafi léki á því hvort umræddar refsiheimildir uppfylltu kröfur dómstóla um skýrleika þar sem um væri að ræða almenn og matskennd atvik. Meiri hlutinn bendir á þá meginreglu refsiréttar að refsiheimildir eigi að vera skýrar en reglan byggist á 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Reglan felur í sér að refsiákvæði verður að vera nægjanlega skýrt og fyrirsjáanlegt til að einstaklingur geti gert sér grein fyrir því með lestri ákvæðisins og e.t.v. dómaframkvæmdar hvaða athafnir og/eða athafnaleysi geti leitt til refsiábyrgðar á grundvelli þess. Það er mat meiri hlutans að nauðsynlegt sé að móta skýrar verknaðarlýsingar við þau tilvik sem nefnd eru í 10. og 11. gr. frumvarpsins. Það skiptir miklu að skilgreining brota sé nákvæm og skýr, enda er skýrleiki refsiheimilda forsenda þess að þeim verði beitt, einkum í ljósi þess að refsiábyrgð er íþyngjandi fyrir hinn almenna borgara. Meiri hlutinn bendir á að Hæstiréttur hefur lýst refsiákvæði stjórnskipulega ómerk á þeim grundvelli að þau uppfylla ekki þær kröfur sem gera verður til skýrleika refsiheimilda, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 458/2006. Að þessu sögðu leggur meiri hlutinn til að ákvæði 10. og 11. gr. frumvarpsins verði felld brott og sæti frekari skoðun.
    Meiri hlutinn leggur til að ákvæði til bráðabirgða I falli brott og komi einnig til endurskoðunar við innleiðingu á tilskipunum 2009/136/EB og 2009/140/EB og reglugerð (EB) nr. 1211/2009.
    Hvað varðar ákvæði til bráðabirgða II, um gjaldtökuheimildir vegna úthlutunar á tíðniréttindum, þá flutti meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar frumvarp um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, með síðari breytingum, í lok síðasta árs sem var samþykkt sem lög nr. 163/2011.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Árni Johnsen og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. apríl 2012.Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Þuríður Backman.Róbert Marshall.


Atli Gíslason.