Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 725. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1313  —  725. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Telmu Magnúsdóttur
um aðstöðu og skipulag á Hveravöllum.


     1.      Hvernig telur ráðherra að bæta megi aðstöðu og skipulag á Hveravöllum þannig að vernda megi viðkvæma náttúru á svæðinu?
    Hveravellir eru eitt af tíu svæðum sem Umhverfisstofnun setti árið 2010 á svokallaðan rauðan lista yfir svæði sem stofnunin telur að eigi á hættu að missa verndargildi sitt. Í skýrslu stofnunarinnar kemur fram að átroðningur ferðamanna er mikill, vistkerfi svæðisins er mjög viðkvæmt, aðkoman að svæðinu er ekki góð, öryggismálum er ábótavant og engin verndaráætlun er til fyrir svæðið. Í framhaldi af því fékkst fé til umbóta og hefur verið unnið að þeim, eins og greint er frá hér að aftan, en þó er ljóst að æskilegt er að bæta enn aðstöðu og landvörslu á svæðinu.
    Umhverfisstofnun hefur aukið aðkomu sína að Hveravöllum undanfarin ár og árin 2009 og 2010 var stofnunin með landvörslu á svæðinu í fyrsta skipti. Ekki var landvarsla þar sumarið 2011 vegna húsnæðisleysis fyrir landverði en landvörður hefur fengið inni í húsnæði Hveravallafélagsins nú í sumar. Leysa þyrfti þessi húsnæðismál til að hægt sé að tryggja svæðinu þá landvörslu sem það þarf á að halda yfir háannatíma ferðaþjónustunnar.
    Sumarið 2011 var farið í viðhald á pallastétt á hverasvæðinu og aðkoma að hverasvæðinu bætt með því að breikka stíg sem liggur frá bílastæðinu að pallastétt sem liggur um hverasvæðið. Sett var upp pallastétt við salerni, en einnig var smíðuð pallastétt og lítil brú sem liggur frá bílastæði upp að „gamla“ skálanum og meðfram skálanum að núverandi pallastétt sem liggur upp á hverasvæðið. Brúin yfir heita lækinn var endursmíðuð og þeirri gömlu fargað. Sett voru upp aðkomu- og fræðsluskilti. Sumarið 2012 hefur Umhverfisstofnun í hyggju að endurbæta stíga sem liggja utan við hverasvæðið að Eyvindarholu. Einnig þarf að fara í reglubundið viðhald á göngustígnum sem liggur gegnum hverasvæðið, loka nýjum göngustígum/troðningum sem hafa myndast og koma í veg fyrir myndun nýrra slóða á svæðinu, sér í lagi í kringum hverina. Áætlað er að setja upp vegpresta nú í sumar.
    Í núgildandi deiliskipulagi fyrir svæðið er gert ráð fyrir miklum endurbótum. Í skipulaginu er gert ráð fyrir nýju 625 fermetra þjónustuhúsi sem leysir af hólmi þau fimm hús sem á svæðinu eru og er gert ráð fyrir að landverðir hafi þar aðstöðu. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að þjónustuhúsið verði byggt á jaðri friðlýsta svæðisins og að öll bílastæði og umferð verði utan þess.
    Mikilvægt er að vinna verndaráætlun fyrir svæðið þannig að hægt sé að tryggja að stefnumótandi áætlun fyrir svæðið sé í gildi sem tryggir verndun þess. Í gegnum þá vinnu koma helstu hagsmunaaðilar að borðinu og komast að sameiginlegri sýn og skilningi er varðar verndun og nýtingu svæðisins til framtíðar.
    Umhverfisstofnun hefur að beiðni ráðuneytisins tekið saman þau atriði sem hún telur brýnast að vinna að í nánustu framtíð, en þau eru að:
     1.      Vinna verndaráætlun fyrir náttúruvættið.
     2.      Leysa úr húsnæðismálum svæðisins, skipta út núverandi húsum og framkvæma í samræmi við deiliskipulag. Með því að reisa þjónustuhús í jaðri verndarsvæðisins fæst m.a. starfsaðstaða fyrir landverði, auk þess sem aðkoma að svæðinu mun verða snyrtilegri. Svæðið gæti með þessu tekið betur á móti ferðamönnum og komið yrði í veg fyrir að þjónusta byggist upp í húsaþyrpingu í hjarta verndarsvæðisins.
     3.      Lengja viðveru landvarða og tryggja landvörslu á svæðinu í samræmi við markaðsátakið Ísland allt árið.
     4.      Byggja upp þá innviði sem verja náttúruvættið fyrir ágangi ferðamanna og stýrir þeim um svæðið, svo sem samfellda pallastétt frá bílastæði og hringinn í kringum hverasvæðið.
     5.      Unnið verði frekar í merkingum innan svæðisins til að ná betur utan um stýringu ferðamanna um svæðið.
    Ráðuneytið tekur undir þessar áherslur og verður í reglulegu samráði við Umhverfisstofnun um þessi atriði, en auðvitað fer gangur þessara mála hvað aðkomu stofnunarinnar og ríkisvaldsins varðar eftir fjárveitingum hverju sinni.

     2.      Kemur til greina að veita aukna fjármuni í þessum tilgangi?
    Ráðuneytið telur æskilegt að verja auknum fjármunum til uppbyggingar innviða og landvörslu á Hveravöllum og ýmsum öðrum svæðum sem eru í senn viðkvæmar náttúruperlur og fjölsóttir áfangastaðir ferðamanna. Nokkuð hefur áunnist í þeim efnum á síðustu missirum og aukið fé fengist til framkvæmda á þeim svæðum sem þörfin er brýnust, þar á meðal á Hveravöllum. Það má þó færa rök fyrir því að þörf sé á verulega meira fjármagni til að tryggja lágmarksaðbúnað og innviði miðað við þá gífurlegu aukningu sem er í ferðamennsku á Íslandi, en eðli málsins samkvæmt eru margir helstu ferðamannastaðir landsins jafnframt náttúruperlur, sem eru friðlýstar eða þyrfti að friðlýsa. Fjöldi ferðamanna hefur meira en tvöfaldast á síðastliðnum tíu árum og kann að verða sem svarar tvöföldum íbúafjölda landsins á þessu ári. Sérstæð náttúra Íslands er sú auðlind sem er undirstaða ferðaþjónustunnar, en álag á þessa auðlind eykst auðvitað verulega með aukinni gestakomu. Framlög til náttúruverndarmála eru í litlu samhengi við þessa þróun, sem er áhyggjuefni út frá náttúruverndarsjónarmiðum, en getur einnig skaðað ferðaþjónustuna til lengri tíma, ef ekki er hlúð að innviðum hennar og gætt að þolmörkum viðkvæmra svæða.
    Oft er hægt að áorka miklu með tiltölulega litlum fjármunum, t.d. þegar litið er til innviða fyrir aðrar mikilvægar atvinnugreinar. Efld landvarsla, stígagerð, upplýsingaskilti o.fl. aðgerðir af því tagi geta dregið úr álagi á fjölsóttum svæðum, en einnig byggt upp nýja áfangastaði til að dreifa álagi og efla byggð. Ráðuneytið mun ásamt stofnunum sínum halda áfram að bæta aðstöðu á Hveravöllum og öðrum viðkvæmum svæðum, með þeim fjármunum sem tiltækir eru hverju sinni samkvæmt uppfærðri forgangsröðun byggðri á mati á álagi og þolmörkum svæða. Aukinn skilningur er á mikilvægi náttúruverndar hjá ríkisvaldinu, sveitarfélögum og ferðaþjónustunni, en framlög til hennar þurfa að taka mið af hinni gífurlegu fjölgun ferðamanna og auknum tekjum af ferðaþjónustu, sem mun að líkindum halda áfram ef marka má spár.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra mæta óskum Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Hveravallafélagsins um afnot af húsi í eigu Veðurstofu Íslands til að mæta aukinni þörf fyrir gistirými á svæðinu?

    Veðurstofa Íslands hefur húsnæði til umráða á Hveravöllum þar sem hún geymir m.a. tækjakost til veðurmælinga og jarðskjálftamælinga. Samningur er í gildi við starfsmenn Veðurstofunnar um afnot af húsinu og mun það vera fullbókað á sumrum og einnig nokkuð um helgar á vetrum. Ljóst er að ef breyta á notkun húsnæðisins þannig að það sé leigt til almennrar gistingar eða annarra nota þyrfti að breyta þessari tilhögun og slíkt þyrfti að gera í fullu samráði við Veðurstofuna.