Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 781. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1314  —  781. mál.
Álit fjárlaganefndará skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjálfseignarstofnanir og sjóði sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá fyrir rekstrarárið 2008.    Í maímánuði 2010 gaf Ríkisendurskoðun út yfirlit um sjálfseignarstofnanir og sjóði. Fjárlaganefnd gaf út álit um skýrsluna 9. maí 2011, þingskjal 1381,785. mál á 139 löggjafarþingi. Þar kom fram að nefndin mundi óska eftir tillögum frá innanríkisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Ríkisendurskoðun og ríkisskattstjóra um hvernig eðlilegast sé að haga eftirliti með sjóðunum og fækka þeim sjóðum sem ekki hafa verið starfandi um lengri eða skemmri tíma.
    Síðar var ákveðið að leita til sýslumannsins á Sauðárkróki í stað innanríkisráðuneytisins, enda fól ráðuneytið sýslumanninum að annast framkvæmd laga nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Einnig var óskað eftir tillögum frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem fer með framkvæmd laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
    Meginábendingar sem fram komu í svörum fyrrgreindra aðila um það sem þyrfti að gera voru:
     1.      Að skilgreina betur hugtakið „sjálfseignarstofnun“ í lögunum sjálfum, en nú er skilgreiningu á því eingöngu að finna í reglugerð nr. 140/2008, þar sem sjálfseignarstofnanir eru sagðar sjóðir og stofnanir sem stofnaðar hafa verið um fjármuni sem með óafturkræfum hætti hafa verið inntir af hendi til stofnunar, með gjöf, erfðaskrá eða öðrum einkaréttarlegum löggerningi, í þágu eins eða fleiri markmiða.
     2.      Fjölga til muna þeim sjóðum sem skila ársreikningum frá því sem nú er.
     3.      Efla eftirlitsheimildir þess aðila sem hefur umsjón með verkefninu í umboði innanríkisráðuneytisins.
    Fjárlaganefnd beinir þeim tilmælum til innanríkisráðherra að lög nr. 19/1998 verði endurskoðuð með þessar ábendingar í huga.

Alþingi, 14. maí 2012.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Ásbjörn Óttarsson.Höskuldur Þórhallsson.


Árni Þór Sigurðsson.


Illugi Gunnarsson.Björgvin G. Sigurðsson.