Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 759. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1316  —  759. mál.
Svarmennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Geirssonar um aðgang almennings að beinum útsendingum frá stórviðburðum í íþróttum.


     1.      Hver er skoðun ráðherra á því að stórviðburðir í íslenskum íþróttum, t.d. landsleikir í knattspyrnu og handknattleik, skuli eingöngu vera aðgengilegir landsmönnum í læstri sjónvarpsútsendingu?
    Viðburðir sem hafa verulega þýðingu og teljast samfélagslega mikilvægir skulu vera aðgengilegir landsmönnum í opinni dagskrá í sjónvarpi. Færa má rök fyrir því að þátttaka Íslands í ákveðnum alþjóðlegum stórmótum sé dæmi um slíka viðburði. Til alþjóðlegra stórmóta telst t.d. lokakeppni Evrópu- og heimsmeistaramóta og Ólympíuleika í knattspyrnu og handknattleik.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að nýta reglugerðarheimild í 48. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/ 2011, og tryggja opinn aðgang landsmanna að öllum íslenskum stórviðburðum, þar á meðal landsleikjum í helstu íþróttagreinum sem stundaðar eru hérlendis?
    
Ástæða er til að nýta reglugerðarheimild í 48. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, og tryggja opinn aðgang landsmanna að mikilsverðum viðburðum. Samkvæmt 49. gr. tilskipunar 2010/13/EB er hverju aðildarríki heimilt að gera ráðstafanir, sem að öðru leyti séu í samræmi við löggjöf Evrópusambandsins, er tryggi það að sjónvarpsstöð, sem heyrir undir lögsögu ríkisins, beiti ekki einkarétti er hún hefur aflað sér til sjónvarps frá viðburðum sem ríkið telur hafa mikilsverða þýðingu fyrir almenning. Markmiðið er að tryggja möguleika almennings á því að fylgjast með slíkum viðburðum í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds, annaðhvort í beinni eða seinkaðri útsendingu. Til að geta flokkast sem mikilsverður þarf viðburðurinn að uppfylla ákveðin skilyrði og er eftirlit með því í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA. Viðburðurinn þarf að hafa verið sýndur í opinni dagskrá og fengið umtalsvert áhorf. Hann þarf að hafa menningarlega þýðingu í samfélaginu og hafa skírskotun til menningarbundinnar vitundar landsmanna. Þá þarf landslið viðkomandi ríkis að taka þátt í stóru alþjóðlegu móti, sé þess óskað að mótið sé sýnt í ólæstri sjónvarpsútsendingu. Að lokum þarf viðburðurinn að hafa sérstaka þýðingu í aðildarríkinu, ekki aðeins fyrir áhorfendur sem venjulega horfa á slíka viðburði. Uppfylli viðburðurinn ekki að minnsta kosti tvö þessara skilyrða fær hann ekki viðurkenningu Eftirlitsstofnunar EFTA sem mikilsverður viðburður, og þar af leiðandi verður ekki hægt að beita áðurnefndri reglugerðarheimild til að tryggja útsendingu hans í ólæstri dagskrá.
    Undirbúningur að gerð lista yfir mikilsverða viðburði af þessu tagi hefur staðið yfir í nokkurn tíma í ráðuneytinu. Fundað hefur verið með hagsmunaaðilum og þeir inntir eftir áliti sínu á því hvaða viðburðir eigi heima á slíkum lista og hvers vegna. Íþróttasambönd og -félög eru beinir aðilar að málinu auk sjónvarpsstöðva sem hafa staðfestu hér á landi. Þá er einnig til athugunar hvort tilteknir menningarviðburðir eigi einnig erindi á lista yfir mikilsverða viðburði og hvaða hagsmunaaðila þurfi að kalla til samráðs vegna þeirra.

     3.      Er eitthvað að mati ráðherra sem hindrar að slík reglugerð verði sett?
    
Lagaleg heimild er til að setja slíka reglugerð. Ólík sjónarmið eru hins vegar uppi um ágæti þess að Ísland nýti sér þá heimild að útbúa lista yfir mikilsverða viðburði sem sýna skuli í ólæstri sjónvarpsútsendingu. Sala á útsendingarrétti frá leikjum í undankeppni stórmóta er tekjustofn fyrir íþróttahreyfinguna. Væru sett skilyrði um að slíkir leikir skuli sýndir í opinni dagskrá mundi það skerða möguleika íþróttahreyfingarinnar til að afla sér tekna með þessum hætti. Íslenska íþróttahreyfingin hefur hins vegar ekki beinar tekjur af lokakeppni alþjóðlegra stórmóta. Alþjóðleg íþróttasambönd fara með réttinn á einstökum íþróttagreinum. Tekjur af slíkum viðburðum fara til alþjóðasambanda og er hinn fjárhagslegi ávinningur mjög mismunandi á milli íþróttagreina. Þar af leiðandi er erfitt að meta nákvæmlega fjárhagslegan ávinning íslensku íþróttahreyfingarinnar af slíkum mótum.
    Þá færu sjónvarpsstöðvar, sem afla sér tekna með áskrift, mögulega á mis við tekjur ef vinsælir viðburðir, sem gætu aflað þeim áskrifenda, yrðu sýndir í ólæstri útsendingu. Ljóst er að hér togast á hagsmunir almennings og einkahagsmunir. Vanda þarf til verka við að vega og meta samsetningu listans yfir mikilsverða viðburði sem senda ætti út í opinni dagskrá að viðhöfðu víðtæku samráði við alla sem málið snertir.

     4.      Má vænta þess að slík reglugerð verði sett nú á næstunni?

    Framvinda þessa máls stjórnast af mörgum þáttum, en það er unnið í nánu samráði við Eftirlitsstofnun EFTA á öllum stigum þess. Sýna verður fram á áhorfstölur þeirra viðburða sem talið er að eigi heima á lista yfir mikilsverða viðburði og funda þarf með öllum hagsmunaaðilum. Þá þarf að ákveða hvernig staðið skal að útfærslu og framkvæmd reglugerðarinnar og meðferð hugsanlegra ágreiningsmála í samræmi við Evrópureglur. Ágreiningur kann að rísa vegna útsendingarréttar og verðs á útsendingarrétti frá mikilsverðum viðburðum, svo dæmi séu nefnd. Taka þarf afstöðu til þess hver muni fara með úrskurðarvald í slíkum ágreiningsmálum og hvort áfrýja megi þeirri niðurstöðu og þá hvert. Að lokum þarf samþykki allra EES-ríkja á fundi með framkvæmdastjórninni áður en listinn tekur gildi hér á landi. Sem áður segir stendur þessi vinna yfir og má ætla að niðurstöðu sé að vænta á næstu missirum.