Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1319  —  273. mál.
Breyttur texti.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála.


Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.    Frumvarpinu var vísað til nefndar eftir 2. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ögmund Jónasson innanríkisráðherra og Sigurberg Björnsson og Pétur U. Fenger frá innanríkisráðuneytinu.
    Þau atriði sem hlutu mesta umfjöllun í nefndinni að þessu sinni voru hinn faglegi ávinningur af endurskipulagningu stofnana og hvernig metinn væri fjárhagslegur ávinningur af skipulagsbreytingunum, frekari þróun viðfangsefna sem tengjast umhverfi hafsins og siglingum svo og framtíð þeirrar starfsemi sem rekin er á vegum núverandi samgöngustofnana á landsbyggðinni.
    Það er almennt álit meiri hlutans að mikilvægt sé að stjórnsýslan sé í stöðugri þróun og endurskoðun með það að markmiði að ná fram aukinni skilvirkni í einstökum málaflokkum. Meginmarkmiðið með endurskipulagningu samgöngustofnana er fyrst og fremst faglegur ávinningur og skýrari verkaskipting. Ávinningurinn telst því einkum fólginn í því að samþætta verkefni á milli þessara stofnana en þegar til lengri tíma er litið telur meiri hlutinn auk þess möguleika á lægri yfirstjórnarkostnaði og fjárhagslegri hagræðingu. Eitt markmiða þessara breytinga er vissulega að opna möguleika á að nýta betur takmarkaða fjármuni, en meiri hlutinn telur þó enn veigameira það markmið að verja og efla stjórnsýslu- og þjónustuhlutverk þessara stofnana.
    Nokkuð var rætt um áhrif þessara skipulagsbreytinga á starfsemi á landsbyggðinni. Nefndin var fullvissuð um að breytingarnar ættu ekki að vera til þess fallnar að veikja starfsemina úti á landi heldur væri einnig hægt að horfa til enn frekari möguleika á eflingu landsbyggðarinnar í þessum efnum. Í umræðum nefndarinnar kom fram rík áhersla á að starfsemin úti á landi verði varin við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.
    Nefndin ræddi einnig frekari þróun þeirra verkefna sem tengjast umhverfi hafsins og siglingum. Í þingumræðum um málið á fyrri stigum hafði m.a. komið fram vilji til að þróa frekar hugmyndir er varða hugsanlega Stofnun hafs og stranda. Einkum hefur í þessu sambandi verið litið til samlegðaráhrifa fjögurra þátta, Landhelgisgæslu, leiðsögu- og vitakerfis Siglingastofnunar, vaktstöðvar siglinga og eftirlitsþáttar Fiskistofu. Meiri hlutinn áréttar að sú endurskipulagning samgöngustofnana sem hér er lögð til gefur færi á því að breyta frekar skipulagi á þessu sviði og í þeim efnum er ekkert útilokað. Afar mismunandi sjónarmið eru hins vegar uppi um þessi mál og hefur t.d. komið fram að ekki sé talið skynsamlegt að færa verkefni á sviði hafnarframkvæmda til slíkrar stofnunar enda sé mikil samlegð á því sviði við Vegagerðina. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi þess að óvissu sé nú eytt í þessum efnum og að starfsmenn viðkomandi stofnana og stjórnsýslan öll fái niðurstöðu í málið, en fáar skipulagsbreytingar hafa átt sér jafn ítarlegan og langan aðdraganda eins og þær sem hér eru lagðar til. Meiri hlutinn áréttar einnig þann skilning sinn að starfsmönnum verði boðin sambærileg störf á sambærilegum kjörum hjá nýrri stofnun.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meiri hlutinn leggur til breytingu á ákvæði til bráðabirgða. Það er mat meiri hlutans að nauðsynlegt sé að leggja til breytingu á 2. tölul. ákvæðisins en þar er kveðið á um störf forstöðumanna. Með breytingunni er kveðið á um embættismenn í stað forstöðumanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Við ákvæði til bráðabirgða:
     a.      Í stað orðanna „störf forstöðumanna“ í 1. málsl. 2. tölul. komi: embætti starfsmanna.
     b.      Í stað orðsins „forstöðumönnum“ í 3. málsl. 2. tölul. komi: embættismönnum.

Alþingi, 4. maí 2012.Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Þuríður Backman.Róbert Marshall.


Mörður Árnason.


Árni Johnsen.