Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1332  —  387. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum (heimildir Matvælastofnunar, kærufrestur, EES-reglur).

Frá atvinnuveganefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur P. Erlingsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Karen Bragadóttur frá tollstjóra. Umsagnir um málið bárust frá tollstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Persónuvernd.Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á matvælalögum. Annars vegar er lagt til að bætt verði við heimild fyrir Matvælastofnun til að hafa aðgang að upplýsingum úr tölvukerfi tollyfirvalda. Hins vegar eru lagðar til breytingar á kærufresti vegna stjórnsýsluákvarðana er varða innflutningseftirlit og kærðar eru til æðra stjórnvalds.Ástæða þess að frumvarpið er lagt fram er sú að Eftirlitsstofnun EFTA komst að þeirri niðurstöðu að íslensk löggjöf uppfyllti ekki kröfur 7. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 136/2004 og 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 97/78/EB. Í framangreindri reglugerðargrein er kveðið á um að lögbært yfirvald skuli hafa aðgang að gagnasöfnum sem tollyfirvöld hafa aðgang að eða hlutum slíkra gagnasafna. Þá skulu upplýsingatæknikerfi framangreinds yfirvalds samþætt kerfum tollyfirvalda og rekstraraðila eftir því sem kostur er í þeim tilgangi að hraða flæði upplýsinga. Að baki reglugerðargreininni liggur það markmið að tryggja að allur innflutningur dýraafurða inn fyrir mörk EES-svæðisins hljóti viðeigandi skoðun. Í framangreindu tilskipunarákvæði er kveðið á um skyldu til að endursenda eða farga afurðum innan 60 daga komi í ljós að þær uppfylli ekki innflutningsskilyrði eða að vanræksla hafi átt sér stað. Eins og fram hefur komið bárust þrjár umsagnir um málið. Í einni þeirra koma fram ábendingar sem snerta 1. gr. frumvarpsins og nefndin tók til sérstakrar skoðunar. Þannig bendir tollstjóri á að farmskrárkerfi tollyfirvalda sé komið til ára sinna og það hafi þar af leiðandi ekki tæknilega burði til að taka við öllum þeim upplýsingum sem tilgreindar séu í 5. gr. reglugerðar um vörslu og tollmeðferð vöru, nr. 1100/2006. Þá bendir tollstjóri á að oft berist farmskrárupplýsingar seint inn í farmskrárkerfið, þ.e. allt þar til vara kemur til landsins. Er vakin athygli á því að til þess að eftirlit sé virkt og skili árangri hafi tollstjóri aðgang að farmskrárkerfum farmflytjenda eða fái upplýsingar sendar frá farmflytjendum með tölvupósti í tilteknum tilvikum. Að lokum bendir tollstjóri á að vegna tæknilegra atriða sé aðeins mögulegt að veita fullan aðgang að farmskrá en ekki takmarkaðan aðgang eins og e.t.v. má lesa úr athugasemdum við frumvarpið.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að hjá tollstjóra væri unnið að undirbúningi þess að setja upp eina gátt sem taki við öllum nauðsynlegum upplýsingum vegna innflutnings varnings. Kom fram að verkefnið byggðist á 20/20 Sóknaráætlun og aðgerðaáætlun um einfaldara Ísland. Þannig væri stefnt að því að þegar vara kæmi á landamæri Íslands þyrfti einungis að senda nauðsynleg gögn á einn stað. Þá var upplýst að verkefnið væri stórt að sniðum þó að það snerti fyrst og fremst upplýsingakerfi tollyfirvalda. Var bent á að vegna undirbúnings þessa verkefnis þyrfti að greina þörf annarra stofnana til aðgangs að kerfinu. Að mati nefndarinnar eru framangreindar hugmyndir tollstjóra um einföldun upplýsingaskila vegna innflutnings varnings virðingarverðar. Fagnar nefndin þessari framtíðarsýn og hvetur til þess að undirbúningi verði hraðað þannig að framangreindar hugmyndir komist til framkvæmda eins fljótt og verða má.
    Til þess að bregðast við þeim ábendingum tollstjóra sem snerta frumvarpið leggur nefndin til að gerðar verði breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi verði aðgangsheimild 1. málsl. greinarinnar víkkuð þannig að hún taki til allra farmskrárupplýsinga úr upplýsingakerfum tollyfirvalda í stað þess að hún feli aðeins í sér heimild til að nálgast farmupplýsingar vegna eftirlits með vörum sem 27. gr. a og 27. gr. b matvælalaga ná til. Er þessi breyting lögð til vegna þeirra tæknilegu annmarka sem eru á upplýsingakerfi tollyfirvalda og gera það að verkum að ófært er að takmarka aðgang við ákveðnar vörur. Er það mat nefndarinnar að tillagan samræmist kröfum reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 136/2004. Í öðru lagi er lagt til að nýrri aðgangsheimild verði bætt við greinina, þ.e. heimild Matvælastofnunar til þess að afla upplýsinga úr farmskrám farmflytjenda með sama hætti og tollyfirvöld gera samkvæmt heimildum í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Í þriðja lagi er lagt til að áréttað verði að sama þagnarskylda hvíli á starfsmönnum Matvælastofnunar og starfsmönnum tollyfirvalda vegna meðhöndlunar upplýsinga sem afla verður á grundvelli greinarinnar.
    Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     1.      Í stað orðsins „farmskrárupplýsingum“ í 1. málsl. komi: öllum farmskrárupplýsingum.
     2.      Á eftir 1. málsl. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Matvælastofnun er einnig heimill sams konar rafrænn aðgangur að farmskrárupplýsingum úr farmskrám farmflytjanda og tollyfirvöld hafa samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.
     3.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Starfsmenn Matvælastofnunar sem meðhöndla upplýsingar á grundvelli greinar þessarar hafa sömu þagnarskyldu og starfsmenn tollyfirvalda hafa samkvæmt þagnarskylduákvæðum tollalaga vegna meðhöndlunar sömu upplýsinga.

    Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. maí 2012.Kristján L. Möller,


form.


Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.Björn Valur Gíslason.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Þór Saari.