Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1343  —  376. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa oft lýst því yfir að ekki standi til að aðlaga íslenskar réttarreglur og stjórnsýslu að regluverki Evrópusambandsins umfram það sem leiðir af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið meðan á aðildarviðræðum stendur. Af þeim yfirlýsingum að dæma virðist frumvarpið vera lagt fram á fölskum forsendum þar sem tilgangur þess er að greiða fyrir þróunaraðstoð sambandsins sem veitt er í þágu tilgreindra verkefna. Að baki þeirri aðstoð býr sú hugsun að auðvelda inngöngu og vinna aðildinni fylgi. Íslensk stjórnvöld skuldbinda sig á móti til að fella niður tilgreinda skatta og gjöld sem er stórundarlegt þegar höfð er í huga almenn tregða þeirra við að létta á skattbyrði almennra borgara og fyrirtækja þessa lands.
    Eins og greinir í áliti meiri hlutans afhentu fulltrúar utanríkisráðuneytisins nefndinni minnisblað þar sem fram kemur yfirlit yfir styrkhæf verkefni sem stjórnvöld hafa samþykkt vegna ársins 2011. Af yfirlitinu verða varla dregnar aðrar ályktanir en þær að um sé að ræða hreina aðlögunarstyrki. Í dæmaskyni má nefna markmið eins og þau að „styrkja getu Íslands til að greina og flokka dýra- og fuglategundir sem og vistgerðir sem vernda þarf í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins“ og „bæta hæfni og getu Íslands til að uppfylla evrópska löggjöf á sviði matvælaöryggis“. Minnisblaðið fylgir áliti þessu sem fylgiskjal I.
    Til að bæta gráu ofan á svart hefur frumvarpið vakið hneykslan á Evrópuþinginu þar sem fram hafa komið sjónarmið um að óverjandi sé að veita þróunaraðstoð til Íslands með hliðsjón af almennri velmegun hér á landi og framgöngu Íslands í Icesave-málinu. Í fréttum Ríkisútvarpsins um málið kemur fram að stækkunarstjóri sambandsins hafi ekki fallist á að um þróunaraðstoð væri að ræða heldur „fjárhagsaðstoð til að undirbúa aðild að Evrópusambandinu“. Dæmi þá hver fyrir sig hvort aðlögunarferlið sé staðreynd.
    Félag löggiltra endurskoðenda taldi við meðferð málsins að frumvarpið kynni að mismuna innlendum aðilum sem veita þjónustu í samkeppni við þá sem njóta hinna skattalegu ívilnana. Félagið gagnrýndi einnig notkun einstakra hugtaka í frumvarpinu og ber að taka þá gagnrýni alvarlega þar sem endurskoðendur hafa til að bera sérþekkingu á sviði skattamála. Umsögn endurskoðendanna er birt hér sem fylgiskjal II.

Alþingi, 15. maí 2012.Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Fylgiskjal I.


Utanríkisráðuneytið:

Landsáætlun IPA 2011.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Félag löggiltra endurskoðenda:

Frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins, 376. mál.
(13. janúar 2012.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.