Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 316. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1345  —  316. mál.
Framsögumaður.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um menningarminjar.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur, Eirík Þorláksson og Ragnheiði H. Þórarinsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Ármann Guðmundsson frá Fornleifafræðingafélagi Íslands, Garðar Guðmundsson frá Fornleifastofnun Íslands, Kristínu Huld Sigurðardóttur og Þór Hjaltalín frá Fornleifavernd ríkisins, Hrafn Sveinbjarnarson frá Héraðsskjalasafni Kópavogs, Hjörleif Stefánsson fyrir hönd íslensku ICOMOS-nefndarinnar, Albínu Huldu Pálsdóttur frá Íslenskum fornleifarannsóknum ehf., Helga Torfason frá Náttúruminjasafni Íslands, Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur og Svanhildi Bogadóttur frá Reykjavíkurborg, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð og Eirík Guðmundsson frá Þjóðskjalasafni Íslands.
    Frumvarp þetta, sem á sér langan aðdraganda, var áður lagt fyrir á 139. löggjafarþingi (651. mál) samhliða þremur öðrum frumvörpum sem öll urðu að lögum á því þingi. Þetta voru lög um skil menningarverðmæta til annarra landa, safnalög og lög um Þjóðminjasafn Íslands sem munu öll öðlast gildi 1. janúar 2013 og verði frumvarp þetta að lögum munu þau öðlast gildi á sama tíma. Frumvarpið varð ekki útrætt á 139. löggjafarþingi þar sem rétt þótti að skoða betur ábendingar sem menntamálanefnd bárust við umfjöllun um það.
    Megintilgangur frumvarpsins er að auka skilvirkni minjavörslu með því að einfalda stjórnsýslu, skýra betur hugtök og verklag og samræma verklag og afgreiðslu mála. Lagt er til að ný stofnun, Minjastofnun Íslands, taki við þeirri starfsemi sem nú heyrir undir Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd. Með þessu er leitast við að styrkja stjórnsýslu á þessu sviði og er sameiningin liður í endurskoðun og uppbyggingu þeirra menningarstofnana sem heyra undir ráðuneytið.
    Helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:
    Í I. kafla eru hugtök skýrð, t.d. hugtakið þjóðminjar, og kveðið á um skyldu Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands til að halda skrár yfir þjóðminjar. Þá er hugtakið þjóðarverðmæti notað í samræmi við hugtakanotkun í EB-tilskipun 93/7/EBE um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis. Jafnframt er skerpt á skilgreiningu hugtaksins fornleifar. Horfið er frá því að miða aldursmörk friðaðra fornleifa við 100 ára aldur og í staðinn miðað við fast ártal, 1900. Talið er upp í nokkrum stafliðum í 3. mgr. 3. gr. hvað teljist til fornleifa. Þar er m.a. getið um samgöngumannvirki og því um líkt en bent var á við umfjöllun um málið að Vegagerðin hefði um árabil haldið skrá yfir brýr o.fl. Einnig eru hugtökin fornleifarannsókn og skyndirannsókn skýrð og kveðið á um hlutverk Minjastofnunar Íslands gagnvart fornleifarannsóknum. Kveðið er á um framkvæmd og fjármögnun skyndirannsókna. Þá er hugtakið mannvirki skilgreint á skýrari hátt en áður.
    II. og III. kafli frumvarpsins fjalla um stjórnsýslu og Minjastofnun Íslands sem áður er getið um. Gert er ráð fyrir að minjaverðir, sem falla undir Minjastofnun Íslands, sinni víðtækara hlutverki en samkvæmt gildandi þjóðminjalögum. Í 8. og 9. gr. eru sérstök ákvæði um fornminjanefnd og húsafriðunarnefnd. Kveðið er á um breytt hlutverk þeirrar fyrrnefndu, þ.e. að hún verði fagnefnd með svipað hlutverk og húsafriðunarnefnd en ekki áfrýjunarnefnd eins og samkvæmt gildandi þjóðminjalögum.
    Í IV. kafla eru ákvæði um skráningu fornleifa, húsa og annarra mannvirkja en Minjastofnun Íslands hefur samkvæmt frumvarpinu yfirumsjón með slíkri skráningu.
    V. kafli fjallar um friðlýsingu menningarminja og er friðlýsing færð til ráðherra í stað þess að vera á valdi undirstofnunar og gildistími skyndifriðunar lengdur í allt að sex vikur. Gert er ráð fyrir því að Minjastofnun geti gert tillögu til ráðherra um friðlýsingu eða afnám friðlýsingar og að stofnunin skuli hafa samráð við skipulagsyfirvöld viðkomandi landsvæðis. Í frumvarpinu er skýr greinarmunur á annars vegar friðun og hins vegar friðlýsingu. Í friðun felst sérstakt ástand sem leiðir annars vegar af aldri minja og hins vegar, þegar um kirkjugripi er að ræða, af ákvörðun þjóðminjavarðar. Í friðlýsingu felst hins vegar sérstök ákvörðun ráðherra skv. 18. gr. frumvarpsins. Friðlýsing getur falið í sér kvöð eða takmarkanir á meðferð fasteignar og skv. 5. gr. frumvarpsins er friðlýsingu ávallt þinglýst.
    VI. kafli fjallar um verndun og varðveislu fornminja. Þar er kveðið á um skyldu eiganda og ábúanda jarðar til að varðveita og viðhalda umhverfi fornleifa sem og um skyldu Minjastofnunar Íslands til að veita ráðgjöf í því sambandi. VII. kafli fjallar um verndun og varðveislu húsa og mannvirkja en þar er meðal annars að finna það nýmæli að skilgreint er hvað felst í friðun mannvirkja. Í VIII. kafla er fjallað um rannsóknir en tilkynna skal Minjastofnun Íslands um allar fornleifarannsóknir í landinu. Stofnunin veitir leyfi til fornleifarannsókna sem hafa í för með sér jarðrask og skal stjórnandi fornleifarannsóknar uppfylla skilyrði sem Minjastofnun setur. Þá er mælt fyrir um að óheimilt sé að flytja úr landi lífræn eða ólífræn sýni úr fornleifarannsóknum nema með skriflegu leyfi stofnunarinnar. Þá er það nýmæli að finna að kveðið er á um hvenær fornleifarannsókn sem hefur jarðrask í för með sér telst lokið.
    Í X. kafla er að finna ákvæði um fornminjasjóð og húsafriðunarsjóð og í XI. kafla er fjallað um flutning menningarminja úr landi. Þar er að finna það nýmæli að í ákveðnum tilfellum skuli leyfi til flutnings menningarminja til annarra landa veitt þó svo að þær kunni að hafa umtalsvert gildi fyrir íslenska þjóðarmenningu. Þau tilvik eru talin í 47. gr.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Í 4. gr. er skilgreint hvað teljist til byggingararfs. Nefndin leggur til að orðalag 1. málsl. greinarinnar verði lagfært þannig að þar verði kveðið á um að til byggingararfs teljist hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra.
    Í 10. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að landinu skuli skipt í minjasvæði og að á hverju svæði starfi minjaráð, samráðsvettvangur hvers minjasvæðis. Í ákvæðinu er tekið fram að minjaráð hafi samráð við Minjastofnun Íslands og höfuðsöfn. Nefndin leggur til viðbót við 2. mgr. þess efnis að minjaráð hafi einnig samráð við helstu söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja.
    Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. má friðlýsa fornleifar, hús og mannvirki eða þá hluta þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Gera má ráð fyrir að þessi heimild verði einkum notuð til að vernda yngri menningarminjar en friðunarákvæði á grundvelli aldurs ná til. Eðlilegt má telja að heimild til friðlýsingar skv. 18. gr. nái einnig til báta og skipa og leggur nefndin til að þeim verði bætt við upptalningu í 1. mgr.
    Samkvæmt 20. gr. getur Minjastofnun Íslands ákveðið skyndifriðun staðbundinna menningarminja. Nefndin leggur til að orðið „staðbundinna“ falli brott enda takmarkar það þær menningarminjar sem geta fallið undir ákvæðið. Með því að fella orðið brott og vísa eingöngu í skyndifriðun menningarminja nær ákvæðið einnig til skipa og báta og annarra forngripa.
    Í 40. gr. er fjallað um lok fornleifarannsóknar. Nefndin leggur til tvenns konar lagfæringar á orðalagi. Annars vegar að í 1. mgr. verði kveðið á um að gripum sem finnist og sýnum sem tekin séu skuli skilað samkvæmt því sem þar er nánar mælt fyrir um og hins vegar að í 4. mgr. verði vísað til 1. mgr.
    Lagt er til að orðalag í 45. gr. verði lagfært.
    Í 1. mgr. 55. gr. er Minjastofnun Íslands veitt heimild til að leggja dagsektir á þann sem vanrækir þau atriði sem talin eru upp í a–e-lið. Nefndin leggur til breytingu á greininni svo skýrt sé að heimildin beinist að framkvæmdaraðila. Einnig er lagt til að í b-lið 1. mgr. verði lagfærð tilvísun.
    Samkvæmt 57. gr. er ráðherra heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laganna í reglugerð. Nefndin leggur til að við greinina bætist ný málsgrein þess efnis að hafa skuli samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga varði reglugerð fornleifaskráningu og húsafriðun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. maí 2012.



Skúli Helgason,


1. varaform.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Þuríður Backman.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Þráinn Bertelsson.     



Siv Friðleifsdóttir.


Birgitta Jónsdóttir.