Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1351  —  256. mál.

3. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008,
og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum
(greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju. Umfjöllun nefndarinnar milli 1. og 2. umræðu var ítarleg og nefndin fékk fjölda gesta á sinn fund eins og vikið er að í fyrra nefndaráliti meiri hlutans. Nefndin telur því ekki að fjalla þurfi ítarlega um málið aftur en telur þó þarft að stikla á helstu atriðum málsins.
    Með frumvarpinu er lagt til nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði sjúkratryggðra einstaklinga. Í gildandi greiðsluþátttökukerfi greiðir sjúkratryggður einstaklingur tiltekið hlutfall upp að tilteknu hámarki fyrir hverja lyfjaávísun en ekkert hámark er á þeim lyfjakostnaði sem sjúkratryggður einstaklingur greiðir. Með frumvarpinu er lagt til nýtt kerfi sem gerir ráð fyrir þrepaskiptum kostnaði þannig að sjúkratryggður einstaklingur greiðir lyfjakostnað að fullu í fyrsta þrepi og þegar ákveðinni fjárhæð er náð greiðir sjúkratryggður hluta af kostnaði. Hlutur sjúklings í lyfjakostnaði minnkar svo eftir því sem lyfjakostnaður eykst og að sama skapi eykst greiðsluþátttaka sjúkratrygginga. Gert er ráð fyrir að hægt verði að fá fulla greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þegar lyfjakostnaður hefur náð ákveðinni fjárhæð yfir 12 mánaða tímabil, en sú fjárhæð er ákveðin í reglugerð. Meiri hlutinn telur þetta kerfi sanngjarnara en núverandi kerfi og miðað að því að koma til móts við þá sem þurfa að nota mikið af lyfjum og þurfa því að bera mikinn lyfjakostnað. Þá er með kerfinu gert ráð fyrir að eitt og sama kerfið gildi um öll lyf.
    Með breytingartillögum meiri hlutans við 2. umræðu var lagt til að ungmenni á aldrinum 18–21 árs og atvinnuleitendur sem þiggja fullar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun njóti sömu greiðsluþátttöku og börn, öryrkjar og aldraðir. Þá var einnig lagt til að lögfest yrði að gjald fyrir fyrrnefnda hópa gæti aldrei verið hærra en sem nemur 2/ 3 hlutum af gjaldi sem almennir sjúkratryggðir einstaklingar greiða. Meiri hlutinn telur þó vert að benda á að gert er ráð fyrir því að um börn gildi jafnframt önnur sérregla þar sem börn á sama fjölskyldunúmeri teljast sem einn einstaklingur. Lyfjakostnaður barna innan fjölskyldu leggst því saman að hinu lægra gjaldi og lækkar lyfjakostnað sem barnmargar fjölskyldur þurfa að greiða.
    Í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umræðu var töluvert fjallað um S-merkt lyf. Meiri hlutinn lagði til þá breytingu að heimilt yrði að veita fulla greiðsluþátttöku vegna lyfja sem lyfjagreiðslunefnd hefur ákveðið, í samráði við sérfræðinga Landspítala og sjúkratryggingastofnunar, að séu leyfisskyld og háð sérstöku eftirliti. Dýr og vandmeðfarin lyf sem nú falla í flokk S-merktra lyfja geta eftir að endurskoðun S-merktra lyfja er lokið fallið í flokk lyfja sem veitt verður full greiðsluþátttaka vegna. Tilgangur þessarar breytingar er að þeir sjúklingar sem þarfnast S-merktra lyfja, sem nú eru mjög kostnaðarsöm, geti fengið þau burtséð frá því hvar sjúklingurinn dvelur. Með þessu er unnið að því að jafna stöðu sjúklinga þar sem borið hefur á því að sumar sjúkrastofnanir hafi ekki getað tekið við sjúklingum sem þarfnast S-merktra lyfja þar sem þær ráða ekki við kostnaðinn.
    Lagt er til að komið verði á fót nýjum miðlægum lyfjagreiðslugrunni og í hann skuli skrá nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að reikna út greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og gjald sjúkratryggðs vegna kaupa á lyfjum. Þá er lagt til að lyfjabúðum verði skylt að tengjast lyfjagreiðslugrunninum. Einnig er lagt til að tilgangi lyfjagagnagrunns landlæknis verði breytt þannig að hann verði ekki einungis ætlaður til að hafa eftirlit með ávísunum lækna heldur einnig til að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga.
    Að lokum lagði meiri hluti nefndarinnar til að heimild til töku komugjalds á sjúkrahús yrði felld úr lögum enda hefur heimildin ekki verið nýtt og ekki stendur til að nýta hana.
    Með vísan til þess að málið hefur fengið ítarlega og faglega meðferð innan nefndarinnar leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 16. maí 2012.Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lúðvík Geirsson.Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Ólína Þorvarðardóttir.