Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1382  —  468. mál.

2. umræða.


Breytingartillagavið frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006
(sjálfstæði og lýðræði í háskólum, réttindi fatlaðra nemenda).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


     1.      Efnismálsgrein d-liðar 1. gr. orðist svo:
            Háskólar ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið.
     2.      Í stað orðanna „afla staðfestingar ráðuneytis á því að námið uppfylli“ í 6. gr. komi: senda ráðuneytinu upplýsingar um hvernig námið uppfyllir.
     3.      Við 8. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Farið skal að alþjóðlegum samningum um viðurkenningu á háskólamenntun og hæfi sem íslensk stjórnvöld eru aðilar að.
     4.      C-liður 9. gr. orðist svo: 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Að því mati skulu koma óháðir sérfræðingar og fulltrúi nemenda.
     5.      10. gr. orðist svo:
              1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
             Yfirstjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor eftir því sem nánar er kveðið á um í sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða öðrum stofnskjölum háskóla. Í stjórnskipulagi háskóla skal gert ráð fyrir setu nemenda og kennara í þeim stjórnunareiningum þar sem fjallað er um kennslu, rannsóknir og gæðamál. Rektor skal uppfylla kröfur 1. mgr. 18. gr. sem háskólakennari á einu eða fleiri viðurkenndum fræðasviðum viðkomandi háskóla.
     6.      11. gr. orðist svo:
              16. gr. laganna orðast svo:
             Yfirstjórn háskóla skal tryggja að fulltrúar kennara, nemenda og annars starfsliðs geti tekið þátt í ráðgefandi vettvangi um fagleg málefni innan háskólans sem og tekið þátt í fræðilegri stefnumótun.
     7.      Efnisliður a-liðar 12. gr. orðist svo: Þeir sem bera framangreind starfsheiti skulu hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla.
     8.      Við 13. gr.
              a.      Við a-lið bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Áður en reglugerðin er gefin út skal háskólum gefinn kostur á að veita umsögn um efni hennar.
              b.      Í stað orðanna „nemendum með fötlun“ og „Nemendur með fötlun“ í c-lið komi: fötluðum nemendum; og Fatlaðir nemendur.
     9.      B-liður 14. gr. orðist svo: 3. mgr. fellur brott.
     10.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Ráðherra skal skipa nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um leiðir til að auka samvinnu, verkaskiptingu og sameiningu háskóla á Íslandi. Nefndin taki m.a. til skoðunar heildarumgjörð háskólakennslu á Íslandi, rekstrarform, fjármögnun, fjölda stofnana og lagaumgjörð þeirra, með það að markmiði að nýta sem best styrkleika hvers háskóla og tryggja aukið samstarf, verkaskiptingu og hagræðingu þar sem við á. Nefndin leggi mat á hugmyndir um samstæðu háskóla og mismunandi kosti til sameiningar háskóla út frá markmiðum um aukin gæði og hagkvæmni í háskólastarfi.
             Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa hvers þingflokks sem á sæti á Alþingi og skulu nefndarmenn vera sérfróðir um málefni háskóla. Nefndin skal í störfum sínum hafa samráð við samstarfsnefnd háskólastigsins og leita ráðgjafar sérfróðra aðila um háskólamál. Nefndin skal skila ráðherra tillögum sínum fyrir 1. nóvember 2012.