Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 493. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1400  —  493. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnar Þór Másson frá forsætisráðuneyti, Sigríði Dögg Auðunsdóttur blaðamann, Björn Jón Bragason sagnfræðing og prófessor Gunnar Helga Kristinsson. Umsögn um málið barst frá Persónuvernd.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til skipuð verði þriggja manna rannsóknarnefnd, sbr. lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, er rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

Nauðsyn rannsóknar.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um þörfina á því að hefja slíka rannsókn en fyrir liggur að rannsóknarnefnd Alþingis fjallaði nokkuð um einkavæðinguna í skýrslu sinni og áður hafði Ríkisendurskoðun fjallað um málið í skýrslu um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Þá birtist ítarlegur greinarflokkur um einkvæðingu bankanna í Fréttablaðinu og nú nýlega grein um ákveðinn þátt málsins í tímaritinu Sögu. Þá liggur fyrir skýrsla frá í febrúar sl.: Sala ríkisins á eignarhlut í fyrirtækjum og sala fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins á eignarhlutum í fyrirtækjum. Skýrslan var tekin saman af starfshópi á vegum forsætisráðuneytis en þar er farið yfir umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, álit umboðsmanns Alþingis og skýrslur Ríkisendurskoðunar sem málið varða, sem og kannað hvernig þessu er háttað í öðrum löndum. Fyrir nefndinni kom fram að þó að nokkuð hafi verið skrifað um einkavæðinguna vanti enn heildstætt yfirlit yfir málið þar sem ekki hafi verið varpað ljósi á alla þætti þess. Meiri hlutinn tekur undir það álit og telur að þó meginlínurnar liggi fyrir sé mikilvægt að fá niðurstöðu í ferlið þannig að unnt sé að draga lærdóm af því og búa til aðferðafræði sem sé opin og gagnsæ og komi til með að nýtast við slík verkefni sem einkavæðing ríkisfyrirtækja er.

Gagnaöflun.
    Nefndin fjallaði einnig um gagnaöflun við rannsóknir vegna þessa máls. Fyrir nefndinni kom fram að það hefur tekið þá sem unnið hafa að úttekt málsins með greinaskrifum og rannsóknum langan tíma að nálgast gögn um málið og enn fremur að ekki hafi fengist aðgangur að öllum nauðsynlegum gögnum í þeirri rannsóknarvinnu. Þá kom einnig fram að málaskrár hjá opinberum aðilum geti verið takmarkaðar og yfirlit yfir mál ekki fullnægjandi þannig að unnt sé að átta sig á hvaða gögnum þurfi að kalla eftir til þess að varpa ljósi á mál. Meiri hlutinn tekur í því sambandi fram að hún hefur lagt til breytingar á frumvarpi til laga um upplýsingalög í þá veru að lögð verði ótvíræð skylda á stjórnvöld að halda málaskrár. Fyrir liggur að verði rannsóknarnefnd skipuð á grundvelli laga um rannsóknarnefndir hefði hún mjög ríkar heimildir til aðgangs að gögnum og gæti m.a. kallað eftir gögnum að utan er tengdust einkavæðingunni.

Markmið rannsóknar.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að dregin verði saman heildarmynd af aðdraganda, ferli og vinnubrögðum við einkavæðinguna. Meiri hlutinn tekur fram að markmið slíkrar úttektar er ekki síst að draga lærdóm af þessu ferli sem geti orðið leiðarvísir fyrir þau söluferli sem eru framundan, meðal annars varðandi eignarhlut ríkisins í bönkunum. Meiri hlutinn bendir í því sambandi á tillögur í skýrslu vinnuhóps forsætisráðherra þar sem m.a. er lagt til að greint verði á milli ákvörðunar og ábyrgðar á sölu og faglegrar umsjónar með sölu þannig að að ekki verði unnt að breyta söluferli á lokastigum. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp fjármálaráðherra, sem byggist á tillögum úr skýrslunni um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þar sem lagðar eru til reglur um söluheimildir og söluferli (þskj. 1114, 684. mál).
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að flýta þessari vinnu sem kostur er og telur að sá tími sem lagður er til í tillögunni varðandi skil á skýrslu um málið, þ.e. 1. janúar 2013, sé nægilegur til verksins og bendir í því sambandi á fyrri skrif um málið sem ættu að geta nýst í vinnu nefndarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Alþingi, 22. maí 2012.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Lúðvík Geirsson,


frsm.

Álfheiður Ingadóttir.



Skúli Helgason.


Magnús M. Norðdahl.


Margrét Tryggvadóttir.