Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 256. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1405  —  256. mál.

3. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum (greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Í frumvarpinu er gerð tillaga að nýju kerfi greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði auk þess sem lagðar eru til breytingar á lyfjalögum til að skjóta lagastoð undir starfrækslu sjúkratryggingastofnunar á lyfjagreiðslugrunni. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum um lyfjagagnagrunn til að tryggja læknum aðgang að lyfjaupplýsingum einstakra sjúklinga til þess að geta rakið lyfjasögu þeirra í þeim tilgangi að auka öryggi, bæta meðferð og sporna við fjöllyfjanotkun. Jafnframt er lagt til að einstaklingar fái aðgang að upplýsingum sem varða þá sjálfa úr lyfjagagnagrunni.
    Minni hlutinn er hlynntur þeirri hugmyndafræði sem frumvarpið byggist á, en með því er lagt til nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði og er áherslan á greiðsluþátttöku án vísunar í sjúkdóma. Tilgangurinn með nýju greiðsluþátttökukerfi er að auka jafnræði sjúklinga og einfalda kerfið. Þá er hinu nýja kerfi ætlað að tryggja þeim sem nota mest af lyfjum meiri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga en þeim sem nota minna af lyfjum auk þess að tryggja ákveðið þak á heildarlyfjakostnað sjúkratryggðra einstaklinga.
    Í hinu nýja kerfi er gert ráð fyrir ákveðnum þrepum þannig að sjúkratryggður greiði lyfjakostnað að fullu í fyrsta þrepi. Þegar ákveðinni fjárhæð er náð greiðir hinn sjúkratryggði hluta af kostnaði en greiðsluþátttaka sjúkratrygginga eykst í þrepum eftir því sem lyfjakostnaður viðkomandi eykst. Þegar kostnaður hefur náð tilteknu hámarki getur hinn sjúkratryggði fengið fulla greiðsluþátttöku það sem eftir lifir af tólf mánaða tímabili. Gert er ráð fyrir því að tímabil hefjist þegar fyrstu lyfjakaup eiga sér stað.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að gert er ráð fyrir að öll þau lyf sem sjúkratryggingar hafa hingað til tekið þátt í að greiða, að hluta eða að fullu, falli undir nýja greiðsluþátttökukerfið en jafnframt er áætlað að bæta sýklalyfjum inn.
    Ljóst er að frumvarpið nær aðeins til niðurgreiddra lyfja sjúkratrygginga þegar rætt er um hámarksþak lyfjakostnaðar einstaklinga. Undir „þakið“ falla sem sagt einungis lyf sem verða niðurgreidd af sjúkratryggingum, undanskilin verða því svefnlyf, verkjalyf og róandi lyf en kostnaður við þau getur hlaupið á þúsundum króna fyrir þá sem á þurfa að halda. Lyfjaskírteini sem gefin verða út þegar þakinu er náð gilda ekki um „núlllyfin“ og einstaklingar verða því að greiða fyrir þau lyf eins og áður.
    Minni hlutinn telur að farsælla hefði verið að frumvarpið tæki til alls kostnaðar sem einstaklingar bera vegna heilbrigðiskerfisins eins og hugmyndir voru uppi um í nefnd undir forustu Péturs H. Blöndal. Slíkar breytingar hefðu mildað útgjöld margra sem virkilega þurfa að reiða sig á þjónustu heilbrigðiskerfisins, því ljóst er að langveikir þurfa á margs konar en ólíkri þjónustu að halda, þjónustu sem tekur bæði til lyfja og annarra þátta. Sýnt er að ýmsir aðrir þættir heilbrigðisþjónustunnar er heyra undir sjúkratryggingar hafa hækkað töluvert í verði. Sem dæmi má nefna að eldri borgarar sem sækja þjónustu sjúkraþjálfara hafa fundið verulega fyrir þeirri hækkun sem þar hefur orðið á milli áranna 2011 og 2012. Hugsanlega gæti slík þjálfun komið í veg fyrir notkun lyfja síðar meir og það er því verulegur ábati, jafnt heilbrigðislega sem efnahagslega, að því að horfa til þessara forvarnaþátta innan heilbrigðiskerfisins.
    Minni hlutinn tekur undir álit meiri hluta nefndarinnar um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna ungmenna á aldrinum 18–21 árs (þskj. 1244). Þar segir: „Sá hópur býr gjarnan í foreldrahúsum og stundar framhaldsskólanám. Meiri hlutinn telur mikilvægt að veikindi einstaklinga á þessum aldri og hár lyfjakostnaður hafi ekki veruleg fjárhagsleg áhrif á fjölskyldur þeirra eða verði þess t.a.m. valdandi að viðkomandi þurfi að hætta í námi. Meiri hlutinn telur því rík sjónarmið lúta að því að um þennan hóp gildi sömu reglur um greiðsluþátttöku og gilda um aldraða og öryrkja og leggur til breytingu því til samræmis.“
    Hins vegar getur minni hlutinn ekki fallist á það sem kemur fram í 13. gr. draga að reglugerð að atvinnulausir einstaklingar á aldrinum 18–66 ára sem fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur samkvæmt staðfestingu Vinnumálastofnunar eigi rétt á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna kaupa á lyfjum á sama hátt og aldraðir og öryrkjar. Minni hlutinn vill benda á í þessu samhengi að fjöldi einstaklinga og fjölskyldna lifir af lágmarkslaunum sem eru lítið hærri en atvinnuleysisbætur og nýtur ekki slíkrar undanþágu.
    Minni hlutinn telur ekki ástæðu til að fella úr gildi heimild í 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga um sjúkratryggingar til að taka gjald vegna innlagnar á sjúkrahús og fyrir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu á göngudeild, dagdeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa sem veitt er án þess að um innlögn á sjúkrahús sé að ræða.
    Minni hlutinn bendir á að með þessu frumvarpi er verið að fela ráðherra mikið reglugerðavald og telur að slíkt framsal af hálfu löggjafans kunni að orka tvímælis.

Alþingi, 23. maí 2012.Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


frsm.


Unnur Brá Konráðsdóttir.


Eygló Harðardóttir.