Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 624. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1462  —  624. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um virðisaukaskatt.


    Nokkurra skýringa er þörf áður en einstökum liðum er svarað:
    Samkvæmt bókhaldi ríkissjóðs er allur innskattur færður til frádráttar þeim útskatti sem reiknast af virðisaukaskattsskyldum viðskiptum innan lands. Í ríkisreikningi er ekki greint sérstaklega frá útskatti og innskatti heldur er greint frá mismuni þess útskatts og innskatts sem fallið hefur á sölu og kaup hjá virðisaukaskattsskyldum aðilum. Þessi mismunur útskatts og innskatts er í ríkisreikningi nefndur Virðisaukaskattur af innlendum vörum og þjónustu. Í þessu sambandi er einnig notast við hugtakið nettóálagning. Þessi hluti virðisaukaskattsins er lagður á hjá ríkisskattstjóra.
    Allur innflutningur til landsins, hvort sem um er að ræða neysluvörur eða aðföng til rekstrar eða fjárfestingar fyrirtækja, ber virðisaukaskatt. Virðisaukaskattur af innflutningi er álagður og innheimtur hjá tollstjóra, og er bókfærður sérstaklega í bókhaldi ríkisins. Hér er því um veigamikla tvískiptingu að ræða á álagningu virðisaukaskatts, sem annars vegar fer fram við innflutning hjá tollstjóra og hins vegar vegna viðskipta innan lands hjá ríkisskattstjóra. Mestur hluti virðisaukaskatts af innflutningi verður síðar að innskatti í rekstri fyrirtækja. Sá innskattur sem færður er til frádráttar útskatti af viðskiptum innan lands í álagningu ríkisskattstjóra á sér því að miklu leyti samsvörun í virðisaukaskatti af innflutningi hjá tollstjóra.
    Þegar nettóálagning síðustu ára er skoðuð má sjá að hún hefur lækkað mikið. Þar sem innskattur hefur mikið vægi í nettóálagningu ársins má ljóst vera að sú álagning ein og sér gefur hvorki góða vísbendingu um hagþróun né þróun tekna ríkissjóðs. Vegna þessa er rétt að horfa fremur með aðskildum hætti á útskatt og innskatt og á summu alls virðisaukaskatts, hvort sem hann verður til við innflutning eða nettóálagningu. Skýringin á því að virðisaukaskattur af innlendum vörum og þjónustu dróst saman um 12,8 ma.kr. eða úr 33,1 m.kr. í 20,3 m.kr. milli áranna 2009 og 2010 er að þrátt fyrir að skattskyld velta og útskattur hafi aukist á milli ára þá jókst innskattur meira en sem nam aukningu útskatts á sama tíma. Sá samdráttur milli ára sem vísað er til í fyrirspurninni felur því ekki í sér að skattstofn virðisaukaskatts, brúttó álagning hans eða innheimta hafi dregist saman á árinu 2010 og í reynd jukust þessar stærðir að nafnvirði. Ekki hefur verið gerð sérstök greining eða rannsókn á þessu í fjármálaráðuneytinu, umfram venjulega skoðun á gögnum ríkisskattstjóra og fjársýslunnar. Ástæður þessarar þróunar eru hins vegar í meginatriðum þekktar og eru eftirfarandi:
    Undanfarin ár hefur framleiðsla aukist á vörum hjá fyrirtækjum í útflutningi og telst sú velta ekki til skattskyldrar veltu í virðisaukaskatti. Útflutningsfyrirtækin geta aftur á móti krafist þess að fá þann virðisaukaskatt sem á tímabilinu fellur á kaup þeirra á innlendum og innfluttum aðföngum greiddan úr ríkissjóði í formi innskatts. Sé vöxtur mikill í útflutningsgreinum getur það því hæglega komið fram í lækkun nettóálagningar virðisaukaskatts, sbr. umfjöllun hér að framan, og enn fremur getur það komið fram í minni vexti virðisaukaskattstekna ríkissjóðs en sem nemur auknum umsvifum virðisaukaskattsskyldra aðila í efnahagslífinu.
    Einnig er rétt að nefna að sú velta sem ber endanlegan virðisaukaskatt er frekar í neðra skattþrepinu (7%) en aðföngin sem mynda innskattinn eru aftur á móti frekar í efra skattþrepinu (25,5%). Þessi mikli munur milli skattþrepanna gerir það að verkum að nettóálagningin veikist, miðað við þróun skattstofnanna.
    Hér á eftir koma svör ráðuneytisins við einstökum liðum fyrirspurnarinnar:

     1.      Er til greining á því hvar og hvers vegna virðisaukaskattur innan lands dróst saman um 12,8 milljarða kr. milli áranna 2009 og 2010, sbr. ríkisreikning 2010, svo sem:
              a.      eftir atvinnugreinum,


     Tafla 1 sýnir nettóálagningu virðisaukaskatts eftir atvinnugreinum á árinu 2010.

atv.greinarnr.
Nettóálagning virðisaukaskatts eftir helstu atvinnugreinum 2010 frá til m.kr.
A Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar 01 03 -2.915
B Námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu 05 09 4
C Framleiðsla (t.d. álframleiðsla og frysting og önnur vinnsla sjávarafurða) 10 33 -52.499
D Rafmagns-, gas- og hitaveitur 35 35 9.638
E Vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun 36 39 743
F Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð 41 43 8.799
G Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum 45 47 15.560
H Flutningar og geymsla 49 53 -395
I Rekstur gististaða og veitingarekstur 55 56 15
J Upplýsingar og fjarskipti 58 63 7.618
K Fjármála- og vátryggingastarfsemi 64 66 5.274
L Fasteignaviðskipti 68 68 7.711
M Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi 69 75 15.239
N Leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta 77 82 3.951
O Opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar 84 84 884
P Fræðslustarfsemi 85 85 48
Q Heilbrigðis- og félagsþjónusta 86 88 90
R Menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi 90 93 277
S Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi 94 96 1.542
T Atvinnurekstur innan heimilis, þjónustustarfsemi og vöruframleiðsla til eigin nota 97 98 0
U Starfsemi stofnana og samtaka með úrlendisrétt 99 99 31
Alls 21.614
Heimild: RSK.

              b.      í gjaldþrotum í heild – einnig sundurliðað eftir því hvað má rekja til gjaldþrota sem tengjast hruninu og hvað má rekja til kennitöluflakks,
    Af skýringum hér í upphafi er ljóst að ekki er hægt að draga þá ályktun að samdráttur sem vísað er til milli ára feli í sér upplýsingar um lækkun á skattstofni virðisaukaskatts, brúttó álagningu hans eða innheimtu virðisaukaskatts á árinu 2010. Verði fyrirtæki gjaldþrota getur það hins vegar leitt til þess að gjaldfallinn, álagður virðisaukaskattur frá liðnum tímabilum sé afskrifaður í bókhaldi ríkisins. Í bókhaldi ríkissjóðs liggur ekki fyrir sundurliðun á gjaldþrotum eftir því hvort þau verði rakin til hrunsins. Tölur um afskrifaðan virðisaukaskatt liggja aftur á móti fyrir í bókhaldi ríkissjóðs og má sjá í töflum 2 og 3.
    Greiðsluerfiðleikar fyrirtækja hafa áhrif á innheimtuárangur. Tafla 2 hér fyrir neðan sýnir innheimtuárangur innheimtumanna ríkissjóðs vegna álagðs virðisaukaskatts á árunum 2008– 2010, ásamt upplýsingum um afskriftir. Tekið skal fram að virðisaukaskattskröfur þessara ára eru ófyrndar og það sem afskrifað hefur verið stafar af gjaldþrotum lögaðila. Upphæðirnar eru miðaðar við 1. janúar 2012 en álag, kostnaður og vextir er ekki meðtalið. Tölur um afskrift fyrir hvert ár tákna afskrift á þeim virðisaukaskatti sem lagður var á það ár, óháð því á hvaða ári afskriftin fór fram. Tölurnar eiga því væntanlega eftir að breytast, og því meira sem styttra er liðið frá lokum viðkomandi árs.

Tafla 2. Afskrift virðisaukaskatts, virðisaukaskattur til innheimtu
og innheimtuárangur 2008–2010 (m.kr.).

Ár Afskrifað Til innheimtu Greitt Innheimtuárangur
2008 2.474 125.519 121.489 96,79%
2009 1.994 117.709 112.840 95,86%
2010 1.145 124.890 118.788 95,11%
Heimild: Tollstjóri.

              c.      vegna sviksemi, þ.e. hvers konar fjármálamisferlis,
    Nei, slík greining liggur ekki fyrir.

              d.      vegna ólöglegrar starfsemi, t.d. í tengslum við fíkniefni?
    Eðli málsins samkvæmt er ekki um að ræða álagningu virðisaukaskatts á ólöglega starfsemi.

         Er til yfirlit yfir hvað mikið hefur tapast hjá innheimtumönnum?
    Afskriftir virðisaukaskatts eru metnar ár hvert eftir ákveðnum reglum og þeim skipt í beinar og óbeinar afskriftir í bókhaldi ríkisins. Almennt gildir að við beina afskrift krafna er talið útilokað að innheimta ákveðnar og sérgreindar kröfur með þeim úrræðum sem innheimtumenn ríkissjóðs hafa. Við afskrift óbeinna krafna er hins um að ræða mat á því hvað muni ekki innheimtast í heildarsafni krafna, án beinnar tengingar við einstakar kröfur. Tafla 2 hér fyrir framan sýnir afskrift álagningar hvers árs, árin 2008–2010, í því skyni að sjá hlutdeild tapaðra krafna í álagningu ársins og innheimtuárangur ársins eftir að tapaðar kröfur hafa verið teknar frá. Tafla 3 sýnir hins vegar beina og óbeina afskrift virðisaukaskatts samkvæmt ríkisreikningi fyrir árin 2008–2010, og þannig áhrif tapaðra krafna á afkomu ársins. Í töflu 3 kemur fram sú afskrift sem bókfærð var á árinu, óháð því á hvaða ári álagningin fór fram (gagnstætt því sem gildir í töflu 2).

Tafla 3. Afskrift virðisaukaskatts í ríkisreikningi 2008–2010 (m.kr.).

2008 2009 2010
Bein afskrift 3.941 4.219 4.688
Óbein afskrift 277 2.729 2.173
Alls 4.218 6.948 6.861
Heimild: Fjársýsla ríkisins.

     2.      Hver var til samanburðar tapaður virðisaukaskattur, sbr. 1. tölul., árin 2008, 2009 og 2011?
    Sjá töflur 2 og 3 hér að framan. Tölur fyrir árið 2011 eru ekki endanlegar í bókhaldi ríkissjóðs og ekki sýndar hér.

     3.      Hverjar hafa tekjur ríkisins verið af virðisaukaskatti á árinu 2011, sundurliðað á eftirfarandi hátt:
              a.      almenni hluti virðisaukaskattsins innan lands,
              b.      virðisaukaskattur greiddur í tolli,
              c.      virðisaukaskattur vegna uppgjörs bænda,
              d.      virðisaukaskattur vegna kaupa á þjónustu frá útlöndum?


    Þessar tölur liggja fyrir sem bráðabirgðatölur á greiðslugrunni (þ.e. innheimtugrunni). Sjá töflu:

Tafla 4. Innheimtur virðisaukaskattur 2011 (bráðabirgðatölur í m.kr.).

a. almenni hluti virðisaukaskattsins innan lands (nema uppgjör bænda) 3.790
b. virðisaukaskattur greiddur í tolli 129.527
c. virðisaukaskattur vegna uppgjörs bænda -55
d. virðisaukaskattur vegna kaupa á þjónustu frá útlöndum 1.888
ótilgreint í bráðabirgðatölum -1.898
endurgreiðslur virðisaukaskatts -9.722
Alls 123.530
Heimild: Fjársýsla ríkisins (bráðabirgðatölur í byrjun maí 2012).