Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 735. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1464  —  735. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Sigrúnu Jönu Finnbogadóttur, Guðrúnu Sigurjónsdóttur og Jóhönnu Katrínu Magnúsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Þóreyju S. Þórðardóttur og Völu Þorsteinsdóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Pál Halldórsson og Guðlaugu Kristjánsdóttur frá BHM, Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Elínu Björgu Jónsdóttur frá BSRB, Álfheiði M. Sívertsen frá Samtökum atvinnulífsins, Ingvar Þóroddsson og Kristínu Siggeirsdóttur frá Samtökum stjórna starfsendurhæfingarstöðva, Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræðum, Ásu Dóru Konráðsdóttur og Vigdísi Jónsdóttur frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði, Magnús Ólason frá Reykjalundi, Gunnar Guðmundsson frá Félagi íslenskra endurhæfingarlækna og Lilju Sturludóttur frá fjármálaráðuneytinu.
    Nefndinni hafa borist umsagnir frá BHM, BSRB, Engilbert Sigurðssyni, Félagi íslenskra endurhæfingarlækna, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Landspítala, Landssamtökum lífeyrissjóða, Læknafélagi Íslands, Reykjalundi, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum stjórna starfsendurhæfingarstöðva, Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar, Starfsendurhæfingu Vestfjarða, Tryggingastofnun ríkisins, Viðskiptaráði Íslands, Vinnueftirlitinu, VIRK Starfsendurhæfingarsjóði og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu er stefnt að uppbyggingu á atvinnutengdri starfsendurhæfingu með það að leiðarljósi að draga úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði og draga úr örorkubyrði og nýgengi örorku. Markmið frumvarpsins er að tryggja einstaklingum með skerta starfsgetu vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa atvinnutengda starfsendurhæfingu og að skapa heildstætt kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfing verður einn þáttur endurhæfingar og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman eins og mögulegt er að endurhæfingarmálum. Tilurð frumvarpsins má rekja til kjarasamninga milli Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna og Kennarasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kom að þróun nýs fyrirkomulags endurhæfingar mundi hefjast á árinu 2008 með skipulagðri þjónustu og markvissu úrræði fyrir þá starfsmenn sem eru frá vinnu til lengri tíma og verða fyrir slysum þannig að starfsgeta þeirra skerðist. Frá og með 1. júní 2008 hefur stór hluti launagreiðenda greitt 0,13% iðgjald til Endurhæfingarsjóðs, í dag VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, og í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí 2011 kemur fram að stefna ríkisstjórnarinnar sé að lögfesta skyldu allra launagreiðenda til að greiða 0,13% iðgjald til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og á móti komi samsvarandi greiðsla frá lífeyrissjóðunum og ríkinu.

Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lögð til rammalöggjöf utan um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem bjóða atvinnutengda starfsendurhæfingu. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu kveðið á um hverjir verði tryggðir, hver þjónusta sjóðanna eigi að vera og hvaða skilyrðum þarf að fullnægja til að eiga rétt á þeirri þjónustu. Almennt má segja að þeir sem eru á vinnumarkaði eru tryggðir með greiðslu iðgjalds frá vinnuveitendum þeirra, auk þeirra sem fá greiðslur úr nánar tilgreindum sjóðum, svo sem sjúkrasjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði o.fl. Einnig er gert ráð fyrir að með sérstökum samningi við ráðherra verði aðilar utan vinnumarkaðar tryggðir, t.d. þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Frumvarpinu er því ætlað að ná til sem flestra en þó eru sett nokkur skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóða í frumvarpinu. Þannig þarf einstaklingur að búa við heilsubrest sem hindrar fulla þátttöku á vinnumarkaði svo að hann geti notið þjónustu sjóðanna. Viðkomandi þarf að hafa þörf fyrir þjónustuna, hún sé viðeigandi til að auðvelda honum að fara aftur til vinnu og líkleg til að skila árangri á þeim tíma sem hún er veitt. Þá verður einstaklingur að hafa vilja og getu til að taka markvissan þátt í endurhæfingunni og fylgja eftir áætlun sem sett er fram en starfsendurhæfingarsjóði er heimilt að setja það sem skilyrði fyrir þjónustu sjóðsins að viðkomandi skuldbindi sig til virkrar þátttöku í starfsendurhæfingunni.
    Í öðru lagi er með frumvarpinu kveðið á um framlag til starfsendurhæfingarsjóða og er í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar lagt til að það verði þrískipt, á milli atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkissjóðs. Framlag atvinnurekenda verði 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Lífeyrissjóði viðkomandi aðila er ætlað að innheimta gjaldið og standa skil á því til starfsendurhæfingarsjóðs að frádreginni þóknun vegna umsýslu, og lífeyrissjóðir eiga enn fremur að greiða iðgjald sem nemur sömu fjárhæð og greitt er vegna sjóðfélaga í starfsendurhæfingarsjóð. Framlag ríkisins er samkvæmt frumvarpinu 0,13% af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, og skal ríkissjóður greiða framlagið í október hvert ár og skal það skiptast á milli starfsendurhæfingarsjóða á grundvelli hlutdeildar hvers sjóðs í heildarframlögum til starfsendurhæfingarsjóða á næstliðnu almanaksári. Miðað við tryggingagjaldsstofn sem var til grundvallar í fjárlögum ársins 2012 er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs verði tæplega 1.200 millj. kr. á ársgrundvelli.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu fjallað um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, sbr. III.–VI. kafla frumvarpsins, en gert er ráð fyrir að þeir verði sjálfseignarstofnanir og að baki þeim standi að lágmarki 10.000 launamenn eða þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
    Í fjórða lagi er kveðið á um að framlag lífeyrissjóðanna á árunum 2012–2015 skuli ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhæð sjóðanna sem framkvæmd er lögum samkvæmt einu sinni á ári. Með þessu er átt við að þegar slík athugun fer fram sé ekki gert ráð fyrir því að framlögin verði til frambúðar. Ef gert væri ráð fyrir því mundu lífeyrisskuldbindingar sjóðanna aukast umtalsvert sem gæti leitt til skerðingar á lífeyrisréttindum. Reynt er að draga úr þessari hættu með bráðabirgðaákvæði þess efnis að framlög atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins verði endurskoðuð fyrir árslok 2014 og þá verði meðal annars kannað hver áhrifin af starfsemi sjóðanna hafi verið á örorkubyrði lífeyrissjóðanna og almannatryggingar og hvort framlög til sjóðanna hafi skilað tilætluðum árangri.
    Að mati meiri hlutans er um mikilvægt mál að ræða sem má m.a. rekja til kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Í þeim umsögnum sem nefndinni hafa borist er málið þó nokkuð gagnrýnt og hafa gestir sem hafa komið fyrir nefndina einnig lýst yfir athugasemdum sínum varðandi einstök atriði. Meiri hlutinn hefur í vinnu sinni við málið fjallað um þessar athugasemdir og gerir, í því skyni að mæta réttmætri gagnrýni, tillögur til nokkurra breytinga á frumvarpinu sem gerð verður grein fyrir hér síðar.

Læknisfræðileg endurhæfing og atvinnutengd starfsendurhæfing.
    Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við það að líklegt væri að með frumvarpinu yrði komið á tvískiptu kerfi endurhæfingar hér á landi. Annars vegar væri um að ræða læknisfræðilega endurhæfingu sem fer fram innan heilbrigðiskerfisins og stofnana á vegum ríkisins eða rekinna fyrir fjárframlög frá ríkinu, og hins vegar atvinnutengda starfsendurhæfingu sem væri á vegum starfsendurhæfingarsjóðanna. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við að tilteknir hópar sjúklinga sem þyrftu á endurhæfingu að halda ættu ekki rétt til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á grundvelli frumvarpsins.
    Í ljósi þessarar gagnrýni tekur meiri hlutinn fram að skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóða koma fram í 11. gr. frumvarpsins. Þar kemur m.a. fram að einstaklingur þarf að búa við heilsubrest sem hindrar fulla þátttöku hans á vinnumarkaði og að hann stefni að endurkomu á vinnumarkað eða að aukinni þátttöku á vinnumarkaði svo fljótt sem verða má. Það er þannig skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóðanna að viðkomandi stefni að endurkomu á vinnumarkað, en ekki sjúkdómsgreiningin sem slík. Almennt skiptir það ekki máli hvað hrjáir viðkomandi við mat á því hvort hann eigi rétt á þjónustu sjóðanna. Hins vegar er tilgangur frumvarpsins að skapa ramma utan um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og markmið laganna er að fækka nýgengi örorku og minnka þannig útgjöld vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðanna og ríkisins vegna örorku.
    Þeir einstaklingar sem þannig er ástatt um að þeir hyggja ekki á endurkomu á vinnumarkað, eða ljóst er að endurkoma á vinnumarkað er afar ólíkleg, eiga hins vegar almennt ekki rétt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóðanna. Þeir eiga aftur á móti rétt á viðeigandi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins enda líklegt að sérhæfð þjónusta innan heilbrigðiskerfisins henti þeim einstaklingum betur en atvinnutengd starfsendurhæfing. Þannig er gert ráð fyrir því að einstaklingum sem leita til starfsendurhæfingarsjóðanna og eiga ekki rétt á þjónustu þeirra verði vísað til viðeigandi aðila í heilbrigðiskerfinu sem veitt geta einstaklingi þá þjónustu sem hann hefur þörf fyrir, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Þó ber að árétta að þeir sem hyggjast standa að stofnun starfsendurhæfingarsjóðs skulu gera samning við ráðherra um þjónustu sjóðsins við einstaklinga utan vinnumarkaðar, þar á meðal þá sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar og þá sem fá fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þessir aðilar standa utan vinnumarkaðar og með samningi við ráðherra er tryggt að þeir geti notið þjónustu starfsendurhæfingarsjóða uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði 11. gr. frumvarpsins. Með þessu verður komið á heildstæðu kerfi endurhæfingar fyrir alla þá sem hyggja á virka þátttöku á vinnumarkaði og góð samvinna heilbrigðiskerfisins og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs er nauðsynleg svo vel megi til takast.

Starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni hefur komið fram sá misskilningur að starfsendurhæfingarsjóðirnir muni sjálfir veita þjónustu í formi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar fyrir þá einstaklinga sem eiga rétt á þeirri þjónustu. Að þessu leyti vill meiri hlutinn árétta að innan starfsendurhæfingarsjóðanna sjálfra er ekki veitt eiginleg starfsendurhæfing sem fjallað er um í frumvarpinu. Starfsendurhæfingarsjóðir munu kaupa þá þjónustu frá þriðja aðila. Starfandi starfsendurhæfingarstöðvar, sem og aðrir aðilar sem hyggjast veita starfsendurhæfingu, munu þannig selja þjónustu sína til starfsendurhæfingarsjóða. Á vegum starfsendurhæfingarsjóða verða hins vegar starfandi ráðgjafar og sérfræðiteymi sem meta þörf hvers einstaklings fyrir starfsendurhæfingu og hvort hann uppfylli skilyrði laganna fyrir þjónustunni. Leggja verður áherslu á að innan sjóðanna verði til staðar fagþekking sem nýtast muni sjóðunum við mat á þörf einstaklinga fyrir starfsendurhæfingu, sem og gerð einstaklingsbundinna áætlana fyrir hvern og einn.
    Við umfjöllun fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við þá stærð starfsendurhæfingarsjóða sem lögð er til með frumvarpinu. Í 13. gr. frumvarpsins kemur fram að að sjóðunum þurfi að standa minnst 10.000 launamenn og/eða þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þessi lágmarksstærð sjóðanna gerir það að verkum að almennt verður ekki hægt að starfrækja sérstaka sjóði sem starfa aðeins í tilteknum landshlutum. Meiri hlutinn telur þó að þessi lágmarksstærð sé nauðsynleg svo hagkvæmt sé að hafa þá yfirbyggingu, fjölda ráðgjafa og fagþekkingu sem er nauðsynleg til að sjóðirnir geti starfað eðlilega.

Starfsemi starfsendurhæfingarstöðva og samstarf við starfsendurhæfingarsjóði.
    Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging í starfsemi starfsendurhæfingarstöðva út um allt land. Starfsendurhæfingarstöðvarnar vinna gríðarlega mikilvæga vinnu við endurhæfingu. Auk starfsendurhæfingarstöðvanna eru starfandi endurhæfingarstöðvar sem sinna læknisfræðilegri endurhæfingu og eru reknar fyrir fjárveitingar frá ríkinu en eru í formi sjálfseignarstofnana og má þar helst nefna Reykjalund sem starfandi hefur verið frá miðri síðustu öld. Afar mikilvægt er að samþykkt frumvarpsins hafi ekki neikvæð áhrif á starfsskilyrði starfandi endurhæfingarstöðva, hvort sem um læknisfræðilega endurhæfingu er að ræða eða starfsendurhæfingu. Þá er einnig afar mikilvægt að tryggt sé að starfsendurhæfingarstöðvar verði starfræktar á landsbyggðinni svo að þeir sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda geti sótt þjónustuna í sinni heimabyggð.
    Í því skyni að tryggja lágmarksrekstrargrundvöll starfsendurhæfingarstöðva á landsbyggðinni leggur meiri hlutinn til breytingu á 10. gr. frumvarpsins þess efnis að starfsendurhæfingarsjóðir skuli sjá til þess að atvinnutengd starfsendurhæfing verði skipulögð þannig að þeir sem þurfa á henni að halda geti sótt þjónustuna í sinni heimabyggð. Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að fyrir hendi verði grundvöllur til að halda grunnþjónustu starfsendurhæfingar í helstu byggðarkjörnum á landsbyggðinni en telur að hætta kunni að vera á því að hún verði ekki fyrir hendi ef ekki verður mælt fyrir um skyldu starfsendurhæfingarsjóðanna þess efnis í lögum. Með þessum hætti er einnig komið til móts við það sjónarmið sem nefnt var að framan um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða í tilteknum landshlutum. Með skyldu sjóðanna til að tryggja lágmarksrekstrargrundvöll fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu á landsbyggðinni verður að telja að hagsmunir íbúa landsbyggðarinnar séu tryggðir að þessu leyti. Vert er þó að árétta að starfsendurhæfingarsjóðir munu hafa starfandi ráðgjafa í öllum landshlutum sem meta hvort einstaklingar uppfylli skilyrði laganna fyrir þjónustu sjóðanna.
    Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að gott samstarf verði milli starfsendurhæfingarsjóða og ráðgjafa og sérfræðinga þeirra og starfsendurhæfingarstöðva. Með góðu samstarfi þeirra aðila sem starfa við atvinnutengda starfsendurhæfingu og þeirra sem borga fyrir þjónustuna má tryggja góða og fjölbreytta þjónustu og að fjármunir verði nýttir sem best. Í frumvarpinu er lagt til að ráðgjafar og sérfræðingar á vegum starfsendurhæfingarsjóða meti þörf einstaklinga fyrir starfsendurhæfingu. Meiri hlutinn telur þetta fyrirkomulag eðlilegt enda eru það sjóðirnir sem munu greiða fyrir þjónustuna.

Þjónustusamningar við ríkið.
    Núna eru í gildi þjónustusamningar velferðarráðuneytisins við starfsendurhæfingarstöðvar víðs vegar um landið. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að VIRK Starfsendurhæfingarsjóður muni að mestu leyti taka yfir þá samninga og þá vegna þeirra einstaklinga sem uppfylla skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóðs. Ljóst er þó að ekki munu allir þeir sem í dag njóta þjónustu starfsendurhæfingarstöðva á grundvelli þjónustusamninga velferðarráðuneytisins við starfsendurhæfingarstöðvar eiga rétt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða eftir gildistöku laganna. Fyrirhugað er að sett verði á laggirnar sérstakt teymi þar sem sitja munu m.a. fulltrúar frá velferðarráðuneytinu, embætti landlæknis og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs til að fara yfir stöðu þeirra sem njóta þjónustu á grundvelli framangreindra samninga og þá einnig taka ákvörðun um hvort þeir fái þjónustu á grundvelli samninga sem velferðarráðuneytið mun halda áfram að vera með við þjónustuaðila. Þeir einstaklingar sem eru ekki í stakk búnir til að stefna að virkri þátttöku á vinnumarkaði munu að jafnaði ekki eiga rétt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða en munu þá að öllum líkindum eiga rétt á þjónustu á grundvelli þjónustusamninga eða á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

Framlög til sjóðanna, umfang þeirra og varasjóðir.
    Með frumvarpinu er lagt til að framlögum til starfsendurhæfingarsjóða verði þrískipt, á milli atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkissjóðs. Framlag atvinnurekenda verður 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og lífeyrissjóðir greiða iðgjald sem nemur sömu upphæð. Framlag ríkissjóðs nemur 0,13% af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og skal framlagið greitt í október hvert ár fyrir næstliðið almanaksár. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að ætla megi að framlag ríkisins verði tæplega 1.200 millj. kr. á ársgrundvelli á verðlagi þessa árs. Því má gera ráð fyrir því að yrði frumvarpið óbreytt að lögum muni framlög til starfsendurhæfingarsjóða á árinu 2013 nema um 3,5 milljörðum kr. Samkvæmt ársreikningi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs fyrir árið 2011, en ef frumvarp þetta verður að lögum er gert ráð fyrir því að VIRK Starfsendurhæfingarsjóður verði eini starfandi sjóðurinn við gildistöku laganna, voru útgjöld vegna starfsendurhæfingar ríflega 470 millj. kr. Fyrir nefndinni kom fram að útgjöld sjóðsins á árinu 2012 mundu nema um 750 millj. kr. Ef frumvarpið yrði óbreytt að lögum fengi sjóðurinn því umtalsvert meira fé til ráðstöfunar á árinu 2013 en hann hefur haft, en fé sjóðsins hefur aukist ár frá ári síðustu ár. Þá kom einnig fram að varasjóður nemi nú um einum milljarði króna. Meiri hlutinn telur að til að sjóðurinn geti nýtt þetta mikla fé á markvissan hátt þurfi að liggja fyrir áætlun um starfsemi sjóðsins.
    Til að koma í veg fyrir óþarfa sjóðsöfnun hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar þess efnis að greiðsluskylda ríkissjóðs komi inn í þremur áföngum. Í fyrsta lagi er lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. október nk. Hefur þetta þau áhrif að ríkissjóður mun í október 2013 greiða sem nemur einum fjórða hluta af framlagi á ársgrundvelli fyrir árið 2012. Þá mun greiðsluskylda lífeyrissjóðanna einnig færast aftur til 1. október. Fyrir árið 2013 er lagt til að ríkissjóður greiði sem nemur þremur fjórðu hlutum af framlagi á ársgrundvelli, og að það komi til greiðslu í október 2014. Fyrir árið 2014 mun ríkissjóður greiða fullt framlag og verður kerfið frá þeim tíma fullfjármagnað, en þó ber að taka fram að framlag ríkissjóðs greiðist ávallt í október árið eftir.
    Meiri hlutinn telur þessa breytingu til þess fallna að skapa VIRK Starfsendurhæfingarsjóði ákveðið svigrúm til áætlanagerða svo nýta megi fjármagnið sem best.
    Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á 3. mgr. 15. gr. frumvarpsins sem kveður á um skyldu starfsendurhæfingarsjóða til að halda nauðsynlegan varasjóð til að mæta sveiflum í rekstri. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð kemur fram að miðað sé við að varasjóður svari að jafnaði til 6–12 mánaða útgjalda hlutaðeigandi sjóðs. Eins og fram kemur hér að framan er varasjóður VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs í dag um milljarður króna. Árleg velta starfsendurhæfingarsjóðanna getur orðið veruleg og getur varasjóðurinn því hæglega hlaupið á milljörðum króna. Kom fram að það samrýmdist ekki hlutverki sjóðanna að safna svo miklum varasjóði og hafa af honum vaxtatekjur. Þá væri ekki heldur séð ef til slita kæmi á starfsendurhæfingarsjóði að fyrir hendi þyrfti að vera umtalsverður varasjóður sem tæki við þeim einstaklingum sem væru í þjónustu sjóðsins, þar sem viðkomandi sjóði væru tryggðar greiðslur iðgjalda frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum og árið eftir slit sjóðsins kæmi framlag ríkissjóðs til greiðslu.
    Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur sjóðsöfnun sem þessa ekki samrýmast hlutverkum starfsendurhæfingarsjóðanna og tilgangi frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu að 3. mgr. 15. gr. frumvarpsins falli brott og því verði ekki til staðar skylda starfsendurhæfingarsjóða til að halda varasjóði sem nemi 6–12 mánaða útgjöldum sjóðanna.

Endurskoðun framlaga og mat áhrifa.
    Þar sem meiri hlutinn leggur til að framlög ríkisins komi í þremur þrepum og kerfið verði þannig ekki fullfjármagnað fyrr en á árinu 2015 leggur meiri hlutinn til að ákvæðum frumvarpsins um endurskoðun á framlögum verði breytt. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II á til grundvallar endurskoðun framlaga fyrir lok árs 2014 að liggja mat sérfræðinefndar á áhrifum frumvarpsins á örorkubyrði lífeyrissjóða og almannatrygginga og nýgengi örorku á starfstíma starfsendurhæfingarsjóða. Þar sem kerfið verður ekki fullfjármagnað fyrir árslok 2014 og lítil reynsla komin á það telur meiri hlutinn að á þeim tíma muni ekki liggja fyrir nægar forsendur til að leggja mat á áhrif frumvarpsins hvað varðar örorkubyrði og nýgengi örorku. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu að því mati skuli vera lokið fyrir árslok 2016 en þá mun kerfið hafa verið fullfjármagnað í tvö ár. Þrátt fyrir þetta telur meiri hlutinn rétt að fyrir árslok 2014 muni framlög skv. 5.–7. gr. frumvarpsins verða endurskoðuð en til grundvallar þeirri endurskoðun liggur aðeins fjárhagur sjóðanna sjálfra og hvernig framlögum til þeirra hefur verið varið.
    Samkvæmt því sem rakið hefur verið telur meiri hlutinn að um mikilvægt hagsmunamál allra starfandi manna sé að ræða og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 31. maí 2012.Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lúðvík Geirsson.Kristján L. Möller.


Björgvin G. Sigurðsson.


Guðmundur Steingrímsson.