Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 735. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1465  —  735. mál.

2. umræða.


Breytingartillagavið frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu
og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

Frá meiri hluta velferðarnefndar (ÁI, JRG, LGeir, KLM, BjörgvS, GStein).


     1.      Á eftir 1. mgr. 10. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Starfsendurhæfingarsjóðir skulu sjá til þess að þjónusta skv. a–c-lið 1. mgr. sé skipulögð þannig að einstaklingar sem eru tryggðir skv. 8. gr. og hafa þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu, sbr. 11. gr., fái þjónustuna sem næst heimabyggð sinni.
     2.      Við 15. gr.
              a.      3. mgr. falli brott.
              b.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Framlög standi undir þjónustu og úttekt á fjárhag.
     3.      Í stað orðanna „1. júlí“ í 1. mgr. 28. gr. komi: 1. október.
     4.      Við 29. gr.
              a.      Inngangsmálsliður a-liðar orðist svo: 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo.
              b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                     Þrátt fyrir 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. a skulu starfsendurhæfingarsjóðir, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, á árinu 2013 fá í sinn hlut 0,13% af einum fjórða hluta gjaldstofns næstliðins árs skv. III. kafla. Á árinu 2014 skulu starfsendurhæfingarsjóðir fá í sinn hlut 0,13% af þremur fjórðu hlutum gjaldstofns næstliðins árs skv. III. kafla.
     5.      Á eftir a-lið 30. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðsins „júlímánaðar“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XII í lögunum kemur: októbermánaðar.
     6.      Á eftir 30. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Við gildistöku laga þessara kemur í stað orðanna „1. júlí“ í 2. málsl. 4. gr. laga nr. 156/2011, um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (áhættustýring, vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga, starfsendurhæfingarsjóður, hæfi stjórnarmanna og sérstök vaxtaniðurgreiðsla): 1. október.
     7.      Við ákvæði til bráðabirgða II:
              a.      2. og 3. málsl. 1. mgr. falli brott.
              b.      Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ráðherra skal skipa fyrir árslok 2015 óháða nefnd sérfræðinga sem geri heildarúttekt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða samkvæmt lögum þessum. Nefndin skal skipuð þremur til fimm nefndarmönnum og þar af einum tryggingastærðfræðingi. Nefndin skal skila skýrslu til ráðherra eigi síðar en 31. desember 2016.