Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 679. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1466  —  679. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, með síðari breytingum (eftirlit með heilbrigðisþjónustu).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hluti velferðarnefndar leggst gegn þeim breytingum sem lagðar eru til í máli þessu. Um er að ræða tillögu sem veitir landlækni mjög umfangsmikla og opna heimild til að safna persónugreinanlegum upplýsingum með vísan til eftirlitshlutverks embættisins. Engar takmarkanir virðast samkvæmt tillögunni á heimild landlæknis og á hann sjálfdæmi um það í hvaða tilvikum hann sækir slíkar upplýsingar. Þá er ekki gert ráð fyrir neinni tilkynningarskyldu um þau tilvik þegar embættið safnar slíkum upplýsingum, né heldur um það hvenær söfnun er lokið eða hvenær slíkri skrá skuli eytt. Heimild sem nær svo langt sem meiri hlutinn leggur hér til gengur að mati minni hlutans gegn almennum persónuverndarsjónarmiðum og vísast þar til 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Minni hlutinn bendir jafnframt á að mál þetta hefur ekki verið sent út til umsagnar og hefur ekki fengið fullnægjandi umfjöllun í nefndinni en slík vinnubrögð eru ekki til eftirbreytni. Í máli þessu eru lagðar til breytingar er varða heimildir til upplýsingaöflunar viðkvæmra persónuupplýsinga sem fela í sér takmarkanir á stjórnarskrárvörðum mannréttindum. Ber að mati minni hlutans að sýna sérstaka aðgát við veitingu slíkra heimilda.

Alþingi, 2. júní 2012.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


frsm.