Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 658. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1473  —  658. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Breytingartillaga



við frumvarp til laga um veiðigjöld.

Frá Atla Gíslasyni og Jóni Bjarnasyni.


     1.      Á eftir 12. gr. komi ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Ráðstöfun veiðigjalda.

         Tekjum af veiðigjöldum skal ráðstafað þannig:
          1.      50% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna í ríkissjóð.
          2.      40% tekna af veiðigjöldum hvers fiskveiðiárs skulu renna til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skip er skráð.
          3.      10% tekna af veiðigjöldum skulu renna í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs, AVS-sjóð, með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi.
     2.      Fyrirsögn III. kafla verði: Álagning, innheimta og ráðstöfun.

Greinargerð.

    Sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni greiða um 80% af innheimtum veiðigjöldum og tilfærsla fjármagns frá þessum byggðum til höfuðborgarsvæðisins er veruleg. Bráðabirgðaúttektir gefa til kynna að annarri hverri skattkrónu almennings af landsbyggðinni sé endanlega ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið verða að fá forgang í að njóta afraksturs auðlinda sinna. Frumvinnslugreinarnar hafa undanfarna áratugi farið í gegnum mikla og langvarandi endurskipulagningu í kjölfar gjörbreytts rekstrarumhverfis. Þetta hefur gengið nærri þeim samfélögum sem hafa byggst að miklu leyti upp á grunni þeirra og á þessum tíma urðu greinileg kaflaskil í íbúaþróun þar til hins verra. Mikilvægt er að bæði aflaheimildir og hluti tekinna veiðigjalda renni aftur til baka inn á þessi svæði ef ekki á að koma til frekari áfalla í formi skertrar þjónustu og lakari lífskjara og frekari brottflutnings íbúa. Með breytingartillögunni er því lögð til önnur og réttlátari skipting tekna af veiðigjöldum en í frumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að gjöldin renni öll í ríkissjóðs. Umsagnaraðilar hafa einnig bent á að ólíklegt sé að byggðaaðgerðir frumvarpsins næðu þeim markmiðum sem stefnt er að. Því er mikilvægt að grípa til aðgerða til að rétta af stöðu sjávarbyggða með því að tryggja þeim hlutfall tekna af veiðigjöldum. Breytingin er leið til sátta og tekur mið af þörfum sjávarbyggðanna sem hafa mörg lýst yfir áhyggjum af áhrifum fyrirliggjandi frumvarps. Með því er jafnframt komið til móts við athugasemdir og sjónarmið sem bárust um fiskveiðistjórnarfrumvarpið sem lagt var fram á síðasta þingi (þskj. 1475, 827. mál) þar sem bent var á mikilvægi þess að horfa til búsetu og byggðasjónarmiða. Áréttað skal að við töku veiðigjalda verður að hafa hliðsjón af áhrifunum af fiskveiðistjórnarlögunum í heild. Jafnframt þarf að horfa til jafnræðissjónarmiða þegar aðgengi að einni náttúruauðlind er skattlagt sértækt umfram aðrar auðlindir.
    Ákvæðið er í samræmi við 28. gr. fiskveiðistjórnarfrumvarps sem lagt var fram á síðasta þingi og ríkisstjórnin hafði þá samþykkt fyrir sitt leyti og þingflokkar afgreitt það til nefndar. Lagt er til að tekjum af veiðigjöldum skuli ráðstafað þannig að 50% renni í ríkissjóð og 40% til þess sveitarfélags eða landshlutasamtaka þar sem skip er skráð. Til greina kemur að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði milligönguaðili um ráðstöfun fjárins. Þá renni 10% veiðigjalda í rannsóknasjóð, AVS-sjóð, til að auka verðmæti sjávarfangs með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, nýsköpun og þróun ásamt markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi. Drög að frumvarpi um AVS-sjóð var birt á vef sjávarútvegsráðuneytis í nóvember sl. og munu flutningsmenn leggja fram frumvarp þessa efnis verði breytingartillagan samþykkt.