Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1475  —  8. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála
og lögum um meðferð einkamála (endurupptökunefnd).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Eirík Tómasson fyrir hönd réttarfarsnefndar og Kolbrúnu Benediktsdóttur frá embætti ríkissaksóknara. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Ákærendafélagi Íslands, Kristleifi Indriðasyni, Mannréttindaskrifstofu Íslands, ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði nýtt fyrirkomulag við mat á beiðni um endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í Hæstarétti, hvort sem um er að ræða sakamál eða einkamál. Efnislegum skilyrðum endurupptöku er ekki breytt en gerð tillaga um að óháður aðili taki ákvörðun um endurupptöku í stað Hæstaréttar. Gert er ráð fyrir að sett verði á fót sérstök endurupptökunefnd sem taki afstöðu til beiðna um endurupptöku jafnt sakamála og einkamála. Með þessu móti er tryggt að dómarar endurskoði ekki eigin dóma, að þeir sem um beiðnir fjalla lúti stjórnsýslulögum meðal annars hvað varðar hæfi og að um birtingu niðurstaðna gildi sömu reglur og um birtingu dóma.
    Þó að meginreglan sé að dómar Hæstaréttar séu endanlegir þá er endurupptaka heimil samkvæmt sérstökum skilyrðum í 215. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og 169. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Nefndin telur mikilvægt að bregðast við gagnrýni sem m.a. kemur fram í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um að nauðsynlegt sé að tryggja hlutleysi við ákvörðun um endurupptöku mála. Þá er talið rétt að bregðast við vaxandi kröfu um gagnsæi í stjórnsýslu landsins með því að láta birta ákvörðun um mál þar sem óskað er endurupptöku.
    Umsögn Ákærendafélags Íslands um málið virðist vera byggð á misskilningi en hvergi í þessu frumvarpi er byggt á ályktun um að of fá mál hljóti heimild til endurupptöku heldur er verið að bregðast við þeirri óheppilegu stöðu að dómarar í Hæstarétti taki sjálfir ákvarðanir um endurupptöku mála sem þeir eða samdómarar þeirra hafa dæmt í. Í því felst ekki áfellisdómur yfir dómurum eða einstökum ákvörðunum heldur er hér stigið skref til að auka trúverðugleika dómsvaldsins með því að skapa armslengdarfjarlægð milli dómara og ákvörðunar um endurupptöku mála fyrir æðsta dómstól landins. Vitanlega verður áfram gerð sú krafa að færð verði gild og veigamikil rök fyrir ákvörðunum um endurupptöku dómsmála. Með þessu frumvarpi er verið að bregðast við ákalli um sjálfstæða og gagnsæja stjórnsýslu sem nauðsyn er á í því fámenni er hér á landi. Það nýmæli að endurupptökunefnd skuli birta niðurstöður sínar er mikilvæg réttarbót í samræmi við aukna áherslu á gagnsæi í stjórnsýslu. Frumvarp þetta er byggt á því fyrirkomulagi sem tíðkast í Noregi en jafnframt hefur verið litið til laga um sérstakan endurupptökudómstól í Danmörku.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að almennt ætti að vera unnt að treysta því að dómur æðsta dómstóls ríkisins, Hæstaréttar, sé endanlegur og að heyra ætti til undantekninga að dómsmál sé tekið upp að nýju. Velt var upp hvort fleiri aðilar en dómfelldi ættu að eiga þess kost að bera fram kröfu um endurupptöku dómsmáls. Einnig var bent á að önnur sjónarmið geti átt við um annars vegar einkamál og hins vegar sakamál en í Noregi virðist vera misjafn ferill á endurupptökubeiðni eftir því hvort um er að ræða sakamál eða einkamál. Jafnframt var fjallað um skipan nefndarinnar og þeirri skoðun lýst að ákvörðun um endurupptöku dómsmáls væri lögfræðilegs eðlis og því ættu fulltrúar í nefndinni að vera löglærðir. Meiri hlutinn tekur undir þetta síðastnefnda og leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að allir nefndarmenn verði löglærðir. Meiri hlutinn tekur undir þær kröfur um fagmennsku og trúverðugleika sem frumvarpið felur í sér.
    Meiri hlutinn telur frumvarpið fela í sér mikilvæga réttarbót og leggur til að það verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      Við 1. málsl. 2. mgr. a-liðar bætist: og skulu þeir allir vera löglærðir.
     b.      3. málsl. 2. mgr. a-liðar falli brott.

Alþingi, 24. maí 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Birgitta Jónsdóttir,


frsm.
Skúli Helgason

.



Þráinn Bertelsson

.


Jónína Rós Guðmundsdóttir

.


Árni Þór Sigurðsson.