Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 582. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1482  —  582. mál.
Svarefnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um áhrif


ólögmætis gengistryggingar erlendra lána til fyrirtækja í bankakerfinu.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var leitað upplýsinga á heimasíðu Seðlabanka Íslands og hjá Fjármálaeftirlitinu.

     1.      Hver er upphæð lána með gengistryggingu til fyrirtækja í bankakerfinu?
    Tafla 1 sýnir heildarfjárhæð lána (kröfuvirði) með gengistryggingu til fyrirtækja í bankakerfinu á tímabilinu frá mars 2011 til mars 2012.

Tafla 1. Staða gengistryggðra lána til fyrirtækja í bankakerfinu* í m.kr.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.* Gengisbundin skuldabréf. Undir bankakerfið falla innlánsstofnanir og innlánsdeildir sem starfa á hverjum tíma.
Heimild: Seðlabanki Íslands.

    Við mat á áhrifum dóms Hæstaréttar nr. 600/2011 frá 15. febrúar sl. aflaði Fjármálaeftirlitið upplýsinga hjá öllum innlánsstofnunum og lánafyrirtækjum um stöðu gengistryggðra lána og lána sem höfðu á einhverju tímapunkti verið með slíka tryggingu. Lánin voru flokkuð eftir eðli þeirra eða frá A til F. Í flokki A er höfuðstóll (H) talinn vera í erlendri mynt, útborgun (Ú) greidd inn á tiltekinn gjaldeyrisreikning og afborgun (A) greidd í erlendri mynt. Í flokki B er höfuðstóll (H) talinn vera í íslenskum krónum (ISK) en útborgun (Ú) og afborganir (A) í erlendri mynt. Flokkur C, D og E eru með aðra samsetningu á láni í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli. Í flokki F er höfuðstóll (H) í íslenskum krónum, útborgun (Ú) í íslenskum krónum og afborgun (A) í íslenskum krónum. Í töflu 2 má sjá heildarfjárhæð lána í lok árs 2011 samkvæmt upplýsingum úr gagnasafni Fjármálaeftirlitsins vegna mats á stöðu gengistryggðra lána til lögaðila.
    Stór hluti lána í flokkum B–F hefur þegar verið endurreiknaður í samræmi við þá aðferðafræði sem kveðið er á um í lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfuvirði og bókfært virði þeirra lána er því í samræmi við þann endurútreikning. Lán í flokki A er að mati Fjármálaeftirlitsins lögmæt erlend lán.

Tafla 2. Heildarfjárhæð gengistryggðra lána til lögaðila í m.kr.,
staða 31. desember 2012.

Flokkar A B–F A–F
Kröfuvirði 340.730 993.347 1.334.076
Bókfært virði 208.239 550.597 758.835

     2.      Hver yrðu áhrif þess að gengistrygging þessara lána yrði talin ólögmæt í samræmi við dóm Hæstaréttar um ólögmæti bindingar lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla?
    Gert er ráð fyrir að spurningin vísi til áhrifa endurútreikninga gengistryggðra lána og þá miðað við öll lán sem óvissa er um varðandi lögmæti þeirra, þ.e. öll lán fyrir utan lán í flokki A. Til þess að meta þessi áhrif kom Fjármálaeftirlitið sér upp aðferðafræði sem það telur vera í samræmi við dóma Hæstaréttar um endurútreikning á ólögmætum gengistryggðum lánum. Samkvæmt niðurstöðum eftirlitsins eru heildarvarúðarfærslur sem þegar hafa verið gerðar vegna dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 um 70,5 ma.kr. Ekki liggur fyrir hvernig skiptingin á varúðarfærslum er milli einstaklinga og lögaðila, en gróflega má áætla að kringum 45 ma.kr. séu vegna lögaðila, sjá nánar í töflu 3.

Tafla 3. Mat á heildarvarúðarfærslum vegna lögaðila í m.kr.,
staða 31. desember 2011.

Flokkar B–F
Áhrif endurútreiknings miðað við bókfærða stöðu 31.12.2011 133.764
Þar af þegar varúðarfært í ársreikningum u.þ.b. 45.000
Mismunur 88.764

     3.      Hver yrðu áhrif þess að samningsvextir þessara lána til fyrirtækja yrðu taldir gilda til 16. júní 2010, 16. september 2010 eða 22. desember 2010 og eftir það seðlabankavextir í samræmi við dóm Hæstaréttar um vaxtareikning slíkra ólögmætra gengistryggðra lána?
    Hvorki ráðuneytið né stofnanir ráðuneytisins búa yfir gögnum til að svara spurningunni eins og hún er sett fram. Aðferðafræðin sem Fjármálaeftirlitið beitti til að meta áhrif dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 (mál nr. 600/2011) var sú að ekki væri heimilt að krefjast vaxtagreiðslna umfram það sem þegar hafði verið greitt í þeim tilvikum þar sem skuldari hafði fullnaðarkvittun. Ef skuldari hafði hins vegar ekki slíka fullnaðarkvittun þá mat eftirlitið það svo að kröfuhafa hefði verið heimilt að innheimta lægstu vexti Seðlabankans hverju sinni af ógengistryggðum höfuðstól.
    Í dómi Hæstaréttar frá 16. september 2010 (mál nr. 471/2010) kemur fram að í þeim tilvikum þar sem ákvæði um gengistryggingu eru ógild sé óhjákvæmilegt að líta með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í dómnum kemur jafnframt fram að við útreikning vaxta ógengistryggðs höfuðstóls ætti að taka mið af lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands hverju sinni. Afstaða Fjármálaeftirlitsins er sú að dómurinn frá því í febrúar 2012 hafi í raun ekki breytt niðurstöðum þessa dóms. Aðeins í þeim tilvikum þar sem skuldari hafði fullnaðarkvittun væri óheimilt að krefja hann um frekari vaxtagreiðslur. Ekki kom því til álita að miða við samningsvexti af ógengistryggðum höfuðstól.
    Í mati Fjármálaeftirlitsins er miðað við mismunandi sviðsmyndir þar sem meðal annars er litið til þess hversu mikil áhrif viðmiðunardagur hefði. Niðurstöðurnar benda til þess að það hefði óveruleg áhrif að miða við 16. júní 2010 eða 31. desember 2011. Nánari upplýsingar um niðurstöðurnar er að finna í meðfylgjandi minnisblaði Fjármálaeftirlitsins. Einnig má lesa um niðurstöðurnar á heimasíðu eftirlitsins:
     www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/1507.