Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 805. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1484  —  805. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Ásbjarnar Óttarssonar
um breytingar á gjaldskrám stofnana ráðuneytisins.


     1.      Hvaða gjaldskrárbreytingar fyrir stofnanir ráðuneytisins hefur ráðherra staðfest á undanförnum 12 mánuðum?
    Ráðherra hefur staðfest eftirfarandi gjaldskrárbreytingar fyrir stofnanir ráðuneytisins á undanförnum tólf mánuðum:
     a.      Gjaldskrá vegna þjónustu Þjóðskrár Íslands nr. 265, 2. mars 2012.
     b.      Gjaldskrá fyrir þjónustu Flugmálastjórnar Íslands nr. 200, 14. febrúar 2012.
     c.      Gjaldskrá fyrir kvörðunarþjónustu Neytendastofu nr. 1330, 30. desember 2011.
     d.      Gjaldskrá fyrir þjónustu Umferðarstofu nr. 1291, 30. desember 2011.
     e.      Gjaldskrá Umferðarstofu nr. 1292, 30. desember 2011.
     f.      Gjaldskrá vegna þjónustu Fasteignaskrár Íslands nr. 1279, 28. desember 2011.
     g.      Gjaldskrá vegna þátttöku í vigtarmannanámskeiðum í Reykjavík nr. 1153, 30. nóvember 2011.
     h.      Gjaldskrá Siglingastofnunar Íslands nr. 815, 4. ágúst 2011.

     2.      Hve miklar hækkanir eða lækkanir hafa orðið á gjaldskránum við þessar breytingar?
    Gjaldskrárbreytingarnar hafa haft eftirfarandi breytingar í för með sér:
     a.      Með breyttri gjaldskrá vegna þjónustu Þjóðskrár Íslands eru sumir liðir hækkaðir og aðrir lækkaðir og er vegin meðaltalshækkun gjaldskrárinnar tæp 11% frá fyrri gjaldskrá sem tók gildi í ársbyrjun 2009. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 16%.
     b.      Gjaldskrá fyrir þjónustu Flugmálastjórnar Íslands var síðast breytt í júlí 2009 og með breytingunni nú hækka einstakir liðir um 12,9% í samræmi við verðlagsbreytingar sem orðið hafa frá síðustu hækkun. Auk almennrar hækkunar einstakra liða í samræmi við þróun á verðlagi koma inn tveir nýir liðir. Annars vegar er tekið gjald fyrir endurútgáfu skírteina án endurnýjunar, en samkvæmt fyrrverandi gjaldskrá var einungis tekið gjald fyrir ný skírteini. Hins vegar er tekið upp sérstakt gjald fyrir flugvernd. Gjald fyrir flugvernd er fyrst og fremst til komið vegna krafna ESA um aukið beint eftirlit af hálfu Flugmálastjórnar.
     c.      Gjaldskrá fyrir kvörðunarþjónustu Neytendastofu hafði ekki verið breytt frá árinu 1998 þegar hún var sett með reglugerð fyrir þáverandi Löggildingarstofu. Stuðst hafði verið við þá gjaldskrá síðan vegna verkefna er snúa að kvörðunarþjónustu og hafði tímafjöldi verið aukinn til að greiðsla væri í samræmi við raunkostnað við veitingu þjónustunnar þar sem ekki hafði verið gerð breyting á einingarverði. Gjaldskráin hækkar um 5–20% milli ára, mismunandi eftir einstökum gjaldskrárliðum. Gert er ráð fyrir því í lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, að fagráð veiti umsögn um gjaldskrár og með umsókn Neytendastofu um breytta gjaldskrá fylgdi umsögn formanns fagráðs atvinnulífsins þar sem fram kom að ekki væri gerð athugasemd við breytta gjaldskrá enda væri ekki verið að leggja á aukinn tekjustofn heldur verið að innheimta fyrir raunkostnaði við kvarðanir.
     d.      Gjaldskrá fyrir þjónustu Umferðarstofu. Gjaldskrá Umferðarstofu var frá árinu 2002 og höfðu einstakir liðir hennar verið uppfærðir í samræmi við verðlag á árunum 2003 og 2004, en síðast var hluti gjaldskrárinnar uppfærður árið 2006. Gjaldskrá Umferðarstofu er tvískipt, annars vegar lögboðin gjöld skv. 64. og 114. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 83/2002, og hins vegar sértekjur stofnunarinnar. Ekki var gert ráð fyrir að þessi gjöld yrðu hækkuð að þessu sinni. Hins vegar var gert ráð fyrir að gjaldskránni yrði skipt upp annars vegar í gjaldskrá fyrir ríkistekjur og hins vegar í gjaldskrá fyrir sértekjur. Einstakir liðir voru hækkaðir í samræmi við blandaða vísitölu launa og almenns verðlags frá því gjaldskráin var hækkuð síðast og að nokkru leyti var byggt á raunkostnaði við að veita þjónustuna. Þannig hækkuðu einstakir liðir frá um 30% til 100%, eins og í tilfelli ökuritakorta þar sem byggt var á raunkostnaði. Samtals var gert ráð fyrir að tekjur stofnunarinnar aukist um rúmar 30 millj. kr. á ári.
     e.      Gjaldskrá Umferðarstofu. Vísað er til umfjöllunar um gjaldskrá fyrir þjónustu Umferðarstofu. Gjaldskrá vegna lögbundinna gjalda hækkaði ekki með þessari breytingu en einungis var um að ræða að gjaldskránni var skipt í tvær gjaldskrár.
     f.      Gjaldskrá vegna þjónustu Fasteignaskrár Íslands. Engar breytingar voru gerðar til hækkunar eða lækkunar á gjaldskránni heldur var einungis um að ræða að heiti stofnunarinnar var breytt úr Fasteignaskrá Íslands í Þjóðskrá Íslands.
     g.      Gjaldskrá vegna þátttöku í vigtarmannanámskeiðum í Reykjavík. Námskeiðsgjaldið er tvískipt, þ.e. gjald fyrir almennt námskeið og gjald fyrir endurmenntunarnámskeið. Fyrri gjaldskrá var sett hinn 22. febrúar 2010. Hækkun á gjaldi fyrir almennt námskeið er 46,8% og hækkun á gjaldi fyrir endurmenntunarnámskeið er 67,2%. Í 24. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, kemur fram að til að standa straum af kostnaði við framkvæmd prófa skuli próftakar greiða gjald sem ráðherra ákveði. Skuli fjárhæðin taka mið af kostnaði af námskeiðum og framkvæmd prófsins. Hækkun gjaldanna nú miðar að því að uppfylla þessa kröfu laganna. Kostnaðargreining sú sem stóð að baki hækkuninni var lögð fyrir prófnefnd vigtarmanna og samþykkt af henni. Við námskeiðsgjöldin bætist löggildingargjald í samræmi við lög nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Það gjald er óbreytt frá fyrri gjaldskrá.
     h.      Gjaldskrá Siglingastofnunar Íslands. Breytingar á gjaldskránni til hækkunar var í flestum tilvikum á bilinu frá 13–18% en henni var síðast breytt í byrjun árs 2007. Til að halda í við breytingar á launavísitölu opinberra starfsmanna og neysluvísitölu hefði gjaldskráin þurft að hækka um 29,5%. Beiðni Siglingastofnunar var kynnt fyrir Siglingaráði og engar athugasemdir komu fram.

     3.      Hvaða breytingar á gjaldskrám bíða afgreiðslu í ráðuneytinu?
    Ein breyting á gjaldskrá bíður afgreiðslu í ráðuneytinu, en það er breyting á fyrrgreindri gjaldskrá Siglingastofnunar, sbr. umfjöllun í h-lið. Vinna við breytinguna er á frumstigi og ekki ljóst hvaða áhrif hún mun hafa ef samþykkt verður að breyta gjaldskránni.