Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 686. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1485  —  686. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, með síðari breytingum (hækkun hámarksgreiðslna o.fl.).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Höllu Gunnarsdóttur og Svanhildi Bogadóttur frá innanríkisráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Barnaheillum og Lögmannafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Samkvæmt lögunum greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum hafi brot verið framið innan íslenska ríkisins. Lögin eiga einnig við um líkamstjón sem leiðir af aðstoð við lögreglu við handtöku, borgaralega handtöku eða við að afstýra refsiverðri háttsemi. Samkvæmt lögunum eru greiddar bætur vegna líkamstjóns og vegna miska.
    Í frumvarpinu felast nokkrar breytingar: Lagt er til að hvorki verði greiddar bætur fyrir varanlegan miska nema hann sé að lágmarki 5% né fyrir varanlega örorku nema hún sé að lágmarki 15%. Jafnframt eru lagðar til breytingar á bótafjárhæðum. Annars vegar er lagt til að hámarksbætur fyrir líkamstjón, þ.m.t. fyrir varanlegar afleiðingar andlegrar og líkamlegrar heilsu tjónþola, verði hækkaðar úr 2,5 millj. kr. í 5 millj. kr. Hins vegar að hámarksbætur fyrir miska verði hækkaðar úr 600 þús. kr. í 3 millj. kr. Lagt er til að við lögin bætist ákvæði sem mælir fyrir um þak á greiðslu útfararkostnaðar að fjárhæð 1,5 millj. kr.
    Einnig er lögð til sú breyting að ef ríkissjóður á endurkröfu á hendur tjónþola skv. 19. gr. laganna skuli hann draga þá fjárhæð frá bótafjárhæð en þó aðeins ef þau brot sem tjónþoli hefur framið eru ófyrnd samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga. Þetta á við þegar sá sem sækir um bætur hefur áður verið valdur að tjóni annars einstaklings og hefur myndað ógreidda kröfu sem ríkissjóður hefur til innheimtu. Þá er lagt til að krafa ríkissjóðs á hendur tjónvaldi verði aðfararhæf en skv. 1. mgr. 19. gr. laganna eignast ríkissjóður rétt tjónþola á hendur tjónvaldi greiði ríkissjóður bætur samkvæmt lögunum. Jafnframt er lagt til að bótanefnd geti falið innheimtuaðila að annast innheimtu fyrir hönd tjónþola vegna þess sem fellur utan greiðslu ríkissjóðs.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra setji leiðbeiningar um þóknun til lögmanns og bindi hana við ákveðna fjárhæð. Nefndin telur varhugavert að ráðherra bindi þóknun til lögmanns við tiltekna fjárhæð og leggur til að greinin falli brott. Eins og fram kemur í frumvarpinu er bótanefnd almennt bundin ákvörðun dómstóla um þóknun til lögmanns.
    Frá gildistöku gildandi laga fyrir um 15 árum hafa litlar breytingar verið gerðar á fjárhæðum bóta á grundvelli laganna. Með frumvarpi þessu er leitast við að bæta heldur meira tjón fremur en minna tjón. Einnig er ætlunin með frumvarpinu að bæta stöðu þolenda kynferðisbrota með því að hækka hámarksgreiðslu miskabóta.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    4. gr. falli brott.

Alþingi, 31. maí 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Magnús Orri Schram.


Þuríður Backman.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Eygló Harðardóttir.


Birgitta Jónsdóttir.