Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 826. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1517  —  826. mál.
Fyrirspurntil innanríkisráðherra um innheimtulaun.

Frá Magnúsi M. Norðdahl.


     1.      Hefur ráðherra gefið út leiðbeiningar handa lögmönnum skv. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu, sbr. 24. gr. a sömu laga? Ef svo er ekki, hvað líður þá samningu leiðbeininganna?
     2.      Hefur ráðherra kannað hvort með tilkomu 24. gr. a laga nr. 77/1998, sbr. 7. gr. breytingalaga nr. 60/2010 sem tóku gildi 19. júní 2010, hafi orðið breyting á fjárhæð innheimtulauna lögmanna við innheimtu veðskulda þar sem eftirstöðvar hafa verið gjaldfelldar sökum vanefnda á greiðslu afborgana eða vaxta en þar sem greiðsla vanskila eða skuldarinnar allrar hefur farið fram án nauðungaruppboðs?
     3.      Hefur ráðherra kannað hvort innheimtukerfum lögmanna hafi verið breytt eftir gildistöku laga nr. 60/2010 og þá hvenær sú breyting átti sér stað?
     4.      Hafi framangreindar kannanir ekki verið gerðar, hvenær hyggst ráðherra þá kanna hvort lagabreytingunni hafi verið fylgt eftir í raun þegar innheimtu lýkur án nauðungaruppboðs?
     5.      Hver var sú heildarfjárhæð sem sýslumenn á landinu úthlutuðu af söluandvirði seldra fasteigna sem skilgreindar eru sem íbúðarhúsnæði, til greiðslu innheimtulauna lögmanna vegna innheimtu veðskuldabréfa áhvílandi á þeim sömu eignum, annars vegar á tímabilinu 19. júní 2009 til 18. júní 2010 og hins vegar á tímabilinu 19. júní 2010 til 18. júní 2011? Svar óskast sundurliðað eftir sýslumannsembættum. Þá verði fjöldi úthlutunargerða tilgreindur.


Skriflegt svar óskast.