Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 316. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1541  —  316. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um menningarminjar.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin fjallaði að nýju um málið eftir 2. umræðu. Nefndin fékk á sinn fund Eirík Þorláksson og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Elínu Ósk Hreiðarsdóttur frá Félagi íslenskra fornleifafræðinga, Albínu Huldu Pálsdóttur frá Fornleifafræðingafélagi Íslands, Orra Vésteinsson frá Háskóla Íslands, námsbraut í fornleifafræði, og Hjörleif Stefánsson fyrir hönd íslensku ICOMOS-nefndarinnar.
    Þau atriði frumvarpsins sem einkum var rætt um voru eftirfarandi:
    Í 6. gr. frumvarpsins er hugtakið fornleifarannsókn skilgreint. Fram komu athugasemdir um að skilgreiningin væri of víðtæk. Í umfjöllun um málið kom fram að með greininni sé stefnt að því að skilgreina með skilvirkari hætti en nú er hvað felist í fornleifarannsókn. Samkvæmt gildandi lögum er hugtakið einskorðað við rannsóknir sem valda jarðraski. Með þessari grein frumvarpsins er ekki stefnt að því að allar athafnir og hugsanir þeirra sem sinna fornleifarannsóknum falli undir hugtakið heldur ætti skilgreiningin að ná yfir þá vísindalegu starfsemi sem örugglega falli undir það hugtak sem samkvæmt almennri málvenju mætti skilgreina sem rannsóknir. Nefndin leggur til að orðin „hvers kyns“ falli brott úr skilgreiningunni til að draga úr möguleika á því að hún verði oftúlkuð.
    Fram komu athugasemdir við 8. gr. frumvarpsins um skipun fulltrúa í fornminjavernd. Nefndin leggur til að í stað þess að ráðherra skipi tvo fulltrúa skipi hann einn sem verði formaður og að Rannís skipi einn fulltrúa. Aðrir fulltrúar eru skipaðir af félögum fornleifafræðinga, Félagi norrænna forvarða – Íslandsdeild og af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    16. gr. frumvarpsins fjallar um skráningu vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda. Í gildandi lögum er ekki skýrt kveðið á um að skráning menningarminja skuli fara fram á vettvangi. Bent var á við umfjöllun um málið að síðastliðinn áratug hafi skráning verið unnin með öðrum hætti en með vettvangsskoðun, eftir rituðum heimildum um búsetu, ljósmyndum úr lofti, vettvangskönnun á hluta svæðis o.s.frv. Bent var á að við gerð aðalskipulags lægju oft stór landsvæði til grundvallar og að kostnaður við rannsóknir á vettvangi væri á því stigi afar mikill fyrir sveitarfélögin. Í 1. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að áður en gengið sé frá aðalskipulagi skuli liggja fyrir upplýsingar sem gefi greinargóða mynd af menningarminjum innan sveitarfélags. Í 2. málsl. 1. mgr. er hins vegar mælt fyrir um að þegar landnýtingaráform liggi fyrir samkvæmt aðalskipulagi skuli skráning fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja fara fram á vettvangi á þeim svæðum sem fyrirhugað er að nýta sem atvinnu- eða íbúðarsvæði áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út. Á þessu stigi eru gerðar auknar kröfur til fornleifaskráningar í þá veru að skráning fari fram á vettvangi, ekki aðeins á fornleifum heldur einnig á friðuðum og friðlýstum húsum og mannvirkjum, þ.e. áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út. Þetta eru umfangsmeiri kröfur en mælt er fyrir um í gildandi lögum.
    Nefndin leggur til að 1. mgr. 36. gr. falli brott en þar er mælt fyrir um það nýmæli að allar fornleifarannsóknir í landinu séu tilkynntar Minjastofnun Íslands. Þá leggur nefndin til breytingu á 1. mgr. 40. gr. í þá veru að Minjastofnun Íslands mæli fyrir um það í sérhverju rannsóknarleyfi hvenær skuli skila gripum og sýnum en í frumvarpinu er kveðið á um ársfrest í því skyni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 3. gr.
              a.      Í stað orðanna „frá árinu 1900 eða eldri“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: 100 ára og eldri.
              b.      Í stað orðanna „og eru frá árinu 1900 eða eldri“ í 1. málsl. 3. mgr. komi: og eru 100 ára og eldri.
     2.      Orðin „hvers kyns“ í fyrri málslið 6. gr. falli brott.
     3.      2. og 3. málsl. 1. mgr. 8. gr. orðist svo: Félög fornleifafræðinga tilnefna einn fulltrúa, Félag norrænna forvarða – Íslandsdeild einn fulltrúa, Rannís tilnefnir einn fulltrúa og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi nefndarmanna.
     4.      1. mgr. 36. gr. falli brott.
     5.      Við fyrri málslið 3. mgr. 37. gr. bætist: þ.m.t. um skil á gripum og sýnum skv. 1. mgr. 40. gr.
     6.      Í stað orðanna „innan árs frá fundi þeirra“ í 1. mgr. 40. gr. komi: innan þeirra tímamarka sem Minjastofnun Íslands kveður á um í rannsóknarleyfi.

    Jónína Rós Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. júní 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


frsm.

Skúli Helgason.



Þráinn Bertelsson.


Þuríður Backman.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Birgitta Jónsdóttir.