Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 762. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1555  —  762. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum (sparisjóðir).


Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Eitt meginmarkmið frumvarpsins er að auðvelda sparisjóðum að sækja sér eigið fé með því að opna á ný fyrir þann möguleika að breyta sparisjóði í hlutafélag í stað þess að félagaform þeirra verði bundið við sjálfseignarstofnanir.
    Slíkt markmið er að mati minni hlutans uppgjöf gagnvart því mikilvæga verkefni að endurreisa sparisjóðakerfið á félagslegum grunni, þ.e. með samfélagslegum markmiðum í stað hagnaðarmarkmiðs. Sparisjóðir voru stofnanir til að veita litlum viðskiptavinum utan stórra markaðssvæða þjónustu sem viðskiptabankar töldu ekki svara kostnaði. Markmiðið var að stuðla að uppbyggingu samfélagsins og ekki síst nærsamfélaga með lánum á hagstæðum kjörum. Sparisjóðir voru gerðir að sjálfseignarstofnunum til að tryggja að hagnaðurinn af starfseminni rynni ekki til hluthafanna heldur til lækkunar á lántökukostnaði viðskiptavinanna og til samfélagslegra verkefna.
    Árið 2002 gerði Alþingi grundvallarbreytingu á lögum um sparisjóði, breytingu sem veitti stofnfjáreigendum heimild til að kjósa alla stjórnarmenn og til að breyta rekstrarforminu í hlutafélag. Þessi breyting var gerð til að draga úr hættu á umboðsvanda sem verður til þegar eignarhald og stjórn félags er ekki á sömu hendi. Breytingin varð til þess að starfsemi of margra sparisjóða takmarkaðist ekki aðeins við að hámarka hagnað (stofnfjár)eigenda heldur áhættusamar lánveitingar til eigenda og tengdra aðila. Dæmi um slíka eðlisbreytingu á starfsemi sparisjóða eru Byr, SPRON og Sparisjóður Keflavíkur sem nú eru allir komnir í þrot. Starfsemi þessara sparisjóða og annarra sparisjóða er til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd Alþingis.
    Í ljósi reynslunnar af hlutafélagavæðingu sparisjóðakerfisins er óskiljanlegt að verið sé að leggja til aðra hlutafélagavæðingu með það að markmiði að vekja áhuga fjárfesta á að leggja sparisjóðunum til aukið eigið fé. Breyting á rekstrarformi mun ekki glæða áhuga fjárfesta á sparisjóðum sem hafa of fáa viðskiptavini eftir að stór hópur tryggra viðskiptavina var fluttur „nauðungarflutningum“ inn í viðskiptabankana í gegnum þrot framangreindra sparisjóða. Þessir viðskiptavinir eiga í flestum tilvikum ekki kost á að flytja sig aftur yfir í sparisjóðakerfið vegna markaðshindrana í formi stimpilgjalda og uppgreiðslugjalda.
    Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að sparisjóðakerfið eigi ekki möguleika á að dafna við hlið viðskiptabankanna nema þessi gjöld verði felld niður. Auk þess eru margir fyrrverandi viðskiptavinir sparisjóða brenndir eftir að stofnfjáreigendur, sem veitt var heimild árið 2002 til að kjósa alla í stjórn, notuðu völd sín til að tryggja eigin hagsmuni. Margir fyrrverandi viðskiptavinir munu ekki flytja sig aftur yfir í sparisjóðina nema tryggt verði með lögum að þeir geti haft áhrif á kjör fulltrúa í stjórnum þeirra. Þetta væri hægt að tryggja með því að innleiða ákvæði norskrar fyrirmyndar í lög um sparisjóði sem kveður á um skipun fulltrúaráðs með fulltrúum innstæðueigenda, starfsfólks, sveitarstjórna og stofnfjáreigenda sem geta aldrei verið nema 20–40% fulltrúanna. Fulltrúaráðið sér um að skipa stjórn sparisjóðsins til ákveðins tíma.
    Stækkun viðskiptamannahópsins mun ekki duga til að tryggja rekstrargrundvöll sparisjóðakerfisins. Gera þarf sparisjóðunum kleift að útvíkka þjónustustarfsemi sína og nýta 21. gr. laga um sparisjóði sem heimilar tengda starfsemi, eins og sölu trygginga og póstþjónustu. Einkaleyfi Íslandspósts á dreifingu bréfa sem eru allt að 500 g rennur út á næsta ári. Mikilvægt er að ríkið tryggi með öllum tiltækum ráðum að veitt verði póstþjónusta og bankaþjónusta, auk annarrar þjónustu, á svæðum sem einkaaðilar sýna engan áhuga. Samþætting slíkrar þjónustu er forsenda þess að byggð haldist í mörgum samfélögum á landsbyggðinni sem nú eiga í vök að verjast.
    Hátt eiginfjárhlutfall sparisjóða mun draga úr áhuga fjárfesta á að leggja fé sitt í sparisjóði. Í dag gerir Fjármálaeftirlitið kröfu um að sparisjóðirnir séu með 16% eiginfjárhlutfall eða sama hlutfall og viðskiptabankarnir sem stunda ekki aðeins innlánaviðskipti heldur einnig fjárfestingarstarfsemi. Áhættan af innlánaviðskiptum er mun minni en af fjárfestingarstarfsemi og því er óásættanlegt að ekki sé tekið tillit til þess við mat á eiginfjárþörf sparisjóða.
    Það er ekki nóg að tryggja rekstrargrundvöll sparisjóðanna þegar stór hluti viðskiptamannahópsins er í fjötrum hjá öðrum lánastofnunum og gerðar eru kröfur til sjóðanna eins og um fjárfestingarsjóði væri að ræða. Slæm reynsla er af hlutafélagavæðingu sparisjóðakerfisins og því mun önnur hlutafélagavæðing þess ekki duga til að vekja áhuga fjárfesta og viðskiptavina.
    Samþykkt þessa frumvarps markar endalok sparisjóðakerfisins, endalok sem eru alfarið á ábyrgð núverandi stjórnarmeirihluta sem hefur látið hjá líða að móta framtíðarstefnu fyrir sparisjóðakerfið í endurreistu bankakerfi, stefnu sem tryggði þeim stöðu til að keppa um viðskiptavini og sinna samfélagslegu hlutverki sínu.

Alþingi, 7. júní 2012.



Lilja Mósesdóttir.