Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 476. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1580  —  476. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um ætlað samþykki við líffæragjafir.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi lifrarsjúklinga, Félagi nýrnasjúkra, Hjartaheillum, Krabbameinsfélagi Íslands, landlæknisembættinu, Læknafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Persónuvernd, Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Siðmennt, SÍBS og Öldrunarráði Íslands.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að velferðarráðherra verði falið að láta semja frumvarp sem gerir ráð fyrir ætluðu samþykki við líffæragjafir í stað ætlaðrar neitunar, þannig að látinn einstaklingur verði sjálfkrafa líffæragjafi nema hann hafi látið í ljós vilja til hins gagnstæða. Neiti aðstandendur líffæragjöf við lát einstaklings skuli þó taka tillit til þeirrar óskar. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að í íslenskum lögum er gert ráð fyrir ætlaðri neitun og því þarf að afla samþykkis náinna ættingja við líffæragjafir, oft ættingja sem vita ekki hug einstaklingsins sem á í hlut. Þá kemur fram að með tillögunni leggi flutningsmenn til að farin verði sama leið og í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og fleiri löndum þannig að gert sé ráð fyrir ætluðu samþykki en neiti aðstandendur líffæragjöf skuli virða þá ósk. Gengið hefur verið lengra í Austurríki og Belgíu en þar hafa aðstandendur engin áhrif á það hvort líffæri er tekið úr einstaklingi eða ekki.
    Markmið flutningsmanna tillögunnar er að fjölga líffæragjöfum enda hafa ígrædd líffæri bjargað óteljandi mannslífum og oft eru í þau jafnframt eina eða árángursríkasta lækningin við ýmsum sjúkdómum. Á Íslandi eru líffæragjafar nokkuð færri en annars staðar á Norðurlöndum en í greinargerð með tillögunni kemur fram að á árunum 1992–2002 voru líffæragjafar á Íslandi 11 á hverja milljón íbúa en 13 í Svíþjóð og Danmörku, 15 í Noregi og 19 í Finnlandi. Nefndin telur markmiðið gott og þess vert að stefna að. Fyrir nefndinni hefur þó verið bent á að hugmyndin um ætlað samþykki byggist á þeirri forsendu að líffæragjafinn sé fullorðin manneskja sem sé til þess bær að taka ákvarðanir um eigið líf og limi og geti því andmælt ætluðu samþykki. Þessi hugmynd fellur hins vegar ekki vel að einstaklingum sem vegna ungs aldurs, veikinda, fötlunar, geðsjúkdóma eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að andmæla líffæragjöf eða gera sér grein fyrir því hvað í henni felst. Nefndin telur að horfa verði sérstaklega til þessara hópa við vinnu að frumvarpi um ætlað samþykki við líffæragjafir. Þá áréttar nefndin einnig að nauðsynlegt er að haft verði víðtækt samráð við hagsmunaaðila og að horft verði til almennra persónuverndarsjónarmiða við vinnslu frumvarpsins.
    Að þessum athugasemdum virtum leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt.
    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. júní 2012.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lúðvík Geirsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Unnur Brá Konráðsdóttir.



Birkir Jón Jónsson.


Guðmundur Steingrímsson.