Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1617, 140. löggjafarþing 715. mál: framhaldsskólar (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld).
Lög nr. 68 26. júní 2012.

Lög um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum (réttur og ábyrgð nemenda og efnisgjöld).


1. gr.

     33. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Réttur nemenda.
     Framhaldsskóli er vinnustaður nemenda. Allir nemendur framhaldsskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Framhaldsskóli skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Þess skal gætt við skipulag skólastarfs að virt séu almenn vinnuverndarsjónarmið. Nemendur eiga rétt á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.

2. gr.

     Á eftir 33. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 33. gr. a og 33. gr. b, sem orðast svo, ásamt fyrirsögnum:
     
     a. (33. gr. a.)
Ábyrgð nemenda.
     Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni og samskiptum.
     Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks framhaldsskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur.
     Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber skólanum að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans sé hann yngri en 18 ára.
     Meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð getur skólameistari vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið, enda tilkynni hann nemandanum, og foreldrum hans sé hann yngri en 18 ára, tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Skólinn skal leiðbeina nemanda yngri en 18 ára, sem vísað er úr skóla ótímabundið, um mögulega endurkomu í nám óski hann þess.
     Við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldur skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, svo sem brottvísun úr skóla í fleiri en einn skóladag eða að nemanda sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Ákvörðun skólameistara er kæranleg til ráðherra. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.
     Ráðherra mælir nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð.
     
     b. (33. gr. b.)
Skólabragur.
     Öllum aðilum skólasamfélagsins ber að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag.
     Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra yngri en 18 ára. Foreldrum ber með sama hætti að eiga samráð við skólann um skólagöngu barna sinna. Sama á við um aðra forsjáraðila barna í viðkomandi skóla.
     Hver skóli skal setja sér skólareglur og birta þær í skólanámskrá. Í reglunum skal m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, heilbrigðar lífsvenjur, skólasókn, námsframvindu, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga.
     Framhaldsskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi.
     Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, og jafnframt um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun.
     Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í reglugerð sem sett er sameiginlega á grundvelli þessarar greinar og 33. gr. a. Þar skal m.a. mælt fyrir um starfrækslu fagráðs á vegum ráðuneytisins er verði ráðgefandi í eineltismálum.

3. gr.

     Í stað orðanna „og 2011–2012“ í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum kemur: 2011–2012, 2012–2013 og 2013–2014.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. júní 2012.