Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 796. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1623  —  796. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Magnúsar M. Norðdahls
um skráningu bótaskyldra atvinnusjúkdóma.


     1.      Hvað líður setningu reglugerðar skv. 5. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007 um hvaða tilteknu atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir skv. IV. kafla almannatryggingalaga?
    Velferðarráðherra gaf út reglugerð nr. 540/2011, um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma, með heimild í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Sú reglugerð gildir um skyldu atvinnurekenda til að skrá atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma sem og skyldu lækna til að tilkynna um slíka sjúkdóma til Vinnueftirlits ríkisins, óháð því hvort þeir teljast leiða til bótaskyldu atvinnurekanda eða annarra aðila samkvæmt almennum reglum þar um. Reglugerðin öðlaðist gildi í maí 2011. Var litið á þetta sem fyrsta skrefið við að koma betri böndum yfir þekkingu á atvinnusjúkdómum og atvinnutengdum sjúkdómum en verið hefur.
    Vinna stendur yfir við endurskoðun laga um almannatryggingar og er áætlað að vinna við gerð reglugerðar um hvaða tilteknu atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir á grundvelli þeirra laga geti hafist um leið og séð verður fyrir endann á endurskoðun laganna.

     2.      Hefur ráðuneytið brugðist við því sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá í mars 2007 um stjórnsýsluúttekt á Vinnueftirliti ríkisins að tölfræðilegum upplýsingum um gæði vinnuumhverfis sé verulega ábótavant auk þess sem skráning atvinnusjúkdóma er talin langt undir raunverulegum fjölda tilfella?
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á Vinnueftirliti ríkisins frá árinu 2007 lagði Ríkisendurskoðun til að unnið yrði að því að efla gagnasöfnun og rannsóknir á áhrifum vinnuverndarstarfs á gæði vinuumhverfis hér á landi. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 um eftirfylgni við framangreinda stjórnsýsluúttekt kom fram að talið var að umrædd ábending hafi verið framkvæmd (bls. 9).
    Í fyrsta lagi hefði Vinnueftirlitið á þeim tíma lagt fram drög að reglugerð um skráningu atvinnusjúkdóma til þáverandi félags- og tryggingamálaráðuneytis. Í öðru lagi hefði stofnunin komið á fót og stýrt verkefni sem Norræna ráðherranefndin fjármagnaði um samanburð á tíðni dauðaslysa við vinnu á Norðurlöndunum. Í þriðja lagi væri á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins unnið að þróun skorkorts fyrir vinnuverndarstarf í aðildarríkjunum en Vinnueftirlitið fylgdist með þeirri vinnu og mundi taka þátt í því um leið og færi gæfist. Enn fremur kom fram að EFTA/EES-ríkin gerðust í auknum mæli aðilar að Vinnuverndarstofnun Evrópusambandsins í Bilbao. Í því samstarfi gæfist tækifæri til samanburðar og árangursmats. Þá hafi Vinnueftirlitið gert spurningakönnun meðal vinnuveitenda og öryggistrúnaðarmanna þar sem lagt hafi verið mat á gagnsemi af starfi Vinnueftirlitsins.
    Eins og fram kemur í svarinu við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur velferðarráðherra gefið út reglugerð nr. 540/2011, um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma. Vinnueftirlit ríkisins hefur frá setningu reglugerðarinnar reynt að stuðla að betri skilum á tilkynningum um atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma. Málið hefur verið kynnt á fundum með læknum og til leiðbeiningar hefur Vinnueftirlitið birt á heimasíðu sinni atvinnusjúkdómalista Evrópusambandsins. Auk þess hefur verið lögð áhersla á mikilvægi tilkynninga um atvinnusjúkdóma á námskeiðum Vinnueftirlitsins fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði. Eyðublað fyrir skýrslu læknis um ætlaðan atvinnusjúkdóm má sækja á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

     3.      Hefur ráðuneytið brugðist við umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins til ráðuneytisins frá 16. janúar 2008 um framangreinda skýrslu Ríkisendurskoðunar en þar er því beint til ráðuneytisins að auk þess að setja reglugerð skv. 5. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007 taki Ísland þátt í reglubundnum könnunum Dublinarstofnunarinnar um vinnuaðstæður og efli rannsóknir og fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði atvinnusjúkdóma?
    Ástæðu þess að Ísland hefur ekki tekið þátt í reglubundnum könnunum Dublinarstofnunarinnar um vinnuaðstæður og þar með brugðist við athugasemdum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins má rekja til erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálum frá árinu 2008. Ljóst er að gangi Ísland í Evrópusambandið mun Ísland verða þátttakandi í starfi Dublinarstofnunarinnar og þar með taka þátt í reglubundnum könnunum sem stofnunin annast. Ísland, Noregur og Lichtenstein eiga sameiginlega áheyrnafulltrúa hjá stofnuninni á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.