Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 791. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1671  —  791. mál.
Svarmennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Höskuldar Þórhallssonar
um eflingu útflutnings á íslenskri tónlist.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða leiðir sér ráðherra til að efla enn frekar útflutning á íslenskri tónlist?

    Eins og fram kemur í svari ráðherra við fyrirspurn í 798. máli er starfandi tónlistarsjóður sem veitt hefur styrki til tónlistarverkefna sem lúta markaðs- og kynningarmálum erlendis. Þessir styrkir hafa nýst hljómsveitum, öðrum tónlistarhópum og einstökum tónlistarmönnum til að koma sér á framfæri erlendis og þannig stuðlað að því að koma íslenskri tónlist á framfæri. Þess er vænst að hægt verði að auka framlag til tónlistarsjóðs þegar betur fer að ára í fjármálum ríkisins og þannig efla stuðning við útflutning á íslenskri tónlist.
    Í ár gerði ráðuneytið nýjan styrktarsamning við Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar til þriggja ára. Árlegt framlag er 26 millj. kr. og hækkaði það um 70% frá fyrra ári. Tilgangurinn er að efla enn frekar kynningu á íslenskri tónlist erlendis og þar með útflutning á íslenskri tónlist.
    Sú ósk liggur fyrir frá tónlistargeiranum að komið verði á fót sérstökum útflutningssjóði íslenskrar tónlistar sem starfi á vegum Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Til að unnt sé að koma til móts við þá ósk væri hægt að gera breytingar á lögum nr. 76/2004, um tónlistarsjóð, sem yrði þá væntanlega eingöngu fyrir innanlandsverkefni eða efla samstarf tónlistarsjóðs og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar með öðrum hætti. Þetta er til skoðunar í ráðuneytinu en með auknu fjárframlagi í tónlistarsjóð og til Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar mætti efla útflutning á íslenskri tónlist og er þess vænst að hægt verði að hrinda slíku í framkvæmd á komandi árum.
    Íslandsstofu er einnig ætlað mikilsvert hlutverk við að efla útflutning og skapa auknar gjaldeyristekjur. Í sýn fagráðs Íslandsstofu í listum og skapandi greinum um hlutverk þess, framtíðarsýn og stefnu kemur fram að það muni „kynna Ísland erlendis sem menningarland og styrkja kynningarstarf þeirra sem starfa í listum og skapandi greinum í þeim tilgangi að skjóta styrkari stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar“. Í fagráðinu sitja 11 aðilar sem koma frá samstarfsvettvangi greina á sviði hönnunar og lista og viðkomandi fagráðuneytum, þar á meðal frá Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Íslenskri tónverkamiðstöð. Útflutningur á íslenskri tónlist mun án efa einnig njóta góðs af starfi Íslandsstofu við að efla útflutning almennt og auka gjaldeyristekjur.
    Það er því fyrst og fremst litið til framangreindra aðila, þ.e. tónlistarsjóðs, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Íslandsstofu, við að efla enn frekar útflutning á íslenskri tónlist, en eins og staðan er í ríkisfjármálum hefur ekki verið hægt að veita nægjanlegt fjármagn til þeirra. Með bættum hag rætist vonandi úr því.