Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 819. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1675  —  819. mál.
Svarforsætisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um úrskurðarnefndir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margar sjálfstæðar og óháðar úrskurðarnefndir eru starfandi á vegum ríkisins, hvað heita þær og hver eru verkefni þeirra?
     2.      Hver var heildarkostnaður ríkisins af starfsemi þessara nefnda árin 2009, 2010 og 2011?


    Í 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, er m.a. kveðið á um að fyrirspurn til ráðherra skuli varða mál sem hann ber ábyrgð á.
    Framangreind fyrirspurn sem beint er til forsætisráðherra lýtur að starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda sem heyra undir öll ráðuneyti Stjórnarráðsins. Ábyrgð á faglegu og rekstrarlegu utanumhaldi sjálfstæðra úrskurðarnefnda á vegum ríkisins hvílir sjálfstætt hjá þeim ráðherra sem nefndin heyrir undir stjórnarfarslega. Í samræmi við það og ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. þingskapa ber að beina fyrirspurnum er varða starfssemi úrskurðarnefnda sem heyra undir einstök ráðuneyti til þess ráðherra sem fer með viðkomandi ráðuneyti. Sé óskað upplýsinga um starfsemi allra sjálfstæðra úrskurðarnefnda á vegum ríkisins ber samkvæmt framansögðu að beina sérstakri fyrirspurn til hvers ráðherra um þær úrskurðarnefndir sem heyra undir ráðuneyti hans.
    Tekið skal fram að berist forsætisráðherra fyrirspurn um starfsemi sjálfstæðra úrskurðarnefnda sem heyra undir forsætisráðuneytið verður þeirri fyrirspurn að sjálfsögðu svarað efnislega enda sé hún að öðru leyti í samræmi við form- og efnisskilyrði þingskapa.