Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 831. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1684  —  831. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Auðar Lilju Erlingsdóttur um friðlýsingu Íslands
fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur nefnd um þjóðaröryggisstefnu hafið störf og ef svo er, hvenær er fyrirhugað að hún ljúki störfum?
     2.      Hver er afstaða ráðherra til frumvarps til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja sem var vísað til ríkisstjórnarinnar 16. september 2011?
     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og banni við umferð kjarnorkuknúinna farartækja?


    Nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland hefur hafið störf á grundvelli þingsályktunar (þskj. 1945 – 723. mál á 139. þingi) sem samþykkt var á Alþingi hinn 16. september sl. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunarinnar var óskað eftir tilnefningum fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi og hóf nefndin störf í upphafi þessa árs. Þingsályktunin kveður á um að nefndinni beri að skila tillögum sínum til utanríkisráðherra í júní, en þar sem tilnefningar í nefndina drógust nokkuð miðast tillöguskil hennar nú við eigi síðar en 1. nóvember nk.
    Í framangreindri þingsályktun kemur fram að nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sé beinlínis ætlað að fjalla um frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja (sbr. 18. mál 139. þings). Utanríkisráðherra tekur því ekki beina afstöðu til frumvarpsins á meðan það er þar til umfjöllunar, og vill veita nefndinni þannig fullt svigrúm til orða og athafna.
    Hins vegar er almenn afstaða utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar til kjarnavopna skýr. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og að íslensk stjórnvöld muni beita sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.
    Í þeim efnum hefur utanríkisráðherra talað ötullega á alþjóðavettvangi fyrir vopnatakmörkunum og kjarnorkuafvopnun og stutt ýmis frumkvæði þar að lútandi. Má þar nefna framtíðarsýnina um heim án kjarnavopna. Þá hefur utanríkisráðherra beitt sér fyrir áherslum á sviði afvopnunarmála innan þeirra alþjóðastofnana sem Ísland á aðild að, eins og innan Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Enn fremur er Ísland aðili að ýmsum samningum sem lúta að afvopnun og kjarnavopnum, líkt og samningnum um bann við útbreiðslu kjarnavopna og samningnum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn.